21.03.1958
Neðri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég vil í fyrstu láta í ljós ákveðið óánægju mína yfir því, hvernig þróunin er að verða með afgreiðslu mála hér á Alþingi. Í aðalatriðum er það svo, að ef þm. bera fram frv., þó að það sé á öndverðu þingi, þá fara þau til nefnda. Þaðan fást þau ekki afgreidd, og leitað er allra ráða til þess að komast hjá því, að þingheimur þurfi að taka afstöðu til þessara mála. Eitt þessara dæma liggur fyrir hér. Við sjálfstæðismenn berum fram á öndverðu þingi till. til breyt. á húsnæðismálalöggjöfinni, sem sannarlega voru þess eðlis, að það var full ástæða til alvarlegrar íhugunar á þeim, og mér er nær að ætla, að ef sumt af því, sem þar er lagt til, fær engan byr hjá þinginu, þá muni reyndin verða sú, að menn sjái það kannske um seinan, hversu brýn nauðsyn var þó, að Alþingi féllist á þær brtt., sem þarna eru fluttar. En látum það út af fyrir sig gott heita, að meiri hlutinn, stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sé andvígur till. þeim, sem minni hl. eða stjórnarandstaðan ber fram hér á þinginu, En það er þó það minnsta, sem hægt er að ætlast til, að þeir séu þá menn til þess að taka afstöðu til þess með atkvgr. sinni og í þinglegri meðferð málanna.

Hér hefur nú í sambandi við þetta mál þess verið freistað að koma engu að siður okkar till. þannig fyrir, að hv. alþm. verði að taka afstöðu til þeirra, hvort þeir eru með eða móti. En það er þó gert á alveg óvanalegan hátt, að frv., sem flutt er í upphafi þings, er fellt inn í annað frv., sem miklu seinna er fram komið, þar sem nefndin fæst ekki til þess að fjalla um bæði frv. samtímis, sem fjalla um sama mál og breyt. á sömu löggjöf.

Ég tel, að það verði ekki komizt hjá því að átelja þetta, og eins og ég sagði áðan: um það þýðir ekki að sakast, þó að þm. séu ekki á eitt sáttir í málum eins og þessum eða öðrum, en það er þó a.m.k. réttmæt krafa stjórnarandstöðunnar, að málin fái þinglega meðferð og afgreiðslu.

Um þetta mál að öðru leyti vil ég segja það, að mig undrar ekkert meðferðin á því nú af hálfu stjórnarliðsins. Hún er í samræmi við það, sem á undan hefur gengið í sambandi við húsnæðismálalöggjöfina. Það voru miklar bumbur barðar og flutt ný löggjöf, sem átti að heita um húsnæðismálin, á s.l. þingi. Var það þó ekkert annað, en endurritun í öllum aðalatriðum á fyrri löggjöf, og flest var það fært til verri vegar, sem tekið var upp úr hinni eldri löggjöf, en nýmælin voru sárafá og að mestu leyti nauðaómerkileg. Smávegis tekjuöflun var þó gerð tilraun til að stofna til, til húsnæðismálakerfisins eða byggingarsjóðs ríkisins, eins og það nú heitir, sem í raun og veru er ekkert annað, en nafn á því almenna veðlánakerfi, sem búið var að koma á fót með húsnæðismálalöggjöfinni 1955, fyrst og fremst undir forustu sjálfstæðismanna. Þá voru háværar raddir um það hér á sínum tíma af hv. núv, stjórnarsinnum, að sjálfstæðismenn hefðu brugðizt fyrirheitum sínum varðandi lánsútveganir til hins almenna veðlánakerfis, og meira að segja var svo langt gengið, að þetta voru talin ein mestu brigðmæli og svik í stjórnmálasögu síðari ára af sumum af hv. talsmönnum stjórnarliðsins. Samt liggja fyrir staðreyndir um það, að löng lán til íbúðabygginga fóru stórlega í vöxt á árunum 1955 og 1956, eftir að húsnæðismálalöggjöfin kom til framkvæmda, og að lánveitingarnar í þessu sambandi voru samkvæmt óyggjandi skýrslum, sem fyrir liggja frá Veðdeild Landsbanka Íslands, fyllilega í samræmi við það, sem áætlað var, og þó heldur meir.

