18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

1. mál, fjárlög 1957

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjárlög eru að þessu sinni síðbúnari en oft að undanförnu. Það er sýnilegt, að liðnir verða fram undir tveir mánuðir af árinu, þegar fjárlög geta endanlega orðið samþykkt. Ástæðan til þess, að þau eru svo seint á ferðinni, er kunn. Á s.l. hausti var slíkt ástand yfirvofandi hjá íslenzkum framleiðsluatvinnuvegum, að augsýnilega þurfti að gera ráðstafanir af ríkisvaldsins hálfu til þess, að þar kæmi ekki til stórfelldra truflana. Meðan ekki var vitað, hverjar þær aðgerðir yrðu, var að sjálfsögðu ekki hægt að afgreiða fjárlög.

Þá var einnig fyrirsjáanlegt, að ríkið þyrfti sjálft á að halda verulega auknum tekjum til þess að geta haldið áfram ýmsum þeim framkvæmdum, sem í hafði verið ráðizt á þess vegum, en voru — og eru enn þá sumar hverjar a.m.k. í mikilli fjárþröng. Eins og hv. alþm. er allra manna kunnugast um, voru sett lög varðandi þessi efni rétt áður en jólaleyfið byrjaði, lögin um útflutningssjóð, og gera þau það að verkum, að endurskoða þurfti margt í útgjaldaliðum fjárlaga, og einnig þurfti að endurskoða tekjuhlið fjárlaganna. Þeirri endurskoðun er enn ekki lokið, og þess vegna eru ekki gerðar af fjárveitinganefndar hálfu neinar brtt. um tekjustofna ríkisins við þessa umr., og biður það 3. umr. Þá skal og geta þess, að ekki er að fullu lokið endurskoðun á ýmsum útgjaldaliðum fjárlaganna, og bíða sumir þeirra enn þá. Skal þar tilnefnt sérstaklega, að endurskoðun á rekstrarkostnaði sjúkrahúsanna, ríkisspítalanna, er ekki með í þeim till., sem hér liggja fyrir og bíða 3. umr.

Ég vil einnig taka það fram, að við þá endurskoðun, sem fram hefur farið á tilkostnaði ýmissa ríkisfyrirtækja með tilliti til aukins kostnaðar vegna laga um útflutningssjóð, hafa verið teknir í áætlanir þeirra fyrirtækja ýmsir aðrir útgjaldaliðir, sem ekki snerta þá lagasetningu, eins og verða vill, þegar farið er að endurskoða, að þá kemur í ljós ýmislegt, sem vanreiknað hefur verið talið, og margháttuðum leiðréttingum öðrum hefur verið komið að í sambandi við endurskoðunina.

Í fjvn. hefur verið unnið allmikið starf. Fundir n. eru 61 til þessa, og þar hefur veríð gerður samanburður á útgjaldaliðum ríkisins við það, sem verið hefur á fyrri árum. Þar hefur einnig verið farið yfir bréf, sem n. hafa borizt, og hvers kyns erindi varðandi fjárveitingar úr ríkissjóði. Einnig hafa allmargir menn gengið á fund n. og gert þar grein fyrir erindum, sem þeir hafa þurft að reka við fjárveitingarvaldið, og hafa með þeim hætti komið till. sínum á framfæri við fjvn. Fyrir þessu öllu er nánar gerð grein í nál. meiri hl. fjvn., sem útbýtt hefur verið.

Í n. sjálfri hefur yfirleitt verið góð samvinna milli nm. Nefndin stendur öll að þeim brtt., sem fluttar eru af hálfu n. á þskj. 252, en fulltrúar Sjálfstfl. í n., hv. þm. V-Sk., hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Eyf., hafa þó gert fyrirvara um aðild sína að þeim till., enda eru þær sumar hverjar samþykktar í n., án þess að þeir tækju þátt í þeirri atkvgr. Er nánar gerð grein fyrir þeirra sérstöðu í nál. meiri hl. og væntanlega einnig í nál. minni hl., sem mér hefur því miður ekki gefizt tími til að yfirfara.

Þessi takmarkaða samstaða, sem náðst hefur í n., hefur leitt til þess, að n., eins og áður er fram tekið, stendur öll að þeim brtt., sem fyrir liggja á þskj. 252, en að öðru leyti hefur hv. minni hl. n. borið fram í n. sjálfri nokkrar till., sem ekki hafa hlotið samþykki n., og sé ég á þeirra brtt., að þeir hafa tekið þær upp sem sérstakar till. sínar hér fyrir Alþingi og raunar bætt nokkrum við.

Um afstöðu hinna sex nm., sem án allra bókaðra fyrirvara standa að flutningi á þeim 159 brtt., sem n. gerir, ber að sjálfsögðu ekki að skilja svo, að þeir, hver um sig, telji allar hinar fram komnu till. jafnsjálfsagðar og öll þau mál, sem ekki hefur sinnt verið, fráleit. Nauðsyn þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu hefur að sjálfsögðu ráðið nokkru um afgreiðsluna.

Ég vil þá leyfa mér að gera stuttlega grein fyrir till., eins og þær liggja fyrir, og eftir því sem ástæða þykir til á þessu stigi.

Fyrstu brtt., sem n. gerir, eru varðandi póst og síma. Þær till. taka eingöngu til gjaldahliða ljá þessum stofnunum, því að enn er eftir að endurnýja þá áætlun, sem gerð hefur verið um tekjur þeirra.

Í frv. er gert ráð fyrir, að rekstrarhalli verði á póstsjóði. Við endurskoðun áætlana hans þykir sýnt, að sá halli komi til með að nema meiri fjárhæðum en þeim, sem gert er ráð fyrir í frv., og horfir nú svo, að miðað við óbreyttar gjaldskrár hjá því fyrirtæki muni halli þess á yfirstandandi ári nema 1 millj. 281 þús. Um símann er það að segja, að frv. gerði ráð fyrir því, að á rekstri hans yrði nokkur tekjuafgangur, eða rúmlega 1 millj. kr. Við endurskoðun á rekstraráætlun símans hefur þessi niðurstaða breytzt þannig, að ekki einasta þykir sýr 1, að á þá sveif hallist, að síminn skili ekki rekstrarhagnaði, heldur þykir þar fyrirsjáanlegur taprekstur, sem væntanlega mundi þá nema um 71/2 millj. kr., nákvæmlega tiltekið 7 millj. 482 þús.

Varðandi bæði þessi fyrirtæki, póst og síma, er þess vegna alveg sýnilegt, að þar verður um verulegan taprekstur að ræða að óbreyttri gjaldskrá. Auk þess rekstrarkostnaðar, sem þannig mundi lenda á ríkissjóði að greiða, ber að geta þess, að síminn áformar verulega eignaaukningu á árinu. Í frv. er gert ráð fyrir, að hún nemi rúmlega milljónatug, en vera má, að sú áætlun verði einnig endurskoðuð og hækkuð.

Ég tel þess vegna sýnt, að ekki verði hjá því komizt að gera breytingar á gjaldskrám pósts og síma eða einhverjar þær ráðstafanir, sem auka tekjur þessara stofnana, þannig að ríkissjóður þurfi ekki að standa undir svo stórfelldum halla sem verða mundi á rekstri þessara stofnana að óbreyttum tekjuáætlunum þeirra.

Þá hefur við 3. gr. frv. einnig verið gerð brtt. að því er varðar ríkisbúið á Bessastöðum. Er hún ekki stórvægileg, en leiðir af því, að þar í húsum búsins hafa raflagnir reynzt ónýtar og óhjákvæmileg endurnýjun þeirra fer fram. Þykir verða að hækka gjöld búsins af þeim ástæðum um 60 þús. kr.

Næstu brtt., sem n. gerir, eru við 7. gr. frv., en hún fjallar um vexti af lánum ríkissjóðs, og kemur þar til hækkunar á vöxtum af hinum erlendu lánum, þar eð yfirfærslugjald kemur nú á þessar vaxtagreiðslur. Hækkunartill., sem n. leggur fram varðandi þessa liði, er vegna lána í Danmörku og lána, sem tekin hafa verið í dollurum, og er ekki stórvægileg; hún nemur 14452 krónum.

