29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1287 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl. fjhn. hefur nú haldið hér mjög skelegga ræðu um margt það, sem kemur til greina í þessu frv., og hefur hæstv. sjútvmrh. andmælt sumu af því, sem hv. þm. lét sér um munn fara, en með lítið sannfærandi rökum fyrir óinnvígða menn eins og mig og mína líka í þetta mikla völundarsmið ríkisstj. Það munar nú ekki heldur um minna en það, að þegar hv. þm. N-Ísf, hélt því fram, sem hefur verið haldið fram opinberlega af fleirum, að hinar nýju álögur, bæði til ríkis og útflutningssjóðs, mundu nema 790 millj. kr., þá komst hæstv. ráðh. að þeirri niðurstöðu, að það væri nú eiginlega ekki allfjarri sinni upphaflegu ágizkun á þessu sviði, sem alkunnugt er um allt land, að hann hélt því fram opinberlega, að það mundi ekki þurfa nema 90 millj. til að halda þessu kerfi áfram, þó að það væri jafnótt kveðið niður af blaði samráðherra hans og talið vitleysa. En nú er hann búinn að sækja svo í sig veðrið, hæstv. ráðh., að honum finnst eiginlega, að munurinn á þessum 90 millj. kr. og því, sem hv. þm. N-Ísf. nefndi, sé ekki nema bara litlar 700 millj. kr. Þar liggja bara litlar 700 millj. kr. á milli hjá þessum hv. herrum.

Ég vildi nú fyrir mitt leyti æskja eftir því til fróðleiks og skilningsauka, að hæstv. ráðh, fyrir sitt leyti gerði grein fyrir því dálítið meira sundurliðað, en hann hefur hingað til gert, hvernig það má vera, að hans upphaflega fullyrðing í þessu máli, sem var fordæmd af meðráðherrum hans þegar í stað, hafi verið nærri sanni. Það er of mikið á mann lagt, að öðru megin sé fullyrt um 790 millj. kr. auknar álögur, en frá annarri hliðinni sé sagt, að þetta sé ekki nema eitthvað yfir 90 millj. kr.

Ég ætlaði að minnast lítils háttar á brtt. varðandi þetta mál, og snerta þær ekki verulega fjárhæðina, en það var í ræðu hv. þm. N-Ísf. minnzt á aths. frá fisksölusamlögum, sem gerðar hefðu verið við frv. og þeim verið beint til hv. fjhn.

Mér er kunnugt um annað þessara erinda og vil — með leyfi hæstv. forseta — fá að lesa það upp fyrir hv. deildarmönnum. Það er frá Samlagi skreiðarframleiðenda og hljóðar svo, stílað til sjávarútvegsmálaráðherra:

„Samlag skreiðarframleiðenda hefur kynnt sér frv. til laga um útflutningssjóð o.fl., sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, og við athugun þess hefur komið í ljós, að sá grundvöllur fyrir framleiðslu skreiðar 1958, til 15. maí 1958, sem lagður var með samkomulagi við hæstv. ríkisstj. um s.l. áramót, er burt fallinn með talsvert hækkuðum vinnulaunum, svo sem ráð er fyrir gert í 7. kafla, 52. gr. og greinum þar á eftir, í sama kafla.

Nú er það svo, að enn þá er öll skreið úti á hjöllum, og falla því öll vinnulaun, sem munu nema helmingi allra vinnulaunanna, undir hina væntanlegu hækkun, sem mun nema allt að 15 aurum á hvert skreiðarkíló.

Þá má og geta þess, að verið er nú að panta umbúðir um framleiðslu skreiðarinnar í ár, og mun hækkun umbúðakostnaðar verða mjög mikil, sem einnig valda stjórnskipaðar aðgerðir, enda þótt sú vara hafi ekki hækkað á erlendum markaði. Þar sem allir skreiðarframleiðendur munu hafa reiknað með svipuðum vinnulaunum og svipuðu verði á umbúðum og verið hefur, verða þeir fyrir talsverðu tjóni vegna þessara ákvæða fyrrnefnds frv., ef að lögum verður.

