07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (960)

9. mál, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það til l., sem borizt hefur hér frá Nd. og er á þskj. 207, þarf ekki ýtarlegrar framsögu við. Það er nánast flutt til samræmingar þeirri kjarabót, sem verkalýðsfélögin náðu fram í síðustu stórfelldu vinnudeilunni, sem hér var háð, í sambandi við lengingu orlofstíma. Er gert ráð fyrir, að sú orlofstímalenging, sem þar náðist, verði einnig færð yfir til opinberra starfsmanna.

Frv. fjallar því um breyt. á l. nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í aths. við frv. þetta segir m.a., að í lögum nr. 38 frá 1954 um breytingar á skyldum starfsmanna ríkisins, þegar þau voru sett, var orlof samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga almennt 15 virkir dagar. Var því fylgt sem aðalreglu í l., en á hinn bóginn veitt heimild til lengra orlofs þeim til handa, er alllengi höfðu starfað í þjónustu ríkisins.

Á s.l. ári var orlof samkvæmt kjarasamningum lengt í 18 virka daga. Með frv. þessu er lagt til, að almenna reglan um orlof starfsmanna ríkisins verði í samræmi við þetta. Einnig er lagt til, að heimild sú, sem lögin geyma um, að orlof megi vera allt að 18 virkum dögum, ef sérstaklega stendur á, verði allt að 21 virkum degi. Hins vegar hefur ekki verið talin sérstök ástæða til breytinga á orlofi þeirra starfsmanna ríkísins, er verið hafa í þjónustu þess lengur en 15 ár, en þeir hafa nú þegar orlof í 24 daga.

Fjhn. hefur yfirfarið frv. þetta og leggur einróma til á þskj. 313, að frv. verði samþ. óbreytt.