25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 941 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

1. mál, fjárlög 1957

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það eru hérna nokkrar brtt., sem ég stend að.

Vil ég fyrst víkja að till. á þskj. 292,II, sem ég flyt ásamt hv. 1. landsk. (AG). Aðaltill. er sú sama sem flutt var við 2. umr. og tekin aftur til 3., að sérstök fjárveiting yrði í fjárlögum til íþróttaleikvangsins í Laugardal, 2 millj. kr., og þarf ég ekki að gera frekar grein fyrir því en gert var. Ég taldi mig hafa nokkra ástæðu til að ætla, að ef til vill mundi fjvn. liðsinna í þessu efni á milli umr. og jafnvel koma eitthvað til móts við þær óskir, sem fólust í þessari till. Það hefur nú ekki orðið. Við flytjum því varatill. um 1 millj. kr. framlag til þessara Laugardalsframkvæmda. En ég tel ástæðulaust að taka upp aftur rök þau, sem áður eru flutt fyrir þessu máli.

Þá vil ég víkja að VIII. till. á sama þskj., sem ég flyt ásamt hv. 6. þm. Reykv., þ.e., að framlag til útrýmingar heilsuspillandi íbúða verði hækkað upp í 10 millj. kr. Það hefur verið 3 millj., og ég sé, að fjvn. er með till. um að hækka það upp í 4 millj. Eins og kunnugt er, þá er takmörkun á þessu í 13. gr. laganna, að ríkið leggi fram allt að 3 millj. kr. Það mundi að sjálfsögðu vera hægt að komast hjá þeim takmörkunum síðar, ef vilji væri fyrir því að hækka þetta framlag í fjárlögunum. En það er alveg sérstök ástæða til þess, að þetta framlag hækki stórlega, og hafa sjálfstæðismenn í Ed. flutt till. til breytinga á löggjöfinni í þessu sambandi og m.a. vegna þess, hvernig skipazt hefur málum um veitingu þessa fjár til útrýmingar heilsuspillandi íbúða. Húsnæðismálastjórnin hefur fyrir sitt leyti ákveðið lánveitingar af þessu fé, 70 þús. kr. á hverja íbúð af þeim íbúðum, sem Reykjavíkurbær er nú að byggja til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, og býst ég við, að sama yrði upp á teningnum í öðrum bæjarfélögum. Þetta nær að vísu aðeins til þeirra íbúða, sem þegar eru orðnar fokheldar og búið að veita lán út á, en með því að skapa mjög ríkt fordæmi, sem í stórum dráttum verður að ætla að erfitt verði að komast hjá að fylgja um aðrar byggingar til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum. En ég vil vekja athygli á því, að eins og nú standa sakir, eru í smíðum byggingar eða íbúðir, sem eiga að notast til að útrýma lélegum og gömlum heilsuspillandi íbúðum á vegum Reykjavíkurbæjar, það margar, að gert er ráð fyrir því, að á þessu yfirstandandi ári verði fokheldar 300 af þessum íbúðum. Í raðhúsum við Ásgarð er 81 íbúð, í fjölbýlishúsum við Gnoðavog 120 íbúðir og í raðhúsum við Skipasund 100 íbúðir, samtals 300 íbúðir á þessu ári, sem ekki er farið að veita nein lán út á enn þá. Ef þessar íbúðir ættu að njóta sömu lánveitinga að jafnaði og þeir aðrir, sem fá til ráðstöfunar húsnæði til útrýmingar öðrum eldri heilsuspillandi íbúðum, mundi af hálfu ríkisins þurfa að verja til þessa eins hér í Reykjavík 21 millj. kr. Á árinu 1958 er gert ráð fyrir, að af þessum byggingum Reykjavíkurbæjar verði gert fokhelt í raðhúsum við Skipasund 40 íbúðir, í fjölbýlishúsum við Skipasund 100 íbúðir og í fjölbýlishúsum við Grensásveg 96 íbúðir, eða 236 íbúðir á næsta ári, og ef fylgt væri áfram að jafnaði sömu reglunni með 70 þús. kr. lánveitingu af þessu fé, næmi það 16.5 millj. kr., eða samtals þessi tvö ár aðeins af ríkisins hálfu 37.5 millj. kr., ef jafnhá framlög kæmu af hálfu bæjarfélagsins.

Ég tel fyrir mitt leyti og hef talið, og það hefur komið fram innan bæjarstjórnar Reykjavíkur, að það sé vafasamur greiði að hafa teygt þessi lán eins hátt og gert hefur verið, með hliðsjón af því, hvað erfitt sé að fylgja því fordæmi áfram. Þess vegna voru uppi ráðagerðir innan bæjarstjórnarinnar, að lánveitingarnar til íbúðanna, sem byggðar eru til að útrýma heilsuspillandi íbúðum, yrðu ekki eins miklar og nú hefur orðið, eftir að húsnæðismálastjórnin fyrir sitt leyti ákvað að lána út á þessar íbúðir 70 þús. kr. En þar sem húsnæðismálastjórnin er nú skipuð að meiri hluta mönnum af hálfu hæstv. ríkisstj. og að sjálfsögðu ætti með slíkar ráðstafanir að vera í nánum tengslum og samræmi við vilja og óskir ríkisstj. á hverjum tíma, verður ekki séð annað en verulega þurfi að breyta og hækka framlögin. Höfum við lagt til, hv. 6. þm. Reykv. og ég, með hliðsjón af framansögðu, að framlagið hækkaði upp í 10 millj., og sjá menn þó, að það er fjarri því að nægja, miðað við að halda áfram því fordæmi, sem skapað hefur verið.

Ég skal láta þessi orð nægja til rökstuðnings þessari till. Þetta eru tvær stærstu till., og enda þótt þær yrðu samþ., hefur verið gert ráð fyrir því, miðað við till. sjálfstæðismanna, að nokkurt rúm væri enn, þannig að fjárlögin yrðu greiðsluhallalaus, enda þótt ekki sé gerð till. um hækkaða tekjuliði. Enn fremur geri ég ráð fyrir því, að það væri næsta skynsamlegt að fella sumar hækkunartill., sem fluttar hafa verið, meira að segja af fjvn., og munu koma fram við atkvgr. skoðanir mínar og annarra sjálfstæðismanna á því.

Um till. á sama þskj., 292, rómv. III, vil ég aðeins segja, að það hefur tíðkazt um lengri tíma á Norðurlöndum, að nokkru fé hefur verið varið af opinberri hálfu til þess að aðstoða íþróttahreyfinguna í því að koma upp námskeiðum fyrir forustumenn íþróttafélaganna til þess að koma á bættri og hagkvæmari stjórn íþróttafélaganna. Íþróttasamband Íslands hefur haft áhuga fyrir þessu, en ég hygg, að málin standi þannig, að Íþróttasambandið hafi ekki bolmagn til af sjálfsdáðum að koma upp þessum námskeiðum, ef það verður ekki nokkurs styrks aðnjótandi.

Þá vil ég taka fram um till. á sama þskj., 292, VI, til lamaða íþróttamannsins, Ágústs Matthíassonar, 25 þús. kr., að í samráði við hæstv. fjmrh. mun ég taka þá till. aftur.