25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

1. mál, fjárlög 1957

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjvn. hefur gert hér grein fyrir þeim till., sem n. flytur sameiginlega á þskj. 284. Ég sé því ekki ástæðu til þess að gera þær till. sérstaklega að umtalsefni.

Nefndin hefur fallizt á að taka inn í till. sínar að einhverju eða öllu leyti nokkrar af þeim till., sem fram komu víð 2. umr. frv. og teknar voru þá aftur. Auk þess hafa verið afgreidd frá n. þau mál, sem þá var lýst yfir að væru aðalmálin af þeim, sem biðu til 3. umr., en það var fyrst og fremst aukið framlag til landbúnaðarins, framlag til atvinnuaukningar og til raforkumála auk framlaga til sjúkrahúsabygginga, sem einnig biðu við þá umr.

Meðal þeirra liða, sem hafa verið teknir upp í till. n. nú og flutt var sérstaklega brtt. um af minni hl. n. við 2. umr., er till. varðandi iðnlánasjóð. Við lögðum þá til í minni hl. n., að framlag ríkissjóðs til sjóðsins á þessu ári yrði hækkað úr 450 þús. kr. í 1 millj. Nú hefur verið gerð sú búbót á, að þetta hefur ekki verið hækkað aðeins í eina milljón, heldur í 1 millj. 450 þús. kr. Hefðu kannske einhvern tíma verið látin orð falla um það, að þetta væri yfirboð, en ég vil láta í ljós frá okkar hendi, að það er mjög ánægjulegt yfirboð, sem við vissulega ljáum okkar fyllsta stuðning, þó að þetta sé að vísu ekki nema nokkur lausu á því mikla vandamáli, sem þarna er um að ræða. En eins og við gátum um í nál. okkar við 2. umr., liggja hér fyrir þinginu frumvörp um frambúðarlausn þeirra mála, sem væntanlega njóta jafnmikillar velvildar og þetta bráðabirgðaúrræði hefur notið.

Ég mun í sambandi við till. okkar ræða sérstaklega um raforkumálin. Er af eðlilegum ástæðum orðið nauðsynlegt að verja til þeirra auknu fé, vegna þess að raforkusjóð skortir mjög tilfinnanlega fjármagn til þess að standa straum af framkvæmdaáætlun þeirri, sem gerð var á sínum tíma í raforkumálunum. Var því óumflýjanlegt að leggja fram aukið fé í þessu skyni.

Það ber einnig sérstaklega að gleðjast yfir því, að aukið hefur verið mjög verulega framlag til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það er hækkað um 5 millj. kr. frá því, sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrv., því að þar var í heimildagrein ákvæði um 5 millj. til framkvæmdasjóðs í þessu skyni. Það hefur verið fellt niður, en í stað þess framlagið sjálft á 20. gr. hækkað í 15 millj. kr., og er það vissulega mjög nauðsynleg fjárveiting.

Hv. frsm. n. útskýrði hér að nokkru till., sem ég annars hefði viljað víkja að. Það er í sambandi við 1 millj. kr. hækkun á framlagi til menningarsjóðs, sem ég hef ekki áður heyrt skýringu á. En hann gaf hér að nokkru leyti skýringu á því, að menningarsjóði mundi vera ætlað að taka að sér ný verkefni, sem gerðu nauðsynleg aukin framlög til sjóðsins. Ég hefði fyrir mitt leyti talið, að það væri íhugunarefni, ef það væri svo, að það ætti að hækka um 1 millj. kr. framlag til sjóðsins til þess að standa undir halla af bókaútgáfu hans. Það verð ég að telja mjög óheppilegt eða a.m.k. varhugavert að fara að greiða úr ríkissjóði stórar fjárhæðir til þess að standa undir halla á bókaútgáfu. Þó að hún sé allra góðra gjalda verð, þá verður hún að standa undir sér, svo sem önnur bókmenntafélög verða að gera. En úr því að hérna er um beinlínis ný verkefni að ræða, gegnir þetta öðru máli, enda höfum við í minni hl. ekki séð neina ástæðu til þess að gera ágreining um þetta, þó að ekki lægju fyrir í n. neinar sérstakar skýringar á því, af hverju þetta væri nauðsynlegt.

Hv. frsm. meiri hl. hefur skýrt frá því, að væntanlegt sé frá meiri hl. n. sérstakt nál. Þessu nál. hefur ekki enn verið útbýtt, sem stafar af því, að því miður hefur við þessa umr. sem við 2. umr. orðið að hafa svo hraðan á, að það verður að taka málið til meðferðar, áður en hægt er að útbýta þeim þingskjölum, sem nauðsynlegt er að þm. hafi fyrir sér, þegar þeir taka afstöðu til málsins. Ég verð því að sjálfsögðu að geyma mér til seinni tíma að gera athugasemd við það nál., ef ástæða reynist til þess.

Þá ætla ég næst að víkja nokkuð að þeim brtt., sem minni hl. n. gerir sérstaklega á þskj. 286. Vík ég fyrst að þeim liðum, sem snerta gjaldakafla frv.

