12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (100)

5. mál, tollskrá o. fl

Jóhann Hafstein:

Herra forseti, Ég skal verða við því að gera aðeins örstutta athugasemd. — Fsp. minni um það, hvort greitt hefði verið fé úr ríkissjóði út á væntanlegt atvinnuaukningarfé, hefur verið svarað játandi og sagt, að það væri í samræmi við það, sem áður hefði verið gert. Það gefst betur tóm til þess að athuga, hvað áður hefur verið gert í þessu efni. En skyldi það þá ekki hafa verið undir þeim kringumstæðum, þegar greiðsluafgangur var hjá ríkissjóði? Það er sagt nú, að það vanti mikið á og mikill greiðsluhalli sé hjá ríkissjóði. Því leyfi ég mér að spyrja enn: Hvar var þá þetta fé fengið að láni? Úr ríkissjóði getur það ekki verið tekið, þar sem upplýst er, að það er mikill greiðsluhalli. Hefur verið gefin ávísun á seðlabankann kannske, eða hefur það annars staðar verið fengið að láni? Og hvernig mundi slík fjármálastarfsemi verka? Hún skyldi kannske ekki getað verkað til verðbólguaukningar í landinu og vera að því leyti í samræmi við aðrar ráðstafanir hæstv. ríkisstj.? Ég spyr: Hvar var þetta fé fengið að láni?