28.02.1958
Neðri deild: 58. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1321 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Skagf. tók það fram, að hann ætlaði ekki að hefja hér almennar umræður um húsnæðismálalöggjöfina, og það gerði hann heldur ekki. En þetta mun hann hafa sagt í tilefni af því, að hann fann, að hv. 2. þm. Eyf. hafði einmitt farið út í almennar umræður um málið, langt út fyrir þetta frv., og var þess vegna í raun og veru að taka fram, að hann ætlaði ekki að gera sig sekan um það sama.

Viðvíkjandi því, hvort það sé sanngjarnt að ætla ungu fólki í sveitum að bera skyldusparnað eins og ungu fólki í kaupstöðum og kauptúnum, þá játa ég, að það var mín hugsun, að það væri réttmætt, að það væri sanngjarnt, og það er tekið skýrt fram í löggjöfinni, að skyldusparnaðurinn eigi að ná til kaupgreiðslna í peningum og öðrum verðmætum, því að kaupið getur verið alveg jafnmikils virði, hvort sem það er greitt út í peningum eða hvort það er greitt út í kind málildi eða í lifandi fénaði. Ég hygg líka, að sama þörfin sé fyrir það fólk að hafa búið sig undir það með nokkurri sjóðmyndun, þegar það ræðst í bústofnun í sveit, og að því leyti sé þörfin ekki miður brýn fyrir unga fólkið í sveitunum að framkvæma þennan skyldusparnað, heldur en fyrir unga fólkið í kaupstöðunum, sem ætlar að búa sig undir að koma þaki yfir höfuð sér í kaupstað eða kauptúni. Það má vel vera, að svo geti staðið á í einstökum tilfellum, að það sé erfiðara um peninga í lausri mynt, ef meginhluti kaupsins til unga fólksins í sveitunum er borgaður í fríðu, en ekkert hef ég á móti því, að n. athugi þetta viðhorf og leggi á það dóm, hvort það þætti fær leið að undanþiggja ungt fólk í sveitum frá slíkum skyldusparnaði, annaðhvort af því, að það sé erfiðara fyrir það að taka á sig slíka skyldu, eða hinu, að það hafi minni þörf fyrir slíka sjóðmyndun, heldur en unga fólkið í kaupstöðunum. En mín skoðun var sú frá öndverðu og er enn sú, að það fari bezt á því, að unga fólkið í sveitunum beri þarna sams konar skyldur og fólkið í kaupstöðunum. Og yfirleitt er ég þeirrar skoðunar, að kaupgreiðslur í sveitum séu nú komnar í það horf, að þær séu fyllilega eins háar og við sjávarsíðuna og að því leyti eigi ungt fólk þar að geta borið sams konar skyldur og unga fólkið við sjávarsíðuna.

Ég skal ekki ræða margt um svarræðu hv. 2. þm. Eyf. Hann heldur því fram, að það hafi verið meingölluð löggjöf, sem hér var afgreidd á síðasta þingi. Hann og hans skoðanabræður voru á móti skyldusparnaði, og þess vegna er ég ekkert undrandi á því, þó að þeir séu á móti öllu í sambandi við framkvæmd þess skyldusparnaðar, sem lögfestur var. Það er bara í raun og veru að vera samkvæmur sjálfum sér. Ég held því, að það sé alveg tilgangslaust fyrir okkur að vera að ræða um það, okkur er það báðum kunnugt, að við erum þarna á öndverðum meið. Ég tel skyldusparnað vera gott nýmæli og er því fylgjandi og er þeirrar skoðunar, að framkvæmdinni sé bezt fyrir komið í því formi að hafa sparimerki og sparimerkjabækur og hafa það kerfi sem undanþáguminnst, engin göt, til þess að hægt sé að hafa öruggt eftirlit með framkvæmdinni.

