07.03.1957
Efri deild: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

105. mál, lækkun tekjuskatts af lágtekjum

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þd. er kunnugt, er frv. þetta stjórnarfrv. og er komið frá Nd., þar sem það hlaut einróma samþykki.

Eins og segir í aths. við frv., ákvað hæstv. ríkisstjórn fyrir áramótin, þegar lögin um útflutningssjóð o.fl. voru undirbúin, að beita sér fyrir lækkun tekjuskatts af lágtekjum á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Var þetta fastmælum bundið milli fulltrúanefndar, sem kosin var á þingi Alþýðusambands Íslands til þess að fjalla nm efnahagsmálin, annars vegar, og ríkisstjórnarinnar hins vegar, og felur frv. í sér fullar efndir á þeim fyrirheitum, sem ríkisstj. gaf n. um þetta atriði sérstaklega.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða um frv., nema sérstakt tilefni gefist til, enda er það ekki mjög flókið.

Í 1. gr. þess er svo á kveðið, að lækka skuli tekjuskatt hjóna, ef tekjur þeirra eru 47500 kr. hreinar árstekjur eða lægri, og annarra gjaldenda að sömu hundraðstölu, ef skattur þeirra er jafnhár eða lægri en áðurgreindra hjóna, ef þau nytu ekki skattalækkunarinnar. Þannig mundu einstaklingar, sem hafa 37500 kr. eða lægri hreinar tekjur, njóta lækkunarinnar og hjón með meiri ómegð en eitt barn, sem hafa í hreinar tekjur áðurgreinda upphæð, að viðbættum persónufrádrætti fyrir þá ómaga sína, sem umfram eru einn, eða þá lægri tekjur.

Í 2. gr. eru svo ákvæði, sem takmarka skattalækkunina við innlenda og erlenda einstaklinga og hjón, en undanskilja félög og stofnanir þessari lækkun.

Mér telst til, að þessi skattalækkun geti numið allt að rúmlega 440 kr. fyrir hjón eða einstakling, en í heild er áætlað, að lækkunin muni vera 5 millj. kr. að frv. samþykktu, og er gert ráð fyrir þeirri tekjurýrnun ríkissjóðs í fjárl. yfirstandandi árs.

Enda þótt ekki sé um víðtækari lækkun á tekjuskatti láglaunafólks að ræða en hér er gert ráð fyrir og ýmsir mundu vilja ganga lengra í þessu efni, er þó tvímælalaust stefnt á rétta leið með því að létta nokkuð skattabyrðar þeirra, sem búa við þurftarlaun eða minna, enda lögð áherzla á þetta mál af hendi fulltrúa þeirra samtaka, sem láglaunafólk hefur sér til varnar og sóknar.

Fjhn. d. hefur athugað frv. og er sammála um að leggja til, að það verði samþ.