29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Árn. og ég flytjum brtt. við frv. þetta á þskj. 585. Till. þessar eru að efni til samhljóða þeim, er hv. þm. Borgf. flutti í Nd., en ekki fundu náð fyrir augum þm. þar í sveit. Málsatvik eru þau, að nú á þessu vori er búið að ráða hingað til lands hátt á annað hundrað manns til landbúnaðarstarfa á vegum Búnaðarfélags Íslands. Hefur sérstakur ráðunautur þess, Gísli Kristjánsson, unnið að þessum málum nú undanfarið. Fólk þetta er að langmestu leyti frá Danmörku. Kom það til landsins í aprílmánuði og mun yfirleitt ráðið til 6 mánaða, eða frá 1. maí til 1. nóv. Venjan hefur verið sú, enda á því byggt við samningsgerðina, að menn þessir fái 1 þús. kr. yfirfærðar af mánaðarkaupi sínu, en mánaðarkaupið er um 2000–2500 kr. alls hjá þessu fólki.

Í 32. gr. frv. þessa var ákveðið, að vinnulaun erlendra ríkisborgara hér á landi skyldu vera undanþegin yfirfærslugjaldi samkvæmt 21. gr. frv. til 14. maí 1958. Mun það hafa verið gert til þess, að ákvæðin tækju ekki til þeirra erlendu manna, sem unnið hafa á fiskiskipaflotanum í vetur og vor.

Eins og áður segir, hafa nú nær 200 manna verið ráðnir til landbúnaðarstarfa í sumar erlendis frá. Með því að láta ákvæði 32. gr. verða að lögum óbreytt, eins og þau eru nú í frv., verður annað tveggja: hinir erlendu verkamenn verða að taka á sig skellinn, sem nemur 550 kr. á hverjar þúsund krónur, eða bændurnir verða sjálfir að greiða þeim hærra kaup sem þessu svarar. Engin líkindi eru til þess, að hinir erlendu aðilar láti þetta gott heita. Munu þeir vafalaust telja forsendur brostnar fyrir vinnusamningum sínum og ganga með það sama úr vistinni, nema þeir fái kauphækkun, Getur þetta að sjálfsögðu haft hinar alvarlegustu afleiðingar í för með sér fyrir landbúnaðinn, þar sem fólksfæð er í algeru lágmarki, svo sem kunnugt er og margsannað hefur verið.

Að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir því, að ákvæði brtt. okkar gildi einungis um vinnulaun þeirra erlendu ríkisborgara, sem fyrir gildistöku laga þessara eru eða hafa verið ráðnir til landbúnaðarstarfa.

Vænti ég þess, að hv. þm. skilji þá brýnu þörf, sem hér er um að ræða fyrir landbúnaðinn, og leggi brtt. okkar lið.