Er þá komið að 10. gr. frv., sem n. gerir nokkrar brtt. við. Er þar um að ræða brtt. við kostnað stjórnarráðsins. Það er gert ráð fyrir, að sími og burðargjöld komi til með að hækka um 120 þús. kr., og mundi sú áætlun væntanlega hrökkva til þess að mæta því, þótt eitthvað yrðu hreyfðar til gjaldskrár pósts og síma. Enn fremur er gert ráð fyrir 30 þús. kr. í auknum pappírskostnaði ráðuneytanna og nokkurri hækkun vegna útgáfu stjórnartíðinda, þannig að sá liður breyttist úr 225 þús. í 290 þús.

Þá liggja fyrir allfyrirferðarmiklar brtt. varðandi utanríkismálin, en vegna yfirfærslugjalda, sem á þær greiðslur koma, verður þar óhjákvæmilega um allverulega hækkun að ræða. Sé ég ekki ástæðu til þess að fara að ræða þar um einstaka liði eða einstök sendiráð að öðru en því, að inni í þessari hækkunaráætlun er ekki einasta yfirfærslugjöld á greiðslum vegna utanríkisþjónustunnar, heldur einnig veruleg áætluð útgjaldaaukning við sendiráð Íslands í París, en þar var þess að gæta, að áætlun þess sendiráðs var lögð fram í frv. óbreytt frá fyrra ári, enda þótt vitað væri, bæði vegna sendiherraskipta og af fleiri ástæðum, að þar hlaut að koma til hækkunar. Kostnaðaraukinn við utanríkisþjónustuna mun samtals nema 1460000 kr. eða því sem næst.

Við 11. gr. frv. eru sömuleiðis gerðar nokkrar brtt. Er þar fyrst að nefna brtt. við lögreglustjóraembættið í Reykjavik, þann lið þess, þar sem áætlaður er húskostnaður, en það er í sama liðnum, þar sem áætlað er ljós, hiti og ræsting. Viðgerð á lögreglustöðinni hefur reynzt nokkru dýrari en áætlað var, og till. er um að hækka kostnaðinn vegna þess húskostnaðar um 20 þús. krónur.

Varðandi VH. lið á 11. gr. A., e-lið, þar sem áætlað er vegna einkennisbúninga héraðsdómara, er gerð brtt. um 100 þús. kr. hækkun. Það er samt von til þess, að raunveruleg hækkun á þeim lið sé ekki svo mikil, heldur stafar þessi till. af því, að hjá fyrirtæki einu, sem annast saum slíkra fata, hafði safnazt fyrir allhá skuldasúpa vegna þessara einkennisbúninga, og hefur ráðuneytinu þótt nauðsynlegt að fá fjárveitingu til þess að greiða þá skuld upp.

Við X. lið þessarar gr., 11. gr. A., þar sem áætlaður er kostnaður landhelgisgæzlunnar, er gerð brtt., sem nemur 1.4 millj. til hækkunar. Landhelgisgæzlan er orðin einn af stærri útgjaldaliðum ríkisins, og er áætlað, að útgjöld hennar vegna muni á þessu ári, að samþykktri þessari brtt., nema 14.9 millj. kr. Það er eitt dæmi um það, hvernig farið getur við enduráætlanir, að forstjóra landhelgisgæzlunnar var falið að endurskoða reikning þess fyrirtækis með tilliti til laga um útflutningssjóð, og í svörum hans var það tekið fram, að útflutningssjóður mundi ekki hafa áhrif á útgjaldaliði landhelgisgæzlunnar, en hins vegar kom samt í leitirnar 11/2 millj. kr., sem áætlun landhelgisgæzlunnar var talin þurfa að hækka: Er þar stærstur liður í viðgerðarkostnaður á vélskipinu Ægi, sem er nýkomið úr flokkunarviðgerð, og reyndist sú viðgerð miklum mun dýrari en áætlað var. En svo hefur landhelgisgæzlan eins og aðrar skipaútgerðir nú orðið að leggja í verulegan kostnað til þess að kaupa gúmmíbjörgunarbáta á skip sin, eins og nú er ákveðið í reglugerð og fyrir dyrum stendur að allar skipaútgerðir hér á landi verði að framkvæma.

Lítils háttar brtt. er gerð við lið XI. í 11. gr. A., þar sem eru fangaklefar lögreglustöðvarinnar í Reykjavík, en varðandi þann lið skal það tekið fram, að samkvæmt reglum, sem í gildi gengu á s.l. ári, fá nú fangaverðir borgað nokkurt næturálag á næturvaktir sínar, og þótti af þeim sökum óhjákvæmilegt að hækka þennan lið um 13 þús. kr., og má þá taka fram, að ætla má, að fyrir 3. umr. komi fram tilsvarandi hækkunartill. varðandi hegningarhúsið í Reykjavík, en þar gegnir sama máli um fangavörzluna.

Varðandi 11. gr. B. eru till. um auknar fjárveitingar vegna kostnaðar við mat á afurðum. Fyrir liggur till. um að hækka bæði síldarmatið og sömuleiðis fiskmat ríkisins nokkuð til samræmis við það, sem kostnaðarliðir þessara stofnana hafa reynzt vera að undanförnu. Enn fremur er gerð brtt. við d-lið 11. gr., þ.e. um sameiginlegan kostnað við embættisrekstur, sem talið er óhjákvæmilegt að hækka um 150 þús. kr., eða í 900 þús. kr. úr 750 þús.

Varðandi 12. gr. skal það fram tekið sérstaklega, að endurskoðun á kostnaðarliðum ríkisspítalanna bíður 3. umr.

Till. er um að hækka um 436 þús. rúmlega framlag til ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Ástæður fyrir því, að það er talið nauðsynlegt, eru einkum þær, að vegna mænuveikifaraldurs, sem gekk í Reykjavík og viðar á s.l. vetri, hefur orðið meira um sjúklinga á ríkisframfærslunni en gert var ráð fyrir, þegar áætlun var gerð. Enn fremur hefur Tryggingastofnun ríkisins að undanförnu greitt fullan lífeyri með 20% álagi til þeirra stofnana, sjúkrahúsa eða annarra hjúkrunarheimila, sem hafa haft með framfærslu sjúkra manna og örkumla, sem heyra undir ríkisframfærsluna, að gera, en nú hefur gengið í gildi sú breyting, sem sjálfsögð verður að teljast, að Tryggingastofnunin greiðir viðkomandi stofnunum einungis lífeyri viðkomandi sjúklinga með 10% álagi, en það 10% álag, sem þá er eftir, er greitt sjúklingunum sjálfum til persónulegra þarfa. Af þessu leiðir að sjálfsögðu, að það þyngir heldur á ríkisframfærslunni. Þó eru ekki stórar fjárhæðir, sem hér er um að ræða. Vegna þessa liðs skal það sérstaklega tekið fram, að ríkisframfærslan hefur beðið um 84 þús. kr. hækkun á framlagi, og er það innifalið í till. nefndarinnar.

Að undanförnu hefur verið rekin á vegum Hveragerðishrepps baðstöð, þar sem menn hafa getað fengið sig baðaða í leir, sem að læknisráði þykir heilsusamlegt við gigtarsjúkdómum og máske fleiru. Aðbúnaður sá, sem þessi starfsemi hefur búið við, er engan veginn góður og þarf mikilla umbóta við, og er lagt til að til þeirra umbóta verði á þessu ári veittar 50 þús. kr.

Þá er till. um leiðréttingu við áætlun embættis skólayfirlæknis, þannig að annar kostnaður þess embættis verði hækkaður um 26 þús. kr., úr 5 þús. kr. í 31 þús. kr.

Á s.l. ári fór fram bólusetning barna gegn mænusótt. Var á sínum tíma ákveðið, að ríkið greiddi kostnað við bóluefnið sjálft, og hafa á þessa árs fjárlagafrv. verið teknar 500 þús. kr. í þessu skyni. Þessi upphæð reynist of lág, og er lagt til, að upphæðin verði hækkuð um 100 þús. krónur.