Verðum vér að mótmæla harðlega, að þessi vörutegund, skreiðin, skuli vera sett skör lægra, en aðrar útflutningsvörur, sem féllu undir samkomulagið við hæstv. ríkisstj. um s.l. áramót, og framleiðendur hennar beinlínis fyrir aðgerðir þess opinbera verða þannig fyrir talsverðu fyrirsjáanlegu tjóni af þessu, þ.e. stórhækkuðum vinnulaunum og hækkuðum umbúðum. Vér leyfum oss því að skora á yður, hæstv. sjútvmrh., að bera fram brtt. undir umræðu málsins á Alþingi til leiðréttingar á þeim agnúum, sem beinlínis valda skreiðarframleiðendum fjárhagslegu tjóni og hér eru að framan greindir.“

Í sambandi við þessa málaleitun og svipaða málaleitun frá sölusambandi saltfisksframleiðenda var flutt í hv. Nd, brtt., sem hljóðar svo, við þetta mál:

„Útflutningssjóður greiðir vinnslustöðvum og þeim aðilum öðrum, sem hafa með höndum verkun og útflutning afurða, sannanlega hækkun við að fullverka og koma í skip útflutningsafurðum, sem framleiddar hafa verið á tímabilinu frá 1. jan. til 14. maí 1958, umfram það, sem slíkur kostnaður hefði numið fyrir 14. maí þ.á.

Ég vil geta þess, eins og kom fram í þessum bréfum, að hækkunin, sem hér er um að ræða, er eingöngu sú hækkun, sem hæstv. ríkisstj. sjálf leggur til í sínu frv. að fari fram. Það eru hækkuð vinnulaun, eins og komið hefur fram, 5%, og hækkun á yfirfærslugjöldum á efnivöru til að ganga frá vörunni.

Ég hef nú utan þingfundar átt viðræður við hæstv. sjútvmrh. um þetta sérstaka atriði og fengið ádrátt hans fyrir því, að hann vildi líta á þetta mál, og þó að ég flytji hér þessa brtt. nú, þá er ég reiðubúinn að taka hana aftur, ef hæstv. ráðh. vill, eins og hann gaf mér í skyn, að hann mundi taka hér opinberlega til máls um þetta atriði og lofa fyrirgreiðslu til leiðréttingar þeim vanda, sem um er kvartað.

Þá hef ég einnig flutt hér brtt. á sama þskj., 581, út af vátryggingariðgjöldum fiskibáta úr útflutningssjóðnum, og er það í samræmi við t.d. það bréf, sem hv. þm. N-Ísf. las hér upp frá Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, og raunar í samræmi við athugasemdir, sem fram komu í hv. Nd, á þessu atriði í brtt., sem flutt var þar í sömu átt, þó að ekki næði hún þar samþykki.

Ég hirði ekki um að fara inn á þau deiluatriði, sem upp hafa risið milli hv. frsm. 3. minni hl. og hæstv. ráðh. í þessu efni, a.m.k. ekki að sinni, en mætti þó vel athuga það við síðari umr. þessa máls. En ég vil mælast til þess, — ég veit nú ekki, hvort hæstv. ráðh. er í salnum lengur, — að hann léti í ljós álit sitt á erindi því frá skreiðarframleiðendum og saltfisksframleiðendum, sem ég var að lýsa hér áðan, eins og umtalað var á milli okkar, að hann gerði við umr. í deildinni.

Ég hef svo flutt á þskj. 580 aðrar brtt. og vil lýsa yfir því, að fyrri brtt. á þskj. 580 er frá minni hálfu ekki rétt orðuð, að því er virðist, og mun ég því ekki halda henni til streitu, heldur taka hana aftur við atkvgr. En hún er sama efnis og brtt. hv. 3. minni hl. á þskj. 584 og hljóðar um yfirfærslugjald af námskostnaði í útlöndum og sjúkrakostnaði erlendis, að hvort tveggja þetta verði undanþegið yfirfærslugjaldi.

