18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

1. mál, fjárlög 1957

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þá er nú loks komið að 2. umr. fjárlaga fyrir árið 1957. Hefur í þetta sínu lítið borið á þeim metnaði hæstv. fjmrh. að láta jafnan afgr. fjárlög fyrir áramót, sem er auðvitað sjálfsagt að gera, nema eitthvað sérstakt hamli. Fjárlög fyrir árið 1956 voru afgreidd í janúarlok 1956, en 2. umr. þeirra fór fram um miðjan desember. Fjárlögin voru þá afgr. um sama leyti og tillögur ríkisstj. um aðstoð við útflutningsframleiðsluna og tekjuöflun fyrir ríkissjóð til þess að mæta fyrirsjáanlegum greiðsluhalla, sem leiddi af þeirri óheillaþróun, er fylgdi í kjölfar verkfallanna 1955. Fjármálaráðherra átaldi þá mjög sjálfstæðismenn fyrir að hafa ekki viljað afgreiða fjárlögin, áður en teknar hefðu verið endanlegar ákvarðanir um aðstoð við útflutningsframleiðsluna, þótt ljóst væri, að úrslit þess máls kynnu að hafa veruleg áhrif á fjárhag ríkissjóðs. Nú var engin tilraun gerð til þess að afgr. fjárlögin einu sinni til 3. umr. fyrir áramót, hvað þá að ljúka afgreiðslu þeirra, enda þótt hið mikla skattafrumvarp ríkisstj., sem á í senn að tryggja rekstur útvegsins og afla ríkissjóði tekna til þess að standa undir greiðsluhalla á væntanlegum fjárlögum ársins 1957, væri afgr. frá Alþ. fyrir jól. Þegar þessi staðreynd er höfð í huga, verða vinnubrögðin við afgreiðslu fjárlaga og áhugaleysi fjmrh. á því sviði vægast sagt furðulegt. Fyrir jól eru lagðir á stórkostlegir nýir skattar, sem ríkissjóði mun ætlað að fá um 100 millj. kr. af í sinn hlut til þess að mæta greiðsluhalla, sem enginn veit þá hver verður. Hefði þó óneitanlega verið hægt að komast nærri hinu rétta um þá þörf, ef fjárlagafrv. hefði verið fyrir þann tíma afgr. til 3. umr. a.m.k. En í þess stað er engin athugun gerð á útgjaldaþörfinni, engin aðfinnsla kemur frá fjmrh. í þetta sinn, þótt nú hefði vissulega verið auðið að afgr. fjárlögin fyrir áramót. Og afgreiðslan er ekki aðeins dregin til janúarloka, heldur svo nærri lokum febrúarmánaðar, að það verður að hafa sig allan við, ef auðið á að verða að afgr. fjárlögin það snemma, að fjmrh. þurfi ekki að fá nýja heimild fyrir bráðabirgðafjárgreiðslum úr ríkissjóði.

En nú kemur að öðrum þætti þessa máls, sem er jafnvel enn kynlegri. Fyrir jól taldi fjmrh. sig vita, að hann þyrfti að heimta af þjóðinni 80–100 millj. kr. í nýjum sköttum til þarfa ríkissjóðs, en nú, þegar hálfur annar mánuður er liðinn á fjárlagaárið 1957, er þess enginn kostur að fá um það upplýsingar, hverjar tekjuhorfur ríkissjóðs séu á þessu ári. Höfum við í minni hl. n. hvað eftir annað óskað upplýsinga um tekjuáætlun í n., en formaður jafnan tjáð okkur, að fjmrh. væri ekki enn reiðubúinn með þær upplýsingar. Er þessi tregða fjmrh. að gefa upplýsingar um tekjuhorfur ríkissjóðs óskiljanleg. Hvernig í ósköpunum hefur hann undanfarin ár getað gert slíka áætlun í desembermánuði árið áður? Í fyrra lágu upplýsingar um tekjur ársins 1955 fyrir n., þegar hún afgreiddi frv. endanlega frá sér síðari hluta janúarmánaðar. Nú er hins vegar ekki hægt að fá slíkar upplýsingar um miðjan febrúar, þótt fjmrh. teldi sig vita í desember, að hann þyrfti að fá í kassa sinn á þessu ári 80–100 millj. kr. til víðbótar við alla gömlu skattana. Voru þær þá e.t.v. lagðar á þjóðina út í bláinn, til þess að ríkisstj. hefði nóg úr að spila?

Ég hef haft náið samstarf við hæstv. fjmrh. um margra ára skeið, og ég verð að segja, að þessi vinnubrögð hans koma mér mjög á óvart. Virðist sem honum sé æðimikið brugðið á þessu sviði eins og öðrum, og hefði ég þó sízt haldið, að hann léti hina nýju bandamenn sína glepja sig í afgreiðslu fjárlaga. En það er tilgangslaust að reyna að halda því fram, að fjmrh. viti ekki nú gerla um tekjur ríkissjóðs s.l. ár, og verð ég að telja það mjög miður farið, að slíkum upplýsingum skuli haldið leyndum fyrir stjórnarandstöðunni, svo að við höfum orðið að taka afstöðu til afgreiðslu mála við þessa umr. án þess að vita nema mjög óljóst um tekjuhorfur á þessu ári.

