18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

1. mál, fjárlög 1957

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja nokkrar brtt. á þskj. 262 ásamt 2. þm. Árn. (SÓÓ), sem ég skal lýsa hér í örfáum orðum.

Það er í fyrsta lagi við 13. gr. A. III, að fyrir 100 þús. kr. komi 200 þús. kr. við Botnsá í Mjóafirði. Að við flytjum þessa till., kemur af því, að hv. þm. N-Ísf. (SB) er nú fjarstaddur og getur þess vegna ekki gætt hagsmuna síns kjördæmis í þessu máli. Þessi brú á Botnsá er á veginum, sem liggur frá Ísafjarðardjúpi og áleiðis til Ísafjarðar. Það er allmikið eftir af þeim vegi, en þó er búið að ryðja veginn úr botni Ísafjarðar og yfir að botni í Mjóafirði, en þetta er sú brú, sem við er átt, og vegurinn er orðinn fær þessa leið, nema hvað eftir er að bera ofan í lítils háttar næst brúnni. Síðan er búið að ryðja veginn fyrir botni fjarðarins yfir að Heydal og nokkuð áleiðis út með firðinum í áttina til Ögurs. Það er vitanlega bráðnauðsynlegt, um leið og þessum vegi er haldið áfram, að brúa stærstu árnar á leiðinni.

Það er að vísu gert ráð fyrir, að þessi brú, sem þarna er, kosti meira fé en hér er farið fram á, og hv. þm. N-Ísf. mun hafa farið fram á, að til hennar væri veitt á þessu ári 450 þús., en það hefur ekki tekizt að fá hv. fjvn. til að fallast á það. En það er skoðun okkar, að minnsta fé, sem að gagni muni koma í ár, sé að veita til þess 200 þús. Það mun áður hafa verið boðið að leggja nokkurt fé að láni, til þess að þessi brú fengist lögð, og ég hygg, að það væru líkur til þess nú, ef 200 þús. kr. fengjust í brúna á Botnsá, að það fé, sem til vantar, þannig að hægt væri að ljúka brúnni, mundi fást lánað, og þá væri það nokkuð nær þeim áfanga, sem á þó nokkuð langt í land og of langt með þeim fjárveitingum, sem fengizt hafa undanfarið, að Djúpið komist í samband við Ísafjörð sunnan megin.

Þá er önnur till. frá okkur um, að fyrir 100 þús. kr. til bryggju í Bolungavík eða hafnarinnar þar komi 200 þús. Þetta er eitthvert þróttmesta byggðarlagið við Djúp. Þeim, sem þar ráða fyrir, hefur tekizt með frábærum dugnaði að byggja upp atvinnulífið og halda í horfinu, þannig að þar hefur ekki fækkað, heldur hygg ég, að þar fari heldur fjölgandi, og þeir hafa átt við mjög mikla örðugleika að stríða, eins og hv. þingheimi er kunnugt, með hafnarbætur hjá sér. Það er ákaflega erfitt þar með hafnarbætur, og því miður .hefur stundum tekizt svo til, að ekki hafa verið nógu sterkbyggðar þær aðgerðir, sem gerðar hafa verið þarna, og þess vegna hefur hvað eftir annað komið fyrir í stórviðrum, að brjóturinn hefur skemmzt. Nú er sem betur fer þau gleðitíðindi að segja af brjótnum, að nú hafa engar skemmdir á honum orðið, síðan síðast var við hann unnið. Það hefur verið unnið við hann núna á síðustu árum af mönnum, sem kunnugir hafa verið þarna vestra og vita, hvað mikið er í húfi, að verkið sé vandað svo sem verða má, og sem betur fer virðist það hafa dugað nú, og það hafa engar skemmdir á honum orðið, síðan síðast var við hann gert.

En það, sem veldur því, að nú er farið fram á fjárveitingu til brjótsins, er það, að skipin, sem þeir nota til fiskveiða þarna í Bolungavík, eru að stækka, eða þeir eru að fá sér stærri skip en áður var til þess að fylgjast með tímanum, og þá geta þau ekki athafnað sig þarna, nema eitthvað sé enn þá frekar úr bætt en hingað til hefur verið gert. Hins vegar hefur reynslan sýnt það þarna í Bolungavík, að það þýðir ekki að vera með smáaðgerðir, það þarf að hafa nokkuð stórt í takinu og tryggja sérstaklega, að það, sem gert er hverju sinni, sé fullgert. Það er ekki hægt að byrja smátt, og því hygg ég, að það komi ekki að neinu gagni í svipinn minni fjárhæð en 200 þús. kr.