Við höfum tekið upp aftur till. þá, sem við fluttum við 2. umr., um að tvöfalda rekstrarstyrk til St. Jósefsspítalanna í Reykjavík og Hafnarfirði. Það hefur ekki náðst samkomulag um að taka upp þessa hækkun á styrknum, eins og við höfðum vonazt til, og tókum við till. okkar aftur við 2. umr. í trausti þess. Verð ég að segja, að það gegnir nokkurri furðu, að ekki skuli hafa verið talin ástæða til að sinna þessari mjög hógværu beiðni þessara sjúkrahúsa, sem gegna hér mjög mikilvægu hlutverki og hafa leyst mikinn vanda fyrir þjóðfélagið, en vegna fjárskorts þeirra er þeim orðið um megn að rísa undir þeim mikla tilkostnaði, sem þar er. Þegar við lítum á þau miklu fjárframlög, sem ríkið verður að hafa til sinna sjúkrahúsa, verður skiljanlegt, að það sé ekki auðið að reka önnur sjúkrahús hallalaust. Tel ég því, að það sé naumast vansalaust að sinna ekki jafnsanngjarnri beiðni frá forstöðumönnum þessara sjúkrahúsa.

Þá höfum við lagt til enn fremur, að gerð yrði nokkur hækkun á fjárveitingu til héraðssjúkrahúsa úti um land. Það er að vísu í frv. nokkur hækkun frá fjárlögum í þessu skyni. En hér er mikill vandi á ferðum og sjúkrahús í smíðum, sem ekki hefur reynzt auðið að greiða fé til nægilega ört, og verður því að telja mikla nauðsyn að reyna að ganga svo til móts við þá aðila, sem hér eiga hlut að máli, sem kostur er á. Hins vegar höfum við til þess að hafa á þessu fulla hófsemi ekki lagt til, að hækkaður verði þessi liður nema um 500 þús. kr., og þá jafnframt, að til heilbrigðisstofnana í Reykjavík verði hækkað um samsvarandi upphæð og um 100 þús. kr. til fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Í till. n. er gert ráð fyrir að heimila sérstaka lántöku til viðbótarhúsnæðis við ríkisspítalana hér í Reykjavík, en að öðru leyti ekki mætt þeirri miklu þörf, sem hér er um að ræða.

Þá lá fyrir n. beiðni frá forstöðumönnum hælisins að Skálatúni um byggingarstyrk. Í fjárlagafrv. er 60 þús. kr. styrkur til þessa hælis. N. hefur ekki talið sér fært að fallast á að mæla með auknum styrk í þessu skyni, en við í minni hl. leggjum til, að þessi styrkur verði hækkaður í 200 þús. kr., því að hér er um mjög mikilvæga starfsemi að ræða, sem er vissulega þess virði, að henni sé gaumur gefinn og grundvöllur lagður að því, að hún geti haldið áfram með viðunandi móti og hún geti eflzt. Það er upplýst, að það er alls ekki hægt að taka á móti öllum þeim börnum þarna, sem þörf væri á að kæmust á slíkt hæli, og þess vegna mikil nauðsyn að auka þar húsrými.

Fyrir fjvn. hefur legið beiðni frá Félagi sérleyfishafa um það, að létt verði af sérleyfissjóði þeim þunga bagga, sem Ferðaskrifstofa ríkisins er. Í sérleyfissjóði eru nú um 1.2 millj. kr., og hefur verið áformað að hefjast nú handa um að reisa hér í Reykjavík umferðarmiðstöð, sem fyrst og fremst hafi með höndum afgreiðslu sérleyfisbifreiða. Áætlunarbifreiðar ganga nú í æ ríkari mæli héðan út um byggðir landsins, en hins vegar við mjög mikla örðugleika að stríða hér í bænum að fá viðunandi aðstöðu til afgreiðslu fyrir þessar bifreiðar allar, þannig að þær verða mjög að vera á hrakhólum og mjög erfitt fyrir fólk að vita, hvar það á að ná sambandi við afgreiðslu þessara bifreiða. Bygging þessarar umferðarmiðstöðvar er því hið mesta nauðsynjamál og þörf á að greiða fyrir því, að það geti komizt í framkvæmd sem fyrst. Sérleyfissjóði var fyrst og fremst ætlað að standa undir þessum kostnaði að töluverðu leyti og leggja grundvöll að því, að hægt væri að ráðast í slíkt fyrirtæki, en seinna var gerð sú breyting á lögum um sérleyfisgjaldið, að það skyldi vera heimilt að greiða einnig úr sérleyfissjóði halla af Ferðaskrifstofu ríkisins. Í fjárlögum undanfarinna ára hefur verið þess vegna ákvæði um það, að hallinn af ferðaskrifstofunni skuli greiddur úr sérleyfissjóði. Þetta mun þó ekki hafa verið framkvæmt, þannig að halli áranna 1952–56, að þeim árum meðtöldum báðum, hefur ekki verið krafinn af sérleyfissjóði enn þá. En þessi halli, fyrir árin 1952–55, er tæpar 600 þús., og gera má ráð fyrir, að á árinu 1956 hafi orðið 280–300 þús. kr. halli, ég veit það ekki nákvæmlega. En ef ætti að greiða allan þennan halla úr sjóðnum og jafnframt að taka úr sjóðnum þann halla, sem áætlað er, að verði á ferðaskrifstofunni á þessu ári, þá er ljóst, að sjóðurinn er þrotinn og af þeim sökum ekki neitt fé fyrir hendi til þess að ráðast í byggingu þessarar umferðarmiðstöðvar. Þetta teljum við í minni hl. n. mjög miður farið og viljum því leggja til, að þær kröfur, sem ríkissjóður á um endurgreiðslu á því, sem reynzt hefur halli ferðaskrifstofunnar að undanförnu, verði ekki gerðar til sérleyfissjóðs, heldur endanlega greitt af ríkissjóði, og verði þá jafnframt sú breyting gerð í fjárlögum nú, að halli af ferðaskrifstofunni verði greiddur af ríkissjóði. Mundu þá verða til ráðstöfunar til byggingar þessarar væntanlegu afgreiðslumiðstöðvar um 1200 þús. kr.

