25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

1. mál, fjárlög 1957

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal byrja á því að segja hér fáein orð um eina litla brtt., sem ég flyt á þskj. 290.

Við 2. umr. fjárl. flutti ég hér brtt. um að hækka nokkuð framlag til Skagastrandarhafnar með tilliti til þess, að hafnargarðurinn þar hefur bilað stórlega í ofviðrum. Þessi till. var felld af sameiginlegu liði hæstv. ríkisstjórnar.

Nú fer ég þá leið, sem jafnan er háttur hógværra manna, að slá undan og flytja hér aðra till., sem fer einungis fram á það, að ríkisstj. sé veitt heimild til á 22. gr. fjárlaga að láta gera við bilanir, sem orðið hafa í ofviðrum á þessum hafnargarði, og að það sé framkvæmt eftir till. vitamálastjóra og undir hans umsjón.

Ég vildi flytja þessa till. til þess að láta það sjást greinilega, hvernig sem annars um hana fer, að ég sem fulltrúi Húnvetninga ber á því enga ábyrgð, þó að svo fari, að þetta milljónafyrirtæki eyðileggist fyrir skammsýni ríkisstj. og ráðandi manna hér í landinu, því að ef svo fer, að jafnvel þessi till. sé felld, þá er það auðvitað á ábyrgð vitamálastjóra og hafnarmálaráðherra, ef svo fer sem eðlilega stefnir að, ef ekki er veitt fé í þetta fyrirtæki, að það eyðileggist smám saman, og þá er illa á málunum haldið.

Ég vék að því hér við 2. umr., að það fátæka þorp eða sá fátæki hreppur, sem hér á hlut að máli, hefur enga möguleika á því, eins og nú standa sakir, að hafa lánsfé til þess að greiða úr þessum mikla vanda, sem þarna er um að ræða, enda er það sannarlega ekki síður ríkisins, jafnvel fyrst og fremst ríkisins sjálfs, að þetta sé lagað, þó að það sé eðlilega áhugamál þeirra hreppsbúa, sem þarna eiga hlut að máli. Ég vil því mega vænta þess, að hv. alþm. sjái það og athugi, að hér er um það mikið nauðsynjamál að ræða, að ég vil mega vænta þess, að meiri hluti þeirra fallist þó á þessa heimild, sem hér er farið fram á.

Í öðru lagi vil ég svo segja hér fáein orð um brtt. frá samvn. samgm. á þskj. 276. Eins og hv. þm. hafa e.t.v. tekið eftir, skrifa ég undir álit samvn. samgm. á þskj. 275 með fyrirvara. Sá fyrirvari er ekki bundinn við það í sjálfu sér, að ég sé á móti þeim till., sem samgmn. flytur, vegna þess að mér er það ljóst, að með því að halda áfram því skipulagi, sem þarna er um að ræða, láta alla þá báta, sem þar er um að fjalla, halda áfram að ganga meðfram ströndinni, oft hálftóma og stundum meira en það, þá er ekki við að búast, að á því sviði gangi öðruvísi en annars staðar í okkar fjármálum, að kostnaðurinn við reksturinn hlýtur alltaf að hækka í stórum stíl. Eftir þeim upplýsingum, sem samvinnunefndin hefur fengið frá forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, er það augljóst, að þeir gífurlegu tollar, sem samþ. voru hér fyrir jólin, hafa mikil áhrif í þá átt að hækka kostnað við allan rekstur þessara báta eins og Skipaútgerðarinnar í heild. Þetta er sá sami gangur, sama lögmál og gildir víðs vegar í okkar starfrækslu, að það hækkar alltaf kostnaðurinn, eftir því sem tollarnir eru hækkaðir, kaupið hækkað o.s.frv.