Það er rangt hjá honum, að ég hafi viðhaft þau orð, að óánægjan hafi eingöngu sprottið af viðleitni sjálfstæðismanna til að ófrægja málið. Ég sagði, að þess hefði orðið vart, þegar málið kom til framkvæmda, að það hefði verið smeygt út sögum um, að skyldusparnaðarféð væri vaxtalaust og væri ekki vísitölutryggt og veitti engin forréttindi. Ég lét engra sjálfstæðismanna getið í sambandi við það. En það má vel vera, að þeir hafi átt einhvern hlut að því. Það sagði ég þó ekki.

Við sannfærum heldur sjálfsagt ekki hvor annan um það, að þetta sé alveg óhafandi, sú fyrirhöfn, sem lögð sé á unga fólkið í sambandi við framkvæmd skyldusparnaðarins. Ég tel þetta ekki til þess að gera mikið orð á, að ungt fólk verði að fá sitt sparifé endurgreitt, af því að ég legg svo miklu meira en hv. 2. þm. Eyf. virðist gera upp úr því „kontroli“, sem hægt er að tryggja með þessu. Unga fólkið er ekki fótfúið, og því ætti þess vegna að vera þetta léttbærara, en ef þetta væri lagt á fólk á öðrum aldri, og ég trúi því ekki, að það verði langvarandi óánægjuefni unga fólksins að þjóna málinu á þann hátt, að framkvæmdin geti orðið öruggari í heild við það, að það verði að taka sína sparimerkjabók og fara við og við í pósthús til þess að fá sína peninga þar greidda.

Það er rétt, að það kom ein grein í Tímanum, sem vék að þessu, hvort það væri ekki óþarft að láta alla taka sparimerki, líka þá, sem ættu örugglega að fá undanþágu, og ritstjóri Tímans, Haukur Snorrason, birti þessa grein án þess að hafa aflað sér nokkurra upplýsinga um það, hvernig málið væri vaxið. Þegar greinin kom svo, hafði ráðuneytisstjóri minn, Hjálmar Vilhjálmsson, viðræður við ritstjórann og gerði honum grein fyrir því, hvers vegna þetta væri gert, og skrifaði síðan grein um málið, og það vill nú einmitt svo til, að ráðuneytisstjórinn hafði samtal við mig í morgun um þetta atriði og sagðist þá nýskeð hafa spurt ritstjóra Tímans að því, hvort óánægjubréf um þetta atriði hafi haldið áfram að berast blaðinu, því að ritstjórinn hafði gefið það upp sem ástæðu fyrir þeirri grein, sem skrifuð var í óánægjutón um þetta mál, að honum hefðu borizt bréf, þar sem fólk væri óánægt með að þurfa að leggja þetta á sig. Og hafði ritstjórinn nú sagt, að það hafi engar óánægjuraddir borizt síðan, engin slík bréf borizt blaðinu síðan. M.ö.o.: þetta bendir til þess, að ungt fólk þurfi fyrst og fremst að fá réttar upplýsingar um málið. Og það þarf enginn að undrast það, þó að þetta mál liggi ekki svo ljóst fyrir öllum á byrjunarstigi, að fólk geri sér ekki í hugarlund ýmiss konar erfiðleika og óánægjuefni, sem svo hafa ekki við rök að styðjast, þegar málið er upplýst. Og um þetta atriði virðist vera á þann veg.

Ég skal fúslega játa, að ég gat búizt við því, að það yrðu margvísleg óánægjuefni í sambandi við framkvæmd svona máls. En ég er miklu fremur hissa á því, hve málið hefur fengið góðar undirtektir, ekki aðeins hjá eldra fólki, sem vill, að unga fólkið spari, spari eins og það getur, heldur líka hjá unga fólkinu sjálfu, og að verða þess var, að ungt fólk, sem á greinilegan rétt á undanþágu, skuli í ýmsum tilfellum segja og sýna í framkvæmd, að það vilji einmitt nota sér réttindi skyldusparnaðarins og mynda sér þann sjóð, sem það á kost á að mynda með þessum hætti, en þess hefur orðið vart í allmörgum tilfellum, og veit ég því, að það eru engin einsdæmi. Það sýnir, að hugmyndin á fleiri hauka í horni, en ástæða hefur verið til að búast við í upphafi.