18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 869 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

1. mál, fjárlög 1957

Frsm. meiri hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Þær umr., sem hér hafa orðið, eftir að framsögu fyrir hönd meiri hl. fjvn. lauk, gefa ekki tilefni til langra svarræðna, enda mun ég verða stuttorður.

Ég gat þess, þegar ég hélt mína framsöguræðu, að þá hefði mér ekki unnizt tími til að fara yfir nál. minni hl. fjvn., enda hafði því rétt í sömu svifum verið útbýtt hér á fundi og framsaga hófst. Ég hef litið yfir það nú, enda hlýtt á framsöguræðu formælanda minni hl., og hef aðeins örfáar athugasemdir þar við að gera.

Það er í fyrsta lagi, þar sem kvartað er undan því í nál. minni hl., að minni hl. nefndarinnar, þ.e.a.s. þeir fulltrúar sjálfstæðismanna, hafi ekki haft nægilega góða aðstöðu í nefndinni til þess að fylgjast með og taka þátt í afgreiðslu mála. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, í nál.:

„Það hefur valdið minni hluta nefndarinnar allmiklum erfiðleikum, að sú vinnuaðferð hefur verið höfð í nefndinni í þetta sinn að bera engin erindi upp til atkvgr. fyrr en daginn áður en minni hluta nefndarinnar var ætlað að skila till. sínum, að undanskildum ákvörðunum um skiptingu fjárveitinga til verklegra framkvæmda.“

Að svo miklu leyti sem hér kann að vera rangt að farið, þá verð ég að sjálfsögðu að taka þær sakir á mig sem formann í nefndinni, en mér er tjáð, að hér hafi ekki verið að farið með neitt öðrum hætti en tíðkazt hefur í vinnubrögðum nefndarinnar að undanförnu. Það var að sjálfsögðu orðið við öllum þeim beiðnum frá hv. fulltrúum Sjálfstfl. í nefndinni um frest á atkvgr., sem fram komu. Hitt mun ekki vera nýtt, að minni hl. n. hafi minni möguleika til þess að fylgjast með því, sem í samráði við ríkisstj. er athugað í sambandi við afgreiðslu þeirra mála, sem fjárlög varða.

Þá skal ég taka það sérstaklega fram í þessu sambandi, að máske er hér átt við það, að atkvgr. um einstakar málaleitanir til nefndarinnar mun oft hafa verið skipt í tvennt og ekki greitt atkv. um þær á einum og sama fundinum, en að hér hafi verið lengri atkvgr. og fleiri mál tekin fyrir í einu en stundum áður. Vænti ég, að hv. minni hl. hafi ekki ástæðu til þess að halda því fram, að af ásetningi hafi störf hans í nefndinni verið torvelduð.

Ég skal geta þess, að sá háttur var aðallega á hafður um afgreiðslu mála, að öllum nefndarmönnum, jafnt minnihlutamönnum sem þeim, sem styðja ríkisstj., var úthlutað skrá yfir meginþorra þeirra erinda, sem til afgreiðslu komu, en með því að erindin voru að berast sí og æ, urðu þessar skrár allmargar, því að það var bætt við, eftir að sú fyrsta var gerð, og fengu hv. fulltrúar Sjálfstfl. þær nákvæmlega jafnsnemma í hendur og aðrir nefndarmenn og áttu þess því kost að taka afstöðu til þeirra erinda, sem fyrir lágu.

Þá þykir mér ekki fullkomlega rétt með farið í nál., þar sem sagt er frá afstöðu þeirra fulltrúa Sjálfstfl., sem hafa gefið út þetta minnihlutaálit, til fjárveitinganna í hinar svokölluðu verklegu framkvæmdir, þ.e.a.s. í vegi, brýr, hafnir og skóla. Í nál. þeirra segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við lögðum til í nefndinni, að í stað lækkunar yrðu þessar fjárveitingar hækkaðar að meðaltali um 20% frá fjárlögum s.l. árs, og væri þó raunar ekki gert meira en að halda í horfinu um framkvæmdir. Sú till. okkar var felld í nefndinni.“