Skal þá vikið að brtt. við 13. gr. Þar ber þá fyrst að nefna brtt. varðandi framlag til nýrra akvega. Þar hefur verið gerð till. um skiptingu á fé til þessara framkvæmda, og upphæð sú, sem til þess er ætluð, hefur verið hækkuð verulega frá því, sem frv. gerði ráð fyrir, eða úr 11 millj. og 60 þús. í 15 millj. 980 þús. Það skal tekið fram, að hv. minni hluti fjvn. telur, að hér sé um of litla aukningu að ræða, og gerði í n. till. um, að þessi fjárhæð yrði ákveðin nokkru hærri en hér er gert, og hefur gert till. um skiptingu til einstakra vega á grundvelli þeirra brtt. sinna. Það skal tekið fram, að hér voru heildartill. n. varðandi einstakar sýslur miðaðar við það, að alls staðar yrði framlag einhverju hærra en á s.l. ári, og nemur hækkunin í hinar einstöku sýslur frá 10 til 60 þús. kr. Um skiptingu innan hverrar sýslu á einstaka vegi hefur, svo sem að undanförnu, verið farið eftir till. viðkomandi alþm.

Varðandi brúargerðir skal það tekið fram, að þar hefur verið hækkuð verulega fjárveitingin frá því, sem frv. gerði ráð fyrir, í till. n., eða úr 6 millj. og 500 þús. í 9 millj. 840 þús. kr. Vegamálastjóri hefur að sjálfsögðu gert frumáætlanir, bæði um það, hvernig skipta skyldi vegafé, og sömuleiðis, hvernig skipta skyldi brúafé til þeirra brúa, sem sérstaklega er veitt til á fjárlögum, og hafa hans till. varðandi brúargerðina verið lagðar til grundvallar. En með því að honum var falið að skipta nokkru lægri fjárhæð í þessu skyni en endanlega hefur verið gerð till. um af n. hálfu, hafa hans till. allvíða verið hækkaðar og nokkrum brúm bætt við á þá skrá, sem hann upphaflega lagði fram sem till. En að verulegu leyti gegnir sama máli um brýrnar og vegina, að varðandi brúargerðir í einstökum sýslum hefur verið tekið tillit til óska viðkomandi alþm., þegar þeir hafa gert einhverjar till., t.d. um tilfærslur á milli brúa í sínu kjördæmi, og sömuleiðis var reynt að hlusta eftir því innan þess ramma, sem fjárveiting var talin hrökkva, að verða við óskum þm. um brúabyggingar.

Um brýr og vegi má geta þess, að almennt er mjög sótzt eftir því af landsmönnum að hafa samgönguleiðirnar í sem beztu lagi, og er varið til vega og brúa tiltölulega ákaflega stórum hluta af tekjum ríkissjóðs, svo að vandséð er, hvort aðrar þjóðir leggja tiltölulega eins mikið af mörkum til þessa og við Íslendingar, enda er það að sjálfsögðu afleiðing af því, að við búum fámenn þjóð í stóru landi.

Þá hefur n. gert till. um, að inn á frv. yrði tekin 200 þús. kr. fjárveiting til nýbýlavega, svo sem var á fjárlögum s.l. árs.

Þegar kemur að B-lið 13. gr., samgöngum á sjó, skal það tekið fram, að gerðar eru till. um verulegar hækkanir framlaga til Skipaútgerðar ríkisins, og er nú áætlað, að ríkissjóður leggi henni til að samþykktum brtt. n. 15 1/2 millj. kr. á þessu yfirstandandi ári. Er hér um að ræða hækkunartill., sem nemur 2.3 millj. frá því, sem frv. gerir ráð fyrir. En þar er svipaða sögu að segja og um landhelgisgæzluna, að verulegur hluti af hækkuninni stafar af ófyrirsjáanlegum viðgerðarkostnaði á skipum útgerðarinnar svo og — og nemur sá liður mestu — kaupum á gúmmíbátum á öll strandferðaskipin. Sá útgjaldaliður er nú áætlaður hjá Skipaútgerðinni 816 þús. á þessu ári, en hér er að sjálfsögðu um að ræða einstakan gjaldalið, sem ekki ætti að liggja á frá ári til árs, nema þá að litlu leyti til endurnýjunar.

Varðandi styrki til flóabáta mun samvinnunefnd samgöngumála gera till. um breytingar fyrir 3. umr., en brtt. hennar eru ekki komnar fram enn þá.

Er þá komið að C-lið 13. gr., um vitamál og hafnargerðir. Þar er lögð fram brtt. varðandi hafnarmannvirki og lendingarbætur. Að niðurstöðu til fjallar sú brtt. um hækkun úr 6 millj. 760 þús., sem frv. gerir ráð fyrir, í 10 millj. og 295 þús., og er síðan gerð till. um skiptingu á þessum framlögum til einstakra hafna. Í því efni er að mestu farið eftir till., sem vitamálastjóri hefur gert, og er þar enn haldið þeirri meginreglu að hafa ákveðna hámarksgreiðslu til þeirra hafna, sem mest eiga inni hjá ríkissjóði. Það hámark er hér bundið við 400 þús. kr., sem aðeins er áformað að veita til þriggja hafna, Akraness, Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, en þessar þrjár hafnir eru í rauninni í algerum sérflokki að því leyti, að skuld ríkissjóðs við þær er miklu meiri en svo, að innan þess ramma, sem hafður er á þessum veitingum, geti þær notið sambærilegs framlags úr ríkissjóði og aðrar, sem við minni verkefni glíma.

Varðandi hafnarmannvirkjagerðina yfirleitt má geta þess, að vitamálastjóri upplýsti nefndina um það, að á yfirstandandi ári vissi hann til, að áformaðar væru hafnargerðir í landinu, sem nema mundu 48–50 millj. kr. Nú er það meginregla ríkissjóðs að greiða 2/5 hluta af hafnargerðarkostnaði. Það mundi þýða, að greiðsluskyldu, sem ríkissjóði skapaðist á þessu ári vegna framkvæmda í ár, mætti raunverulega áætla nálægt 20 millj. kr. Hér er þess vegna sjáanlegt, að ríkissjóður hefur af minna fé að greiða en æskilegt væri, og þyrfti í rauninni að stórauka fjárveitinguna til hafnanna, þótt ekki hafi þótt fært að gera till. um það á þessu stigi málsins.

Við D-lið 13. gr. eru gerðar allmiklar brtt., og stafa þær af ýmsum ástæðum, mest þó af því, að inn í áætlunina er annars vegar tekinn aukinn rekstrarkostnaður vegna laga um útflutningssjóð, og enn fremur kemur þar til lækkunar á rekstrarkostnaði flugþjónustunnar, að náðst hefur seint á s.l. ári hagstæðari samningur um endurgreiðslu erlendra aðila eða um alþjóðatillag til íslenzku flugþjónustunnar en áður var í gildi. Gerir þetta það að verkum, að þrátt fyrir nokkrar hækkunartillögur á einstökum liðum flugþjónustunnar getur hún samt sem áður lækkað að kostnaði. Var upphaflega gert ráð fyrir því, að þarna gæti um verulega lækkun orðið að ræða, en sú lækkun hefur ekki orðið eins stórkostleg og annars hefði mátt vænta. Samt sem áður verður lækkun á flugþjónustunni að öllu samanlögðu nálægt 290 þús. kr. Þetta fé og raunar allmiklu meira hefur síðan verið lagt til að flugmálastjórninni verði fengið til aukningar flugvallagerðar, og kem ég að því síðar í sambandi við brtt. við 20. gr. fjárlagafrv.

Við 14. gr. frv. eru fluttar allmargar brtt. Er sú fyrst, að lagt er til, að til kristilegrar æskulýðsstarfsemi verði veittar 20 þús. kr. Slík félög eru nokkur starfandi nú þegar og hafa starfað um nokkurra ára skeið, og þótti vert að verða við óskum biskups og fleiri aðila um nokkurn styrk þeim til handa.

Þá er lagt til, að hækkað verði framlag ríkissjóðs til kaupa á pípuorgeli í Hóladómkirkju, en þar er um að ræða áður gefin loforð, sem að sjálfsögðu er fullt samkomulag um, að greiðslur þeirra vegna verði teknar inn á fjárl.

Í gildi eru lög um stuðning við utanferðir presta, það eru lög nr. 18 frá 1931, og er lagt til, að styrkur, sem veita má skv. þeim lögum á yfirstandandi ári, verði 16 þús. kr.