Þá leggjum við til, að smávægileg hækkun verði gerð á styrk til elliheimila. Það hefur á ýmsum liðum fjárlaga veríð bæði teknir upp nýir styrkir og hækkaðir styrkir til hliðstæðrar starfsemi eins og hér er um að ræða, og verður því að telja litt viðunandi að sýna ekki einhvern lit á því að hlynna að þessum gamalmennahælum, sem starfandi eru, þó að það sé vitanlega ekki um nema mjög smávægilegan styrk að ræða að hækka hann aðeins um 10 þús. kr. til hvers þeirra.

Eins og hv. þm. er kunnugt, á félagsheimilasjóður við mjög mikla fjárhagsörðugleika að stríða. Félagsheimili hafa verið að rísa víðs vegar um landið, og það er eitt af mikilvægustu atriðunum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, eins og mikið er talað um, að búa þannig að æskufólki úti um sveitirnar og í strjálbýlinu, að það geti haft viðunandi aðstöðu til félagsstarfsemi. Af þessum sökum hefur mjög víða verið ráðizt í byggingu félagsheimila. Lánsfé er torfengið til þeirra hluta og svo að segja ófáanlegt, eins og til margvíslegra annarra framkvæmda, og hafa því skapazt vaxandi vandræði fyrir það. að félagsheimilasjóður hefur ekki getað lagt fram nema að mjög litlu leyti það fé, sem honum hefur verið ætlað. Hér á Alþingi hafa verið til meðferðar og eru nú till. um lausn að nokkru leyti á vanda félagsheimilasjóðs. Það er ekki enn séð fyrir um það, hvaða afgreiðslu þær till. fá, og þess vegna höfum við talið nauðsynlegt að gera hér nokkra bragarbót á. Miðað við aðrar till., sem gerðar hafa verið, m.a. um að leggja 1 millj. kr. til eins einasta heimilis, held ég að verði varla talið, að það sé óbilgirni að leggja til, að félagsheimilasjóði, sem á að leysa þörf víðs vegar um landið í þessu sambandi, fái nú 1 millj. kr. til þess að létta örlitið af sér þeim þunga, sem á honum hvílir, og getur það vitanlega ekki komið í veg fyrir eða á neinn hátt komið í staðinn fyrir þær till., sem gerðar eru til frambúðarlausnar á þeim vanda. Við erum hins vegar að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að taka það til athugunar, hvort leggja á slíka till. til atkvæða eða ekki, ef t.d. frá hæstv. ríkisstj. kæmi ákveðin yfirlýsing um það, að leyst yrði á tiltekinn hátt úr vanda félagsheimilasjóðs. Það er fyllilega til athugunar frá okkar hendi.

Þá er till. um að veita 30 þús. kr. styrk til kvenfélagsins á Akranesi til byggingar dagheimilis. Það hefur verið tekinn upp annar styrkur hliðstæður þessum í till. nefndarinnar, og fyrir þessu er fullkomið fordæmi, bæði fyrr og síðar, að stuðla að því að koma upp slíkum dagheimilum. Tel ég þess vegna ekki þörf á að útskýra það mál nánar.

Þá leggjum við enn fremur til, að í heimildagr. fjárlaga verði gerð sú breyting auk þeirra breytinga, sem lagt er til af n. sameiginlega að gera, að ábyrgðarheimildin í sambandi við hverja einstaka framkvæmd í byggingu frystihúsa og annarra þeirra fyrirtækja, sem þar er um rætt, hækki úr 60% í 80%. Þetta er í samræmi við till., sem flutt hefur verið á Alþingi af þm. kaupstaðanna utan Reykjavíkur, ég held allra saman, og reynslan hefur sýnt ljóslega, að það er ekki hægt að leysa vanda frystihúsanna með þeirri takmörkuðu ábyrgðarheimild, sem hér er, og það er brýn nauðsyn að hækka hámarkið upp í 80% a.m.k. Miðað við þann áhuga, sem fram hefur komið á þessu máli hjá ýmsum aðilum hér í þinginu, þykist ég mega vænta þess, að þessi brtt. njóti meiri stuðnings en kemur fram í því, að meiri hl. n. hefur á þessu stigi ekki viljað fallast á, að n. flytti þessa till. sameiginlega.

Í till. n. er lagt til, að ríkissjóður leggi fram til fiskiðjuvers ríkisins 750 þús. kr. Fjárhagsmál fiskiðjuvers ríkisins hafa lengi verið á döfinni, ekki aðeins nú á þessu þingi eða í sambandi við afgreiðslu fjárl. nú, heldur áður, og það virðist halla stöðugt undan fæti og þessi upphæð, sem lagt er til af n. að fiskiðjuverinu verði veitt, er ekki nema lítill hluti af því fé, sem það telur sig þurfa til þess að viðunandi starfræksla geti verið þar.

