28.05.1957
Sameinað þing: 62. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2251 í B-deild Alþingistíðinda. (94)

Almennar stjórnmálaumræður

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Hv. landsk. þm., Karl Guðjónsson, sagði það hér áðan, að ríkisstj. miðaði starfsemi sína við það að komast hjá gengisfellingu. Hæstv. ráðh., Eysteinn Jónsson, hrósaði sér af því, að vísitalan væri vel fölsuð, með því að hún hefði ekki hækkað um nema 4 stig þrátt fyrir hinar miklu hækkanir, sem orðið hafa á öllu. Og hæstv. menntmrh. sannaði menntun sína í hagfræði með því að halda því fram, að Sjálfstfl. hafi tapað í síðustu kosningum, þegar hann bætti við sig fylgi úr 37% í 42.4%. Það má segja, að þessir hv. ræðumenn stjórnarflokkanna hafi verið fyndnir í þessum ræðum, sem þeir héldu hér áðan.

Stjórnarflokkarnir halda því fram í þessum umr., að við sjálfstæðismenn höfum reynt að spilla lánstrausti þjóðarinnar í því skyni að koma í veg fyrir, að ríkisstj. takist að fá lán erlendis til Sogsvirkjunarinnar og annarra framkvæmda. Þeir halda því einnig fram, að við sjálfstæðismenn spillum vinnufriðnum og ölum á kaupkröfum og ýtum undir verkföll. Þessi málflutningur stjórnarflokkanna er léleg tilraun til þess að leiða athygli frá úrræðaleysi ríkisstj., svikum hennar og vanefndum í öllu, sem máli skiptir og hún hafði lofað að framkvæma, um leið og hún settist að völdum.

Forsrh. vitnaði í ummæli mín á Alþingi til stuðnings þeirri fullyrðingu, að sjálfstæðismenn vildu koma í veg fyrir, að ríkisstj. tækist að fá lán erlendis. Til þess að fá allt aðra meiningu í það, sem ég sagði, er klipið framan af og aftan af málsgreininni. Vegna þess að Tíminn hefur hvað eftir annað staglazt á þessu, þykir mér vænt um, að forsrh. gefur mér tilefni til að lesa hér upp í áheyrn alþjóðar það, sem ég sagði í áminnztum umræðum. Með leyfi hæstv. forseta, sagði ég þetta, orðrétt:

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) var að tala um það hér áðan, að ég hefði hælzt um það, að litlar líkur væru til, að lán fengjust til þess að kaupa togarana. Þetta er reginmisskilningur hjá hv. þm. Ég vitanlega vildi óska þess, að það væri hægt að halda uppbyggingu atvinnuveganna og öllum framkvæmdum hér áfram, þrátt fyrir það þótt við höfum lélega stjórn í landinu um sinn. Allir hv. þm. hljóta að skilja, að ef framkvæmdirnar stöðvast og ef atvinnuleysið heldur innreið sína hjá okkur, þá líða allir við það. Það verður að finna önnur ráð til þess að koma hæstv. ríkisstj. frá völdum heldur en þau ein, að hún fái hvergi lán. Hæstv. ríkisstj. fellur á sínum eigin verkum og sínu eigin úrræðaleysi.“

Þetta eru hin tilvitnuðu ummæli. Tíminn og Framsókn dregur úr aðeins eina eða tvær linur og leggur svo út af því eins og henta þykir. Ég veit, að áheyrendur um allt land skilja, að með þessum ummælum mínum lýsi ég því beinlínis yfir, að það sé nauðsynlegt að halda áfram framkvæmdum og uppbyggingu í atvinnulífinu, m.a. með erlendum lánum. Við sjálfstæðismenn viljum ekki hindra erlendar lántökur. Það getur bitnað á þjóðinni allri. Og þótt fjmrh. lýsti því hér áðan, að við værum slæmir menn og vildum vinna gegn hagsmunum Íslands, fær slík staðhæfing ekki staðizt og hún mun hitta fjmrh. sjálfan.

