01.02.1957
Neðri deild: 49. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Það er nú jafnan svo með frv., sem miða til skattalækkunar, að þau sæta sjaldnast mikilli andspyrnu af hálfu stjórnarandstöðunnar, og býst ég við, að eins verði með þetta frv. og önnur slík. En ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, er sú, að það er eitt atriði tæknilegs eðlis í samhandi við frv. þetta, sem mig langaði til að spyrja hæstv. ríkisstj. um, hvernig beri að skilja eða hvernig hugsað hafi verið.

Það er hér gert ráð fyrir því, að tekjuskattur hjóna með 47500 kr. hreinar árstekjur og eitt barn á framfæri skuli lækka um þriðjung, sömuleiðis allra annarra, sem greiða sama skatt eða lægri. En ég fæ ekki annað séð, eins og þetta er orðað, en að þetta mundi þýða það, að hjón með eitt barn, sem hefðu 47550 kr. í tekjur, mundu af þessum 50 kr., sem eru fram yfir þetta lágmark, greiða 400 kr. í skatt. Það má vitanlega um það deila, hversu stighækkandi skattur skuli vera, og þetta frv., eins og það liggur fyrir, miðar að því að gera skattinn í rauninni meira stighækkandi en áður var. Við því er ekkert að segja. Hitt verður að teljast algerlega óeðlilegt, að á vissu tekjubili verði stighækkunin mörg hundruð prósent af skattinum og síðan komi stighækkunin til að lækka aftur. Á nokkru tekjubili, þ.e.a.s. því, sem væri næst yfir 47b00 kr., mundi stighækkunin þannig verða svo mikil, að af umframtekjum yrðu menn að greiða meira en 100% í skatt. Það mætti e.t.v. segja, að þetta hafi ekki svo mikla praktíska þýðingu, ef hér er um að ræða aðila, sem hafa þá aðstöðu í þjóðfélaginu, að þeim er nokkurn veginn í sjálfsvald sett, hvort þeir telja fram tekjur sínar eða ekki, því að þá losa þeir sig auðvitað við þessa skattgreiðslu með því að telja ekki þær tekjur fram, sem eru fram yfir 47500 kr. Samt sem áður mun þetta hafa nokkra praktíska þýðingu, því að mikill fjöldi fólks er á því launabili, sem hér er um að ræða, og þar sem það er yfirleitt launafólk, er fær tekjur sínar þannig gefnar upp til skattayfirvaldanna af öðrum, þá gætu það orðið mörg tilfelli, þar sem menn kæmu í rauninni til þess að greiða margfalda þá upphæð í skatt, sem er fram yfir 47500 kr.

Nú þætti mér gaman að vita, og það var ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, hvort um þetta atriði hefur verið hugsað í sambandi við undirbúning laganna, þannig að það sé meiningin, að á þessu litla millibili eigi stighækkunin að verða mörg hundruð prósent. Sé svo, er ekkert við því að segja, þá er það skoðun ríkisstj., að þannig eigi að vera. Sé hins vegar um vangá að ræða, — og er engin ástæða til þess að býsnast yfir því, þó að svo væri, það er hlutur, sem alltaf getur komið fyrir, — þá sýnist mér, að auðvelt mundi vera að lagfæra þetta, án þess þó að það orsakaði tekjumissi, sem neinu næmi fyrir ríkissjóð. En þá hlið málsins ætla ég ekki að ræða í þessu sambandi, þar sem það mundi þá verða rætt í nefnd.