Þegar fiskiðjuverið var stofnað, var gert ráð fyrir, að því væri fyrst og fremst fengið það hlutverk að stunda ýmiss konar nýjungar og tilraunir á sviði fiskiðnaðar, fyrst og fremst fiskniðursuðu og raunar fleiri greinar iðnaðarins. Úr þessu hefur mjög lítið orðið, og eins og sakir standa nú, er þetta fyrirtæki rekið aðeins sem venjulegt frystihús. Þegar svo er komið, fáum við ekki séð í minni hl. n., að það séu nokkur frambærileg rök fyrir því, að ríkið sé að reka slík fyrirtæki, ekki sízt þar sem það býr við svo bágborna afkomu sem raun ber vitni um. Við teljum því sjálfsagt, enda þótt að vísu verði að leggja því þetta fé, sem lagt er til af n., til þess að greiða áfallnar skuldir, að til þess að koma í veg fyrir frambúðarvandræði og fjárhagsbagga fyrir ríkissjóð af rekstri þessa fyrirtækis verði gerð tilraun til að selja fyrirtækið. Nú vill svo til, að það hefur verið ákveðið hér í bæjarstjórn Reykjavíkur að hefja byggingu nýs frystihúss í bænum, og við teljum, að það sé eðlilegt og sjálfsagt, að athugað verði, hvort ekki sé hægt að sameina þá hugmynd, sem þar hefur komið fram, við þá till., sem við leggjum hér til, að þetta frystihús ríkisins verði selt. Það er auðvitað ekki fyrir fram hægt að segja neitt um það, hvort þetta er hægt eða ekki. Það er auðvitað ekki hægt að selja þetta fyrirtæki með einhverjum hörmungarkjörum fyrir ríkissjóðinn. En við teljum sjálfsagt, að Alþingi lýsi þeim vilja sínum, að ríkisstj. hefjist handa um að athuga með sölu á fyrirtækinu, því að án heimildar er að sjálfsögðu ekki hægt að framkvæma söluna, þótt ríkisstj. byðist viðunandi boð í húsíð.

Ég hef áður gert grein fyrir brtt. varðandi ferðaskrifstofuna hvað snertir þann tíma, sem liðinn er, og hluti af því máli verður að koma undir heimildagr., að heimila ríkisstj. að falla frá kröfu á hendur sérleyfissjóði um það fé, sem gjaldfallið er, og er það 16. brtt. okkar.

Þá kem ég að 17. brtt. okkar í minni hl. n., en þar leggjum við til, að varið verði úr ríkissjóði allt að 5 millj. kr. á þessu ári til veðdeildar

Búnaðarbankans og verði ekki fé fyrir hendi hjá ríkissjóði til þess að leggja slíka upphæð fram, þá fái ríkisstj. heimild til lántöku til þess að leysa þennan vanda veðdeildarinnar. Í till. n., sem hún flytur sameiginlega, eru teknir upp vissir hættir í fjármálum í sambandi við framkvæmdir í landbúnaðinum, og eru þær fjárveitingar byggðar á till., sem komið hafa frá n., sem skipuð var samkv. ályktun síðasta Alþingis til þess að endurskoða lög um stofnlánadeildir Búnaðarbankans. Niðurstaða af þeirri athugun hefur orðið sú, að n. hefur útbúið tvö frv., annað, sem hér hefur verið útbýtt í dag, skilst mér, varðandi nýbýli og framkvæmdir í því sambandi, en hitt frv., sem snertir veðdeild Búnaðarbankans, hefur enn ekki sézt hér í þinginu. Bæði þessi frv. munu hafa verið tilbúin snemma þings eða í þingbyrjun og afhent þá hæstv. ríkisstj., þó að þau hafi ekki verið flutt fyrr en nú og að vísu ekki séð enn þá, hvort ætlunin er að flytja nema annað þeirra.

Samkv. till. þeim, sem fram komu hjá þessari n., taldi hún nauðsynlegt, að á árinu 1957 yrði framlag til þessara mála að hækka þannig, að til nýbýla og aðstoðar við þá bændur, sem skemmst eru á veg komnir, þyrfti 12 millj. kr., en 5 millj. til veðdeildarinnar, þannig að það þyrfti að hækka þessi framlög til landbúnaðarins um 17 millj. Var þá gert ráð fyrir, að þetta skiptist í sex liði, þannig að til framkvæmda yrði varið sérstaklega 5 millj. á ári næstu 25 ár til stofnfjárskulda byggingarsjóðs, þá verði enn fremur sérstök framlög til þess að greiða vaxtatekjur eða vaxtamismun, verði framlag í því skyni hækkað um helming, eða úr 2.5 millj. í 5 millj., og framlag til íbúðarhúsabygginga, nýbýla, verði sérstakur styrkur tekinn upp í því skyni, 25 þús. kr. á býli, og nemur það 2 millj. á ári, og til styrktar þeim jörðum, sem dregizt hafa aftur úr um framkvæmdir, verði varið 5 millj. á ári næstu 5 ár og til veðdeildarinnar 5 millj. á ári, auk þess sem ríkissjóður leggi veðdeildinni til það fé, sem veðdeildin skuldar ríkissjóði og hefur nú verið lagt til í sambandi við fjárlögin að eftir verði gefið, og sömuleiðis skuld við sparisjóðsdeild Búnaðarbanka Íslands. Samtals námu þessar upphæðir 11 millj.