Mér finnst það hreinasta neyðarúrræði, ekki einasta fyrir ríkisstj., heldur fyrir þm. að verða að fallast á það á þennan hátt að skattleggja námsfólk, sem maður veit að hið opinbera verður að styrkja og styrkir mjög ríflega eða í mjög stórum stíl, að klippa þannig af þess námsfé á þann hátt að leggja það undir stórkostlegt yfirfærslugjald. Hvað námsfólkið áhærir, þá vita allir, að allur fjöldi þess hefur svo lítil fararefni, jafnvel þótt það fái styrk frá því opinbera að einhverju leyti, svo lítil fararefni til síns náms og uppihalds utanlands, að það má ekki í það höggva og er að mínu leyti hreint siðleysi af Alþingi að gera það með þessu stórkostlega yfirfærslugjaldi.

Um sjúka menn og þá, sem vegna sjúkleika eða meiðsla verða að leita sér læknishjálpar utanlands, þá er það næsta harður leikur að taka stórkostlegt yfirfærslugjald af þeim gjaldeyri, sem þessir menn, sem venjulega eru illa á vegi staddir efnalega eða oft, þurfa með sér að hafa til að leita sér læknishjálpar. — [Fundarhlé].

Herra forseti. Ég er feginn því að sjá hæstv. sjútvmrh. aftur hérna í d. Hann var því miður ekki viðstaddur áðan, þegar ég var að minnast á till. og hæstv. ráðh. í því sambandi, og það getur verið, að ég verði að fara eitthvað upp aftur með það, sem ég sagði, fyrst svo hittist nú á.

Ég var að tala um, að fyrir Alþ. lægi bréf frá Samlagi skreiðarframleiðenda — og sjálfsagt líks eðlis frá sölusamböndum íslenzkra saltfiskseigenda — og væri það hvað skreiðarframleiðendurna áhrærir á þessa leið; ég ætla að leyfa mér að lesa svolítið úr því:

„Samlag skreiðarframleiðenda hefur kynnt sér frv. um útflutningssjóð o.fl., sem nú liggur fyrir hv. Alþingi, og við athugun þess hefur komið í ljós, að sá grundvöllur fyrir framleiðslu skreiðar 1958, til 15. maí 1958, sem lagður var með samkomulagi við hæstv. ríkisstj. um s.l. áramót, er burt fallinn með talsvert hækkuðum vinnulaunum, svo sem ráð er fyrir gert í 7. kafla, 52. gr. og greinum þar á eftir í sama kafla.

Nú er það svo, að enn þá er öll skreið úti á hjöllum, og falla því öll vinnulaun, sem munu nema helmingi allra vinnulaunanna, undir hina væntanlegu hækkun, sem mun nema allt að 15 aurum á hvert skreiðarkíló.

Þá má og geta þess, að verið er nú að panta umbúðir um framleiðslu skreiðarinnar í ár, og mun hækkun umbúðarkostnaðar verða mjög mikil, sem einnig valda stjórnskipaðar aðgerðir, enda þótt sú vara hafi ekki hækkað á erlendum markaði. Þar sem allir skreiðarframleiðendur munu hafa reiknað með svipuðum vinnulaunum og svipuðu verði á umbúðum og verið hefur, verða þeir fyrir talsverðu tjóni vegna þessara ákvæða fyrrnefnds frumvarps, ef að lögum verður.

Verðum vér að mótmæla harðlega, að þessi vörutegund, skreiðin, skuli vera sett skör lægra, en aðrar útflutningsvörur, sem féllu undir samkomulagið við hæstv. ríkisstj. um s.l. áramót, og framleiðendur hennar beinlínis fyrir aðgerðir þess opinbera verða þannig fyrir talsverðu fyrirsjáanlegu tjóni af þessu, þ.e. stórhækkuðum vinnulaunum og hækkuðum umbúðum. Vér leyfum oss því að skora á yður, hæstv. sjútvmrh., að bera fram brtt. undir umræðu málsins á Alþingi til leiðréttingar á þeim agnúum, sem beinlínis valda skreiðarframleiðendum fjárhagslegu tjóni og hér eru að framan greindir.“

Svipaðs innihalds mun erindi saltfisksframleiðendanna vera, en því lýsti hv. þm. N-Ísf. í sinni ræðu.