Það kórónar svo allt saman, þegar fjmrh. lætur blað sitt í gær varpa hnútum að okkur sjálfstæðismönnum í fjvn. fyrir að flytja till. til útgjaldaauka án þess að benda á tekjur á móti. Stjórnarliðið í n. hefur þó leyft sér að bera fram útgjaldatillögur, sem leiða af sér 70 millj. kr. greiðsluhalla á fjárlagafrv. við þessa umr., en okkar sérstöku till. nema rúmum 7 millj. kr. Þegar slík hógværð af okkar hendi er talin vítavert ábyrgðarleysi, þá tekur skörin að færast upp í bekkinn.

Hv. frsm. meiri hl. n. hefur skýrt frá sérstöðu okkar í sambandi við till. þær, sem fluttar eru í nafni allrar n. á þskj. 262. Þótt við stöndum að flutningi þeirra till. ásamt meiri hl., höfum við óbundnar hendur um afstöðu til einstakra till. og flytjum auk þess sjálfstæðar brtt., sem ég vík að síðar.

Stjórnarliðið í n. hefur að sjálfsögðu ráðið stefnunni í samráði við fjmrh., svo sem venja hefur verið. Samstarf í n. hefur annars verið gott. En við málefnaafgreiðslu í n. hefur það valdið okkur í minni hl. verulegum óþægindum, að sá háttur var á hafður að ganga ekki til atkvæða um nein erindi, að undanteknum till. um fjárveitingar til hafna, brúa, vega og skóla, fyrr en degi áður en afhenda átti till. til prentunar. Þar sem við fram til þess tíma höfðum enga hugmynd um afstöðu meiri hl. til einstakra fjárbeiðna, er fyrir n. lágu, höfðum við litið svigrúm til að undirbúa brtt. Þessar till. meiri hl. voru svo bornar undir atkvæði, strax og þær voru lagðar fram, og treystum við okkur því ekki við þá atkvgr. til að taka afstöðu til margra till., þótt við eftir nánari athugun yrðum sammála um að styðja till. allar með þeim fyrirvara, er ég hef áður skýrt frá.

Um einstök atriði í starfi n. vil ég taka þetta fram varðandi viðhorf okkar fulltrúa Sjálfstfl. í n.:

Er hæstv. fjmrh. lagði fjárlagafrv. sitt fyrir Alþ. í þingbyrjun í haust, vakti ég sérstaka athygli á því, að frv. þetta er 135 millj. kr. hærra en fjárlagafrv. ríkisstj. árið áður, en engu að síður höfðu fjárveitingar til ýmissa verklegra framkvæmda verið skornar niður um rúmlega 8 millj. kr. í þessu fyrsta fjárlagafrv. vinstri stjórnarinnar. Sagði ég þá, að við sjálfstæðismenn mundum leggja megináherzlu á að fá þetta lagfært.

Þegar mál þessi komu til umr. í n., lögðum við fulltrúar Sjálfstfl. til, að allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda, svo sem vega, brúa, hafna, skóla o.s.frv., yrðu hækkaðar um 20 % frá fjárlögum síðasta árs. Var þó ljóst, að með þessari hækkun yrði útkoman naumast betri en það, að hægt yrði að halda í horfinu með framkvæmdir á árinu 1957. Til samanburðar má geta þess, að hliðstæðar fjárveitingar voru hækkaðar um 25% í fjárl. síðasta árs, svo að þessi till. okkar sýndi fyllstu varfærni. Síðari upplýsingar um fyrirsjáanlegar verðhækkanir benda meira að segja til þess, að hækkunin þurfi að vera töluvert meiri, en meðan ekki er betur vitað um tekjuhorfur, höfum við viljað halda okkur við þessa till. okkar, nema þar sem eru alveg sérstakar ástæður til frekari hækkunar fyrir hendi.

Þessi till. okkar var felld af stjórnarliðinn í n. Engu að síður hefur það áunnizt við endanlega afgreiðslu í n. fyrir þessa umr., að framlög til brúa, hafna og skóla, að undanteknum fjárveitingum til greiðslu vangoldinna eldri skulda, hafa verið hækkuð um svipaða upphæð og við lögðum til.

Hins vegar hefur ekki náðst samkomulag við stjórnarliðið um samsvarandi hækkun á nýbyggingarfé vega, og flytjum við því till. um að hækka þau framlög hliðstætt framlögum til annarra verklegra framkvæmda. Er þó raunar þörf á mun meiri hækkun, þegar þess er gætt, hversu margir nýir vegir voru teknir í þjóðvegatölu við síðustu opnun vegalaga. Hefur enn ekki verið talið fært að auka nýbyggingarfé til þess að mæta þeirri viðbótarþörf.

Flugvellirnir voru einn samgöngubæturnar, sem fundu náð fyrir augum hæstv. fjmrh. við samningu fjárlagafrv. Ber að þakka það, að lítillega er reynt að bæta úr þeirri brýnu framkvæmdaþörf, sem er á því sviði. Hefur n. síðan lagt til að hækka þennan lið nokkru meir. Í fyrra var að tilhlutan fjvn. samþ. till. um að gera framkvæmdaáætlun um brýnustu framkvæmdir í flugmálum næstu árin. Flugið er að verða æ stærri liður í samgöngukerfi þjóðarinnar, en framlög ríkisins til flugmála, til flugvallagerðar og nauðsynlegra mannvirkja og öryggistækja eru enn alls ófullnægjandi.

Margar af brtt. n. eru um hækkun fjárveitinga til ýmissa ríkisstofnana, bæði vegna fjölgunar starfsmanna og af öðrum sökum. Þær hækkanir eru yfirleitt gerðar eftir tillögum fjmrn.

Eftir að samþ. höfðu verið hinir stórauknu tollar og skattar fyrir áramótin, varð ljóst, að sérstakar hækkanir mundi verða að gera á mörgum útgjaldaliðum ríkissjóðs þeirra vegna.

