29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Það, sem legið hefur fyrir samtökum útvegsmanna, er að glöggva sig á því:

Eru þau umskipti, sem hér stendur til að gera, útgerðinni sem heild í hag, eða mundi borga sig að standa á því að fá bætur samkvæmt því, sem heitið var með bréfinu 30. des., einnig fyrir þann litla hluta framleiðslunnar, sem eftir er raunverulega á þessu ári? Ég efast ekkert um það, að forustumenn samtaka útvegsmanna eru búnir að gera þetta dæmi upp fyrir sig og þeir eru búnir að sjá, að það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er þeim miklum mun hagstæðara, en að halda sér við hinar fyrri bætur, og það má reyndar hver maður sjá, sem nokkuð nennir að setja sig niður í þessi mál, að þannig er þessu varið.

Ég vil því alveg mótmæla því, að á nokkurn hátt sé gengið á gert samkomulag við útvegsmenn. Það er þvert á móti framkvæmt á þann hátt, að þeir fá fyllilega það, sem þeim var heitið, og meira að segja hluti af framleiðslunni hlýtur að fá mun betri kjör, en upphaflega samkomulagið gerði ráð fyrir.

Það var svo atriði út af fyrir sig, sem er alveg furðulegt í málflutningi ýmissa fulltrúa sjálfstæðismanna hér á Alþingi nú og einnig hjá hv. þm. N-Ísf., sá málflutningur, sem leitast við að sanna, að með hinum nýju ákvæðum eigi yfirleitt allar greinar sjávarútvegsins að fá minna, en þeim ber að fá, þær tapi allar á þessu. Hv. þm. N-Ísf, tilgreindi það, að samkvæmt útreikningum útvegsmanna ætti bátaútvegurinn að fá ekki 80%, heldur a.m.k. 85%, Reyndar endurtók hann það aftur síðar, að það væru ekki aðeins þessi 85%, sem þeir hefðu farið fram á, heldur ættu þeir að fá mun meira, af því að þeir hefðu ekki gert ráð fyrir öðrum útgjaldaliðum. Það var allt of lítið. Á síldveiðunum þurftu þeir vitanlega að fá miklu meira, og las hann upp sönnunarskjal frá bæjarstjórninni á Seyðisfirði um það, að þeir þyrftu að fá á síldina sina eins mikið eða meira, en menn fá á þorskinn. Þeir voru vitanlega að tapa, og það leit helzt út fyrir, að þeirra síldarútvegur mundi leggjast í rúst. Togaraútgerðin, upplýsti hann, þurfti ekki aðeins 85%, eins og bátaútvegurinn, heldur upp í 126%. Togararnir þurftu sem sagt að fá miklu meiri bætur, en bátaútvegurinn, eru þannig miklu lakari til rekstrar. Allir þessir tapa. Það er glöggt mál. En á sama tíma sem þessi málflutningur er hafður í frammi, er því haldið að þjóðinni, að hér sé verið að leggja á hana 790 millj. í nýjum álögum. Það hefur verið sagt af þeim sjálfstæðismönnum, að af þessari upphæð muni um 140 millj. fara til ríkissjóðs. En 650 millj. verða þó alltaf eftir handa útflutningssjóði. Allar tekjur útflutningssjóðs á s.l. ári voru tæpar 400 millj. Hann á að fá 650 millj. til viðbótar, og allir eiga að tapa. Allar greinar útvegsins eiga samt sem áður að fá minna, en þær hafa samning upp á og áttu rétt til. Skyldi nú ekki hvarfla að hv. þm. N-Ísf., að hann væri hér að vaða reyk, að það væri eitthvert hey í þessum málflutningi hans? Vill hann ekki reyna að leita það uppi, hver fær allar þessar miklu álögur, hver skyldi fá þennan pening, sem er verið að leggja á menn?