Hér er ekki alls kostar rétt frá skýrt. Það er rétt, að fulltrúar sjálfstæðismanna í nefndinni gerðu till. um það, að fjárveitingar þær, sem hér um ræðir, yrðu yfirleitt hækkaðar um 20%, en þar var ekki um að ræða neina endanlega afgreiðslu málsins, heldur var það á því stigi, að nefndin var að gera till. um skiptingarupphæðir fyrir viðkomandi yfirmenn þeirra stofnana, sem hafa yfir þessari gerð mannvirkja að segja, þ.e.a.s. vitamálastjóra og vegamálastjóra, — nefndin var eingöngu að gera till. um fjárupphæðir til þess að biðja þessa aðila að gera skiptingartill. um. Það var, vænti ég, öllum nefndarmönnum ljóst, að þar var ekki verið að taka ákvörðun um endanlegar fjárveitingar í þessu skyni, og það var ekki að till. sjálfstæðismanna, sem þær breytingar urðu á brúm, höfnum og skólum, sem raun ber vitni um. Það var ekki að þeirra till., sem hækkanir til þessara framkvæmda urðu það miklar, að þær nema meiru en sjálfstæðismenn lögðu til. Hitt er rétt hjá þeim, að varðandi vegina hefur ekki verið framkvæmd þeirra till., og hafa þeir enda gert sjálfir till. um skiptingu, sem byggð er á allt annarri fjárveitingu og hærri til nýbyggingar þjóðvega heldur en gert er ráð fyrir í þeim till., sem nefndin stendur öll að.

En þó finnst mér kannske hvað mestur ágalli á því, sem þeir segja í sínu nál. um tillögur um breytingu á heimildagrein fjárlaga varðandi möguleikana á því að breyta framlögðum lánum ríkissjóðs í óafturkræf framlög. Þar segir í nál., með leyfi forseta:

„Þá lögðum við til í nefndinni, að sjóðum Búnaðarbankans yrðu veitt sem óafturkræf framlög fleiri lán ríkissjóðs en lagt var til í frv. Var sú till. samþ. í nefndinni.“

Hér er ekki rétt frá skýrt. Það er rétt, að þeir eða nánar tiltekið hv. þm. Borgf. lagði fram í n, tillögu um að auka við þá heimild, sem í frv. er. Hans till. var hins vegar ekki samþ. í nefndinni. Með sömu dagsetningu og hans till. kom frá ríkisstj. tillaga, sem var í nokkru frábrugðin og gekk ekki eins langt og hv. þm. Borgf. vildi gera. Hún var samþ. í nefndinni, en ekki sú till., sem hv. þm. Borgf. lagði fram, enda var þar gengið skrefi lengra en í þeim till., sem hér liggja fyrir. Þær till., sem n. gerir ráð fyrir að samþykktar verði og mælir með, miða eingöngu við það að breyta framlögum ríkissjóðs sjálfs, bæði af tekjuafgangi og sérstökum framlögum til stofnlána, en í hans till. var a.m.k. einn liður, þar sem lagt var til, að láni, sem ríkissjóður hafði tekið til framlags í þessu skyni, yrði einnig breytt í óafturkræft lán, svo að hér er þörf leiðréttingar á.

Þeir hv. minnihlutamenn í fjvn. hafa gert till. um að fella niður framlag til brúargerðar á Norðurá í Skagafirði, en að það framlag verði veitt til annarrar brúar þar í héraði, og má telja, að frá þeirra sjónarmiði sé sú brtt. á rökum reist. Þeir, sem meiri hl. fjvn. skipa, hafa hins vegar litið svo á um brú, sem búið er að ákveða að byggja og ráðuneytið hefur gengið frá öllum skilríkjum um að byggð skuli, að það sé varhugavert fyrir fjvn. sem slíka að taka afstöðu til þess og ganga gegn slíkum úrskurðum. En hitt veldur ekki deilum, að ef brúin á að byggjast, svo sem ákveðið virðist vera, á þeim stað, sem úrskurður rn. tekur til, þá sé framlag í hana óhjákvæmilegt. Eru till. n. á því byggðar.

