18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (906)

1. mál, fjárlög 1957

Ágúst Þorvaldason:

Herra forseti. Ég ætla að lýsa hér tveimur brtt., sem við hv. 2. þm. Árn. flytjum hér.

Þegar við fórum fram á það við hv. fjvn. að taka upp í till. sínar brú á Laxá hjá Auðsholti í Árnessýslu, varð okkur á sú vangá að gera ráð fyrir 200 þús. kr. fjárveitingu í stað 300 þús., sem var eiginlega okkar hugsun. Brú þessi er áætlað að muni kosta 1/2 milljón. Brúin er mjög þýðingarmikil fyrir hóp bænda, sem eru innikróaðir milli stórvatnsfalla og verða að flytja allt að sér og frá á ferju yfir Hvítá í Biskupstungum. Ætlun okkar var að óska eftir 300 þús. kr. fjárveitingu, svo að hægt væri ef til vill að byrja á brúarsmíðinni, ef það sýndist fært. Þess vegna flytjum við brtt. III á þskj. 261.

Þá flytjum við hv. 2. þm. Árn. brtt. VIII á þskj. 261, um holræsagerð í Þorlákshöfn. Hún er borin fram sökum þess, að í Þorlákshöfn eru sérstakir erfiðleikar á holræsagerð. Landslagi er þar svo farið, þar sem þorpið stendur, að klöpp er þar undirstaða, og má heita, að enginn jarðvegur hylji hana. Verður því að sprengja þar fyrir öllum æðum, sem í jörð eru lagðar. Er því holræsagerð þar mjög erfið og dýr, en hins vegar íbúar fáir enn, en þorpið er í vexti og hlýtur að eiga sér mikla framtíð vegna góðrar legu sinnar við hin nálægu og fengsælu fiskimið. Er fyrirsjáanlegt, að hin nauðsynlega framkvæmd holræsagerðar á staðnum verður ekki framkvæmd, ef ekki fæst til þess stuðningur frá því opinbera. Er illt til þess að vita, að staðir, sem hafa mikla framtíðarmöguleika og bjóða upp á góð atvinnuskilyrði og mikla öflun tekna fyrir þjóðarbúið, fá ekki þá aðhlynningu þjóðfélagsins, sem þeim er nauðsynleg, meðan þau eru í uppbyggingu. Vænti ég því, að þessari till. okkar verði tekið með sanngirni, eins og málavextir eru og ég hef lýst.