Nei, sannleikur málsins er sá, að auðvitað er talan 790 millj. hreinn uppspuni og eintóm vitleysa og nær engri átt. Hið rétta er, að það mun vera mjög nærri lagi í hliðstæðum samanburði við það, sem við höfum búið við, að hér muni vera um að ræða nýjar álögur í þeirri merkingu orðsins, sem menn tala um álögur, samtals upp á 240 millj. kr., eins og gerð hefur verið grein fyrir í grg. frv. Og ef hv. þm. N.-Ísf. vildi nú leggja sig niður við að athuga það, sem fram kemur í frv., þá mundi hann ekki heldur verða neitt hissa á því, að ég hafi talið í grein, sem ég skrifaði nokkru upp úr áramótum, að það mundi vanta fyrir ríkissjóð og útflutningssjóð í kringum 90 millj. kr., vegna þess að þegar þetta frv. er athugað, þá eru hér teknir inn öldungis nýir liðir til viðbótar við það, sem þá lá fyrir. Síðan hefur það gerzt, að það hefur ekki þótt annað fært, en gera ráð fyrir því, að allt kaupgjald í landinu yrði hækkað um 5%. En ef á að standa undir 5% kauphækkun, þá kostar hún 50 millj. kr., og það verður vitanlega að afla tekna til þess, og það er það, sem hefur gerzt. Það hefur líka verið gert, síðan ég nefndi mína upphæð um s.l. áramót, að ákveða að bæta beinlínis hag togaraútgerðarinnar um yfir 20 millj. kr., því að það er það, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að setja togaraútgerðina jafnfætis við bátaútveginn og bæta þannig við stuðninginn við togaraútgerðina sem nemur um 20 millj. kr. yfir árið. Það er líka gert ráð fyrir að mæta nú verðfalli, sem orðið hefur á síldarafurðum, upp á um 18 millj. kr., af því að síldin hefur lækkað í verði, sem var algerlega ókunnugt um þangað til nú fyrir örstuttu. Það er líka gert ráð fyrir í þessu frv. að afla sérstakra tekna og greiða kostnað af sérstakri löggjöf í sambandi við lífeyrissjóð togarasjómanna, sem kostar á ári um 7 millj. kr. Það er líka gert ráð fyrir í þessu frv. að mæta útgjöldum upp á 11 millj. kr. vegna sérstakrar skattalækkunar.

Þegar þetta er haft í huga, þá sést, að hér munar ekki miklu á því, sem ég hafði getið til um áramótin.

Í þessum umr. hefur nokkuð verið á það minnzt, að ýmsir aðilar hafi sett fram kröfur um það, einkum á Norður- og Austurlandi, að þeir ættu rétt á því að fá hærri útflutningsuppbætur á sína síld, heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv., þar sem gert hefur verið ráð fyrir, að útflutningsuppbætur á Norðurlandssíld yrðu aðeins 50%, eða samkvæmt því, sem frv. segir nú, 55%, á sama tíma sem greitt er á Faxaflóasíld, vetrarveidda síld, 70%. Það er ekkert nýtt fyrir mér og öðrum þeim, sem hafa verið í þessum samningum, að heyra þetta, og ég tel mig fyllilega hafa eins mikla samúð með þeim, sem stunda veiðar fyrir Austurlandi og Norðurlandi, eins og hver annar. En mér er bara alveg ljóst, að Norðurlandssíldin er seld út úr landinu, hver tunna, á um 100 kr. hærra verði, en hver tunna af hinni síldinni, og það er það, sem gerir hinn mikla mun, að það hefur þurft að borga meiri uppbætur á verðminni síldina, til þess að hægt væri að framleiða hana. Það er ástæðan, og það hefur því gengið þannig til á undanförnum árum, að sum árin hafa ekki verið greiddar neinar verðuppbætur á Norðurlandssíld, þegar greiddar hafa verið talsverðar bætur á Suðurlandssíld, og nú s.l. ár voru greiddar mun minni bætur á Norðurlandssíld, en á Suðurlandssíld, af þessum sömu ástæðum, og þessu er enn haldið hér, þó að hins vegar munurinn sé gerður minni, en áður. Á s.l. ári var greiddur útflutningsstyrkur á hverja saltsíldartunnu af Norðurlandssíld, 85 kr. á tunnu, en nú er gert ráð fyrir samkvæmt þessu frv., að útflutningsuppbæturnar muni verða rösklega 200 kr. á tunnu í staðinn fyrir 85 kr. Þetta er vitanlega til þess að mæta að nokkru leyti verðfalli, sem orðið hefur á afurðunum, að nokkru leyti verðhækkun, sem verður á innfluttum tunnum og öðru til framleiðslunnar. En ég efast ekkert um, að þessi mikla hækkun, sem þarna kemur fram, er mun meiri, en sem nemur þeim hækkunum á rekstrargjöldunum, sem verða samkvæmt þessu frv., og hagurinn ætti því að verða betri. Hitt mætti svo liggja ljóst fyrir öllum, að það er vitanlega ofur eðlilegt, að síldarsaltendur á Norðurlandi og síldarsaltendur á Austurlandi muni í lengstu lög gera kröfu um að fá meiri bætur, hærri bætur, en þeir hafa fengið. Þetta er nákvæmlega eins og að fulltrúar sjávarútvegsins hafa vitanlega um hver áramót gert hærri kröfur, miklu hærri kröfur, en ríkisvaldið hefur treyst sér til að mæta hjá þeim, og nú um síðustu áramót fóru þeir fram á auknar bætur sem skipti yfir 100 millj. kr. fram yfir það, sem þeir fengu.