Í framsögu sinni gat hv. frsm. minni hl. þess, að skattabyrðar á þjóðinni væru enn auknar, og telur, að þar sé um að ræða súra bita fyrir þá, sem gáfu út minnihlutanál. á s.l. vetri, þegar fjárlög voru til afgreiðslu. Það má rétt vera, og vissulega skal það af minni hálfu viðurkennt, að það er enginn gleðiboðskapur að standa að aukinni skattlagningu. Hitt skiptir verulegu máli, hverjir aðilar eru látnir gjalda meginþungann af þeim sköttum, sem á eru lagðir. Og um þær umkvartanir, sem frá mér og mínum flokksbræðrum hafa að undanförnu komið fram varðandi nýjar skattaálögur, skal það sérstaklega tekið fram, að þeim var fyrst og fremst mótmælt á þeim grundveili, að þær legðust á alþýðu manna af fullum þunga, allt eins þá, sem litlu hafa úr að spila, eins og hina, sem gnægð hafa fjár. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að þær skattálögur, sem gerðar hafa verið af núverandi ríkisstj., leggist fyrst og fremst á þá aðila þjóðfélagsins, sem hafa nægilega breitt bakið til þess að bera þær, og vil ég gera þar á skilsmun verulegan og þeim sköttum, sem voru lagðir á ríka sem fátæka af fyrrv. ríkisstjórn.

Hv. frsm. minni hl. varð alltíðrætt um það, að mikið af þeim hækkunum, sem nú eru lagðar til í afgreiðslu fjárlaga, stafi af þeirri óheillaskriðu, sem mínir flokksmenn, sem hann beindi máli sínu til, hafi komið af stað.

Ég vil taka sérstaklega fram í tilefni af þessum ummælum, að að svo miklu leyti sem þær hækkanir, sem nú eru lagðar til, stafa af kauphækkunum, því að það skildist mér að hv. frsm. minni hl. ætti við, þá er það fyrst og fremst af þeim kauphækkunum, sem ákveðnar voru af honum og hans flokksmönnum og stuðningsmönnum fyrrverandi ríkisstj. með breytingu þeirri, sem gerð var á launalögum á s.l. ári. Þar er því ekki um að ræða þær kaupbreytingar, sem hann gæti fyrst og fremst talið mig og mína flokksmenn ábyrga fyrir og voru allt annars eðlis, kauphækkanir til almenns verkafólks. En síðar voru samþykktar með lögum miklum man stórkostlegri hækkanir á launagreiðslum til opinberra starfsmanna og þá fyrst og fremst til þeirra opinberu starfmannanna, sem hæst höfðu launin fyrir. Að tilhlutun minna flokksmanna voru hér uppi tillögur um að hafa þær hækkanir að því er varðar hæst launuðu ríkisstarfsmennina miklum mun lægri en samþ. var, svo að í stað þess að beina geiri sínum gegn okkur Alþýðubandalagsmönnum væri hv. frsm. minni hl. í rauninni nær að líta á það, með hverjum hætti launalögin voru afgreidd á s.l. þingi, og þá mundi hann komast að raun um það, að þeir, sem valda fyrst og fremst því að hækka fjárlögin vegna launahækkana hjá opinberum starfsmönnum, eru stuðningsmenn fyrrv. ríkisstjórnar, og þar var sá góði frsm. að sjálfsögðu engin undantekning sjálfur.

Þá verð ég aðeins, þótt hæstv. fjmrh. sé nú búinn að víkja að því atriði, að koma að því, að hv. frsm. minni hl. hefur mjög kvartað undan því, að engar upplýsingar hafi legið fyrir um rekstrarafkomu ríkissjóðs á s.l. ári. Það er rétt hjá honum, að þeir, hann og hans flokksmenn í nefndinni, hafa beðið um upplýsingar varðandi þetta atriði, og ég hef spurzt fyrir um þær í stjórnarráðinu fyrir nefndarinnar hönd, en eins og fjmrh. upplýsti hér, þá liggja þær ekki fyrir. Hins vegar er það alrangt, að þeir hafi engar upplýsingar um tekjur eða afkomu ríkissjóðs á s.l. ári, því að frammi hafa legið í n. upplýsingar og hefur hv. frsm. vitað um það og átt þess fullan kost að kynna sér þær — um tekjur og gjöld ríkissjóðs allt til mánaðamótanna nóvember-desember, svo að það getur á engan hátt talizt rétthermi, að ekkert liggi fyrir um tekjur og gjöld ríkissjóðs á s.l. ári.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar en orðið er um þær brtt, sem hér liggja fyrir, nema sérstakt tilefni gefist.