Varðandi kennslumálin, sem eru B-liður 14. gr., eru gerðar nokkrar till. Það eru gerðar till. um hækkun á útgjaldaliðum háskólans af tvennu eðli, annars vegar vegna hækkaðs rekstrarkostnaðar á einstökum liðum útgjalda hjá háskólanum sjálfum, en hins vegar af þeim sökum, að ákveðið hefur verið að ráða tvo nýja erlenda sendikennara við háskólann, annan frá Bandaríkjunum, hinn frá Spáni, og er vegna slíkra sendikennara greitt 15 þús. kr. til hvors um sig. Að öðru leyti eru brtt. varðandi háskólann til samræmis við það, sem reynzt hefur.

Tvær smávægilegar brtt. vegna bókasafna í menntaskólunum í Reykjavík og á Akureyri liggja fyrir. Miða þær að því að breyta styrk til nemendabókasafnanna úr 3 í 5 þús. kr. hjá hvorum skóla.

Varðandi bændaskólana tvo á Hólum og á Hvanneyri eru gerðar brtt., þannig að Hólaskóla eru ætlaðar 20 þús. kr. fram yfir það, sem frv. gerir ráð fyrir, til tilraunastarfsemi, og Hvanneyrarskóla eru ætlaðar 25 þús. kr. til viðhalds á húsakosti sínum umfram það, sem frv. gerði ráð fyrir, svo og er honum ætluð 5 þús. kr. hækkun til kennsluáhalda og 1 þús. kr. vegna áhaldasafns skólans.

Á s.l. ári voru með reglugerð gerðar breyt. á tilhögun listiðnaðardeildar handíðaskólans og sú starfsemi felld inn í iðnfræðsluna. Þetta hefur í för með sér aukinn kostnað við iðnfræðsluna, og er till. til hækkunar á þeim lið, að hann hækki úr 44500 kr. í 200 þús. kr., en þess má geta, að varðandi handíðaskólann koma að nokkru á móti þessu lækkunartill., þar sem handíðaskólanum verða nú einungis samkvæmt till. n. ætlaðar 45 þús. kr. úr ríkissjóði í stað 110 þús. kr. rúmlega, sem áður voru áætlaðar. En hækkunin vegna þessara ráðstafana nemur samt rúmlega 90 þús. kr.

Varðandi verzlunarskóla er gerð sú breyting að hækka rekstrarstyrkinn til samvinnuskólans um 200 þús. kr. Sá skóli hefur að undanförnu verið einn af heimangönguskólunum hér í Reykjavík og hefur haft styrk miðað við nemendafjölda sinn og borinn að mestu saman við Verzlunarskóla Íslands. Nú hefur sú breyting orðið á rekstri samvinnuskólans, sem kunnugt er, að hann er ekki lengur kaupstaðarskóli, heldur heimavistarskóli í sveit, og þykir þá rétt að miða ekki lengur styrk hans við nemendafjölda á sama hátt og gert er við t.d. verzlunarskólann, sem er áfram eins og verið hefur heimangönguskóli.

Þá er gerð till. um að hækka nokkuð útgjaldalið ríkisins vegna framkvæmdar sundskyldu í barnaskólum, eða úr 800 þús. í 860 þús. kr.

Þá er komið að þeim stóra útgjaldalið, sem er styrkur til skólabygginga barnaskóla og íbúða fyrir skólastjóra, og má í því sambandi gjarnan ræða um leið sams konar fjárveitingar vegna gagnfræðamenntunarinnar, en eins og menn muna, þá var á árinu 1955 samþ. allmikill lagabálkur um greiðslu skólakostnaðar. Er þar kveðið svo á, að skólabyggingar megi ekki hefja, fyrr en fjárfesting er veitt til þeirra úr ríkissjóði, en að jafnframt skuli þá ríkið hafa skyldu til þess að greiða upp sinn hluta af kostnaði við skólabyggingarnar á ekki lengri tíma en fimm árum.

Í nál. meiri hl. er gerð allýtarleg grein fyrir því, hvernig þetta lagaákvæði verkar á fjárhagsaðstoð ríkissjóðs og aðstöðu ríkisins til þess að standa við sínar skuldbindingar varðandi skólabyggingarnar. Skal ég ekki fara um það mörgum orðum hér, en geta þess þó, að greinilegt er, að þarna hefur ríkinu verið bundinn ærið þungur baggi, svo að óhjákvæmilegt þykir, að útgjaldaaukning af þessum ástæðum á yfirstandandi ári hlýtur að verða mikil.

Það er sömuleiðis augljóst mál, að nú um tíma eða allt fram undir árið 1960, þegar fyrstu skólarnir, sem njóta styrks samkvæmt þessum reglum, losna, eða þegar lokið er greiðslum til þeirra, mun verða að halda býsna mikið í um leyfi til nýrra skólabygginga, ef ekki á að skapast óeðlilega há útgjaldaskylda á ríkinu varðandi skólabyggingar í landinu.

Það er ljóst, að mörgum mun þykja heldur skammt stigið við afgreiðslu þessara fjári., ef till. meiri hl. n. verða samþ. og ekki aðrar fjárveitingar til nýrra skóla, því að einungis er gert ráð fyrir, að leyfð verði með þessum bætti, þ.e.a.s. með fjárveitingu, bygging fjögurra nýrra barnaskóla á yfirstandandi ári og tveggja gagnfræðaskóla.

Svolítil brtt. liggur fyrir varðandi ráðskonukaup við heimavistarskóla, og er þar um leiðréttingu að ræða til samræmis við það, sem í reynd hefur komið í ljós. Það er gerð till. um, að sá liður hækki um 26 þús. kr.

Eiðaskóli er fimmtugur á yfirstandandi ári og ráðgerir að gefa út minningarrit af því tilefni. Er gert ráð fyrir því, að hann njóti til þess nokkurs styrks á yfirstandandi ári, og gerir n. till. um það.

Ég hef áður vikið að þeim brtt., sem varða byggingu gagnfræðaskólanna, og fjölyrði ekki frekar um það; sömuleiðis um þær brtt., sem gerðar eru varðandi handíðaskólann.

Íþróttasjóði er með lögum ætlað að bera hluta af kostnaði við mannvirkjagerð vegna íþróttastarfsemi í landinu. Það gegnir svipuðu máli um íþróttastarfsemina og svo fjölmarga aðra hluti af framkvæmdum, sem ráðgerðar hafa verið á undanförnum árum, að kostnaður við íþróttamannvirkin hefur orðið miklu meiri en svo, að íþróttasjóður geti af tekjum sínum og framlagi ríkissjóðs staðið við þær skuldbindingar, sem honum voru ætlaðar. Safnast því fyrir skuldir, sem hann á vangoldnar, og er hér gerð till. um að hækka framlagið til hans um 400 þús. kr., og er það viðleitni í þá átt að greiða fyrir starfsemi þess sjóðs. En hitt er að sjálfsögðu ljóst, að fjárveiting til hans, sem þá mundi nema 1.6 millj., leysir ekki hans vanda, eins og hlaðizt hefur á hann að undanförnu.

Ráðgert er, að sumarið 1958 verði haldið Evrópumeistaramót í frjálsum íþróttum í Stokkhólmi. Íþróttasamband Íslands hefur sótt um nokkurn styrk frá ríkinu til þátttöku í því móti, og með tilliti til þess, að íslenzkir íþróttamenn hafa að undanförnu gert landi sínu nokkurn sóma á erlendum vettvangi, þótti rétt að verða við þessu. Það má máske segja, að fjárveitingin sé ekki nauðsynleg á árinu 1957, en í umsókn íþróttamanna var á það lögð mikil áherzla, að þeir gætu fengið um það að vita strax í ár, hvort ríkið mundi verða við umsókn þeirra eða ekki. Með tilliti til alls þessa hefur n. gert till. um það, að tæplega helmingur af því, sem um var beðið og nauðsynlegt þótti, til þess að af þessari þátttöku gæti orðið, verði tekið inn á fjárlög þessa árs, 40 þús. kr.

Gerð er till. af n. hálfu um það, að styrkur til Alþýðusambands Íslands hækki um 75 þús. kr. og verði 150 þús. kr. eða jafnhár og Landssamband iðnaðarmanna hefur.

