25.02.1957
Sameinað þing: 38. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (934)

1. mál, fjárlög 1957

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Með því að samþingismaður minn, sem er 1. flm. að þremur till., sem við eigum hér, er lasinn og getur ekki mætt í kvöld, og þar sem ráðgert er, að umræðum ljúki nú í nótt, hefur það orðið að ráði með mér og hæstv. forseta, að ég segði hér örfá orð fyrir þessum brtt. okkar. Við eigum hérna þrjár brtt. á þskj. 290.

Brtt. V, sem er í tveimur liðum, er gamall kunningi. Það er tillaga um það, að Siglufjarðarvegur ytri verði lækkaður um 200 þús. kr. Við 2. umr. fjárlaga gerði ég grein fyrir þessum brtt. okkar og sýndi fram á, að það væri með öllu tilgangslaust að leggja stórfé í þennan veg, eins og ástatt væri, með því að vegurinn, sem honum er ætlað að tengjast og þarf að tengjast til þess að verða farinn, er ófær eða því nær ófær oft mikinn hluta ársins og ekki útlit fyrir, að honum verði lokið á næstunni, ef ekki fæst aukið fé til hans. Ég líkti þessum vinnubrögðum við það, að það væri eitthvað svipað og ef ráðizt hefði verið í það á sínum tíma að leggja upphleyptan veg eða braut yfir Holtavörðuheiði, en láta veginn frá Hvammi í Norðurárdal upp að Fornahvammi vera eins og hann var upphaflega, götutroðningar ruddir, sem aðeins bílar gátu skrölt eftir yfir hásumarið, þegar bezt var. Slík vitleysa datt engum þá í hug, og þess vegna er það furðulegt, að slíkt skuli gert nú, þegar í raun og veru alveg eins stendur á.

Svo er það þriðja till., sem við eigum hér sameiginlega og er um það, að veitt verði nokkurt fé til Hofsóshafnar. Því miður fór vitamálastjóri af landi brott, og við höfum þess vegna ekki getað notið aðstoðar hans. En þessi hafnargerð er í raun og veru hálfgerð raunasaga, eins og raunar má segja um ýmsar fleiri hafnargerðir hér á landi.

Fyrir nokkrum árum, þegar aðalhafnarmannvirkin voru byggð, réðst verkstjórinn í að hefja byggingu á miklu meiru en allir kunnugir á staðnum töldu ráðlegt, vegna þess að áliðið var sumars. Það var samt sem áður búið að leggja þarna bæði mikið fé og vinnu í þetta, en eins og marga grunaði komu haustbrimin áður en varði, og braut framan af þessum mannvirkjum. Það eyðilagðist þriðjungur af því, sem átti að gera, fór sumpart í sjóinn, annað brotnaði, og það varð í mesta skyndi að slá botninn í þetta, loka fyrir endann og þó aðeins til bráðabirgða, og þannig situr mannvirkið enn þá. Þetta var mikill kostnaður fyrir lítið hreppsfélag, sem það í raun og veru hefur ekki náð sér að fullu eftir. Það eru tilmæli okkar eða ósk okkar og þá sérstaklega og ekki síður hreppsnefndar og Hofsóshrepps, að nú verði aftur hafizt handa um að koma þessu verki áleiðis og að Alþingi leggi þar nokkurt fé til. Við höfum hér farið fram á 100 þús. kr. í þessu skyni, og mun það víst ekki um of. Væntum við þm. Skagf., að menn líti á nauðsyn þessa litla kauptúns á endurbótum á þessu nauðsynjaverki.