Minn fyrirvari er bundinn við það, að mér er ljóst, að það er ekki hægt að halda þessu áfram í þeirri mynd, sem það er, bæði með Skipaútgerðina og bátareksturinn. Þar verður eitthvað að breyta til, þó að samvn. samgm. hér á Alþingi hafi ekki aðstöðu til að slá fram eða samþykkja eða fara fram á skipulagsbreytingu á þessum málum. En svo langt er komið á þessu sviði samkv. fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir, og tillögum meiri hl. fjvn., að til rekstrarhalla á Skipaútgerðinni og bátarekstrinum er áætlað á þessu yfirstandandi ári hvorki meira né minna en 18291600 kr. Þetta er 2 millj. og 300 þús. kr. rúml. hærra en ætlað er til nýlagningar á öllum þjóðvegum á Íslandi. Og í sjálfu sér er þetta meiri öfgar og meira öfugstreymi en ég hef nokkurn tíma séð áður á fjárlagafrv. hér á Alþingi.

Menn hafa verið að því á undanförnum árum og sannarlega ekki síður menn úr stuðningsliði núverandi ríkisstj. að heimska sig á því að slá um sig með yfirlýsingum og kröfum og loforðum um það, að þeir ætli að vinna að því að auka jafnvægi í byggð landsins. En þessir sömu menn vinna að því ár eftir ár að auka ójafnvægið í byggð landsins. Og það svartasta, sem þar skeður nú í sambandi við till. meiri hl. fjvn., er það, að haldið er meira í fjármuni til vegaframkvæmda í hlutfalli við annað en nokkurn tíma áður hefur verið. En það, að mennirnir í strjálbýlinu fái komizt í akfært samband við þjóðvegi landsins, er blátt áfram grundvöllurinn að því, að byggð geti haldizt við í hinum strjálu byggðum. Og ég tel það of langt gengið, þegar svo er komið, að það á að borga svo að milljónum skiptir hærra til rekstrarhalla smáskipa og báta, sem ganga meðfram ströndinni, heldur en til nýlagningar á öllum vegum á landinu öllu. Með tilliti til þessa gat ég ekki fyrirvaralaust skrifað undir það álit samgmn., sem hér er um að ræða, þó að það sé byggt á þeim eðlilega grundvelli að öðru leyti, að þar eins og annars staðar húrrar rekstrarkostnaðurinn upp, eftir því sem skattarnir eru hækkaðir og allur annar kostnaður.

Í þriðja lagi vil ég svo segja örfá orð um eina till. frá hv. minni hl. fjvn. Það er till., sem flutt er á þskj. 286 og er nr. 17, brtt. við 22. gr., um að heimila ríkisstj. að borga 5 millj. kr. á þessu ári til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands.

Ég skal geta þess hér, að á s.l. vori skipaði hæstv. fyrrv. landbrh. fimm manna mþn. til þess að endurskoða lög um nýbýli og samvinnubyggðir, byggingarsjóð Íslands og að öðru leyti gera tillögur um, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera til þess að bæta hag þeirra manna, sem eru að byrja búskap á Íslandi. Þessi mþn. var skipuð tveimur mönnum frá Búnaðarfélagi Íslands, sem voru formaður félagsins, Þorsteinn á Vatnsleysu, og meðstjórnandi hans, Pétur Ottesen, hv. þm. Borgf., tveimur mönnum frá nýbýlastjórn ríkisins, sem voru annars vegar ég, sem er formaður þeirrar stjórnar, og landnámsstjórinn Pálmi Einarsson. Fimmti maðurinn, sem var skipaður án tilnefningar, formaður n., var svo skólastjóri við bændaskólann á Hólum, Kristján Karlsson.

Þessi fimm manna n. var mjög sammála í öllum tillögum. Samvinna í nefndinni var hin ágætasta, og n. skilaði tveimur frv. til hæstv. ríkisstj. um miðjan nóv. s.l. Síðan hefur ekkert til þessara frv. sézt fyrr en nú í dag, að annað þeirra er lagt hér á borðin hjá okkur þm., gerbreytt frá því, sem n. skilaði því, meira og minna limlest o.s.frv. Hitt frv., sem var um breytingu á lögum um Búnaðarbanka Íslands og fór fram á, að þar væri varið til veðdeildarinnar 5 millj. kr. á ári, hefur ekki sézt enn, og ekkert hefur sézt frá hv. meiri hl. fjvn. til endurbóta á þessu sviði.