Athugun hefur verið gerð á þessum hækkunum af hinum ýmsu ríkisstofnunum, og þótt mörg atriði séu enn óljós, mun naumast ofmælt að gera ráð fyrir útgjaldaauka, sem nemi um 25 millj. kr., af þessum sökum. Má t.d. nefna, að útgjöld símans munu vegna nýju tollanna á þessu ári hækka um 6 millj. kr., kostnaður við utanríkismál hækkar um 1.5 millj., kostnaður við áætlaðar framkvæmdir í raforkumálum á þessu ári hækkar um 7 millj. og jafnvel um 6 millj. kr. í viðbót, ef yfirfærslugjald fellur á þessu ári á erlend lán rafmagnsveitna ríkisins. Kostnaður ríkisspítalanna hækkar um 1 millj., kostnaður við Skipaútgerð ríkisins um sennilega 1.5 millj., kostnaður við brúargerðir hækkar um 1.5 millj. og margir aðrir liðir um minni fjárhæðir.

Forstjóri Skipaútgerðarinnar telur hina nýju skatta og tolla valda því fyrirtæki þungum búsifjum og bendir m.a. á það, að skatturinn á farseðla rýri mjög aðstöðu Skipaútgerðarinnar í þeim utanlandssiglingum, sem hún hefur haldið uppi.

Þá er annar þátturinn í hinum margumtöluðu bjargráðum ríkisstj. sá, að hækka verður framlög til að halda niðri vöruverði um 24 millj. kr., þannig að áætlað er, að niðurgreiðslur nemi alls á þessu ári 83.5 millj. kr., ef öll kurl eru þá enn til grafar komin. Þegar þjóðinni er sagt, að ríkisstj. hafi nú fundið frambúðarlausn á efnahagsvandamálum þjóðarinnar, þá virðist ríkisstj. hafa gleymt þeim aðvörunarorðum blaðs fjmrh. 8. júní s.l., að niðurgreiðsluleiðin sé engin frambúðarlausn, heldur hættuleg svikaleið, sem brátt hefni sín, ef hún sé framkvæmd í stórum stíl. Það sýnist því næsta vafasöm framtíðarlausn, ef ganga á nú lengra eftir þessari „svikaleið“ Tímans en nokkru sinni hefur áður verið gert. Eða er ef til vill ekkert að marka, hvað Tíminn segir?

Talið er óumflýjanlegt að hækka framlag ríkissjóðs til Skipaútgerðar ríkisins um 4 millj. kr. á þessu ári, og er þá kostnaður ríkissjóðs við þessa útgerð orðinn 15.5 millj. kr. Ekki skal á neinn hátt gert lítið úr þeirri mikilvægu þjónustu, sem þetta fyrirtæki veitir. En þessi útgerð er að verða svo þungur baggi, að nauðsynlegt er að kanna til hlítar, hvort eigi sé hægt að veita þessa þjónustu á hagkvæmari og kostnaðarminni hátt. Sérstök milliþn. vinnur nú að till. um heildarskipulag samgangna innanlands eftir till. frá fjvn. í fyrra og því ekki tímabært að taka þetta mál til nánari athugunar, fyrr en það álit liggur fyrir.

Þótt við í minni hl. n. séum ekki ánægðir með ýmis atriði í skiptingu n. á fé til verklegra framkvæmda, teljum við ekki ástæðu til að bera fram sérstakar brtt. um þau atriði. Við höfum lagt áherzlu á að hafa áhrif á heildarfjárveitingar til hækkunar, en teljum eðlilegast, að einstakir þm. flytji brtt. um þau atriði, sem þá varða og þeir eru ekki ásáttir með.

Frsm. meiri hl. n. hefur skýrt þær till., sem n. flytur sameiginlega. Tel ég því ástæðulaust að rekja einstaka liði í þeim till.

Ég verð að finna að því, að í sumum tilfellum hefur fjmrh. haft þann hátt á að senda n. til flutnings till. um milljónaútgjöld án þess að láta nokkra greinargerð fylgja, og þótt við höfum gert fyrirspurnir og beðið um upplýsingar, þá hafa þær upplýsingar ekki fengizt. Skal ég þar nefna t.d. till. um að hækka niðurgreiðslur um 24 millj., hækka áætlað framlag til atvinnuleysistrygginga um 2 millj., áætlað framlag til greiðslu ábyrgðarlána um 2 millj., taka upp fjárveitingu til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna, 1 millj. kr., og hækka ábyrgðarheimild vegna frystihúsa um 30 millj. kr.

Ég er með þessum aðfinnslum ekki að draga í efa nauðsyn þessara till., svo sem atvikum er háttað, en það er óviðunandi, að stjórnarandstaðan í n. skuli ekki fá fullnægjandi upplýsingar um svo veigamikla útgjaldaliði. Og þótt munnlega sé um málið rætt við meiri hl. n., þá er það nánast óvirðing við n. að senda henni ekki formlega grg. um svo stórvæg mál, sem ætlazt er til að hún taki upp sem sínar tillögur.

