28.05.1958
Efri deild: 110. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég reyndi að hlusta með athygli á framsögu hæstv. forsrh. í þessu stóra máli, en ég verð að játa það og þykir það þó leitt, að ég fyrir mitt leyti var litlu fróðari hvað skýringar áhrærir á málinu eftir hans ræðu.

Hæstv. forsrh. talaði um, að uppbótakerfið væri komið á það stig og orðið svo erfitt og yrði með hverju ári erfiðara og jafnvel hverjum mánuði. Enn fremur sagði hann eitthvað á þá leið, að lögmál uppbótastefnu hafi það í för með sér, að sú fjárhæð, sem þurfi til að mæta vaxandi dýrtíð, fari alltaf vaxandi; enn fremur, að henni væri ekki hægt að ná inn með því að leggja hana á þann varning, sem venjulega er hæst tollaður, heldur yrði að fara inn á aðrar vörur, jafnvel þær, sem verkuðu á vísitöluna, sem hæstv. ráðh, lofaði nú ekki, — vísitöluna nefnilega, heldur talaði hann um hana sem nokkurs konar sjálfhreyfivél til þess að auka dýrtíðina.

Þá minntist hæstv. ráðh. á verðhjöðnunarleið, og í stuttu máli dæmdi hann hana úr leik sem útilokaða, að því er hann kvað, af margháttuðum orsökum.

Enn fremur drap hæstv. ráðh. á gengisbreytingu, sem maður hefði nú haldið að maður fengi meiri fróðleik um frá hans hendi í þessari ræðu, af því að það er vitað og hefur ekki verið neitt leyndarmál í blaðaummælum um þessi dýrtíðarmál á undanförnum mánuðum, að Framsfl., flokkur hæstv. forsrh., hefur að því er virðist mest hallazt að því að jafna hér metin með svokallaðri gengisbreytingu, þ.e.a.s. gengisbreytingu, sem hefði í för með sér breytta skráningu á genginu. Hæstv. ráðh. sagði, að með núverandi gengi fengju framleiðendur útflutningsvöru allt of fáar íslenzkar krónur fyrir erlenda gjaldeyrinn, sem fæst fyrir vöruna. Þetta hefur nú heyrzt fyrr hér á Alþ., og var það fyrir mörgum árum viðurkennt af ýmsum, sem að framleiðslu sjávarafurða standa, að skráning gengisins, sem fæst fyrir útflutningsvöruna, hefur lengi verið skökk skráning, þó að menn hafi verið misjafnlega viljugir til þess að viðurkenna það og því síður til að gera þær aðgerðir, sem þyrfti, til þess að ráða bót á því fyrirkomulagi.

Sú tilraun, sem hér var gerð með gengisbreytingu einu sinni, þ. á m. með aðstoð þess stjórnmálaflokks, sem hefur hæstv. núverandi forsrh, í stafni, var niður drepin með verkföllunum 1955 m.a., og viðbrögð hæstv. forsrh, núverandi voru þau, eftir að flokkur hans og framámenn voru búnir að lýsa því með sterkum orðum, hvert skemmdarverk þá hefði verið unnið á íslenzkum atvinnuvegum af vissum flokki manna í landinu, — viðbrögð hæstv. forsrh. og félaga hans við þessu öllu voru svo þau að taka höndum saman við skemmdarvargana, sem þeir voru búnir að lýsa vel og þó ekki of svart á undanförnum árum, og gera þessa tilraun til að reisa við atvinnulífið, sem fyrir aðgerðir verkfalla og árása kommúnista á atvinnulífið var komið í vandræði. Þá var það hugmyndin að reka út þennan óaldarlýð með tilstyrk þess Belsebúbs, sem stóð fyrir að eyðileggja atvinnulífið á sínum tíma með verkföllum. Og hæstv. ráðh. og fleiri ráðherrar og ráðamenn, sem hafa verið að undanförnu og nú eru hér í landi, færðu þetta í þann búning frammi fyrir þjóðinni á sínum tíma, að tekið væri höndum saman við verkalýðinn, sem þeir svo kölluðu, og það væri hin fyrsta og alvarlegasta og yrði sú afdrifaríkasta tilraun til að leiðrétta þann halla, sem kominn væri á þjóðarbúskapinn í þessum atvinnuspursmálum, það væri sú leið, sem þeir hefðu valið.