Þá er gerð till. um það, að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja fái 25 þús. kr. styrk til starfsemi sinnar, en það mun hyggja á að koma upp lesstofu fyrir meðlimi sína hér í bænum.

Varðandi 15. gr. eru gerðar margar brtt. Er sú fyrst, að vegna viðhalds gamalla bygginga í. vörzlu þjóðminjasafnsins er gert ráð fyrir 10 þús. kr. hækkun, og hefur þjóðminjavörður gert grein fyrir nauðsyn þess, enda var hér um vangá í áætlunargerð að ræða, sem sjálfsagt þótti að leiðrétta.

Fornminjavörður hefur enn fremur bent á það, að þakið yfir bæjarrústunum í Stöng í Þjórsárdal, en þær fornminjar eru taldar til þess merkasta, sem við eigum af slíku tagi, er nú að falli komið, og þarf að endurnýja það þak, til þess að rústirnar varðveitist. Hefur þótt vert að verða við þeirri ósk fornminjavarðar, og hefur n. gert till. um, að það verði gert með þeim bætti, að greiðsla vegna þess kostnaðar skiptist á tvö ár, og hefur verið lagt til, að 60 þús. kr. verði teknar upp á þessa árs fjárl. í þessu skyni.

Nýlega hafa verið samþ. lög um náttúruverndarráð, og hefur það í för með sér nokkurn kostnað. Er gerð till. um, að til starfsemi náttúruverndarráðs verði ætlaðar 60 þús. kr.

Þá eru gerðar till. um, að framlag til náttúrugripasafnsins á Akureyri hækki um 10 þús. kr. og framlag til Hins íslenzka náttúrufræðifélags hækki úr 15 í 20 þús. kr. vegna kostnaðarauka við útgáfu á riti félagsins, Náttúrufræðingnum.

Varðandi safnahúsið er gerð till. um hækkað framlag um 100 þús. kr. til endurnýjunar á raflögnum og ljósaútbúnaði hússins, en hann þykir nú í óforsvaranlegu standi, og er öllum ljóst, að eldhættu á þeim stað verður að sjálfsögðu að bægja frá eins og frekast er unnt.

Þá er tillaga um, að upp verði tekinn nýr liður til bókasafns Verkamannafélagsins Dagsbrúnar, 100 þús. kr. Því félagi hefur nýlega áskotnazt að gjöf frá ekkju Héðins heitins Valdimarssonar merkilegt safn bóka og tímarita, sem félagið hyggst nú að koma upp lesstofu fyrir, og er hér lagt til, að Dagsbrún verði af þessu tilefni veittar 104 þús. kr.

Til bókasafns Sighvats Grímssonar, sem nú er orðið hluti af héraðsbókasafni Vestur-Ísafjarðarsýslu, hafa á fjárlögum verið veittar að undanförnu 1250 kr., með skilyrði um, að safnið verði geymt að Núpi í Dýrafirði. Nú hefur safnið verið flutt til Ísafjarðar, og þykir ekki ástæða til að fella niður styrkinn til þess fyrir það, en lagt er til að taka út úr orðalagi þeirrar greinar, sem um þessa fjárveitingu mælir, skilyrðið: enda sé það geymt hjá héraðsskólanum að Núpi.

Á undanförnum árum hefur verið veittur smávægilegur styrkur til sjómannalesstofu í Bolungavík. Af einhverjum ástæðum hefur það fallið niður af fjárlögum s.l. árs og ekki verið tekið upp í þetta frv. N. leggur til, að þeirri lesstofu verði veittar 1200 kr. í styrk.

Þá hefur n. lagt til, að styrkur til sjómannalesstofu á Akranesi hækki úr 2 þús. í 4 þús. kr.

Rímnafélagið hefur með höndum sérstaka útgáfustarfsemi á þessu yfirstandandi ári. Finnur Sigmundsson landsbókavörður vinnur að því að gefa út rímnaskrá á vegum félagsins, og hefur verið sótt um styrk vegna þeirrar útgáfu. Hefur n. gert till. um, að veittur verði af því tilefni 25 þús. kr. styrkur.

Jón Dúason fræðimaður hefur lengi haft nokkra fjárveitingu á fjárlögum. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir neinum styrk honum til handa, en n. hefur tekið upp till. um, að honum verði veittar 60 þús. krónur til útgáfu rita á yfirstandandi ári.

Þá eru hér tvær till. um fjárveitingar til orðabókagerðar. Annars vegar er lagt til, að Ingvari Brynjólfssyni menntaskólakennara, sem hefur með höndum útgáfu á þýzk-íslenzkri og íslenzk-þýzkri vasaorðabók, verði veittar 10 þús. kr. í styrk, og hins vegar, að til hinnar miklu íslenzku orðabókar, sem í smíðum er á vegum háskólans, verði hækkað framlag um 25 þús. kr. og hefur fengizt loforð fyrir því, að sáttmálasjóður muni þá einnig hækka sitt framlag um 25 þús. kr., og yrði þá fjárveiting til orðabókarinnar samtals á yfirstandandi ári 250 þús. kr., en það er, svo sem alþm. sjálfsagt kannast við, mjög kostnaðarsamt verk og mikið og af öllum, sem unna íslenzku máli, talinn mikill fengur að því, þegar slíkt verk gæti komizt út.

Það hefur að undanförnu tíðkazt, að þau héraðsskjalasöfn, sem hafa aflað sér eftirrits af þeim skjölum, sem varða þess umdæmi, með þeim hætti að kaupa filmur af skjölunum hjá þjóðskjalasafninu, fái til slíkra filmukaupa nokkurn styrk. Að þessu sinni er lagt til, að héraðsskjalasafni Þingeyinga verði veittar 25 þús. kr. í þessu skyni.

Þá er lagt til, að styrkur til skálda, rithöfunda og listamanna, eða listamannalaun, eins og það stundum hefur verið nefnt, verði hækkuð úr 992608 kr. í 1 millj. og 200 þús. kr. Áformað mun og vera að breyta að nokkru úthlutunarreglunum í sambandi við þessi listamannalaun, og hefur menntmrn. þá hlið málsins í athugun. Er hér ekki gerð till. um annað en sjálfa úthlutunarupphæðina.

Íslenzkir málarar ráðgera að taka þátt í samnorrænni málverkasýningu, sem halda á í Gautaborg í sumar, og er lagt til, að þeir verði til þess styrktir með 50 þús. kr. framlagi.

Myndlistarskólinn í Reykjavík hefur sótt um, að styrkur hans verði hækkaður. Samkv. fjárlagafrv. eru honum ætlaðar 20 þús. kr. í styrk, en lagt er til, að sá styrkur verði hækkaður í 30 þús. kr. Einnig er lagt til, að nýr myndlistarskóli, sem starfað hefur nú í tvo vetur í Vestmannaeyjum, fái 10 þús. kr. styrk.

Til vísindamanna og fræðimanna er till. um að hækka framlag til samræmis við þá hækkun, sem till. er gerð um á listamannalaunum, þ.e.a.s., að upphæðin hækki um því sem næst 20% og verði 180 þús. kr.

Þá er till. um, að styrkur til Leikfélags Reykjavíkur hækki um 20 þús. kr. og að upp verði tekinn styrkur til nýs leikfélags, sem upp hefur risið í Kópavogi, 5 þús. kr.; enn fremur, að til Bandalags ísl. leikfélaga, sem haft hefur 85 þús. kr. rekstrarstyrk, verði styrkur hækkaður um 25 þús. kr. í 110 þús. kr. Það skal tekið fram, að þetta bandalag annast verulega fyrirgreiðslu fyrir leikfélögin úti á landi, lánar þeim búninga og ýmislegt annað, sem til þarf til þess að koma leikjum á svið. — Sama bandalag, Bandalag ísl. leikfélaga, hefur sótt um fjárstyrk vegna fyrirhugaðrar heimsóknar norskra leikara, sem ætla að ferðast hér um landið á komandi sumri og sýna norskt leikrit, að því er ég hygg að ákveðið sé, Brúðuheimilið eftir Ibsen, og hefur n. þótt ástæða til að styrkja þá starfsemi og leggur til, að 50 þús. kr. verði veittar vegna þessarar væntanlegu heimsóknar.