Í till. n. hefur verið komið allmikið til móts við þær till., sem fram koma í þessu frv. varðandi nýbýlin og framkvæmdir á þeim býlum, sem dregizt hafa aftur úr, þannig að af þeim upphæðum, sem n., sem athugar lögin, hefur lagt til, hafa verið teknar upp í till. n. nú 8 millj. í stað 12 millj., sem eru í frv. En hins vegar hefur veðdeildin alveg fallið aftan af. Þetta teljum við í minni hl. n. algerlega óviðunandi. Veðdeildin er búin að búa við mjög mikinn fjárskort, og vandræði af þessum sökum fara sívaxandi. Hún fékk á s.l. ári 2 millj. af greiðsluafgangi. Fyrir nokkrum þingum var samþykkt hér frv. um, að Landsbankinn skyldi kaupa fyrir nokkra upphæð á ári, ég held 1.2 millj. kr., skuldabréf af veðdeild Búnaðarbankans. Samkv. þeirri heimild hefur ekkert fé fengizt enn, og veðdeildin býr því við hinn mesta fjárskort. Hún skuldar sparisjóðsdeild Búnaðarbankans á sjöttu millj. kr. og verður fyrir stórum útgjöldum af vaxtamismun.

Hins vegar fara mjög vaxandi vandræði bænda og ekki hvað sízt þeirra, sem eru að byrja búskap, bæði að geta keypt jarðir og til þess að komast yfir bústofn og annað, sem til þess þarf að hefja búskap á byggðum jörðum. Hér er nú mjög myndarlega rétt höndin fram til þess að bæta aðstöðu þeirra, sem reisa nýbýli, en það er alls ekki síður þörf á því að leysa þann vanda, sem veðdeildinni er ætlað að leysa.

Við höfum þess vegna lagt til, að ríkisstj. verði heimilað að leggja fram á þessu ári 5 millj. til veðdeildar bankans. En við höfum tekið það í heimildagrein, vegna þess að við viljum ekki slá því föstu, að það verði hægt ef til vill að leggja þetta fé fram af tekjuafgangi ríkissjóðs. Og því höfum við til öryggis sett lánsheimild handa ríkisstjórninni, ef féð yrði ekki fáanlegt með öðru móti.

Það er eins með þennan lið og lið, sem ég gat um hér áðan, að ef fást hér fullnægjandi yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. um það, að hún ætli sér að leysa þennan vanda á þessu ári á einhvern viðhlítandi hátt, þá erum við að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að taka það til athugunar, hvort við getum þá fallið frá þessari till. En meðan ekki liggur neitt fyrir um það og engin upplýsing um það, hvort ríkisstj. hugsar sér að leggja fram hér á Alþingi frv. það um veðdeild Búnaðarbankans, sem samið hefur verið, sjáum við okkur ekki annað fært en að leggja fram þessa till. varðandi veðdeildina.

Þá flytjum við hér sem 18. brtt. okkar till. um að heimila ríkisstj. að taka lán til hafnargerða, sem annars vegar sé varið til greiðslu á framlögum ríkissjóðs samkvæmt hafnarlögum, sem vangoldin voru um s.l. áramót, en það munu vera rúmar 10 millj. kr., og hins vegar 15 millj. kr. lán til aðstoðar við þær hafnargerðir, þar sem brýnust þörf er framkvæmda, en reynzt hefur ógerlegt að afla lánsfjár. Ég býst við, að flestir hv. þm. viti, hvílíkir erfiðleikar eru á því sviði að afla lánsfjár til framkvæmda og það enda þótt mikið sé í húfi og brýn nauðsyn á slíkum framkvæmdum. Það virðist því ekki vera annað fyrir hendi en að gera tilraun til að afla lánsfjár með þessu móti, úr því að viðkomandi sveitarfélög sjálf geta ekki fengið lán til framkvæmdanna. Ég skal taka það fram, að þessi brtt. er að meginefni til og hvað upphæð snertir samhljóða till., sem hér var flutt við 2. umr. og þá tekin aftur, en nefndin í heild hefur ekki talið sér fært að taka upp sem sína till. En við vildum mjög taka undir þá ósk, sem þar hefur komið fram, enda skýrði ég frá því við 2. umr., að við höfum lagt til, að sérstaklega yrðu tekin lán til greiðslu vangoldinna framlaga. En vitanlega er hin mesta nauðsyn að létta einnig undir með hafnarframkvæmdum almennt á þann hátt, sem lagt var til í þessari till., sem hér kom fram við 2. umr.

Þá er 19. og síðasta till. okkar, en hún er um það, að í stað þess að bjargráðasjóði Íslands verði afhent þau skuldabréf, sem getið var um í till. þeirri, sem flutt er á þskj. því, sem nefndin öll stendur að, með þeim skilyrðum, sem ríkisstj. kynni svo aftur að setja varðandi eftirgjafir eða ívilnanir til lántaka, verði þessi lán gefin eftir. Í b-lið till. og c-lið, sem er tekið orðrétt eins og er í till. á þskj. 284, þá er í b-liðnum lagt til, að gefin verði eftir algerlega þau hallærislán, sem þar um ræðir, að upphæð 5.3 millj. kr. Hins vegar er í a-liðnum, eins og meiri hluti nefndarinnar hefur viljað orða hann, aðeins gert ráð fyrir, að bjargráðasjóði verði gefið eftir af hálfu ríkissjóðs framlag hans, en hins vegar ekki gert ráð fyrir, að bjargráðasjóður gefi eftir lánin, sem bændum hafa verið veitt, nema eftir því sem honum þurfa þykir. Þetta teljum við að sé mjög vafasöm framkvæmd og geti leitt til ýmiss konar misréttis og vandræða.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að frá hálfu bændasamtakanna var alltaf lögð mikil áherzla á það, að þetta yrðu ekki lán, sem þarna var um að ræða, heldur styrkir til fóðurbætiskaupa vegna óþurrkanna hér á Suðurlandi. Var um það samþykkt einróma till. á aðalfundi Stéttarsambands bænda árið 1955. Sömuleiðis var á fundi stjórnar Búnaðarfélags Íslands það sama ár lagt til, að framkvæmdin á aðstoðinni yrði þannig, að fóðurbætirinn yrði greiddur niður í samræmi við till. fundar Stéttarsambands bænda, sem ég gat um áðan, þó þannig, að fóðurbætismagn sé miðað við þá tölu á mjólkurkúm og ám, sem forðagæzlumenn á hverjum stað samþykkja að sett verði á í vetur, sem er framkvæmdaratriði.