En hvernig horfa svo þessi mál í dag? Það er verið að gera smávegis breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni að tilhlutan ríkisstj. eða leggja til breytingar. Þessar breytingar stafa af því, að þegar á að fara að framkvæma skyldusparnaðarkerfið, þá er ekki betur að þeim málum unnið, en það er sett í gang eitthvert bráðabirgðakerfi á s.l. ári og því er ætlað að ná fram til áramóta, og nú er verið að gera till. um nýtt kerfi í þessu sama sambandi, og er það áreiðanlega einsdæmi um framkvæmd löggjafar og í veigamiklum málum, að svo skuli að þeim unnið. En það, sem mestu máli skiptir, það að útvega lánsfé til íbúðabygginganna, nægjanlegt lánsfé til hins almenna veðlánakerfis, það fer allt í handaskolum hjá hæstv. ríkisstj., og þegar bornar eru fram till. um það hér við afgreiðslu fjárlaga af okkur sjálfstæðismönnum að auka framlög til heilsuspillandi húsnæðis samkv. 3. kafla húsnæðismálalöggjafarinnar, þá er það allt saman kolfellt af hv. stjórnarliði, enda þótt sýnt sé, að það er með engu móti hægt að standa sómasamlega við skuldbindingar af hálfu ríkisvaldsins gagnvart bæjar- og sveitarfélögunum, nema þessar till. okkar sjálfstæðismanna hefðu verið samþykktar. Að þessu voru færð alveg óyggjandi rök á sínum tíma, þegar afgreiðsla fjárl. fór fram. Bæjarstjórn Reykjavíkur hafði þá skorað á Alþingi með atkvæðum allra fulltrúa í bæjarstjórn Reykjavíkur, einnig þeirra, sem styðja núv. hæstv. ríkisstj., að hækka framlagið til heilsuspillandi húsnæðis úr 4 millj. kr. á ári upp í 12 millj. kr. og rökstutt það með því, að minna mætti það naumast vera til þess að uppfylla þau meginsjónarmið, sem ekki væri hægt að ganga fram hjá, að ríkisvaldið á hverjum tíma hlutaðist til um, að a.m.k. jafnmikið framlag kæmi frá ríkissjóði til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis eins og lagt væri af mörkum af hálfu bæjar- og sveitarfélaga. Þetta er allt saman kolfellt. Ekki hefur bólað á neinum nýjum úrræðum eða nýjum tilraunum til að afla hinu nýja veðlánakerfi, nýs fjármagns.

Þó er þess að minnast, að þegar við skildum hér á þingi í maímánuði 1957 eða s.l. ár, þá hafði ríkisstj. uppi stór fyrirheit um það, að hún skyldi tryggja, að hinu almenna veðlánakerfi væru úthlutaðar 44 millj. kr. til útlána á árinu 1957. Þegar hæstv. ríkisstj. var hér spurð að því, hvernig og með hverjum hætti hún ætlaði að gera þetta, þá fengust engin svör. Það var gert ráð fyrir því, að það yrði útvegað frá bönkum og peningastofnunum. Þegar innt er eftir því, hvort ríkisstj., ef bankar og peningastofnanir geti ekki lagt þetta af mörkum, vegna þess að sparifjármyndun í landinu sé ekki nægjanleg, hafi þá uppi ráðagerðir um annaðhvort að taka þetta fé að láni erlendis eða treysti sér til þess að auka seðlaprentunina til þess að uppfylla þetta loforð, þá er ekkert sagt. Það er leitt algerlega hjá sér að svara þessu í þinglokin síðustu. Síðan líður á árið, og eitt er a.m.k. víst, að engu er úthlutað af þessum 44 millj. kr. til útlána á árinu 1957. En þegar kemur fram í lok októbermánaðar — um mánaðamótin október-nóvember — og verið er að semja við fulltrúa verkalýðsins um að falla frá kröfum um hækkað kaupgjald og sætta þá við að hafa óbreytt kjör, þá er m.a. stungið upp í þá loforði um 40 millj. kr. til íbúðalána, sem á að vera einn liður í að sætta þá við að falla frá hugsuðum kaupkröfum. Þá var ríkisstj. með þessu búin að lofa 84 millj. kr. til lánveitinga úr byggingarsjóði ríkisins eða hinu almenna veðlánakerfi á árinu 1957, því að ef loforðið í októbermánuði um 40 millj. kr. átti að hafa nokkurt gildi, þá hlaut það að vera til viðbótar 44 millj. kr., sem búið var að lofa í maímánuði, og getur ekki skoðazt sem endurtekning á hluta af því loforði.

Þarna hafa sem sagt legið fyrir á s.l. ári frá ríkisstj. loforð um, að 84 millj. kr. skyldu verða lánaðar úr hinu almenna veðlánakerfi. Auðvitað vita allir, að þetta loforð hefur ekki frekar en önnur loforð hæstv. ríkisstj. verið efnt. En menn gera sér kannske ekki grein fyrir því, hversu hörmulegar efndirnar eru á þessu loforði.

Húsnæðismálastjórn mun hafa tvisvar á árinu, eftir að þingi lauk í fyrra, í júlímánuði og nóvember, úthlutað í hvort sinn 10 millj. kr. til nýrra íbúðalána, en af því fóru 12 millj. kr. í júlí til þess að uppfylla þegar gefin lánsloforð, sem lágu fyrir, þegar loforðið um 44 millj. kr. var gefið í maímánuði s.l.

