18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

1. mál, fjárlög 1957

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. 1. þm. Rang. og hv. samþingismanni mínum brtt. á þskj. 261 um 500 þús. kr. fjárveitingu til fjórðungssjúkrahúss á Suðurlandi. Erindi þess efnis hefur legið fyrir hv. fjvn., og vegna þess að n. hefur ekki tekið þessa fjárbeiðni upp í brtt. sínar á þskj. 252, flytjum við þessa brtt. En nú hefur verið upplýst af framsögumönnum hv. fjvn. í umr. hér í kvöld, að hún hafi frestað að taka ákvarðanir um úthlutun fjár til sjúkrahúsa, frestað því til 3. umr. málsins. Vænti ég því, að ekki sé vonlaust um, að n. taki þessa till. þá upp í till. sínar, og í því trausti mun ég taka þessa till. aftur til 3. umr., þegar þar að kemur, og mun ég ekki fjölyrða um málið á þessu stigi. Aðeins vil ég geta þess, að undanfarin ár hefur að tilhlutan sýslunefndar Árnessýslu verið unnið að undirbúningi að byggingu sjúkrahúss á Suðurlandsundirlendinu. Er undirbúningnum nú þar komið, að ákveðið hefur verið að byggja sjúkrahúsið á Selfossi. Það á að rúma 30–40 sjúkrarúm og vera byggt þannig, að stækkun sé auðveld síðar. Teikning hefur verið gerð og samþykkt af húsameistara ríkisins og heilbrmrh. Unnið hefur verið að fjáröflun í héraðinn til sjúkrahúsbyggingarinnar. Hafa allir hreppar sýslunnar lofað nokkru framlagi. Þá hafa mörg félög og félagasambönd í sýslunni beitt sér fyrir fjársöfnun innan sinna vébanda, svo að nú mun vera nokkurt fé fyrir hendi til byrjunarframkvæmda, þó að það nægi hvergi nærri til að ljúka þeim áfanga, sem nauðsynlegt er að gera í byrjun.

Ég vil svo endurtaka það, að við flm. þessarar till. væntum þess, að hv. fjvn. taki hana til vinsamlegrar athugunar fyrir 3. umr. fjárlagafrv. og taki hana þá upp í sínar till.

Þá flyt ég ásamt hv. samþingismanni mínum brtt. á þskj. 261 um hækkun á styrk til tónlistarskólans á Selfossi, en þessi skóli er starfræktur af Tónlistarfélagi Árnessýslu. Skólinn hefur verið rekinn í 2 ár og nýtur nú þegar mikilla vinsælda. Fastur kennari er við skólann og 2 aukakennarar. Nemendur eru nú um 60, víða komnir að úr héraðinu, og er hann því með fjölmennustu skólum þessarar tegundar á landi hér. Styrkur frá ríki til skólans var á s.l. ári 10 þús. kr., og er sú upphæð óbreytt í fjárlagafrv. Við förum fram á, að styrkurinn verði hækkaður í 20 þús. kr., í þessari brtt. okkar. Skólanefnd skólans hafði sent fjvn. erindi og farið fram á 30 þús. kr. styrk. Þessi hækkunarbeiðni getur ekki talizt ósanngjörn, miðað við aðra slíka skóla. T.d. fær Akureyri 40 þús. kr. í þessu skyni, Ísafjörður 20 þús. og mun vera álíka fjölmennur og Selfossskóli. Siglufjörður og Vestmannaeyjar fá 15 þús. kr. hvor. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að íbúar á Selfossi eru nú hálft fimmtánda hundrað, en í sýslunni allri, sem að skólanum stendur, nokkuð á 7. þús. manns. Skólinn naut á s.l. ári 20 þús. kr. styrks frá Selfosshreppi og sömu upphæðar úr sýslusjóði.

Ég vil svo vænta, að þessari till. verði vinsamlega tekið og hv. þm. sjái sér fært að samþykkja hana.