Nýr tónlistarskóli hefur tekið til starfa á Hvolsvelli, og þykir rétt að styrkja hann á sama hátt og aðra sambærilega skóla, og er gerð tillaga um, að honum verði veittar 10 þús. kr. í styrk.

Allmargar lúðrasveitir hafa að undanförnu verið styrktar til lúðrakaupa. Á allra vitorði er, að sá styrkur hefur ekki eingöngu verið notaður í því skyni, og hefur fremur verið litið á það sem form heldur en sem ákvarðandi skilyrði. Ástæðulaust þykir að vera að skilja þannig á milli lúðrasveitanna, að sumar hafi styrk til starfsemi sinnar almennt, en aðrar eingöngu til hljóðfærakaupa, og hefur verið gerð till. um, að þetta skoðist í öllum tilfellum sem styrkur til starfseminnar sjálfrar, en skilyrtur því, að framlag komi á móti annars staðar að. Gerð er síðan till. um það, að þær lúðrasveitir, sem hafa haft 8 þús. kr. styrk, hækki allar þannig, að nú fái þær 10 þús. kr.; enn fremur að teknar verði inn í greinina 3 nýjar lúðrasveitir, lúðrasveitin Svanur í Reykjavík, lúðrasveit Keflavíkur og lúðrasveit Húsavíkur. Tvær þær síðasttöldu eru nýjar af nálinni, lúðrasveitin Svanur hefur af einhverjum ástæðum ekki verið inni á fjárlögum að undanförnu, af hvaða ástæðum sem það kann nú að vera. Enn fremur er lagt til, að Samband ísl. lúðrasveita fá 10 þús. kr. fjárveitingu til sinnar starfsemi.

Kvæðamannafélagið Iðunn hyggst gera út leiðangur á komandi sumri til þess að fá einkum eldri kvæðamenn til þess að kveða rímur inn á segulbönd og til þess að forða þessari þjóðlegu íþrótt, kvæðaflutningi og rímnasöng, frá glötun og hefur sótt um styrk til þeirrar starfsemi. N. telur, að hér sé um að ræða varðveizlu á þjóðlegum verðmætum, og leggur til, að þessi starfsemi verði styrkt með 10 þús. kr. framlagi, en jafnframt verði það gert að skilyrði, að segulbandsspólurnar verði geymdar á þjóðminjasafninu og þannig tryggilega frá því gengið, að það verði ekki jafnóðum þurrkað út, sem inn á þær kann að verða kveðið.

Tónskáldafélag Íslands fyrirhugar tónlistarhátíð hér á sumri komanda, og hefur Reykjavíkurbær þegar heitið nokkrum stuðningi við þá tónlistarhátíð. Hefur þótt sanngjarnt, að ríkið legði einnig nokkuð af mörkum, og er gerð till. um 40 þús. kr. fjárveitingu í því skyni.

Guðmunda Elíasdóttir söngkona hefur sótt um styrk, og hefur verið lagt til af n. hálfu, að hún fái 8 þús. kr. styrk á yfirstandandi ári.

Þá hefur nefndin gert till. um tvo styrki til fræðimanna úr alþýðustétt.

Vilhjálmur Ögmundsson bóndi á Narfeyri hefur gert stærðfræðilegar athuganir mörg undangengin ár og hlotið fyrir þær viðurkenningu hinna lærðustu stærðfræðinga, og þykir hann maklegur til þess að hljóta styrk vegna þeirrar starfsemi sinnar, sem hann enn mun halda áfram.

Enn fremur er lagt til, að Þorsteinn Jónsson fyrrverandi skipstjóri í Laufási í Vestmannaeyjum fái í viðurkenningarskyni 10 þús. kr. styrk fyrir það, að hann hefur haldið til haga margháttuðum fróðleik um fiskimiðin umhverfis Vestmannaeyjar og fært þau á sérstakan uppdrátt, sem hefur verið gefinn út og er enn til leiðbeiningar fjöldamörgum mönnum, sem sækja sjó á þær slóðir.

Þá er lagt til, að hækkað verði um 5 þús. kr. framlag til minningarlundar Þorsteins Erlingssonar að Hliðarendakoti.

Enn fremur eru tvær till. til leiðréttingar á því, að í frv. virðist hafa snúizt við styrkur eða fjárveiting til minningarlundar Jóns Arasonar við Grýtu og fjárveitingin til minnismerkis Jóns Arasonar á sama stað, en það er meiningin, að minnismerkið eigi að hafa 25 þús. kr. styrkinn, en lundurinn, eins og aðrir slikir minningarlundir, 5 þús. kr.

Landbúnaðardeild atvinnudeildar háskólans hefur sótt um að fá að ráða nýjan sérfræðing í sína þjónustu. Er hér um að ræða ungan mann, sem enn er við nám og ætla má að komi heim á miðju yfirstandandi ári. Hefur þótt ástæða til að verða við þeirri beiðni og ætla landbúnaðardeildinni sem svarar hálfum sérfræðingslaunum umfram það, sem frv. gerði ráð fyrir.

Rannsóknarstofa háskólans er talin þurfa aukna fjárveitingu, sem nemur 55 þús. kr., vegna yfirfærslugjalda, og hefur verið orðið við þeirri beiðni.

Kjarnfræðanefnd hyggst koma upp stöð til mælinga á geislavirkum efnum og hefur gert áætlanir um þær framkvæmdir og sótt um fjárveitingu til þeirra. Nefndin leggur til, að til þeirrar stöðvar verði veittar á þessu ári 100 þús. kr., og skal tekið fram, að það er aðeins hluti af þeirri upphæð, sem um var sótt.

Veðurstofan hefur gert endurskoðun á sínum kostnaðarliðum, og er lagt til, að þar verði gerð á nokkur breyting, þannig að útlagður kostnaður vegna veðurstofunnar breytist samtals úr 2 millj. 984 þús. 480 kr. í 3 millj. 26 þús. 480 kr.

Við það, að sjókortagerðin hefur nú að öllu færzt inn í landið, þykir verða að mæta kostnaði, sem af því hlýzt, með 200 þús. kr. framlagi, sem gerð er till. um.

Embætti húsameistara ríkisins hefur með höndum eftirlit með opinberum byggingum í smíðum og sömuleiðis viðgerðum á þeim. Þaðan hefur verið mjög sótt eftir því að fá að auka starfsmannahald og sömuleiðis að fá til umráða bifreið fyrir eftirlitið. Fjvn. hefur talið vert að verða við ósk þeirra um að fá að kaupa bifreið til starfseminnar, en hins vegar hefur ekki verið gerð nein till. um starfsmannaaukningu þar.

Varðandi 16. gr. frv. eru gerðar brtt., bæði um Búnaðarfélag Íslands og um Fiskifélag Íslands, og lagt til, að framlög til þessara félaga beggja verði hækkuð um 50 þús. kr. Er það minna en umsóknir þeirra hvors um sig gera ráð fyrir.

Á yfirstandandi ári og s.l. ári hafa orðið veruleg spjöll á landi af völdum vatnagangs og sjávarágangs, og eru gerðar allverulegar till. um hækkanir vegna fyrirhleðslna í ár og sjóvarnargarða. Að því er fyrirhleðslurnar varðar eru hæstar brtt. varðandi fyrirhleðslu í Markarfljóti og Þverá, eða 70 þús. kr., úr 400 þús. kr. í 470 þús. kr., en hér er raunar um að ræða fyrirhleðslur, sem ráða í rauninni örlögum heilla sveita að verulegu leyti, og þykir ekki vert að eiga neitt á hættu með það, að út af geti brugðið um, að þær fyrirhleðslur, sem þar er um að ræða, séu því hlutverki vaxnar, sem þeim er ætlað.

Varðandi sjóvarnargarða skal það tekið fram, að þar er um stærsta upphæð að ræða varðandi Eiðið í Vestmannaeyjum. Það er lagt til, að til varnar á Eiðinu verði að þessu sinni veittar 200 þús. kr., en það ætti að vera eitthvað á milli helmings og þriðjungs af þeirri upphæð, sem vitamálaskrifstofan ætlar að nauðsynlegt sé til framkvæmda þar, en aðrar framkvæmdir eru ekki eins kostnaðarsamar af þeim, sem hér eru gerðar till. um.