Þetta gerðist fyrir hér um bil tveim árum, að þessari skútu var á flot hrundið af hæstv. núverandi forsrh., og hefur hann síðan haft á því alla yfirstjórn, sem að þessu laut, og þ. á m. á því að láta fara fram — sem hann orðaði í þá daga úttekt fyrir opnum tjöldum á þjóðarbúinu, rannsókn á hinu helsjúka atvinnulífi, sem hann kallaði svo, eða helsjúka fjármálalífi, rannsókn fyrir opnum tjöldum, og svo yrði unnið að lækningunni með þessari ágætu áhöfn, sem hæstv. forsrh. var búinn að velja sér til þeirrar siglingar í atvinnumálum þjóðarinnar, sem hafin var með valdatöku núverandi stjórnar.

Ég býst ekki við, að neinn beri mér það á brýn, að ég fari með rangt mál, þó að ég fullyrði, að þessi tilraun hæstv. forsrh, hefur hingað til gersamlega mistekizt. Hann taldi þjóðina þá vera stadda í eyðimörku, eins og hann orðaði það, og það verður ekki séð annað, ef litið er á framvinduna, sem síðan hefur orðið í þessum málum undir stjórn hæstv. núverandi forsrh., en hann hafi haldið með fjármála- og atvinnulífið enn lengra inn í þá eyðimörk, sem hann þá þóttist verða var við. Dýrtíðin hefur langt frá því minnkað. Hún eykst ávallt, og það viðurkennir hvert mannsbarn og veit og finnur til svo að segja daglega, að kaupmáttur krónunnar minnkar með hverjum degi, sem líður.

Hæstv. forsrh. fjölyrti talsvert um hinar ýmsu leiðir, sem hann sagði að hefðu getað eða þótt geta komið til greina. Þar á meðal var ein leið, sem mér heyrðist hann nefna verðhjöðnunarleið, og vitnaði í einhverja ónefnda erlenda sérfræðinga, sem hefðu haldið því fram, að þessi leið væri, eftir því sem hann siðar sagði í sinni ræðu, eiginlega gengisfelling eða gengisbreyting, farin eftir sérstökum aðferðum. En það var óljós skýring á þessari leið hjá hæstv. ráðh., og frá því að þessi ríkisstj. tók við völdum, sem nú ræður, þá höfum við, sem ekki erum í stjórnarflokkunum, aldrei haft tækifæri til þess að kynna okkur sjálfir neinar niðurstöður af þeim athugunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið fram fara, sumar af erlendum sérfræðingum og aðrar af innlendum fræðimönnum í þessum greinum. Hæstv. ríkisstj. hefur gætt þess vandlega að láta ekki andstöðuflokk stjórnarinnar fá neina innsýn í þessar rannsóknir og þar með í rauninni gersamlega kippt fótum undan því, að aðrir en ríkisstj. sjálf og hennar innvígðu gætu myndað sér grundvallaða skoðun á ástandinu eða leiðir til viðreisnar, með því að þessi grundvöllur hefur aldrei verið í ljós látinn. Á sama tíma hafa blöð þessara hv. valdamanna tönnlazt á því hvað eftir annað, að þeim, sem væru í stjórnarandstöðu og fyndu að því, sem hæstv. ríkisstj. væri að framkvæma í þessum efnum, en væru því ósamþykkir, þeim bæri skylda til að koma með aðrar og nýjar leiðir.

Það er dálítið einkennilegt, ef þeir, sem sitja yfir öllum upplýsingum, sem gerðar eru í málinu af færum mönnum, ætlast til þess, að þeir, sem fá engan aðgang að þessum rannsóknum eða skjölum, eigi að koma með till. til úrbóta umfram það, sem hæstv. núverandi ráðamenn treysta sér sjálfum bezt til að gera.

Þessar mörgu leiðir, sem hæstv. forsrh. minntist á, myndin af þeim eftir hans ágætu ræðu er ekki sérlega skýr, að ég held, í huga neins hv. deildarmanns.

