28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1309 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh, sagði, að frv. þetta væri í rauninni smámál og aðeins til þess að taka af tvímæli varðandi nokkur atriði í framkvæmd laga þeirra um húsnæðismálastofnun, sem sett voru á síðasta Alþingi. Það er vafalaust rétt hjá hæstv. ráðh., að frv. sem slíkt er ekki mikilvægt. En hins vegar fer auðvitað ekki hjá því, að í sambandi við þetta frv. hljóti að vakna upp ýmis önnur atriði út af húsnæðismálunum, sem aflaga hafa farið á ýmsan hátt að undanförnu. Ég skal ekki á þessu stigi ræða það í einstökum atriðum. Það mun til þess vinnast kostur, þegar mál þetta hefur verið athugað í n. eða við athugun málsins í n., en það hygg ég að sé nokkurn veginn ljóst, að það þurfi í sambandi við meðferð þessa frv. að athuga ýmis önnur atriði þessara húsnæðismála.

Það, sem frv. staðfestir fyrst og fremst, er það, sem hv. þm. að vísu vissu gerla um á síðasta þingi, þegar frv. hæstv. félmrh. var þá til meðferðar um húsnæðismálastofnun, að málið hefði verið mjög illa undirbúið, sem kom fram í því m.a., að á þingi voru þá gerðar á því óvenjulega margar breytingar, miðað við, að hér var um stjfrv. að ræða, sem gera mátti ráð fyrir að hefði hlotið mjög vandlegan undirbúning, ekki sízt þar sem í frv. var um að ræða ýmis flókin vandamál, sem að sjálfsögðu varð að undirbúa vel, ef það átti ekki að leiða af sér hrein vandræði.

Það vandamálið, sem erfiðast hefur verið viðureignar og raunar mátti sjá fyrir þá, var framkvæmd skyldusparnaðarins. Eins og hv. þm. er einnig kunnugt, var framkvæmd skyldusparnaðarins mjög vandræðaleg, sem m.a. kom fram í því, að það varð að gefa út tvær reglugerðir á s.l. ári, aðra um sérreglu, er gilda skyldi um innheimtu þessa sparnaðar til síðustu áramóta, og svo hina reglugerðina, sem þá átti að taka við og ákvarða um innheimtuaðferðina framvegis.

Það hefur komið mjög skýrt í ljós og á þó vafalaust eftir að koma enn betur í ljós, að skyldusparnaðinum fylgir geysileg skriffinnska, þannig að ég efast um, að þeir menn, sem upphaflega unnu að undirbúningi þessa máls, hafi gert sér til hlítar grein fyrir því í upphafi, hversu margvísleg vandamál sköpuðust í sambandi við framkvæmd skyldusparnaðarins. Það er að sjálfsögðu mál út af fyrir sig, að framkvæmdin á innheimtu þessa skyldusparnaðar á s.l. ári hlýtur auðvitað að hafa það í för með sér að skapa mikla óánægju hjá hinu unga fólki út af þessum sparnaði, þar sem komið er eftir dúk og disk og innheimtur með venjulegum skattaaðferðum skyldusparnaður hálft ár aftur í tímann. Auðvitað var það mjög mikilvægt, ef þessi sparnaður átti að ná tilgangi sínum, að ekki væri vakin gegn honum andúð þegar á fyrsta stigi málsins. Það er þó kafli út af fyrir sig, en það, sem er í rauninni miklu meiri galli á þessu öllu saman, er, eins og ég áðan sagði, hvílík feikna skriffinnska þessu fylgir. Það eru dæmi þess, og vafalaust verða þau mun fleiri, eftir því sem á líður, að stórfyrirtæki hafa orðið að bæta við vinnuafli hjá sér til þess að uppfylla þær kvaðir, sem á þau eru lagðar um framkvæmd þessa skyldusparnaðar. Þar er um að ræða svo margvíslega skýrslugjöf og sundurliðun á vinnulaunum, að það hefur haft stórkostlega aukavinnu í för með sér.