En húsnæðismálastjórnin hefur þannig á ári hinna stóru loforða úthlutað 20 millj. kr. til nýrra íbúðalána, 20 millj. kr., þegar lofað var fyrst 44 millj. kr. í maí 1957 og 40 millj. kr. í nóvember til viðbótar, eða 84 millj. kr. Það vantaði hins vegar ekki, að hæstv. félmrh. eins og fyrri daginn þyrfti að láta auglýsa sig svolítið í sambandi við þessa myndarlegu framkvæmd íbúðalánveitinganna. Og það var ekki mjög löngu fyrir bæjarstjórnarkosningar, að hæstv. ráðherra kom í ríkisútvarpið með grg. um það, að hæstv. ríkisstj. hefði fyllilega staðið við loforð sín og skuldbindingar varðandi lánveitingar til íbúðabygginga, m. ö. o.: að hún væri búin að tryggja fyrirheit á 52 millj. kr., eins og sagði í yfirlýsingu ráðh, í útvarpinu og tekið var eftir honum í stjórnarblöðunum næstu daga. Þetta kallaði svo hæstv. ráðh. og blað hans að fyrirheit ríkisstj. hefðu verið efnd.

En ef við lítum á þessar efndir, þessar 52 millj. kr., þá var, eins og ég sagði, lofað 84 millj. kr. nýjum lánum á árinu 1957, en það voru aðeins 20 millj. kr. veittar á árinu 1957. Síðan var veitt í kosningamánuðinum, þ.e.a.s. fyrsta mánuði ársins 1958, og það er kannske aðeins tilviljun, að það var sami mánuðurinn sem bæjar- og sveitarstjórnarkosningar fóru fram, — þá var veitt viðbótarfé, en það var ekki efnd á því, sem lofað var á árinu 1957. Og ef litið er nánar á það mál, þá kemur enn í ljós, að þar er enn verið að svíkja og blekkja, því að þar er verið að úthluta lánsfé, sem almenningur hefur ástæðu til þess að ætla að sé nýtt og aukið lánsfé, en mikill hluti af því, eða 25 millj. kr., er fé, sem tekið er til bráðabirgða að láni hjá seðlabankanum, og fyrir því er búið að veðsetja væntanlegar tekjur byggingarsjóðs ríkisins á árinu 1958.

Þetta er allt með slíkum endemum, að það er ótrúlegt, hvað hæstv. ríkisstj. hefur tekizt óhöndulega í þessum málum. Það er hælzt yfir því rétt fyrir bæjarstjórnarkosningar, eins og ég sagði, að seðlabankinn hefði lofað ríkisstj, því og hún hefði þannig tryggt það fyrst að lána 10 millj. kr. þann 3. des, og síðan 15 millj. kr. þann 17. jan., eða samtals 25 millj. kr. En einmitt þessum 25 millj. kr., eins og ég sagði, lofaði seðlabankinn aðeins til bráðabirgða og gegn því, að húsnæðismálastjórnin veðsetti bankanum væntanlegar tekjur byggingarsjóðs ríkisins af skyldusparnaði og stóreignaskatti, sem til fellur á árinu, og á lánið að endurgreiðast, jafnóðum og þessar tekjur falla til.

Þegar kosningamánuðurinn var sem sagt liðinn, þá er ekki sýnt, að það sé mikið nýtt fé, sem kemur inn í byggingarsjóðinn, sem kemur til úthlutunar hjá þessari hæstv. ríkisstj, eða fyrir tilstuðlan hennar í gegnum húsnæðismálastofnunina.

Ég vildi leyfa mér að vekja athygli á þessum staðreyndum nú, að það er eins og það séu einhver álög á núverandi hæstv. ríkisstj., hversu mjög illa henni tekst til um framkvæmd húsnæðismálalöggjafarinnar og meginatriði hennar, að afla nægjanlegs lánsfjár til íbúðabygginga, enda mun það svo, að almenningur finnur það kannske betur nú, en nokkru sinni áður, hvað skórinn kreppir fast að og hversu litlar vonir eru um, að menn fái raunverulega úrlausnir þessara mála. En þegar svo stendur á, þá þykjast hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar samt sem áður vera þess umkomnir að bera fram brtt., lítilfjörlegar og ómerkilegar, hér á þinginu, en ætla sér um leið að humma það fram af sér og ganga fram hjá því að taka afstöðu til brtt. á húsnæðismálalöggjöfinni, sem verulegu og miklu máli skipta og við sjálfstæðismenn höfum borið fram á öndverðu þingi. Það hefur nú verið séð til þess, að hv. stjórnarlið verður a.m.k. með atkvæðum sínum að láta það sannast, hvort það er reiðubúið til þess að fella þær till. sjálfstæðismanna, sem fluttar eru í þessu skyni, og þar á meðal þær, að hækkuð verði framlög ríkisins til heilsuspillandi íbúða, eins og ein okkar till. ber með sér.