Stjórnarflokkarnir sjá, að verk ríkisstj. eru slæm, að stefnt er út í ófæru og að þjóðarskútan er að strandi komin. Ríkisstj. hagar sér eins og óknyttastrákar, sem unnið hafa vont verk og reyna að koma sökinni á aðra í stað þess að viðurkenna, að það, sem þeir lofuðu þjóðinni fyrir kosningar, hefur ekki tekizt að efna. Ríkisstj. ætti að hafa manndóm til að viðurkenna, að hún hefur ekki komið efnahagsmálunum í það horf, sem hún lofaði með miklu yfirlæti fyrir kosningar. Hún ætti að viðurkenna, að dýrtíðarskrúfan hefur aldrei snúizt eins hratt og síðustu mánuðina eftir ráðstafanir ríkisstj. við síðustu áramót. Ríkisstj. ætti að viðurkenna, að í stað þess að skapa jafnvægi og öryggi í atvinnulífinu hefur hún komið á jafnvægisleysi, öryggisleysi og gert lífskjörin verri hjá öllum almenningi í landinu.

Ekkert af þessu hefur ríkisstj. manndóm til þess að viðurkenna, heldur er blekkingastarfseminni enn haldið áfram og því haldið fram, að þrátt fyrir hina gífurlegu skatta og tolla, sem á voru lagðir um síðustu áramót, hafi verðlag á innfluttum vörum lítið eða ekkert hækkað, vegna þess að álagningin hafi verið lækkuð hjá milliliðunum.

Í útvarpsumræðunum, sem fram fóru eftir síðustu áramót, tóku ýmsir mark á fullyrðingum stjórnarflokkanna um þessi atriði, að vöruverð mundi ekki hækka neitt verulega. En nú lætur fólk ekki lengur blekkjast af fagurgala eða fullyrðingum, því að nú eru staðreyndirnar komnar í ljós og fólkið sjálft með því að fara í búðir og kaupa varninginn þreifar á því, hversu verðhækkanirnar eru tilfinnanlegar.

Það er ekki tími til að taka mörg dæmi, sem sýna hinar miklu verðhækkanir, enda gerist þess naumast þörf. 300 millj. kr. nýir skattar á innfluttar vörur hljóta að koma fram í vöruverðinu. Sköttunum er ætlað að ná til a.m.k. hluta af öllum innflutningi til landsins, og svarar það til, að skatturinn verði í framkvæmdinni frá 8 og allt upp í 100% á þann hluta innflutningsins.

Ef aðeins eru örfá dæmi nefnd um hinar gífurlegu hækkanir, má geta þess, að ekki ónauðsynlegri vara en ullarefni hefur hækkað um 85%. Sama máli gegnir um varahluti til heimilisvéla, svo sem þvottavéla og annarra heimilisvéla, 85% hækkun. Reiðhjól 45% hækkun, saumavélar 63% hækkun, þakpappi 13% hækkun, gólfdúkur 16% hækkun, raflagningarefni 28% hækkun, heimiltæki, s.s. hraðsuðukatlar og fleira, 53% hækkun, varahlutir í díeselvélar 21% hækkun, efni í málningu 18% hækkun, efni í vinnuföt 14–20% hækkun. Þannig mætti telja í allt kvöld. — En álagningin hefur verið lækkuð, segja stjórnarflokkarnir, og það er þó nokkuð til að hrósa sér af, því að það heldur dýrtíðinni niðri.

Ég vil sýna fram á, að þótt verzlunarálagning hafi í vissum tilfellum verið nokkuð lækkuð, þá hefur það lítil áhrif til lækkunar á vöruverðið, eftir að varan hefur verið skattlögð eins og raun ber vitni. Stjórnarflokkarnir hæla sér af því að hafa lækkað heildsöluálagningu frá 10–20% og stundum meira. En hvað gerir sú lækkun í verðlaginu? Tökum dæmi: Vara kostaði í innkaupi fyrir skatthækkunina 100 kr. Heildsöluálagning á þessari vöru var 15%, verð frá heildsala verður því 115 kr. Eftir skatthækkunina kostar sama vara í innkaupi 140 kr. Lækkun á heildsöluálagningu var 30%. Heildsöluálagning eftir lækkunina verður kr. 14.70. Verð vörunnar frá heildsala verður því kr. 154.70. Heildsöluálagning var fyrir skatthækkun 15 kr., eftir skatthækkunina 14.70. Lækkun á heildsölunni verður því 30 aurar á þessari vöru. Varan hefur hækkað um 39 kr. og 70 aura, eða 34%.