Um fjárveitinguna til orlofsheimilis verkalýðssamtakanna verð ég að segja það, að það mál er meðhöndlað á nokkuð óvenjulegan hátt. N. var ekkert erindi sent um málið og engin grein gerð fyrir því, hvers konar fyrirtæki væri hér um að ræða. Engin svör fengust við fyrirspurnum okkar í minni hl. n. um þessa fyrirhuguðu byggingu. en þó skildist okkur, að enn hefði engin áætlun verið gerð um stærð, staðsetningu og gerð þessa heimilis og engin kostnaðaráætlun þar af leiðandi heldur verið gerð. Eru hér óneitanlega gerðar minni kröfur um rökstuðning fyrir fjárveitingu en gerðar eru til sveitarstjórna og annarra aðila í sambandi við fjárbeiðnir til skólabygginga, hafnargerða og annarra framkvæmda, sem verða ekki aðeins að sjálfsögðu að senda umsókn um fjárveitingu, sem virðist vera lágmarkskrafa, heldur einnig leggja fram kostnaðaráætlun og teikningar, þar sem það á við.

Lagt var til í n., að breytt yrði í óafturkræf framlög nokkrum fleiri lánum ríkissjóðs til stofnlánadeilda landbúnaðarins en gert var ráð fyrir í fjárlagafrv. Má í því sambandi benda á, að við fjárlagaumr. í fyrra kom fram sú skoðun sjálfstæðismanna, að lán af greiðsluafgangi 1955 hefðu átt að vera þá þegar óafturkræf framlög. N. varð sammála um að mæla með því, að lánum þessum yrði breytt, enda gegna þessir sjóðir svo og aðrir þeir sjóðir, sem lagt er til í fjárlagafrv. að veita hliðstæða aðstoð, svo mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu, að fé það, sem til þeirra hefur verið lagt sem lánsfé af greiðsluafgangi ríkissjóðs, er ekki annars staðar betur komið, enda eru sjóðir þessir allir mjög fjárþurfi.

Í sambandi við till. n. um að hækka ábyrgðarheimild ríkissjóðs vegna hraðfrystihúsa, mjólkurbúa og fiskimjölsverksmiðja upp í 50 millj. kr. töldum við rétt að hækka einnig hámark ábyrgðarheimildarinnar fyrir hvert fyrirtæki úr 60 í 85%. Hefur reynslan staðfest það, að þessum fyrirtækjum er algerlega um megn að afla þeirra 40% af kostnaðarverðinu, sem eru umfram ríkisábyrgðina, enda mun Framkvæmdabankinn hafa bundið lánshámark sitt við ábyrgðarheimildina. Samkomulag varð ekki um að gera þessa breytingu á þessu stigi málsins a.m.k., en þess er þó að vænta, að sú nauðsynlega hækkun verði gerð á ábyrgðarheimildinni fyrir lokaafgreiðslu málsins.

Þá höfum við lagt fram í n. till. um að heimila ríkisstj. að taka allt að 10 millj. kr. lán til þess að greiða vangoldin framlög ríkissjóðs til hafnargerða víðs vegar um landið. Er hér um mikið nauðsynjamál að ræða. Á s.l. ári var 1.2 millj. af greiðsluafgangi varið í þessu skyni. Nú á þessu ári eru fyrirhugaðar hafnarframkvæmdir flestar mjög knýjandi, sem áætlað er að kosta muni nálægt 60 millj. kr. Hrökkva fjárveitingar skammt til að mæta lögboðnum hluta ríkissjóðs af þeim kostnaði og því erfiðara er fyrir hafnirnar að eiga inni vangoldin framlög ríkissjóðs frá fyrri tímum. Er raunar mikil nauðsyn að taka hafnarmálin til allsherjar athugunar, einkum ákvæðin um skiptingu kostnaðarins, og þar sem svo að segja ógerlegt er nú að fá lán, þá þyrfti ríkissjóður raunverulega að taka sérstakt lán til aðkallandi hafnarframkvæmda. En á þessu stigi málsins höfum við takmarkað okkur við skuldirnar, enda liggur fyrst og fremst fyrir að greiða þær. Þessi tillaga er enn til athugunar í nefndinni.

Svo sem hv. frsm. meiri hl. n. tók fram, eru enn allmörg mál óafgreidd hjá n. Bíður þannig til 3. umr. að gera till. um framlög til sjúkrahúsa, raforkuframkvæmda og atvinnuaukningar. Eðlilegt hefði verið að hækka verulega fjárveitingu til malbikaðra vega í kaupstöðum og kauptúnum og einnig að leggja nokkurt fé til félagsheimilasjóðs til þess að leysa brýna fjárþörf hans, en þar sem sérstök frv. liggja fyrir þinginu um fjáröflun í þessu skyni, höfum við ekki gert um þetta till. á þessu stigi málsins.

N. hefur ekki enn tekið ákvörðun um, hvort hún leggur til, að ríkissjóður taki á sig að greiða lán þau, sem veitt voru útvegsmönnum með ríkisábyrgð vegna þurrafúa í skipum þeirra. Miðað við afkomu útgerðarinnar er raunar ljóst, að útvegsmönnum verður um megn að greiða þessi lán.

Þá kem ég að þeim till., sem við í minni hl. n. berum fram á sérstökum þskj., og skal ég taka það fram, að tveimur þessara till. mun ekki enn hafa verið útbýtt.

Í fyrsta lagi leggjum við til að hækka fjárveitingu til nýrra akvega um rúmar 2.3 millj. kr., en það er um 15% hækkun frá till. n. á þskj. 252. Skiptum við þessari hækkun hlutfallslega jafnt á alla vegi, miðað við till. n. á þskj. 252. Töldum við það eðlilegast, þar eð þm. hafa haft aðstöðu til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri í sambandi við þá skiptingu. Þá leggjum við til, að fjárveiting til endurbyggingar þjóðvega hækki um 160 þús. kr., fjárveiting til endurbyggingar gamalla brúa hækki um 300 þús. kr. og verði nú ekki aðeins bundin við stórbrýr og að fjárveiting til fjallvega hækki um 160 þús. kr., sem er samsvarandi hækkun og við höfum lagt til varðandi aðrar verklegar framkvæmdir.