Þá er í þriðja lagi við 13. gr. C. IX. til ferjuhafnar í Bæjum á Snæfjallaströnd. Snæfjallahreppur er einn fámennasti hreppurinn, sem enn er í byggð í Norður-Ísafjarðarsýslu, og þetta er sú eina samgöngubót, sem þar er nú og gerir færar samgöngur eða bætir úr samgöngum við umheiminn. Því er nauðsynlegt, að þessi ferjubryggja á Bæjum sé í lagi, þannig að Djúpbáturinn geti við hana lagzt.

Nú í vestanveðrinu, sem gekk yfir Vestfirði um daginn, urðu skemmdir á þessari bryggju, og hreppurinn er, eins og ég .sagði áðan, hinn fámennasti, sem enn er í byggð í Norður-Ísafjarðarsýslu, og það er algerlega um megn þeim, sem þar búa, að kosta viðgerð á bryggjunni af eigin rammleik. Hins vegar er nokkur framfarahugur í þeim, sem þarna búa. Þeir eru að rækta landið og búa sig undir að halda áfram að búa þarna, og ég álít, að það sé mikilsvert að létta undir með þeim, þannig að þeir vegna samgönguleysis þurfi ekki að hreikjast þaðan í burt.

Þá hafði ég ásamt hv. 8. landsk. (BjörnJ) og hv. 4. landsk. (GeirG) leyft mér að flytja hér brtt. við 22. gr., en hún er því miður ekki komin úr prentun, og munum við því leggja hana fram við 3. umr. Það er í henni falið, að heimilt sé að hækka ábyrgð ríkissjóðs úr 60 í 80% til þeirra stóru fiskiðjuvera, sem nú er verið að byggja á nokkrum stöðum á landinu. Það eru fjögur fiskiðjuver, sem við eigum hér við, þ.e. fiskiðjuverið í Hafnarfirði, á Ísafirði, á Akureyri og Seyðisfirði.

Þetta eru mjög stór fiskiðjuver, og það er öllum kunnugt, að a.m.k. á Ísafirði og ég hygg á Seyðisfirði og á Akureyri líka a.m.k. er algerlega um megn þeim bæjarfélögum eða íbúum þeirra að leggja fram þau 40%, sem ríkisvaldið gerir ráð fyrir að lögð séu fram. Þessi fiskiðjuver munu kosta yfir 10 millj. hvert. Munu nú þegar vera komnar í þau hvert yfir 8 millj., og a.m.k. á sumum stöðunum mun láta nærri, að fullnotuð sé þessi 60% ríkisábyrgðarheimild, sem veitt er nú í lögum.

Við erum því sammála, að hækkuð sé úr 20 millj. í 50 millj. sú fjárhæð, sem ætluð er til þessara ábyrgða, en teljum, að það muni ekki koma að notum, nema einnig fáist hækkuð ábyrgðarheimildin úr 60% í 80%. Það hefði að vísu verið hugsanlegt, að bæta hefði mátt úr þessu að nokkru leyti með því að hækka atvinnubótafé, en ég geri ekki ráð fyrir, og það er a.m.k. ekki gert ráð fyrir því enn þá í fjárlagafrv., að það verði hækkað svo mikið, að til mála komi, að sú upphæð, sem þarna hlýtur að vanta, til þess að hægt sé að fullgera þessi hús, fáist þar.

Hins vegar er það svo með þessi hús, að þau eru núna að vísu komin alllangt áleiðis, en þó ekki komin í notkun, og svona eins og þau eru núna, þá munu þau kosta milli 4 og 5 þús. kr. á dag án þess að vera að nokkru gagni, og ekki einasta er það blóðugt fyrir okkur, sem megum horfa upp á þessi hús svona, heldur er það frá þjóðhagslegu sjónarmiði líka alveg fráleitt að reyna ekki að stuðla að því, að þau komist í gagnið.