Það þarf því enginn að verða neitt hissa á því, þó að það sé hægt að nefna eitthvert bréf frá samtökum framleiðenda, þar sem menn fara fram á enn þá meira. Menn mættu þá gjarnan hafa það í huga, að ef þeir væru við því búnir að veita framleiðslunni enn þá meiri uppbætur, en gert er ráð fyrir í þessu frv., þá mundi þurfa að leggja á einhvern ögn meira, en gert er, og það mætti þá kannske benda á það, hvar ætti að afla þess fjár, og ekki sízt þeir, sem tala um ábyrga afstöðu síns flokks eins og þeir sjálfstæðismenn, þeir mættu þá kannske nefna það: hvað vilja þeir hækka af bótunum og hvernig vilja þeir þá taka tekjur til þess að mæta þeim hækkunum? En sá, sem skammast jöfnum höndum út í það, að tekið sé of mikið inn af tekjum, en greitt of lítið út til þeirra, sem eiga að fá bæturnar, þeir, sem reka mál sitt þannig, verða ekki teknir alvarlega, og það er ómögulegt að kalla þá ábyrga í málflutningi sínum.

Það er ekki heldur rétt að segja, að samtök útvegsmanna hafi mótmælt þessu frv., — mér er vel kunnugt um það vegna margra funda, sem ég hef átt með fulltrúum þeirra, — heldur hitt, að það er eins og jafnan áður þannig, að þeir hafa viljað fá breytt einstaka liðum sér í vil fram yfir það, sem orðið er. En ég er sannfærður um, að þeir una allvel við það, sem hér er orðið, enda er það sett meira og minna eftir samtölum við þá og viðræðum við þá, og það verður álíka mikið úr fullyrðingum sjálfstæðismanna nú eins og stundum áður um það, að útgerðin sé öll að stöðvast, allt muni stöðvast. Ég óttast það ekkert. Ég er sannfærður um, að útvegsmenn hafa brotið þetta niður fyrir sér og skoðað þetta, og þeir játa, að hér hefur frekar sótt fram á við fyrir samtök þeirra í heild, en ekki aftur á bak.

Nákvæmlega sama er vitanlega að segja um fullyrðingu hv. þm. um það, að með þessari löggjöf eða þessu frv. sé verið að brjóta samninga, sem gerðir hafa verið á flugmönnum og farmönnum. Auðvitað eru engir samningar til um það og hafa aldrei verið, að sá hluti af kaupi þessara aðila, sem má greiða þeim í gjaldeyri, skuli vera greiddur þeim alltaf á einhverri tiltekinni skráningu og án þess að á megi hvorki leggja ein gjöld né önnur. Vitanlega hafa engin slík samningsákvæði verið, og af því er það aðeins fleipur út í loftið hjá hv. þm. að stagast hér á því, að samningar hafi verið brotnir á þessum aðilum.

Hitt er svo alveg rétt, og það vita allir, að bæði flugmenn og farmenn hafa talið sig hafa veruleg fríðindi af því að fá hluta af sínu kaupi í erlendum gjaldeyri, og það mega flugmennirnir sérstaklega eiga, að þeir vildu meta slíkt algerlega og fóru ekki dult með það, þeir töldu sig hafa veruleg fríðindi af því, þó að farmennirnir almennt neituðu því í samningum, að þeir vildu meta þetta nokkuð til hlunninda. En enginn vafi er auðvitað á því, að það að hafa fengið gjaldeyrinn á hinu skráða gengi hefur jafngilt vissum hlunnindum fyrir þessa aðila, og það vitanlega skapar visst vandamál. En rétt er líka að hafa í huga, að það er gert ráð fyrir í þessu frv., að farmenn og flugmenn, sem fá þennan hluta af kaupi sínu greiddan í gjaldeyri, mega kaupa þær vörur allar, sem leyfilegt er annars að flytja inn í landið, og flytja þær inn í landið án þess að borga þau 55%, sem allir aðrir verða að greiða af þessari vöru, eða m.ö.o., að flugmaður eða farmaður, sem notar sinn gjaldeyri til þess að kaupa einhverja vöru, flytur hana inn í landið við hliðina á kaupmanni hér, sem flytur inn sams konar vöru, kaupmaðurinn verður að borga 56% gjald af þessari vöru, en flugmaðurinn eða farmaðurinn ekki, svo að hann hefur vitanlega í þessu tilfelli fengið þessi fríðindi áfram í samanburði við aðra þegna í þjóðfélaginu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess vegna tímaleysis að fara frekar út í þetta mál, en ég taldi, að ekki væri hægt annað, en mótmæla því, sem hér hefur verið haldið alveg ranglega fram um skipti ríkisstj, við samtök útvegsmanna.