Það virðist því liggja fyrir mjög almenn skoðun bændasamtakanna um það, hvaða hátt hefði á þessu átt að hafa. Nú skal ég að vísu ekkert um það segja, hvort í einstökum tilfellum hefur verið framkvæmt um þessi lán á þann hátt, að það geti gefið óeðlilegar niðurstöður. En ég hygg þó, að það sé í miklu færri tilfellum og að það sé sízt minni ástæða til þess að óttast, að það verði úr því misrétti, ef hafa á þessa handahófsframkvæmd á, eins og hér er gert ráð fyrir, heldur en að hinn hátturinn verði hafður á að gefa lánin eftir, eins og lagt er til með lán þau, sem um ræðir í b-lið.

Þá vil ég víkja nokkuð að öðrum þætti þessa máls, en það er tekjuhlið fjárlagafrv.

Ég vil þá fyrst endurtaka það, sem ég sagði hér við 2. umr., að mér þykir mjög miður farið, hversu veigalitlar upplýsingar hafa verið gefnar varðandi tekjuhorfur ríkissjóðs á þessu ári. Það ástand hefur ekkert breytzt, frá því að 2. umr. fjárlagafrv. lauk, þrátt fyrir þær aðfinnslur, sem þá voru fram bornar, og sá háttur var á hafður í þessu efni, að upplýsingar varðandi tekjuhliðina voru ekki gefnar fyrr en á síðasta fundi nefndarinnar, sem haldinn var í gær, og þær upplýsingar í rauninni ákaflega veigalitlar og á allt annan veg en hefur verið undanfarin ár. Það vill nú svo vel til, að ég hef þá haft með höndum í fjvn. að athuga tekjuáætlun fjárlaganna og gera í nefndinni grein fyrir tekjuhorfunum og hvernig ástatt væri, og engar slíkar upplýsingar voru gefnar í þetta sinn, ekki einu sinni upplýsingar um hag ríkisstofnananna, eins og hann var um síðustu áramót, sem hlýtur þó að hafa legið fyrir. Með þessu er ég ekki að slá neinu föstu um það, hver á sök á þessu. Eins og ég tók fram í ræðu minni við 2. umr., hef ég enga ástæðu til þess að álita, að meiri hl. n. eða formaður hennar hafi baldið fyrir okkur í minni hl. nokkrum þeim upplýsingum, sem hann hefur haft í sínum fórum, og verð ég því að telja, að þessar upplýsingar hafi alls ekki legið fyrir, af hvaða ástæðum sem það er. Er ég þar ekki með aðdróttanir við einn né neinn, en skýri aðeins frá staðreyndum, að þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir. Við frestuðum því að sjálfsögðu í minni hl. að gera nokkra athugun á tekjuhlið fjárlaganna, þar til við fengjum upplýsingar um þetta efni, sem við gerðum ráð fyrir að yrðu í svipuðu formi og verið hefur undanfarin ár, en sú hefur ekki orðið reyndin á.

Ég vil leyfa mér að upplýsa það hér út af því, sem skýrt var frá af hæstv. fjmrh. við 2. umr., að í fyrra hefðu engar upplýsingar legið fyrir um hag ríkissjóðs í desember og engin slík plögg út gefin af fjmrn. eða ríkisbókhaldinu, að það vill nú svo til, að ég hef hér í höndum það plagg, sem við fengum í fyrra um miðjan janúar um hag ríkissjóðs, í desembermánuði einnig. Það er að vísu rétt, að það er áætlunarupphæð, en varðandi þá áætlunarupphæð var gerður samanburður um bráðabirgðauppgjör, sem gert var árið áður um svipað leyti, og við fengum síðan upplýsingar um, hver hefði orðið breytingin það ár, frá því að bráðabirgðauppgjörið var gefið og þar til endanlegt uppgjör fékkst. Þær breytingar eru ekki miklar, þ.e.a.s. tekjurnar hækkuðu um 9 millj. kr. rúmlega frá bráðabirgðauppgjöri 1954, og höfðum við hliðsjón af þessari breytingu varðandi bráðabirgðauppgjörið 1955, sem við fengum í hendur um miðjan janúar í fyrra.

Nú er okkur tjáð, að ekkert slíkt bráðabirgðauppgjör sé til, og eru þó komin lok febrúarmánaðar.

Ég vil aðeins um það segja, að ég læt í ljós mikla undrun yfir, að slíku skuli vera haldið fram, og mér sýnist, að það hljóti að vera einhver önnur vinnubrögð viðhöfð nú en verið hefur, ef slíkt uppgjör er ekki fáanlegt. Það hlýtur a.m.k. að hafa verið mjög hægur vandi að láta í té það uppgjör við ríkisstofnanirnar, sem okkur var afhent í fyrra. Ég skal játa, að af okkar hálfu var ekki borin fram sérstök krafa um sundurliðaðar upplýsingar varðandi tekjuhliðina, vegna þess að það hefur aldrei þurft á því að halda að gera slíka kröfu. Það hefur verið talið sjálfsagt, að útskýringar fylgdu sem gleggstar um hvern einstakan lið.