Í öðru lagi leggjum við til, að hækkaður verði um helming styrkur til St. Jósefsspítalanna í Reykjavík og Hafnarfirði, eða úr 5 kr. í 10 kr. á legudag. Sjúkrahús þessi hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna, og eins og sakir standa a.m.k. er ógerlegt að komast af án þeirra. Ef ríki og bær ættu að reka þessi sjúkrahús, yrði það margfalt dýrara en hér er lagt til að veita til þessara sjúkrahúsa. Teljum við ekki sæmandi að neita beiðni um sanngjarna aðstoð frá aðilum, sem svo þjóðnýtt hlutverk leysa af hendi.

Í þriðja lagi leggjum við til, að fjárveiting til að greiða vangoldin framlög vegna skólabygginga verði hækkuð um 800 þús. kr. Þegar lögin um fjármál skóla voru sett árið 1955, höfðu safnazt saman háar fjárhæðir í vangoldnum framlögum ríkissjóðs til skólabygginga. Með lögum þessum var ákveðið, að frá þeim tíma skyldi komið fastara skipulagi á þessi mál, en gert var ráð fyrir að greiða áfallnar skuldir á 5 árum. Nú standa hins vegar svo sakir, að eftir er að greiða sveitarfélögunum rúmar 11 millj. kr., og til þess að auðið verði að greiða þessar eftirstöðvar á 4 árum, þarf fjárveitingin að vera 2.8 millj. á ári. Er samt ekki hægt að fylgja hinni upphaflegu áætlun, því að 2 ár eru þegar liðin, svo að greiðslutíminn verður 6 ár, en óviðunandi er með öllu að draga lengur að greiða sveitarfélögunum þessi framlög, því að fæst þeirra mega við því að fá þessi framlög ekki greidd árum saman.

Í fjórða lagi leggjum við til að hækka framlag til lánasjóðs stúdenta um 100 þús. kr. Vegna mikillar fjölgunar stúdenta og aukins námskostnaðar hefur sjóðurinn ekki enn bolmagn til að fullnægja lánaþörfinni. Sjóðsstjórnin hefur sótt um 150 þús. kr. hækkun, og teljum við sanngjarnt að koma nokkuð til móts við þær óskir.

Í fimmta lagi leggjum við til, að framlag til íþróttasjóðs verði 2 millj. kr., eða hækki um 800 þús. Íþróttasjóði er ætlað að styrkja byggingu íþróttamannvirkja og efla íþróttalífið í landinu með ýmsu móti. Framkvæmdir á þessu sviði hafa hins vegar verið svo miklar undanfarin ár, að íþróttasjóður hefur ekki nema að mjög takmörkuðu leyti getað veitt þá styrki, sem til er ætlazt. Framlag ríkissjóðs var nokkru hærra í fyrra, en sjóðurinn er enn í mikilli fjárþröng. Hefur þessi fjárskortur sjóðsins valdið miklum vandræðum víða um land, því að treyst hefur verið á aðstoð sjóðsins. Þá bætist það einnig við, að Reykjavíkurbær hefur varið miklu fé til að koma upp hinum mikla íþróttavangi í Laugardalnum, sem er mikið áhugamál íþróttasamtakanna, því að tilfinnanlega vantar hér leikvang fyrir millilandaleiki og stór íþróttamót. Hefur íþróttasjóð skort fé til að veita styrk til þessa mikla mannvirkis nema að litlu leyti. Er ætlunin að taka leikvang þennan í notkun í sumar, en til þess þarf enn mikil fjárframlög. Minni hl. n. hefur ekki enn talið fært að taka upp sérstaka fjárveitingu til íþróttaleikvangs þessa, þar sem skórinn kreppir víða að í þessu efni, en telur eðlilegast að hækka verulega fjárveitingu til íþróttasjóðs, og yrði því fé þá aftur ráðstafað eftir því, sem stjórn sjóðsins teldi sanngjarnast.

Í sjötta lagi er lagt til að veita 2 millj. kr. til smíði nýs varðskips. Með þál. frá síðasta Alþingi var ákveðið að hefja undirbúning að smíði nýs varðskips. Efling landhelgisgæzlunnar er þjóðarnauðsyn, og það er skoðun okkar, að byrja eigi nú þegar að leggja til hliðar fé til smíði skipsins, enda hefur dómsmrh. óskað eftir fjárveitingu í því skyni.

Í sjöunda lagi leggjum við til að hækka um 150 þús. kr. fjárveitingu til sjúkraflugvalla.

Flugvellir þessir skapa aukið öryggi fyrir strjálbýlið, og þarf að koma þeim upp sem víðast.

Í áttunda lagi leggjum við til að hækka framlag ríkissjóðs til iðnlánasjóðs úr 450 þús. kr. í 1 millj. kr. Ríkið leggur nú árlega allmikið fé til stofnlánadeilda landbúnaðar og sjávarútvegs, en fjárráð iðnlánasjóðs eru enn allt of lítil, til þess að hann geti verið fullnægjandi stofnlánasjóður fyrir iðnaðinn. Fyrir þinginu liggja nú tvö frv. um eflingu iðnlánasjóðs, en þau verða sýnilega ekki afgreidd fyrir lokasamþykkt fjárlaga og því vafasamt, að þau geti tryggt sjóðnum mikið starfsfé á þessu ári, þótt að lögum yrðu. Teljum við því nauðsynlegt að veita sjóðnum nú þegar einhverja úrlausn og væntum þess, að till. þessi verði samþykkt, enda er hún í samræmi við ósk hæstv. iðnmrh. um fjárveitingu til sjóðsins á þessu ári. Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að ég veit ekki, hvort meiri hl. n. hefur endanlega tekið afstöðu til þessa máls í n. Það liggur þar fyrir erindi ráðh., en það hefur ekki verið sérstaklega borið þar upp til afgreiðslu.