Hæstv. ráðh. sagði enn fremur í sinni ræðu, að frv. væri stórt spor í rétta átt. Það kann að vera, að honum þyki það, að frv. sé stórt spor. En mér er dálítil forvitni á að vita um kompásinn hjá hæstv. ráðh. Í hvaða átt telur hann að frv. stefni, sem sé rétt? Það virðist vera, ég segi það ekki bara um þetta frv. út af fyrir sig, en það virðist vera, að í flestu af því, sem hæstv. ríkisstj. gerir í efnahagsmálunum, stefni hún að dómi þeirra, sem ekki eru innvígðir í þeirra hring, í ranga átt, hún stefnir að því er virðist í verzlunarmálunum mest í járntjaldsáttina, og það getur vel verið, að hæstv. ráðh. sé nú orðinn þeirrar skoðunar, að það sé sú rétta átt. En útflutningur Íslendinga og innflutningur á vörum hefur eftir valdatöku þessarar hæstv. ríkisstj. eflzt mjög í austurátt, eins og allir vita, og það er ekkert fjarri því, að sú stund geti komið fyrir atvinnurekstur Íslendinga, a.m.k. á sjávarafurðum, að við séum svo að segja algerlega háðir því, hvernig Sovétríkin, ég segi ekki Sovétríkin í Rússlandi eingöngu, heldur Sovétríkin yfir höfuð vilja breyta gagnvart okkur.

Ef dæma á eftir því, sem fram hefur farið og gert hefur verið, staðreyndunum í þessum verzlunar- og viðskiptamálum, þá hlýtur maður að draga þá ályktun, að það, sem hæstv. ráðh. sagði um rétta átt í ræðu sinni hér áðan, sé sú stefna með viðskiptin austur fyrir járntjald, sem þessi ríkisstj. hefur dyggilega unnið að. En ég held, að enn þá sé það nú ekki svo, að almenningur hér í þessu landi telji það stefnu í rétta átt.

Eitt var það, sem hæstv. ráðh. lagði mikla áherzlu á, í sinni ræðu, og það var það, að hann kvað svo á, að það væri mikið undir stéttum landsins komið, hvernig öllu þessu reiddi af, stéttirnar réðu hér mestu um. Þetta kom að vísu á annan hátt, en þó einnig mjög ríkt fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv., sem lýsti nokkuð ýtarlega, hvaða afskipti t.d. Alþýðusambandstrúnaðarmenn og 19 manna n., að mér skildist, hefðu haft af þessu sérstaka máli, og það var á hans ræðu að skilja, að viðræða við stéttirnar hefði nú ekki verið höfð, a.m.k. ekki að hans áliti rétt. Hann minntist á það, að til þeirra hefði verið leitað of seint, og kom ýmsum orðum að því, hvernig það var barið fram innan þessa hóps eins konar samþykki fyrir því, að þessu frv. væri fylgt fram, en sjálfur taldi hv. þm. sig ekki geta samþ. það. Hann taldi marga ókosti, sem það hefði, sérstaklega á byggingu íbúðarhúsa og þar af leiðandi á leiguhúsnæði og örðugleika með lausfé til íbúða, og niðurstaða hans varð sú, að af því mundi leiða aukinn húsnæðisskort og aukna erfiðleika í byggingarmálum, og hann lýsti því að síðustu yfir, að hann væri andvígur frv. Hér er um að ræða einn bezt þroskaða og öflugasta forvígismann í þýðingarmiklum stéttarfélagsskap hér á landi, og virðist mér eftir ræðu hv. þm., að það muni skorta eitthvað töluvert á það, að lífakkeri hæstv. forsrh., sem hann telur stéttirnar vera, sé ábyggilegt í þessu efni.

Ég skal svo í bili stytta mál mitt. Ég vildi aðeins koma að nokkrum athugasemdum almennt um þetta mikla frv., en ég hef í hyggju að gera vissar greinar þess betur að umtalsefni á sínum tíma og ef til vill flytja sjálfstæðar brtt., en hirði ekki um að gera það að þessu sinni. Ég vildi sem sagt aðeins fara þessum fáu almennu orðum um málið, eins og stendur, og svo víkja fyrir næsta ræðumanni.