21.02.1957
Neðri deild: 58. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. frsm., áskildum við tveir nm. í fjhn., hv. 5: þm. Reykv. og ég, okkur rétt til þess að bera fram brtt. við frv. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.

Það er út af fyrir sig álitamál, hvort þetta frv. gangi eins langt og ástæða væri til í því efni að lækka tekjuskatt á lágtekjum. Það má til sanns vegar færa, að um þetta muni ekki svo ákaflega mikið. En samt sem áður höfðum við ekki hugsað okkur að flytja neinar róttækar brtt. við frv., sem hefðu í för með sér verulegan tekjumissi fyrir ríkissjóð. Hins vegar flytjum við þá brtt., sem fyrir liggur á þskj. 264, til þess að bæta úr agnúa, sem á frv. er, en þessi agnúi er í því fólginn, að þar sem tekjuskatturinn kemur til að lækka um þriðjung af tekjum fyrir neðan ákveðið lágmark, skapar þetta alveg óeðlilega stighækkun á því tekjubili, sem er þar fyrir ofan.

Frv. gerir ráð fyrir því, að tekjuskattur hjóna með eitt barn, sem hafi 47500 kr. í hreinar tekjur, lækki um þriðjung. Af því leiðir, að hjón með eitt barn, sem teldu fram 100 kr. meira, kæmu af þessum 100 kr. til að borga 400 kr. í skatt. Slíkt getur ekki verið álitamál. En við 1. umr. var það upplýst, að tekjuskattslækkunin fyrir hjón, sem hefðu þessar umræddu tekjur, mundi vera um 400 kr. Hafi þau 100 kr. meira, fá þan ekki þessa ívilnun, þannig að skatturinn af þessum 100 kr., sem eru fram yfir, verður þá 400 kr. Slíkt verður að telja með öllu óeðlilegt, og brýtur það í bág við þær reglur, sem almennt liggja til grundvallar ákveðnum skattstigum. Að vísu má um það deila, hversu stighækkandi skatturinn skuli vera almennt, en hitt er með öllu óeðlilegt, að stighækkunin skuli verða mörg hundruð prósent á vissu tekjubili, þar sem um lágtekjur er að ræða.

Þessi brtt. er borin fram til þess að bæta úr þessum agnúa. Að vísu mundi það stökk, sem þarna er um að ræða, ekki verða afnumið með öllu, en það væri þó mjög verulega minnkað frá því, sem nú er. Svo að við höldum okkur að þessu dæmi, sem ég nefndi áðan, þá mundu hjón, sem væru 1000 kr. fyrir ofan lágmarkið, í stað þess að borga 400 kr. af þessum umframtekjum, ekki borga nema 40 kr., sem er hámark núgildandi skattstiga.

Þær röksemdir, sem hv. frsm. bar fram gegn því, að þessi breyting væri gerð, var í fyrsta lagi sú, að þetta hefði komið fyrir áður, þegar lækkaður hefði verið skattstiginn undir tilteknu tekjumarki. En ég tel, að þó að slík skekkja hafi komið fyrir einhvern tíma áður, e.t.v. af athugaleysi, þá sé engin ástæða til þess að halda því áfram, ef hægt er að komast hjá því með góðu móti. Hin röksemdin var sú, að þetta mundi skapa skattayfirvöldunum óeðlilega mikla fyrirhöfn. Eftir því sem ég fæ komizt næst, mundi þessi brtt. aðeins ná til tekjubilsins á næstu 1200 krónunum fyrir ofan þetta tilskilda hámark, svo að það er á mjög litlu tekjubili, sem þessa gætir.

Auðvitað er það ekki þannig, að skattayfirvöldin reikni út skattinn fyrir hvern einstakling, heldur er það gert í eitt skiptí fyrir öll að reikna út, hvað skatturinn eigi að vera af einhverjum tilteknum tekjum. Ég býst við, að útreikningur á þessu mundi fyrir glöggan reikningsmann e.t.v. taka einn til tvo klukkutíma. Það verður auðvitað alltaf matsatriði, hvort í slíkan kostnað skuli leggja, en ég tel, að í það beri ekki að horfa, með tilliti til þess, að það fólk, sem er á því tekjubili, sem hér er um að ræða, mundi verða fyrir miklu ranglæti. Fjárhagsatriðið getur ekki orðið teljandi, því þó að skatturinn komi að vísu til að lækka á nokkrum aðilum, sem eru á þessu tekjubili, verður hvötin minni til þess að gæta þess við skattframtalið, að tekjurnar fari ekki yfir það hámark, sem ívilnunin nær til. Það er því alveg eins líklegt, að það teljist þá fram þeim mun meiri tekjur, þannig að fjárhagsatriðið hefur ekki neina þýðingu. Þetta atriði virðist mér raunar að meiri hl. n. hafi einnig verið ljóst.