Um þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að fást. Það er komið sem komið er, og við höfum orðið að miða okkar afstöðu til málsins og áætlun okkar um tekjuhorfur við þessar mjög ófullkomnu upplýsingar og það yfirlit um afkomuna til 1. desember, sem lá fyrir nefndinni.

Það er auðvitað svo varðandi tekjuáætlunina nú eins og áður, að jafnvel þó að liggi fyrir fullkomnar upplýsingar, verða alltaf ýmis atriði, sem eru mjög á reiki, vegna þess að aðstæður breytast frá ári til árs.

Ég hef gert hér lauslega athugun á tekjuhorfum, miðað við þessar ófullkomnu upplýsingar, eins og ég áðan gat um, sem fyrir liggja, og er niðurstaðan af því svo sem hér greinir:

1. des. 1956 voru tekjur ríkissjóðs orðnar 611.7 millj. kr. 1. des. 1955 voru þær 538.1 millj. kr. Hækkun á þessu ári hefur því á fyrstu 11 mánuðum numið 73.6 millj. kr., eða rúmum 13%. Tekjur í desembermánuði 1955 urðu 108 millj. kr., og ef við áætlum 13% hækkun á tekjum desembermánaðar 1956, þá ættu tekjurnar að hafa orðið 121 millj. kr. og tekjur alls 1956 þá 732 millj. kr.

Nú er frá því skýrt eftir þeim upplýsingum, sem fjmrh. hefur gefið, að gera verði ráð fyrir tekjuskerðingu vegna niðurfellingar söluskatts í smásölu um 25 millj. kr. og tekjuskerðingu vegna eftirgjafar í sambandi við skattfríðindi handa sjómönnum og lækkun skatts á lágtekjum um 5 millj. kr., þannig að gera verði ráð fyrir tekjuskerðingu af þessum sökum um 30 millj. kr. á árinu 1957.

Eftir þessu sýnist svo sem gamlir tekjustofnar, ef gert væri ráð fyrir nákvæmlega sömu útkomu á árinu 1957, yrðu 702 millj. kr. Hækkun á víni og tóbaki er talin gefa 15 millj., og samkvæmt upplýsingum fjmrh. er talið, að í hluta ríkissjóðs komi á þessu ári 108 millj. úr útflutningssjóði, og yrðu þá tekjurnar samtals 825 millj. kr.

Við þetta er þó það að athuga, að álag á vörumagnstoll og verðtoll gilti ekki allt árið, þannig að gera má ráð fyrir nokkrum tekjuauka af þessum sökum. Þá hefur einnig verið tekið erlent lán, sem mér er tjáð að sé ekki búið að flytja inn á enn þá, 4 millj. dollara, og mundu af því verða tolltekjur að sjálfsögðu á þessu ári, þannig að gjaldeyrismöguleikarnir ættu að vaxa að þessu leyti. Og ekki er ósennilegt, ef lán verður tekið til Sogsvirkjunar, að einnig komi nokkuð af því til nota á þessu ári, og eftir því sem mér hefur skilizt, munu tolltekjur vegna þessa innflutnings, sem að vísu er ekkí víst að falli nema að einhverju leyti á þetta ár, vera 35–40 millj.

Þetta eru aðeins lauslegar athuganir, byggðar á svipuðum reglum og við höfum fylgt undanfarin ár um áætlanir okkar, en það hefði auðvitað verið hægt að fara nær þessu, ef hefði verið hægt að styðjast við útkomu desembermánaðar, sem við vitum ekki um.

Við leggjum til í minni hl., að lækkunin á tekjuskattinum verði 2 millj. minni en lagt er til af meiri hl. n. og að söluskattslækkunin verði 5 millj. minni en þar er lagt til, þannig að tekjuauki ríkissjóðs verði 7 millj. á þessum liðum. Með þessu er ekki verið að gera neina tilraun til þess að áætla tekjur ríkissjóðs endanlega. Það má auðvitað hafa þann hátt á, og það hefur stundum verið deilt um það hér í þingi undanfarin ár, hvort rétt væri sú aðferð, sem höfð hefur verið og ég skal játa minn þátt í, að áætla ekki tekjurnar í hámarki, heldur að áætla þær aðeins þannig, að þær rúmlega „dekki“ útgjöldin og tiltölulega lítill greiðsluafgangur sé því áætlaður í fjárl., en hins vegar eftirskilinn allgóður slurkur til þess að mæta óvissum útgjöldum.

Það má auðvitað hafa þessa aðferð öðruvísi, að taka alla upphæðina, sem menn ímynda sér að líklegt sé að ríkissjóður fái í tekjur, inn í fjárl. og skila þeim með svo og svo miklum greiðsluafgangi. En þá aðferð höfum við ekki heldur haft nú í minni hl., fremur en fylgt hefur verið nú undanfarin ár, en leggjum aðeins til, að tekjuáætlunin verði hækkuð sem þessu nemur, þ.e.a.s. um 7 millj.