Í þessu dæmi er talað um 15% heildsöluálagningu og 30% lækkun á álagningunni. Hafi heildsöluálagningin verið minni, sem oftast var, og lækkunin á álagningunni aðeins 10 eða 20%, sem einnig er algengast, verður dæmið enn óhagstæðara fyrir þá, sem ætla að réttlæta álögurnar með því einu, að álagningin hafi verið lækkuð.

Álögurnar við síðustu áramót komu mjög þungt niður á allan almenning, en ekki sízt bændastétt landsins. En samkvæmt viðtali, sem lýst er í Mbl. í dag, við framsóknarbónda í Húnavatnssýslu, telur þessi bóndi, að nýju álögurnar auki útgjöld búsins um 10–15 þús. kr. á ári, án þess að nokkuð komi á móti, Það er vitað, að núverandi stjórnarflokkar hafa alls ekki staðið við það að láta bændur fá það verð fyrir afurðirnar, sem þeim ber samkvæmt verðgrundvellinum, og því er ekki við að búast, að bændur fái bætur fyrir hina nýju skatta. Þetta er ekki vitnisburður sjálfstæðismanna, heldur framsóknarbónda, sem hefur fram að þessu trúað því, að Framsfl. vildi vinna fyrir bændur.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum um verðlagið og dýrtíðina, sem nú er öllum augljós. Jón Árnason fyrrverandi bankastjóri sagði nýlega í ræðu, að ráðstafanir ríkisstj. við síðustu áramót jafngiltu 60% gengislækkun. Framsóknarmenn leyna nú því, sem þessi mæti maður segir, og víst er það, að ekki kom þessi ræða í Tímanum, eins og ritsmíðar Jóns Árnasonar hafa oft áður gert. Jón Árnason lýsti líka stjórnarfarinu, stjórnarstefunni, og það mátti ekki koma í Tímanum.

Bragi Sigurjónsson, varaþm. Alþfl., hefur fullyrt í ræðu, að almenningur í landinu hafi orðið fyrir vonbrigðum með núverandi ríkisstj. Og Áki Jakobsson, þm. Siglf., fullyrðir, að vegna ráðstafananna, sem gerðar voru í vetur, sé gengislækkun óhjákvæmileg. Það eru ekki við sjálfstæðismenn einir, sem gagnrýna núverandi ríkisstj. eða segja berum orðum, hvað hefur gerzt undanfarna mánuði í verðlagsmálunum.

Afleiðing af því, sem gerzt hefur í verðlagsmálunum, er ólgan í öllum stéttum þjóðfélagsins og auknar kröfur um hækkað kaup vegna hins háa vöruverðs, sem aðgerðir ríkisstj. leiða af sér. Það þarf mikla dirfsku til að halda því fram, að við sjálfstæðismenn höfum átt þátt í þeim vinnudeilum, sem orðið hafa undanfarið og nú eru í uppsiglingu. En verkföll og vinnudeilur eru nú daglegt brauð, síðan núverandi ríkisstj. tók við.

Við sjálfstæðismenn höfum varað við kaupskrúfunni og þeirri hættu, sem stafar af kapphlaupinu milli kaupgjalds og verðlags. Við fluttum till. veturinn 1956 til niðurgreiðslu á verðlagi, sem kostaði ríkissjóð mjög lítið, miðað við þau hundruð milljóna, sem kastað hefur verið á glæ vegna vandræðastefnu núverandi ríkisstj. En framsóknarmenn hlupu frá ábyrgðinni út í það ævintýri, sem hafa mun örlagaríkar afleiðingar fyrir þjóðfélagið. Framsóknarmenn munu ekki komast hjá því að gera þjóðinni, þótt síðar verði, reikningsskil fyrir það ábyrgðarleysi, sem þeir hafa sýnt í þeirri ævintýrapólitík, sem þeir nú reka.

