29.05.1958
Efri deild: 111. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Það var í tilefni af till. frá hv. þm. Vestm. á þskj. 581 og þeim ummælum, sem hér féllu hjá honum, sem ég kvaddi mér hljóðs. Með þessari till. hans er vikið að því, að það muni vera til þess ástæða að gera nokkra sérstöðu á bótum fyrir skreiðarverkun og saltfiskverkun og aðra þá fiskverkun, sem þannig stendur á, að allmikið af verkunarkostnaði er enn ótilfallið nú í vertíðarlok, og verkunarkostnaðurinn verður því nokkru hærri væntanlega, en hann hefði orðið, ef þessi löggjöf hefði ekki komið til. En hins vegar er gert ráð fyrir í lögunum, að útflutningsuppbætur á þessa framleiðslu, af því að hún var komin á land fyrir miðjan maímánuð, verði þær sömu og þær voru ákveðnar um síðustu áramót.

Þetta er alveg rétt. Þetta hefur okkur verið ljóst, að hér getur orðið nokkur munur á, að það er svo ástatt með sumar verkunaraðferðir, að þó að aflinn sé kominn á land fyrri hluta árs, þá getur dregizt langt fram eftir ári að vinna að aflanum og fullverka hann. Því er nokkuð af framleiðslukostnaðinum eftir, og það má því segja, að það standi ekki fyllilega eins á með þessa framleiðslu og vel flest annað í sambandi við útflutningsafurðir okkar. En það er hvort tveggja, að það, sem hér er um að ræða, einkum skreið og verkaðan saltfisk, — að það er álit okkar, að einmitt þessar greinar njóti tiltölulega beztra uppbóta skv. frv., eins og það er, eða tiltölulega meiri hækkunar að sínu leyti, en aðrar greinar, og þá þótti ekki rétt að setja inn í frv. bein ákvæði um frekari stuðning í þessum efnum. En það, sem ég vildi taka fram í sambandi við þetta, er á þessa leið, að þetta atriði mun verða athugað sérstaklega og reynt verður að sjá svo um, að skreiðar- og saltfiskverkun verði látin sitja við sambærileg kjör og aðrar verkunaraðferðir, og ber þá að hafa í huga, að meiri hluti af verkunarkostnaði skreiðar og saltfisks er enn ótilfallinn, en við aðrar verkunaraðferðir.

Það er þetta, sem ég vildi sagt hafa í sambandi við þessa till., að það er fyllilega ætlunin að fylgjast með þessu atriði, kanna það til hlítar og sjá svo um í framkvæmdinni, að þessar verkunaraðferðir fái að sitja við sama borð hvað kjör snertir eins og aðrar verkunaraðferðir. Þetta mun verða reynt að sjá um í framkvæmdinni. Ég teldi svo, að miðað við þetta væri hægt fyrir hv. þm. að draga til baka þessa till. sína. En hvað sem því líður, þá verður væntanlega staðið að framkvæmdinni á þessa leið.