Nú býst ég við, að spurt verði, á hverju við getum byggt það, að óhætt sé að hækka tekjuáætlunina sem þessu nemur. Að vísu býst ég ekki við, að neinn haldi því fram, að þessir tekjustofnar tveir, sem við gerum ráð fyrir að hækka, tekju- og eignarskattur og söluskattur, skili ekki fullkomlega þessari útkomu, heldur muni aðfinnslurnar verða byggðar á því, að við áætlum ekkí nógu mikið afgangs fyrir afföllum. Það eru einu haldbæru rökin í því sambandi. En ég hygg, að þetta skipti ekki meginmáli, því að enda þótt við hækkum tekjuáætlunina sem þessu nemur, þá tökum við með okkar útgjaldatillögum alls ekki þann slurk, því að útgjaldatill. okkar eru tæpar 3 millj., þannig að greiðsluafgangur yrði 5.5 millj. eða í kringum það; ég hef ekki nákvæmar tölur, af því að ég vissi ekki alveg nákvæmlega um niðurstöðutölurnar, sem hv. frsm. meiri hl. fjvn. rakti hér áðan og voru ekki alveg þær sömu og við gerðum ráð fyrir í gær. En þetta breytir engu, sem neinu meginmáli skiptir, þannig að þó að þessi tekjuáætlun sé hækkuð sem þessu nemur, þá er það ekki til þess að eyða öllu þessu fé, heldur er aðeins gert ráð fyrir, að greiðsluafgangurinn hækki úr 1.5 millj., sem er gert ráð fyrir í niðurstöðum meiri hl., upp í 5.5 millj.

En varðandi þessa tvo liði vil ég að öðru leyti segja það, að tekju- og eignarskatturinn hefur farið hækkandi frá ári til árs og af eðlilegum ástæðum. Hann var 1953 60 millj., 1954 68 millj., 1955 88 millj., 1956 110 millj., og eftir áætlun okkar mundi hann verða á árinu 1957 í fjárl. áætlaður 113 millj., eða aðeins 3 millj. kr. hærri en 1956. Það ár varð 22 millj. kr. hækkun frá árinn áður, þannig að ég held að sé ekki með nokkru móti hægt að segja, að með þessu sé gálauslega áætlað, heldur hljóti að verða þarna töluverður afgangur.

Um söluskattinn er það að segja, að hann varð á árinu 1955 132.6 millj. Til 1. des. 1956 varð innheimtur söluskattur 128 millj., í desember 1955 innheimtust af söluskatti 15.5 millj. Samkvæmt þessu má gera ráð fyrir, að söluskattur 1956 hafi orðið 144 millj. Hann er í frv. áætlaður 135 millj. Síðan er gert ráð fyrir, að hann lækki um 25 millj. vegna l. um útflutningssjóð, niðurfalls söluskatts í smásölu, og mundi hann þá samkv. því verða 110 millj.

Samkv. okkar till. er hann áætlaður að gefa 115 millj., en ætti miðað við niðurstöðu ársins 1956, að svo miklu leyti sem hægt er að sjá hana, að geta orðið, miðað við sömu veitu og sama innflutning, um 120 millj. Hér er þó eins og í hinu tilfellinn aðeins miðað við óbreytt frá árinu 1956, en geta má þess, að þróunin hefur verið allt önnur undanfarin ár. 1954 var söluskattur í fjárl. áætlaður 95.5 millj., en varð 117.5. 1955 var hann áætlaður 112 millj., varð 132.6. 1956 var hann áætlaður 118 millj., en samkv. því, sem mér sýnist eftir þeirri útreikningsaðferð, sem ég gat um áðan, ætti hann að hafa orðið um 144 millj. Og það virðist sannarlega lítil ástæða til þess að halda, að sú þróun breytist eitthvað í stórum óhagstæðari átt á árinu 1957.

Ég held því, að sé ekki með neinn móti hægt að halda því fram, að það sýni neitt gáleysi, þó að við höfum hækkað tekjuáætlunina sem þessu nemur, og að það muni ekki tefla afkomu ríkissjóðs í neina tvísýnu umfram það, sem þær tillögur allar og hækkanir, sem gerðar hafa verið, tefla afkomu ríkissjóðs, þó að samþ. verði till. okkar um tæpa 3 millj. kr. hækkun til viðbótar þeim 811 millj., sem fjárl. þegar hljóða upp á, að samþykktum till. þeim, sem n. öll stendur að, og að samþykktum till. við 2. umr.

Það hefur farið svo, eins og ég gerði ráð fyrir við 2. umr., að fjárl. mundu fara nokkuð yfir 800 millj. Útgjöldin eru nú, miðað við tillögur n. allrar, sem telja má vist að verði samþ. eða nokkurn veginn víst, 811.6 millj., eftir þeim upplýsingum, sem hv. frsm. meiri hl. gaf. Fjárl. 1956 voru tæpar 662 millj. Hækkunin hefur því orðið 150 millj. Þessi hækkun hefur orðið, enda þótt í þessum fjárl. sé ekki gert ráð fyrir neinni vísitöluhækkun. En í fyrra hækkuðu fjárl. frá næsta ári á undan um 157 millj., eða litlu hærri upphæð, en þá var gert ráð fyrir, að vísitala hækkaði um 15 stig, og fjárl. við það miðuð.

Mér sýnist því eftir þessari niðurstöðu að dæma, að það sé alveg ljóst mál, að hv. meiri hl. n. ætli ekki aðeins að hlaupa með vagninum til þess að missa ekki fótanna, heldur ætli hann að setja nýtt met og fara miklu hraðar en vagninn fór.