Víst er um það, að flestir kjósendur Framsfl. hafa treyst því, að framsóknarmenn á þingi vildu sýna ábyrgð og taka vandamálin raunhæfum tökum. Þannig talaði Eysteinn Jónsson fjmrh. oft, meðan hann var í samstarfi við sjálfstæðismenn. Þá virtist hann gera sér grein fyrir því, hver væri höfuðorsök meinsemdanna, verðbólgunnar og erfiðleika atvinnuveganna. Nú hefur þessi ráðh. snúið við blaðinu og hreinlega gefizt upp við að halda því fram, sem er raunhæft og rétt. Eysteinn Jónsson ráðherra heldur, að almenningur taki það sem góða og gilda vöru, að hann snúi nú alveg við blaðinu og telji allt rangt, sem hann sagði fyrir rúmu ári um orsakir og afleiðingar þeirra meinsemda, sem í þjóðfélaginu eru. Hermanni Jónassyni hefur tekizt að buga viðnámsþrótt fjmrh. og fengið hann út á götu ævintýramennskunnar ásamt öðrum þm. Framsfl. Er leitt til þess að vita, þar sem sumir af þessum mönnum eru ágætismenn og ættu skilið betra hlutverk en það, sem þeim er nú ætlað að leika.

Framsóknarmenn hafa talað um það í þessum umr., að við sjálfstæðismenn vildum finna ráð til þess að koma núverandi ríkisstj. frá. Við lítum svo á, að það sé nauðsynlegt fyrir íslenzku þjóðina að fá aðra stjórnarstefnu, að fá betri stjórn. Ráðin til þess að koma ríkisstj. frá eru einföld, aðeins það, að fólkið í landinu fái að fylgjast með því, sem ríkisstj. gerir, og það er það, sem við sjálfstæðismenn viljum. Við munum segja frá staðreyndum. Það er ekki okkar sök, þótt verk stjórnarinnar séu þannig, að það magni andúð gegn ríkisstjórninni, ef sagt er frá þeim. Og þegar stjórnarflokkarnir tala um, að sjálfstæðismenn beri ábyrgð á verkföllum og kauphækkunum, þá gæta þeir ekki þess, að fólkið í landinu, hvort sem það er í Sjálfstfl. eða öðrum flokkum, hefur fengið vaxandi vantrú á stjórnarstefnunni og mun með sívaxandi þunga gera stjórnarherrunum ljóst, að þeir hafi ekki tiltrú eða fylgi fólksins og verði að hætta að tala um það með yfirlæti, eins og þeir hafa gert oft áður, að þeir séu fulltrúar vinnandi fólks.

Það er svo ágætt út af fyrir sig, að fulltrúar stjórnarflokkanna sjái ekkert nema sjálfstæðismenn á vegi sínum, hvar sem þeir fara, og er það vottur þess, að Sjálfstfl. er vaxandi flokkur, þróttmikill flokkur, sem tekur upp baráttu fyrir bættum stjórnarháttum, atvinnuöryggi og bættum lífskjörum. Auðvitað er stjórnarflokkunum nú orðið ljóst, að Sjálfstfl. er ekki flokkur braskara og fámennrar klíku, eins og þeir segja, heldur flokkur þjóðarinnar,flokkur þeirrar hugsjónar að skapa þjóðinni öryggi og farsæld.

Stjórnarflokkarnir hafa í þessum umr. stært sig af því að hafa fengið lán erlendis til Sogsvirkjunarinnar og fleiri framkvæmda. Forsrh. lýsti því yfir í útvarpinu í gærkvöld, hvernig ástandið var, „þegar ríkisstjórnin tók við“, eins og hann orðaði það. Það vantaði fjármagn til framkvæmdanna, sagði ráðh. Fyrrv. ríkisstj. hélt uppi meiri framkvæmdum en nokkurn tíma hefur áður gerzt í þjóðarsögunni með innlendu fjármagni. Auðvitað er það heilladrýgra að nota innlent fjármagn og vinna að því, að fjármagnið myndist í landinu, eins og fyrrverandi ríkisstj. gerði, heldur en stöðva alla fjármagnsmyndun í landinu, eins og núverandi ríkisstj. hefur gert, og reyna svo að fleyta þjóðarskútunni áfram með betli og erlendum lántökum, sem fást eftir mikla eftirgangssemi.