Í níunda lagi leggjum við til, að fjárhæð sú, sem meiri hl. n. hefur lagt til að verja til Norðurárdalsbrúar í Skagafirði, verði í þess stað lögð til brúar á Hjaltadalsá í sama héraði. Er þetta eina brtt. okkar um skiptingu fjár til verklegra framkvæmda. Ástæða þessarar till. er sú, að nægilegt fé er þegar lagt til hliðar til að byggja brúna á Norðurá á þeim stað, þar sem eðlilegast er að byggja hana og bæði núverandi og fyrrverandi vegamálastjóri og yfirverkfræðingur brúargerða hafa lagt til að hún væri staðsett. Teljum við ósæmandi með öllu að fara þannig með ríkisfé sem lagt er til í þessu sambandi af meiri hl. nefndarinnar.

Ég skal í þessu sambandi taka það fram, svo að það liti ekki út sem sérstök ásökun gegn meiri hl. n., að það mun hafa verið skoðun hennar, að þar sem ákvörðun hafi verið tekin um það, að þessi brú yrði byggð á þeim stað, sem miklum mun dýrara er að byggja hana, þá hafi þeir litið svo á, að það væri ekki verkefni n. að hafa nánar afskipti af því máli. Ég verð hins vegar að líta svo á, að það hljóti á hverjum tíma að vera verkefni fjvn. að koma í veg fyrir fjárveitingar, sem ekki geti talizt nauðsynlegar, hvaða ákvarðanir sem af öðrum aðilum hafa verið teknar í því efni.

Væntanlega fær n. til meðferðar fyrir 3. umr. till. n. þeirrar, sem endurskoðað hefur l. um nýbýli og stofnlánadeildir Búnaðarbankans. Eru því lánamál þessara sjóða ekki tekin til athugunar við þessa umr., enda er tekið fram í nál. meiri hl., að um það verði gerðar till. fyrir lokaafgreiðslu fjárl.

Till. minni hl. n. leiða af sér 7 millj. 392 þús. kr. útgjaldahækkun á fjárlagafrv. Er það aðeins tæpt 1% af væntanlegum heildarútgjöldum ríkissjóðs árið 1957, að samþykktum þeim till., sem n. stendur öll að. Munu þetta vera langsamlega lægstu útgjaldatill., sem minni hl. fjvn. hefur til þessa lagt fram, og stingur mjög í stúf við vinnubrögð minni hl. n. undanfarin ár. Hefði því fjmrh. fremur átt að láta blað sitt fara viðurkenningarorðum um þessa mjög svo ábyrgu afstöðu okkar í n. heldur en að saka okkur um ábyrgðarleysi, þótt það þyki kannske vafasamur heiður að fá hrós frá því ágæta blaði.

Vafalaust hafa ýmsir búizt við mikilli stefnubreytingu á afgreiðslu fjárl. við tilkomu nýrra ráðamanna, sem mjög höfðu talað hávært um nauðsyn þess að gerbreyta um stefnu í fjármálum ríkisins sem á öðrum sviðum þjóðlífsins. Til þess að auðvelda þessa umbyltingu í fjármálastjórninni var kommúnistum fengin í hendur formennska n. í stað sjálfstæðismanns áður. Mæli ég þetta ekki að neinn leyti til lasts um okkar ágæta formann, sem að öllu leyti hefur staðið vel í sinni stöðu, en aðeins til þess að sýna, að þarna var fullkominn vilji fyrir hendi til þess að gefa tækifæri til þeirra róttæku breytinga, sem talað hafði verið um. Nýsköpun fjármálakerfisins hlaut því að vera á næsta leiti. Að vísu var fjárlagafrv. lagt fyrir þingið í svipuðu formi og áður, að því viðbættu, að útgjöld voru nú miklu hærri en nokkru sinni fyrr og öll gömlu skattafrv., sem framlengd hafa verið frá ári til árs, og einnig viðbótarskattar til ríkissjóðs frá síðasta þingi voru lögð fram í þingbyrjun. En allt var þetta gert með þeim fyrirvara, að hin varanlegu úrræði í efnahagsmálunum mundu væntanlega leiða til annarrar niðurstöðu.

Hinn nýi formaður fjvn. talaði af mikilli varfærni um þá stefnu, sem fylgt yrði við afgreiðslu fjárl., er hann talaði við 1. umr. fjárlagafrv. Hins vegar liggja fyrir mjög greinargóðar upplýsingar um það, hvernig núv. samstarfsflokkar hæstv. fjmrh. hafa litið á þá fjármálastefnu, sem hann hefur talið eina ljósa blettinn í efnahagskerfinn hingað til. Þessar upplýsingar er að finna í nál. minni hl. fjvn. við 2. umr. fjárl. fyrir árið 1950, en þeir hv. þm., sem þá skipuðu minni hl. n., eru nú báðir orðnir ráðh. og hafa því sérstaklega góða aðstöðu til þess að hafa áhrif á afgreiðslu fjárl. Í nál. þeirra Hannibals Valdimarssonar og Lúðvíks Jósefssonar segir m.a.:

