18.02.1957
Sameinað þing: 34. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

1. mál, fjárlög 1957

Pétur Pétursson:

Herra forseti. Hv. þm. Snæf. (SÁ) og ég flytjum nokkrar brtt. á þskj. 262, og er það sérstaklega ein, sem ég ætla að fara fáeinum orðum um, undir I. Þar er um að ræða Hellissandsveg eða Ennisveg, sem við leggjum til að sé tekinn upp í fjárl. nú með 400 þús. kr. fjárveitingu.

Í fyrra var þessi vegur tekinn í fyrsta sinn inn á fjárl., og þá var gert ráð fyrir 100 þús. kr. í þennan veg. Vegamálastjóri gerði ekki ráð fyrir, að nein fjárveiting væri látin í þennan veg að þessu sinni í till. sínum til fjvn., og rök hans fyrir því voru þau, að af því vegafé, sem ætlað væri í sýsluna, væri ekki hægt að taka nema þá svo litla upphæð, að það kæmi ekki að neinum notum við það verk, sem þarna þarf að vinna.

Eins og þeir vita, sem þarna þekkja til, þá er um það að ræða að tengja saman tvö kauptún, Hellissand og Ólafsvík, með veg utan í Enni, sem er ekki langur, um 7 km á milli kauptúnanna, og sjálfur fjallvegurinn eitthvað rúmlega kílómetri, en erfiður og dýr vegur og verður ekki tekinn nema í að mestu einum áfanga vegna þess, hvernig ástatt er þarna nú, því að það er reynt að klöngrast á milli þorpanna niðri í fjörunni. En um leið og byrjað er á vegi, er auðvitað lokuð sú leið eftir fjörunni, og þar með eru þessi tvö kauptún sambandslaus. Þó er hægt að byrja að utanverðu og reyndar Ólafsvíkurmegin líka að nokkru, en vegamálastjórinn telur alveg ómögulegt að byrja, nema fyrir liggi fjárhæð, sem væri hálf til ein milljón.

Það er vitað mál, að sparisjóðir bæði í Ólafsvík og Hellissandi mundu eitthvað hjálpa til við þetta mál, ef einhver fjárveiting fengist inn á þennan lið.

Nauðsynin á því að tengja þessi tvö kauptún saman er auðvitað öllum augljós. Það er sami héraðslæknir í Ólafsvík og Hellissandi, og það eitt út af fyrir sig gerir mjög eðlilegt, að reynt sé eitthvað að hjálpa til að koma sambandi á á milli kauptúnanna. Það er 40–50 km leið að fara í kringum Jökul frá Ólafsvík út á Hellissand, og er þess vegna mjög nauðsynlegt fyrir það fólk, sem býr á Hellissandi, að þessi vegur komist á.

Vegamálastjóri hefur athugað þrjár leiðir, sem um væri að ræða, og hann hefur ákveðið, að svo kölluð miðleið skuli valin, en þar er grjóthrun lítið og ætti að geta verið vel fær vegur þess vegna, og ætti að geta verið vegur, sem er fær allan ársins hring.

Leiðin á milli þessara tveggja staða er, eins og ég sagði áðan, algerlega ófær yfir vetrartímann og reyndar illfær yfir sumarið líka, en nauðsyn að koma þessu á, sér í lagi þar sem hefur áður verið veitt byrjunarfjárhæð til þess að hefja þessar framkvæmdir, sem ekki er hægt að nota, ef ekki er tekið ofur litið rösklegar á en hefur verið gert, hvað þá ef ekkert er, eins og vegamálastjóri hefur lagt til og fjvn. fallizt á. Sjá allir menn, að það er bráðnauðsynlegt að koma einhverju þarna ofur lítið lengra áfram.

Um þær aðrar brtt., sem ég er meðflutningsmaður að hér, hygg ég að hv. þm. Snæf. muni tala nánar, en þessi sérstaka leið er mjög mikið áhugamál fyrir það fólk, sem býr á utanverðu Snæfellsnesi; og miðað við sumt annað, sem hv. fjvn. hefur séð ástæðu til að taka til meðferðar við undirbúning á fjárl. núna, þá hygg ég, að það væri ekki óeðlilegt, þó að hún liti þarna út á Snæfellsnesið svona af og til.