Þá hafa enn fremur komið í ljós margvíslegir annmarkar, sem snerta unga fólkið sjálft. Eins og menn vita, þá eru í lögunum ýmsar undanþágur um ungt fólk, sem er ekki skylt að taka þátt í þessum skyldusparnaði, en í framkvæmdinni hefur það orðið þannig, að því er mér skilst, að öllu ungu fólki hefur verið gert skylt að hafa sínar sparimerkjabækur og verða að þola það, að af þeirra launum væri tekið, og síðan yrði þetta fólk, sem undanþegið væri skyldusparnaðinum, að koma sjálft mánaðarlega, — að vísu getur það komið sjaldnar, en fæstir kæra sig sennilega um að eiga peningana lengur inni, þar sem þeir hafa engin hlunnindi af því, — og sækja þessa peninga aftur.

Mér er kunnugt um það, og við mig hafa rætt ungir menn um þetta atriði, sem hafa bent á, að það væru næsta miklir örðugleikar, sem þarna væru skapaðir, og vakið athygli á því, sem rétt er, að það væri næsta erfitt fyrir ungan mann, sem væri í fastri vinnu, að þurfa að fara mánaðarlega á vinnutíma sínum til þess að fara að sækja þessa peninga. Þarna er auðvitað bundið fé þessa fólks vaxtalaust þennan tíma, — látum það vera, út af fyrir sig er það ekki stór upphæð, — en ég held, að þetta meðal margs annars hljóti að leiða til þess að skapa mikla úlfúð og ríka óánægju út af framkvæmd þessa máls allri saman.

Með þessum skyldusparnaði var farið inn á alveg nýja braut. Það má færa ýmisleg rök fyrir því, að sjálfsagt sé að stuðla að því, að ungt fólk ástundi sparnað og leggi til hliðar fjármuni til þess að undirbyggja heimilisstofnun sína, þegar að henni kemur. En ég held, að þeim tilgangi verði ekki náð, ef framkvæmd málsins er þannig hagað, að það beinlínis veki andúð og óánægju hjá hinu unga fólki, hvernig að er farið.

Af hálfu okkar sjálfstæðismanna var á það bent, þegar þetta mál var til meðferðar, að sjálfsagt væri að reyna á fyrsta stigi málsins, hvort ekki væri hægt að ná jafngóðum árangri með því að leyfa frjálsan sparnað, sem hefði verið miklum mun einfaldari í vöfum og að sjálfsögðu margfalt kostnaðar minni fyrir ríkið, heldur en þessi skyldusparnaður hlýtur að verða, því að það er ekki enn þá séð fyrir endann á því, hver feikna útgjöld fylgja í kjölfar þeirrar framkvæmdar. Ég held, að sú reynsla, sem þegar er fengin af þessum skyldusparnaði, sanni það ótvírætt, að þær aðvaranir voru réttar, sem beint var til hæstv. félmrh. varðandi framkvæmd þessa máls, og að betur hefði verið, ef þeim aðvörunum hefði verið sinnt og a.m.k. gerð fyrst tilraun með það, hvort ekki væri hægt að ná þessum tilgangi með frjálsum sparnaði. Ég hygg, að við hljótum öll að vera sammála um það, að æskilegast er að sjálfsögðu og hefur meira uppeldislegt gildi, ef hægt er að fá ungt fólk til þess að spara með frjálsu móti, heldur en þótt það sé gert eftir löggjafarleiðum. Til löggjafar í þessu efni á ekki að grípa, nema önnur úrræði séu ekki tiltæk. Ég hygg því, að það verði óumflýjanlegt fyrir þá hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, að kynna sér til hlítar, hvernig framkvæmd þessa skyldusparnaðar er, og íhuga það af fullri alvöru, hvort ekki sé rétt að fara hér inn á nýjar brautir, áður en menn hafa steypt sér út í óviðráðanlegt skriffinnskukerfi í þessu sambandi og í rauninni eyðilagt það, sem upphaflega var ætlunin að ná með þeirri hugmynd, sem fólst í þessum skyldusparnaði.

Það var nú á þessu stigi málsins fyrst og fremst þetta, sem ég vildi vekja athygli á. En það eru, eins og ég í upphafi sagði, mörg önnur atriði, sem hljóta að vakna í huga manna, þegar þetta mál er hér innleitt í þingið að nýju, og það eru vitanlega, eins og öllum hv. þm. er ljóst, margvíslegir aðrir annmarkar á þeirri löggjöf um húsnæðismálastofnun, sem sett var á síðasta þingi, sem hlýtur að koma til álita, hvort ekki eigi að breyta, úr því að á annað borð hér er lagt til, að tilteknar breytingar verði gerðar á lögunum.