Nefndin hefur aflað sér upplýsinga um það, að í öllum tilfellum er hér um fullkomna nauðsyn að ræða, og hlýtur að sjálfsögðu að viðurkenna, að hún hefur stigið hér eins stutt skref í fjárveitingum og hún frekast taldi unnt að gera, en hún hefur að sjálfsögðu orðið að halda sig innan þess ramma, sem talizt getur mögulegt í fjárveitingum.

Sandgræðslan hefur með höndum mjög stór verkefni, og þykir hafa tekizt, a.m.k. sumstaðar, með miklum ágætum hennar starf, og er lagt til að gera hennar fjárhag heldur rýmri en verið hefur. Er lagt til, að á tveimur útgjaldaliðum hennar og þeim helztu, þ.e.a.s. til sandgræðslustöðva og til sandgræðslugirðinga, verði hækkuð framlög samtals um 170 þús. kr.

Skógrækt ríkisins hefur líka unnið stórvirki, og er lagt til, að henni verði veitt fé til nýrrar starfsemi, þ.e.a.s. til skjólbeltagerðar, 50 þús. krónur.

Þá er lagt til, að styrkur til Garðyrkjufélags Íslands hækki um 8 þús. kr. frá því, sem frv. gerir ráð fyrir.

Í Laxá í Vindhælishreppi í Húnavatnssýslu hefur verið gerður laxastigi, og samkvæmt lögum nr. 12 frá 1941 ber ríkissjóði að bera ákveðinn hluta af kostnaði við það verk. Er lagt til, að til þess verði varið 84 þús. kr.

Lög um iðnfræðsluráð hafa ekki verið framkvæmd nema að litlu leyti að undanförnu. Nú er í ráði að auka framkvæmd á þeirri lagasetningu að nokkru, og er gerð till. um aukna fjárveitingu í því skyni, og nemur aukningin 110 þús. kr., eða hækkar fjárveitinguna úr 140 þús. kr. í 250 þús. krónur.

Þá eru gerðar till. við 17. gr. Sú er fyrst, að vegna þess að áætlaður hluti ríkissjóðs til greiðslu vegna laga um atvinnuleysistryggingar hefur reynzt lægri en greiðsluskyldan, er lagt til, að sú upphæð verði hækkuð um 2 millj. kr., úr 19 í 21 millj. kr.

Enn fremur hefur komið í ljós, að þrátt fyrir lagaskyldu ríkissjóðs til þess að taka þátt í kostnaði við vinnumiðlun samkvæmt lögum nr. 52 frá 1956 hefur ekki verið ætlað neitt fyrir þeim útgjöldum, og er gerð hér till. um 150 þús. kr. framlag til að standa straum af þeirri skyldu.

Elliheimilið í Skjaldarvík á við þann erfiðleika að stríða sérstaklega, að vegurinn að því er í mjög lélegu ástandi. Virðist það ekki vera bein skylda, hvorki ríkisins, þar sem vegurinn er ekki þjóðvegur, né heldur annarra aðila, sýslu eða hrepps, að sjá um viðgerð á þessum vegi, og er gerð till. um það, að elliheimilinu sjálfu verði veittur 20 þús. kr. styrkur til þess að geta bætt um veginn heim að heimilinu.

Þá er lagt til, að 1 millj. kr. verði veitt verkalýðshreyfingunni til byrjunarframkvæmda við orlofsheimili, sem hún fyrirhugar að koma á fót.

Á s.l. ári var barnaheimilinu að Sólheimum í Grímsnesi veittur 50 þús. kr. styrkur vegna rafmagnsheimtaugar. Nú hefur verið sótt um, að þessi fjárveiting verði endurtekin og muni þá hægt að ljúka skuldum heimilisins af þessum sökum. Er lagt til, að því verði enn í ár veittar 50 þús. kr., en að það verði lokagreiðsla.

Blindravinafélag Íslands hefur nú hafið útgáfu á bókum á blindraletri. Það er dýr bókagerð, og þykir vert að styðja þá framkvæmd, sem þar er hafin, og er lagt til, að 20 þús. kr. verði til þess veittar.

Flugbjörgunarsveitin hafði á s.l. ári 50 þús. kr. styrk, en af einhverjum ástæðum hefur sá styrkur fallið niður úr frv., enda þótt vart hafi verið tilætlunin að láta lokið opinberum stuðningi við þá sveit, enda hefur hún margháttuð björgunaráform og dýr á prjónunum, er m.a.

nú um þessar mundir að koma upp tjaldspítala. Er lagt til, að Flugbjörgunarsveitin haldi sama styrk á yfirstandandi ári og hún hafði á s.l. ári.

Þá er lagt til, að konunni Rósu Georgsdóttur verði greiddar 50 þús. kr. bætur, sem hugsað er sem fyrsta greiðsla af þremur. Kona þessi varð fyrir alveg óvenjulegum áföllum fyrir nærri 10 árum, þegar óður maður réðst að henni, særði hana og varð barni hennar að bana. En þau örkuml, sem kona þessi ber, eru þess eðlis, að hún getur ekki notið styrks úr almannatryggingunum, eins og vert væri. Hefur nefndin borið erindi hennar undir landlækni, og telur hann, að réttmætt sé, að henni sé veittur styrkur með þessum hætti. Það skal tekið fram, að það er yfirleitt álit nm., að dómur eigi að ganga í málum sem þessum, en þótt hér hafi ekki verið leitað dómstóla og í rauninni svo langt um liðið, frá því að atburðir skeðu, þar til konan í rauninni hafði möguleika til þess að hefja málarekstur, þá þykir í þessu einstæða tilfelli rétt að verða við umsókn hennar um bætur af þessum sökum, enda vandséð, hvort ríkinu muni ekki hafa borið skylda til að hafa hömlur á þeim, sem þessum slysum olli.

Lagt er til, að Ungmennafélag Íslands haldi sama styrk og það hafði á s.1. ári, 75 þús. kr.; enn fremur að til starfsíþrótta á vegum Ungmennafélagsins verði veittar 25 þús. kr. á þessu ári, eins og gert var s.l. ár.

Náttúrulækningafélag Íslands hefur í byggingu mjög myndarlegt heimili fyrir starfsemi sína í Hveragerði og er vel á veg komið með þær byggingarframkvæmdir. Þær hafa að undanförnu notið styrks úr ríkissjóði, og er hér lagt til, að Náttúrulækningafélaginu verði enn veittur 100 þús. kr. byggingarstyrkur, en svo litið á, að það geti verið lokagreiðsla vegna þessara framkvæmda.

Þá hefur verið um það sótt, að nokkurt fé yrði veitt til umbóta á gufuböðum að Laugarvatni, enda er það staður, þar sem margir aðilar koma og njóta þessara baða. Skólastjórarnir á staðnum hafa gert grein fyrir því, að böðin þurfi endurbóta við, en að það sé í rauninni enginn einstakur aðili á þeim stað, sem telji sig eiga skyldu að rækja við að endurbyggja þau eða koma í það horf, sem óhjákvæmilegt er talið, og því hefur hér verið lagt til, að 20 þús. kr. verði veittar í því skyni.

Fjvn. samþ. snemma í haust fyrir sitt leyti að taka inn á fjárl. ársins 1957 250 þús. kr. fjárveitingu til Ungverjalandssöfnunar Rauða kross Íslands, og greiddi fjmrn. eða viðkomandi rn. þennan styrk út þá þegar gegn loforði n. um að taka það upp í sínar fjárlagatill., og er svo gert hér.

Þá eru hér framlög til þeirra alþjóðasambanda, sem Ísland er aðili að og verður að gjalda sína skatta og skyldur í, umreiknuð með 16% yfirfærslugjaldi, og standa breyt. á frv.-liðunum um þessi atriði í sambandi við þann umreikning.

N. hefur ekki nú frekar en að undanförnu gert till. um breyt. á 18. gr., og bíða allar brtt. varðandi þá grein eftir 3. umr. málsins.

Við 19. gr. hefur n. gert eina brtt. og raunar ekki smávægilega. Þar er lagt til, að útgjöld til dýrtíðarráðstafana verði hækkuð um 24 millj. kr. Ástæðan til þeirrar till. er sú, að í þeirri viðleitni, sem ríkisstj. hefur haft uppi að undanförnu til þess að stöðva dýrtíðina, kaupgjald og verðlag, hefur ríkissjóður óhjákvæmilega orðið að taka á sig nokkrar skuldbindingar um niðurgreiðslur, og er hér gert ráð fyrir, að þeim útgjöldum verði mætt með þeirri hækkun á 19. gr., sem hér er lögð til.