„Þó að leitað sé með logandi ljósi, eru engar till. í sparnaðarátt finnanlegar í till. meiri hl. n. Með afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1966 verður því haldið trúlega áfram, aðeins með auknum hraða, á þeirri braut, sem mörkuð var með gengislækkuninni og farin hefur verið óslitið síðan. Vörðurnar við þann veg eru, eins og allir þekkja, bátagjaldeyrir, togaragjaldeyrir, vaxandi niðurgreiðslur, sístækkandi embættisbákn, aukinn milliliðagróði, ölmusustyrkir til atvinnulífsins, skattpíning einstaklinga, dýrtíðarflóð og margföldun ríkisútgjalda.“

Og enn segir í nál. þeirra félaga:

„Við undirritaðir getum ekki fallizt á, að fjárl. verði enn sem fyrr afgreidd í samræmi við þessa óheillastefnu, sem jafnvel sterkustu stuðningsmenn stjórnarinnar viðurkenna fyrir þjóðinni að sé að þrotum komin.“

Þótt ekki væri hægt að búast við mikilli stefnubreytingu hjá hæstv. fjmrh., sem jafnan hefur verið mjög ánægður með fjármálastjórn sína, mátti gera ráð fyrir, að þessir áhrifaríku samherjar hans mundu ekki vilja una því, að áfram væri fylgt óheillastefnu, sem þeir töldu vera að þrotum komna á s.l. ári og getur þá varla verið á marga fiska nú.

Nú hafa þessir skeleggu ádeilumenn á fjármálastjórn fyrri ára fengið sitt mikla tækifæri til þess að koma umbótatill. sínum á framfæri í ráðherranafni, og eftir að stjórnarliðið í fjvn. hefur nú farið höndum um fjárl. undir forustu flokksbróður nýsköpunarmannanna frá s.1. ári, tala staðreyndirnar sínu skýra máli. Skattpíning einstaklinga er nú meiri en nokkru sinni áður. Allir gömlu skattarnir hafa verið framlengdir, einnig skattarnir frá síðasta þingi og söluskatturinn, sem kommúnistar og raunar einnig Alþýðuflokksmenn hafa ekki átt nógu stór orð til að fordæma. Að auki var svo 250–300 millj. kr. bætt við skattabyrðina nú um síðustu áramót. Niðurgreiðslur eru nú hækkaðar um 26.5 millj. kr. og eru nú áætlaðar samtals 83.5 millj., eða hærri en nokkru sinni áður. Er þá ekki meðtalin niðurgreiðsla á olíuverði, sem mun nema milli 10 og 20 millj. kr. Embættisbáknið heldur áfram að stækka og kostnaður við það meira nú en nokkru sinni fyrr. Nýjar n. eru skipaðar svo að segja vikulega, og eitt aðaláhugamál stjórnarflokkanna er að koma gæðingum sínum í launaðar stöður hjá ríkinu. Öll vitum við, hvernig fór með ölmusustyrkina til atvinnulífsins, og fjárl. sjálf bera merki um baráttuna gegn dýrtíðinni í allt að 50 millj. kr. hækkun beinlínis vegna bjargráða ríkisstj. Og svo er loks baráttan gegn margföldun ríkisútgjalda, sem mun sennilega ljúka með þeim glæsilega árangri, að útgjöld ríkissjóðs verða yfir 800 millj. kr. í fyrstu fjárl. vinstri stjórnarinnar, eða 140–150 millj. kr. hærri en síðustu fjárl. fyrrverandi ríkisstj., sem átti að vera að koma öllu í þrot.

Hér er því sannarlega frækilegur sigur unninn. En þó er eftir sparnaðarþátturinn. Það þarf sennilega ekki skært ljós til að finna sparnaðartill. Í nál. hinna tveggja núverandi hæstv. ráðh. var kvartað yfir því, að sparnaðartill. þeirra á undanförnum árum hefðu allar verið felldar og því teldu þeir tilgangslaust að flytja slíkar till. Þó gerðu þeir heiðarlega tilraun með að leggja til að lækka fjárveitingu til samninga við önnur ríki og þátttöku í alþjóðaráðstefnum. Þær voru auðvitað felldar af hinu vonda stjórnarliði. En nú er hið gullna tækifæri komið. Nú er ekki lengur hætta á, að sparnaðartill. verði felldar fyrir þessum ágætu mönnum, því að naumast hefur fjmrh. á móti því að spara. En hvað gerist? Ekki ein einasta sparnaðartill., hversu sterkt ljós sem er notað við leitina, og fjárveitingin til alþjóðaráðstefna stendur ekki aðeins í stað, heldur er hún hækkuð mjög verulega, sennilega til þess að hægt sé að koma hinum nýju stjórnarherrum á sem flestar ráðstefnur, og enginn talar nú um að leggja niður sendiráð, þótt nú sé tækifæri til þess.

Niðurstaðan af tilkomu hinna nýju stjórnarherra er því sú, að áfram er haldið með enn meiri hraða en áður eftir þeirri stefnu, sem þeir í fyrra nefndu óheillastefnu, er væri að þrotum komin.