Út af þessu hafði ég leyft mér að leggja hér fram brtt. við þetta frv. á þskj. 581, sem hljóðar svo:

„Útflutningssjóður greiðir vinnslustöðvum og þeim aðilum öðrum, sem hafa með höndum verkun og útflutning afurða, sannanlega hækkun við að fullverka og koma í skip útflutningsafurðum, sem framleiddar hafa verið á tímabilinu frá 1. jan. til 14. maí 1958, umfram það, sem slíkur kostnaður hefði numið fyrir 14. maí þessa árs.“

Nú hafði ég, áður en þessi fundur hófst, átt tal við hæstv. sjútvmrh. um þessi efni og hann tekið liðlega í að gefa einhverja yfirlýsingu eða hafa einhver þau ummæli við umræðurnar hér í þessari hv. d., sem gætu orðið þess valdandi, að ég gæti tekið þessa till. aftur, því að mér er það ljóst, að það er miklu heppilegri lausn málsins, en að halda till. fram og fá hana fellda, ef svo kynni að verða. Vil ég vænta þess, að hæstv. ráðh. verði við þessari ósk, sem hann var áður búinn að taka vel í.

Annars var ég að tala um till. hv. 3. minni hl., sem snertir það, að yfirfærslur á námskostnaði og sjúkrakostnaði skyldu vera undanþegnar yfirfærslugjaldi. Ég var þar í ræðu minni, þegar hæstv. forseti kallaði til mín.

Ég hafði lýst yfir fylgi mínu við þessa till. mjög eindregnu og vil vona, að hv. d. fallist á að leggja ekki yfirfærslugjald á námskostnað og því síður á sjúkrakostnað. Það þarf í rauninni ekki að rökstyðja mjög þá brtt., a.m.k. ekki fram yfir það, sem gert hefur verið, því að öllum er ljóst, að af öllum landsmönnum eiga e.t.v. námsmenn og sjúklingar einna erfiðast með að standa undir þeim kostnaði, sem af hinu háa yfirfærslugjaldi leiðir, og hvað sjúklingana snertir er það beinlínis ómannúðlegt að leggja þá skyldu á herðar þeim.

Nokkrar umræður höfðu farið hér fram á milli hæstv. ráðh. og hv. frsm. 3. minni hl. út af álaginu, sem er á yfirfærslum fyrir kaupi því, sem greitt er í erlendum gjaldeyri til manna á verzlunarflotanum og til flugmanna. Ég get ekki komizt hjá því að líta svo á, að það er gersamlega bert, að um mikla kjaraskerðingu hjá báðum þessum hópum manna er að ræða, ef þeir eiga að greiða það yfirfærslugjald, sem frv. ákveður. Hvað flugmennina snertir, þá mun það vera, að upp úr verkfalli þeirra fyrir ári munu hafa verið gerðir þriggja ára samningar, þar sem þeim er ákveðinn viss hluti, allríflegur, í erlendum gjaldeyri, og hefur það á þeim tíma, að því er mér skilst, orðið til þess að jafna þann ágreining, sem uppi var, þannig að þeir felldu sig við að hætta verkfalli og fallast á að þiggja þessar kjarabætur. En nú virðist mér, að með þessu frv. eigi að mestu leyti að taka þær af þeim, og getur það vissulega orðið til mjög mikils ágreinings, fyrir utan það, að það verður beinlinís til skaða fyrir þá, sem stunda flugatvinnuna.

Um hinn hópinn, þ.e. skipverja, þá er um að ræða hvað snertir erlenda gjaldeyrinn lagalegan rétt þessara manna. Það er ekki samningsréttur eingöngu, það er lagalegur réttur, og segir svo í lögum nr. 41 19. maí 1930, um siglingar, með leyfi hæstv. forseta:

„Skipverji tekur kaup frá og með þeim degi, sem hann kemur til vinnu á skipinu. Þurfi hann að ferðast frá ráðningarstað til skips, tekur hann kaup frá og með þeim degi, er sú ferð hefst. Skipverji tekur kaup til þess dags og að honum meðtöldum, er þjónustu hans á skipinu lýkur, eða sé hann skráður úr skiprúmi, þá til afskráningardags og að honum meðtöldum, enda hafi hann eigi áður misst rétt til kaups vegna sjúkleika eða af öðrum ástæðum. Skipverji á ekki rétt á kaupi um þann tíma, er hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna af hendi störf sín. Þurfi að reikna kaup fyrir mánuð eða brot úr mánuði, telst mánuðurinn 30 dagar.