Nú skal ég segja það, að ég held, að það sé einsdæmi í þingsögunni, að nokkur ríkisstj. fari á þennan hátt með frv., sem afhent hafa verið frá mþn. og samkomulag hefur verið um. Ég held mér sé óhætt að segja, að það er einsdæmi. Hitt er altítt og ekkert við að segja, að frv., sem koma frá mþn. og lögð eru fyrir Alþingi, sé ýmislega breytt í meðförum þingsins. Ef frumvörpin hefðu verið lögð á eðlilegan hátt fyrir Alþ., eftir að þeim var skilað frá mþn., þá var ekkert við því að segja, þó að þeim hefði verið eitthvað breytt í meðförum þingsins, eftir því sem meiri hl. þess taldi réttmætt vera. En að fá ekki frv. eins og þeim er skilað af mþn. inn í þingið og það þeirra, sem þegar hefur verið afhent, meira og minna gerbreytt og limlest, það er að ég hygg einsdæmi.

Nú vil ég segja það, að ég vil ekki trúa því fyrr en annað kemur í ljós, að það sé vilji hæstv. landbrh., sem ég þekki að velvilja í garð landbúnaðarins, að þetta hefur farið á þennan hátt, heldur hygg ég, að þarna sé um annað að ræða og það sé fremur það, að hans samstarfsmenn í ríkisstj. hafi ekki fengizt til að fylgja honum í því að leggja frumvörpin fyrir sem stjórnarfrumvörp á eðlilegan hátt. En hvað sem þessu líður, verð ég að segja það, varðandi það atriði að leggja fram fé til bjargar veðdeild Búnaðarbankans, að það hefur í mörg undanfarin ár staðið um það barátta hér á Alþingi, á hvern hátt væri hægt að greiða fyrir því, að aðstaða þeirra manna, sem eru að byrja búskap úti um sveitir landsins, væri eitthvað bætt. Þetta hefur ekki fengizt fram, og svo illa er komið, að veðdeild Búnaðarbankans, sem helzt er þó þarna til bjargar, er komin í skuldir, og ég veit það með vissu, að bankastjóri þess banka er allur af vilja gerður, eins og vænta má af svo ágætum manni, til þess að greiða úr vandræðum bænda á þessu sviði eins og öðrum. En aðstaðan leyfir ekki að halda áfram, og þess vegna er það, að hrúgazt hafa upp lánbeiðnir frá frumbýlingum sérstaklega og mönnum, sem eru að brjótast í því að kaupa jarðir og byggja upp jarðir, um nokkra lánsaðstoð í þessu efni.

Nú er nokkuð hart til þess að vita, þegar við höfum hér fyrir framan okkur fjárlagafrv., sem er komið á níunda hundrað milljóna, að það eigi ekki á neinn hátt að laga aðstöðu þessara manna, sem eðlilega hlýtur að þýða það, að það fer sívaxandi, að ungu mennirnir, sem alast upp í sveitum landsins, flýja þaðan, vegna þess að það er ekki mögulegt vegna fjárskorts fyrir þá að stofna til búskapar, sem nú kostar margfalt við það, sem nokkurn tíma hefur áður þekkzt. Ég vil þess vegna vona, að hvað sem líður samþykktum hjá hv. stjórnarflokkum eða meiri hl. fjvn., þá sé þó ekki komið svo langt, að þeir menn hér á Alþ., sem á annað borð eru sveitafulltrúar eða velviljaðir landbúnaði, láti hafa sig til þess að fella till. eins og þessa mjög hógværu till. frá minni hl. fjvn. á þskj. 286.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um það furðulega fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, né þær till., sem um það fjalla.