Stjórnarliðinu mun raunar vera ljóst, að þeim, sem lesið hafa og hlýtt á boðskap þess að undanförnu, þykir nokkuð skorta á nýju stefnuna, sem boðuð hafði verið. Er reynt að afsaka stjórnarliðið í nál. meiri hl. fjvn. með þeim ummælum, að maður, sem er að bjarga sér úr vagni, sem er á hraðri ferð, komist ekki hjá því að hlaupa fyrst í sömu átt og vagninn til þess að missa ekki fótanna. Öllu vandræðalegri afsökun er naumast hægt að bera fyrir sig og um leið varla hægt að lýsa skýrar vantrausti á vagnstjóranum, hæstv. fjmrh., eða ætlar hann kannske að stökkva af vagninum líka? Að öðru leyti getur svo þessi setning verið vei viðeigandi einkenni fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er svo aftur á móti látið óskýrt hjá meiri hl., af hverju þarf að hlaupa hraðar en vagninn stefndi. Eigi mun síður reynast torvelt að gera grein fyrir því, hvernig efnahagsráðstafanir ríkisstj. geta stuðlað að lækningu verðbólgunnar.

Að öðru leyti mun ég ekki í þessari ræðu minni ræða nánar nál. meiri hl., sem var útbýtt hér í fundarbyrjun, en það gefst ef til vill tækifæri til þess síðar.

Til þess að fjmrh. þyrfti ekki að sýna þjóðinni allt of mikla hækkun á fjárl., hefur hann að undanförnu neitað að taka inn í fjárl. aðstoðina við útflutningsframleiðsluna og skatta, sem á eru lagðir í því skyni. Verður þetta þó nú enn óeðlilegra en áður, því að nú eru tekjur til að standa straum af þessum útgjöldum allar teknar með sköttum og tollum, sem innheimtar eru jafnhliða sköttum og tollum til ríkissjóðs. Ríkið ákveður þessa fjárheimtu með löggjöf og annast ráðstöfun fjárins og því jafneðlilegt, að þessar tekjur og útgjöld séu tekin í fjárl., eins og margt annað, sem þar er.

Hin nýja stefna vinstri stjórnarinnar virðist fyrst og fremst í því fólgin, að þjóðin er nú skattlögð meir en nokkru sinni fyrr. Samkvæmt þeim lögum, sem þegar hafa verið sett um tekjuöflun, og horfum varðandi afgreiðslu fjárlaga má gera ráð fyrir, að þjóðin verði á þessu ári að greiða 1200–1300 millj. í sköttum og tollum til ríkisins. Má vissulega taka undir þau ummæli, að svo gegndarlaus skattlagning sé að þrotum komin.

Þar sem öll þessi mikla skattheimta er þegar bundin í lögum, liggur í rauninni ekki annað fyrir við afgreiðslu fjárlaga en að reyna að gera sér grein fyrir raunverulegum tekjum ríkissjóðs samkvæmt þessum lögum á yfirstandandi ári og reyna að hafa áhrif á það, að þessu mikla fé sé varið á sem skynsamlegastan hátt. Stefnan hefur þegar verið mörkuð af ríkisstj., og með fjárlagaákvæðum verður skattheimtan ekki minnkuð.

Ýmsar athuganir hafa á undanförnum árum verið gerðar á leiðum til sparnaðar í ríkisrekstrinum, en niðurstaðan hefur jafnan orðið sú, að ekki gæti orðið um neinn verulegan sparnað að ræða nema með endurskipulagningu eða með samdrætti þeirrar þjónustu, sem ríkið veitir þjóðfélagsborgurunum á ýmsum sviðum. Hvort hægt er að koma rekstri einstakra ríkisstofnana fyrir á hagkvæmari hátt, er svo að segja ógerlegt fyrir fjvn. að gera sér grein fyrir. Það er fjmrh. og ríkisstj., sem á hverjum tíma markar fjármálastefnuna, og eigi að breyta um stefnu, verður að breyta um þá forustu.

Sjálfstæðismenn hafa ætið lagt áherzlu á það, að fjárl. væru afgreidd greiðsluhallalaust, og sú stefna flokksins hefur ekkert breytzt, þótt hann sé nú í stjórnarandstöðu. Við teljum, að fjárlög eigi að afgreiða eftir þeirri meginstefnu, að efldar séu eftir megni verklegar, andlegar og félagslegar framfarir í landinu innan þess ramma, sem gjaldgeta borgaranna leyfir. Á árunum eftir 1950 var hægt að draga verulega úr skattaálögum, þótt auknu fé væri varið til þjóðnytjamála, vegna aukins jafnvægis í fjármálakerfi þjóðarinnar. Árið 1955 var blað brotið í þeirri þróunarsögu, eins og hæstv. fjmrh. hefur réttilega lýst, áður en hann komst í það samfélag, sem hann nú er í. Afleiðingin varð sú, að á s.l. ári varð að hverfa frá skattalækkunarstefnunni og leggja háa nýja skatta á þjóðina, og nú verður að ganga enn þá lengra á þeirri braut. Skattheimtan er nú tvímælalaust komin út fyrir þann ramma, sem gjaldgeta borgaranna leyfir, og mikil hætta á stöðnun ýmiss konar nauðsynlegra framkvæmda í þjóðfélaginu. Þeir menn hafa nú verið leiddir til æðstu valda við hlið hæstv. fjmrh., sem komu þessari óheillaskriðu nýrrar dýrtíðar og vandræða af stað. Vantraust þjóðarinnar á hæstv. núverandi ríkisstj. er svo mikið, að engar horfur eru á því, að henni takist að ná aftur því fjármálalega jafnvægi, sem var komið á fyrir 1955, enda verður ekki séð, að ríkisstj. hafi neina tilburði í þá átt. Það áhrifaríkasta, sem stj. gæti gert til úrbóta á þessu sviði sem mörgum öðrum, væri að leggja sem skjótast niður völd.