Greiðslu á kaupi getur skipverji einungis krafizt, þegar skipið er í höfn, og aðeins einu sinni á viku. Kaupið greiðist í peningum, hafi skipverji ekki óskað að fá það greitt með ávísun á útgerðina. Greiðslu má krefjast í mynt þeirri, sem gjaldgeng er á greiðslustaðnum, með því gengi, er bankar þar þá greiða fyrir mynt þá, sem kaupið er talið í í samningnum.“

Þarna er ljós lagastafur fyrir því, að sérhver skipverji á heimtingu á, þegar hann er í erlendri höfn, að fá greitt kaup sitt, reiknað út á því opinbera gengi, sem bankarnir skrá gjaldeyri hér heima fyrir. Og með því að leggja þennan þunga skatt á yfirfærslu þessa er verulega skertur kauphluti þessara manna móts við það, sem nú er.

Hæstv. ráðh. minntist eitthvað á það, að þessir menn gætu keypt vörur fyrir sinn erlenda gjaldeyri og komið þeim heim. Það kann að vera, að þeir geti það. En ég ímynda mér, að hvað skipverja áhrærir, þá er löglegur vöruinnflutningur til landsins aðeins sá, sem er á tollskrá eða skrám skipsins og vitaskuld fer þá í hendur tollsins, og verður að gjalda innflutningstoll af því, því að ég geri ekki ráð fyrir, að hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj. vilji með lagaákvæðum eða samningsákvæðum gangast fyrir því að neyða þessa menn til þess að smygla vörum inn í landið. Ég geri ekki ráð fyrir því, segi ég, en það mundi leiða af því, að þeir yrðu að smygla vörunum inn, ef þeir vildu komast hjá skyldu að greiða toll. Hér er því að ræða um stórkostlega kjaraskerðingu hjá þessum mönnum.

Í hv. Nd. var flutt brtt. um þetta atriði, sem fer í áttina til þess að minnka kjaraskerðinguna, þó að hún sé ekki afnumin með öllu, og ég hef leyft mér að taka hana upp hér. Þó að hún væri felld í hv. Nd., þá hef ég leyft mér að koma með sömu brtt., þ.e.a.s. á þskj. 580, að yfirfærslugjald í þessum tilfellum, sem hér um ræðir, hjá skipverjum á skipum og hjá flugmönnum, reiknist ekki 55%, eins og stendur í frv., heldur 30% yfirfærslugjald. Er þar farið dálítið til móts við þá tekjuþörf, sem ég veit að fyrir liggur, og gerð tilraun til þess að lagfæra þetta, svo að menn muni frekar sætta sig við það heldur, en ef því er haldið alveg fullu, eins og frv. núna ákveður, því að ég óttast, að af því mundi leiða mikinn ágreining þessara stétta, sem eru svo mjög nauðsynlegar þjóðfélaginu, ágreinings, sem sennilega gæti valdið miklum skaða, — og vildi ég gera mitt til þess að forða því, að til slíks kæmi.

Ég skal svo ekki orðlengja meira um mínar eigin brtt. Ég er að öðru leyti samþykkur brtt. þeim, sem fluttar eru á þskj. 584 af hv. 3. minni hl. fjhn., og enn fremur vildi ég minnast á, að mér þykir brtt. á þskj. 585 frá hv. 2. þm. Árn. og hv. 11. landsk. miða í rétta átt og vera sanngjörn til bóta, og vil fyrir mitt leyti leggja henni lið, svo langt sem ég má.

Ég sé nú, að hæstv. ráðh. er í salnum, og vildi þess vegna ekki tefja tímann, því að ég vænti þess, að ég megi heyri eitthvað gott af hans hendi varðandi mín erindi, og vil láta þess vegna máli mínu lokið að sinni.