Er þá komið að 20. gr., útgjaldaliðum. Lagt er til, að áætlun fyrir afborgunum af lánum ríkissjóðs verði hækkuð sem svarar yfirfærslugjaldinu, og nemur það á dönskum lánum og bandarískum lánum samtals 109076 kr.

Þá er það reynsla rn., að sífellt fer vaxandi það, sem ríkissjóður verður á sig að taka af ábyrgðarskuldbindingum sínum, og er lagt til, að útgjaldaliður sá verði hækkaður í áætlun úr 16 millj. í 18 millj. kr.

Þá leggur n. til, að tekinn verði inn á 20. gr. nýr liður til framlags byggingar skips vegna Vestmannaeyja og nálægra hafna, 2 millj. kr. Það er enn óráðið um það, hvert fyrirkomulag um rekstur og eignarrétt á slíku skipi yrði talið bezt henta, en óhjákvæmilegt þykir, að smíði slíks skips geti hafizt nú hið allra bráðasta, þar eð samgöngur milli Vestmannaeyja og annarra landshluta eru nú með slíkum ódæmum, að þar hlýtur að verða úr að bæta hið allra bráðasta. Ætla má, að skip, sem fullnægði þeim kröfum, sem gerðar eru til flutninga á þessari leið, mundi kosta 7–8 millj., miðað við núgildandi verðlag, og er hér aðeins um að ræða fyrstu greiðslu til þeirrar skipssmiða.

Varðandi flugvallagerð er gerð till. um, að framlag hækki um 650 þús. kr., eða álíka háa upphæð og sparast á flugþjónustunni með því aukna alþjóðaframlagi, sem ég hef þegar getið um.

Þá eru gerðar hér tillögur um að auka nokkuð fjárveitingar til embættisbústaða, þ.e.a.s. til rafmagnsheimtauga vegna prestssetra ríkisins og til útihúsabygginga á prestssetrum, samtals um 260 þús. kr.

Þá hefur n. gert till. um, að inn á 20. gr. verði tekin 900 þús. kr. framlag ríkissjóðs til landssmiðjunnar, en landssmiðjunni hefur þegar verið afhent þessi fjárupphæð í samkomulagi við fjvn., enda stóð svo á, að fyrirtækið þurfti mjög á þessari fyrirgreiðslu að halda.

Varðandi 22. gr. frv. eru gerðar þrjár till.

Sú er fyrst, að heimild ríkisstj. til þess að ábyrgjast byggingar frystihúsa, mjólkurbúa og fiskimjölsverksmiðja verði hækkuð úr 20 millj. í 50 millj. Þykir þetta nauðsynlegt sökum þess, að mörg fyrirtæki, sem undir þessa heimildargrein geta fallið, eru í mikilli fjárþörf, og í rauninni hafa framkvæmdir við þau sum hver stöðvazt, og hyggst ríkisstj. að greiða úr þeirra vandræðum, eftir því sem möguleikar eru fyrir hendi, en þarf til þess hækkaða ábyrgðarheimild.

Þá er lagt til, að inn komi ný heimild til handa ríkisstj. um að veita ábyrgð vegna kaupa á togaranum Gerpi, allt að 2 millj. kr. umfram það, sem henni var áður heimilað með sérstökum lögum, en þó þannig, að ábyrgð ríkissjóðs vegna smíðis eða kaupa á þessu skipi fari ekki yfir 90% miðað við kostnaðarverð.

Þá eru gerðar tillögur um það að bæta nokkru við XXXII. lið í 22. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. verði heimilað að breyta nokkrum lánum í óafturkræf framlög. Hér er um að ræða lán, sem veitt hafa verið ýmist af tekjuafgangi ríkissjóðs á árunum 1955 og 1954, þ.e.a.s. brtt. taka nú eingöngu til lána, sem veitt voru af greiðsluafgangi 1954, svo og til lána, sem veitt hafa verið beint af ríkisfé, stofnlána til þeirra stofnana, sem hér um ræðir, en þær eru: veðdeild Búnaðarbankans, ræktunarsjóður og byggingarsjóður. Samtals tekur þessi heimild, sem lögð er til í brtt., til 18625250 kr., sem eins og áður er fram tekið eru allt lán af greiðsluafgangi ríkissjóðs eða stofnlán af ríkisfé.

Miðað við það, að allar brtt. fjvn. yrðu samþ., og að öðru óbreyttu, mundi fjárlagafrv. að útgjaldaliðum hækka um 70459789 kr. Það er þess vegna óhjákvæmilegt, með því að ekki hafa verið gerðar neinar brtt. varðandi tekjuhlið frv., að mikill halli hlýtur að verða á fjárlögunum, eins og þau koma í gegnum 2. umr. Hitt er vitað, að ríkissjóður á von í verulegum tekjum á móti þessum hækkunum. Nema þar mestu tekjur ríkissjóðs af útflutningssjóði, en hann á skv. lögum um útflutningssjóð að fá 20% af tekjum þess sjóðs, og má ætla, að það verði ekki undir 100 millj. kr. Hins vegar hefur í sambandi við þá lagasetningu verið felldur niður söluskattur í smásölu, sem kemur þá til frádráttar á tekjum ríkissjóðs. Einnig hafa verið sett lög um lækkaðar skattgreiðslur fiskimanna og lækkaðar tekjuskattgreiðslur hjá tekjulágu fólki, og hljóta þær lækkanir einnig að verka nokkuð til lækkunar á tekjum ríkissjóðs. Þá hefur verið breytt verðlagi á söluvarningi hjá áfengisverzluninni og tóbakseinkasölunni, og fær ríkissjóður þar nokkrar tekjur. Það er þess vegna vitað um þessar 70 millj., sem hér eru till. um hækkanir á, að ríkissjóður muni eiga tekjustofna á móti þeim. Hins vegar er enn ekki sýnt, hver jöfnuður kann að verða endanlega á fjárlögum, þar eð vitað er, að enn hljóta að koma inn allstórir útgjaldaliðir á frv. Nefni ég þar til, að ríkisstj. hefur þegar gefið loforð um að greiða í nokkru fyrir raforkuframkvæmdum þeim, sem nú eru framkvæmdar við mikla fjárþröng. Einnig liggja fyrir fyrirheit frá ríkisstj. um aukið fé til atvinnuaukningar úti um byggðir landsins. Enn fremur hefur verið lofað stuðningi við ræktun í landinu og ráðstafanir til þess að stækka þau bú, sem skemmra eru á veg komin, og vitað er um, að allmargir fleiri gjaldaliðir hljóta að koma til hækkunar á frv. En það er ásetningur þeirra, sem núverandi ríkisstj. styðja, að afgr. fjárlög án greiðsluhalla. Hversu þeim till. verður endanlega komið saman, er að vísu enn ekki séð.

Það er stefna ríkisstj. að hamla gegn hinum linnulausa vexti dýrtíðarinnar, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Gjaldahækkanir, sem brtt. við fjárlagafrv. gera ráð fyrir, gætu virzt í nokkru ósamræmi við það. En fyrir því ætla ég að gerð sé nokkuð fullnægjandi grein í nál. meiri hl. fjvn., og vitna ég hér til þess. Þar er raunar gerð grein fyrir því, að þrátt fyrir það ósamræmi, sem í fljótu bragði kynni að virðast á hækkuðum útgjöldum ríkissjóðs og stefnu að því marki að vinna bug á aukinni dýrtíð, þá samrýmist að verulegu leyti og er sumpart óhjákvæmilegt, eins og á stendur, að ríkissjóður taki á sig nokkrar byrðar, einmitt til þess að komast nær því marki, sem að er stefnt. Það er skoðun okkar, sem að meirihlutaálitinu stöndum, að hér sé stefnt að efnahagslegri og menningarlegri framþróun í þjóðfélaginn, en fjárveitingunum haldíð innan viðráðanlegra takmarka. Í trausti þess, að það sé rétt ályktað af okkar hálfu, eru hér brtt. ásamt meðfylgjandi áliti lagðar fyrir.