Fyrrverandi ríkisstj. vann að fjármagnsmyndun, eins og sjá má af því, að sparifjáraukningin, sem er hin eðlilega undirstaða framkvæmdanna, varð mjög mikil í tíð fyrrverandi ríkisstj. Á þeim tæpum þrem árum, sem fyrrv. ríkisstj. sat að völdum, var aukning sparifjárins samtals 650 millj. kr. Það var vegna þess, að almenningur treysti ríkisstj. og stefnu hennar. Þá voru bankarnir ekki tómir. Þá var uppbyggingunni haldið áfram með innlendu fjármagni, án. þess að nokkurt teljandi lán væri tekið erlendis. Þegar núverandi stjórn tók við völdum, snerist þetta við og sparifjármyndunin hvarf, lánsfjárkreppan kom, fjármagn vantaði til flestra hluta, eina vonin var að fá erlend lán. Það tókst við síðustu áramót að fá 65 millj. kr. lán í dollurum. Síðan hafa fengizt 117 millj. kr. að láni til virkjunar Sogsins. En ætlunin er að láta varnarliðið á Keflavíkurflugvelli njóta góðs af virkjuninni.

Það eru slagorð hjá stjórnarliðum, þegar þeir segja, að fyrrv. ríkisstj. hafi ekki átt kost á erlendum lánum. Fyrrv. ríkisstj. gat fengið lán til Sogsins með því að tryggja varnarliðinu raforku fram í tímann. Það þótti ekki viðeigandi þá, þótt það þyki gott nú. Forsrh. og fleiri stjórnarliðar hafa rengt það, að fyrrv. stjórn hafi átt kost á láni til Sogsins. En það er erfitt, þótt fjmrh. hafi rengt það áðan, að neita því, að fyrrv. forsrh., Ólafur Thors, átti öruggt tilboð um 400 millj. kr. lán frá Vestur-Þýzkalandi. Fyrrv. ríkisstj. hafði nóg ráð, ef hún hefði setið að völdum, til þess að útvega fjármagn til hinna ýmsu framkvæmda.

Fyrir síðustu kosningar töluðu stjórnarsinnar mikið um gjaldeyrisástandið. Hæstv. menntmrh. talaði um það hér áðan, að gjaldeyrisástandið hefði ekki versnað. Hver er sannleikurinn í þessu? Við s.l. áramót var gjaldeyrisstaðan þannig, að hinn frjálsi gjaldeyrir hefur versnað um 75 millj. kr. frá því á sama tíma 1956. Ríkisstj. tók 65 millj. kr. dollaralán um s.l. áramót. Þetta lán hefur ekki verið notað til kaupa á framkvæmdavörum, heldur til þess að borga með venjulegan innflutning, og hæstv. menntmrh. verður að reikna með þessum peningum, þegar hann talar um batnandi eða versnandi gjaldeyrisástand.

Ég hef drepið á nokkur atriði í störfum og athöfnum ríkisstj. og stjórnarflokkanna. Við sjálfstæðismenn teljum skyldu okkar að vara við því, sem nú er að gerast í þjóðmálum Íslendinga. Þjóðin þarf að fylgjast með og má ekki láta blekkja sig. Þjóðin er það vel upplýst, að hún mun ekki láta blekkingarnar villa sér sýn. Þjóðin verður að gera sér grein fyrir því, að stefnubreyting verður að koma í þjóðlífinu. Við Íslendingar erum fámennir, en búum í stóru landi, sem hefur mikla möguleika. Framtíð lands og þjóðar er undir því komin, að hver einstaklingur geri kröfur til sjálfs sín, vilji leggja krafta sína fram í þágu atvinnulífsins og til þjóðfélagsins, sem verið er að byggja upp. Því verður ekki neitað, að þjóðin hefur oft lifað um efni fram, og það er ekki heilbrigt og ekki heldur mögulegt til lengdar. Þjóðin verður að afla þeirra verðmæta, sem notuð eru. Þjóðin verður að taka á ný upp þá stjórnarstefnu, sem giltí undir forustu Sjálfstfl. á undanförnum árum og færði þjóðinni meiri farsæld og velgengni en áður hefur þekkzt. — Góða nótt.