18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

1. mál, fjárlög 1957

Eiríkur Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 261 brtt. við 22. gr. fjárlaga um að greiða allt að 500 þús. kr. úr ríkissjóði af stofnframlögum til héraðsskóla fyrir þau sýslufélög, sem vegna erfiðs fjárhags geta ekki staðið undir framlögunum af eigin rammleik,

Eins og kunnugt er, ætlast lögin um héraðs og gagnfræðaskóla til þess, að sýslufélag eða sýslufélög, sem standa að þeim, leggi fram 1/4 af stofnkostnaði þeirra. Þessir skólar eru nú ekki lengur fremur skólar unglinga úr þeim sýslum, sem þeir eru staðsettir í, en unglinga frá öðrum sýslum eða bæjum. T.d. er nú —70% af nemendum Núpsskóla frá Reykjavík. Á bak við þennan skóla standa 6 fátæk hreppsfélög, en verið er að reisa þar mannvirki, sem búast má við að kosti allt að 18–20 hundruð þús. kr. Er því hlutur þessara hreppa ákveðinn 450–500 þús. kr., en þessi upphæð er hreppunum algerlega ofviða. Það er því eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun hér á hinu háa Alþ., að hlaupið verði undir bagga með þeim, sem erfiðasta eiga aðstöðu í þessu efni, og ekki sízt ástæða til að miða þá aðstoð við þá skóla, sem veita utanhéraðsnemendum meiri fræðslu en þeim, sem búa í þeim héruðum eða sýslum, sem ein standa straum af stofnkostnaði þeirra á móti ríkinu. Það er því trú mín, að hv. alþm. veiti þessari brtt. minni stuðning með atkv. sínum við afgreiðslu fjárl., þegar hún fer fram.

Ég geri ráð fyrir því, að ég taki till. aftur við þessa umr. til 3., svo að fjvn. gefist þá kostur á að athuga hana, og ég vonast eftir, að hún sjái fært að mæla með henni, því að ég tel, að öll rök hnígi að því, að eitthvað þurfi að gera í þessum tilfellum.