21.03.1958
Neðri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja það út af till. hv. 2. þm. Skagf., að í þeim tilfellum, þegar ungt fólk í kaupstöðum hefur upplýst, að það væri að byggja og þannig að framkvæma það verkefni, sem skyldusparnaðinum var ætlað að þjóna, þá hefur verið og verður litið svo á, að það fólk sé að framkvæma þann sparnað, sem lögin áttu að tryggja, og slíkt fólk mun koma undir undanþáguákvæðin. Ég held því, og það sagði ég honum einmitt áðan, þegar hann kom úr ræðustólnum, að ég héldi, að framkvæmdin mundi verða sú, að það fólk, sem þannig stæði á um eins og greinir í hans brtt., að það legði til hliðar sannanlega 25% af kaupi sínu, sem það hefði umfram fæði, að það yrði svo á litið, að það væri að framkvæma sparnað, fyllilega þann sparnað og meiri en þann, sem lögin ætluðust til, og mundi þannig að þeim leiðum, sem opnar standa samkvæmt gildandi löggjöf, fá sína undanþágu og breyting væri þess vegna óþörf að því er þetta snerti. Það er mín skoðun. Ég er alveg viss um það, að í framkvæmdinni verður ekki gert upp á milli fólksins í sveitunum og í kaupstöðunum. En mér finnst, að það eigi hvort tveggja að sitja við sama borð, að unga fólkið í sveitunum á að leggja til hliðar undir öllum kringumstæðum 6%, nema það falli undir undanþáguákvæðin eða fullnægi alveg fyllilega þeim skyldum, en öðlast hins vegar sams konar aðstoð til bústofnunar í sveit og unga fólkið í kaupstöðunum fær aðstoð að ákveðnum tíma liðnum til þess að eignast þak yfir höfuðið. Og ég álít, að þar eigi engar undanþágur að koma til greina fremur á aðra hliðina, en hina, að því er snertir ungt fólk í sveitum og hins vegar í kaupstöðum.

Þá kem ég að hv. 5. þm. Reykv. Hann furðaði sig á því, að ég hefði ekki farið út í það að svara svikabrigzlum hans. Hann minntist á það, að því hefði hér áður verið haldið fram, að fyrrverandi stjórn hefði framið mestu svik stjórnmálasögunnar á síðari árum með vanefndum á því, sem lofað var, þegar húsnæðismálalöggjöfin næstsíðasta var sett.

Það kann að vera nokkuð til í því, að þeim hafi verið brugðið um svik í sambandi við það, því að það er staðreynd, að það var fyllilega gefið í skyn, að hver maður, sem þá færi af stað með að byggja, ætti kost á að fá 100 þús. kr. lán, og þessi málstúlkun, áður en sú löggjöf var sett, leiddi til þess, að það fór af stað meiri byggingarskriða, en þekktist áður í sögu þjóðarinnar, og það kom undireins í ljós, fáum vikum eftir að löggjöfin hafði verið sett af fyrrverandi ríkisstj., að við þessa byggingarskriðu, sem var afleiðing af þeim loforðum og fyrirheitum, sem höfðu verið gefin, réð hv. fyrrv. ríkisstj. ekkert. Það voru þess vegna komnir á þriðja þúsund eða rétt við þrjú þúsund umsækjendur að lánum, sem ekki höfðu getað fengið neina úrlausn sinna mála, þegar kom svo til þess, hvað hægt væri að framkvæma samkvæmt þeirri löggjöf, og það voru þessi svik, sem voru í pokanum, þegar núv. ríkisstj, taldi nauðsyn á að setja nýja löggjöf, af því að þessi löggjöf hefði ekki orkað að risa undir þeim skuldbindingum, sem henni var ætlað að leysa vegna þeirra gullnu loforða, sem höfðu verið gefin, og þessi gullnu loforð höfðu sannarlega verið svikin, það er staðreynd.

Hitt er aftur einber misskilningur hv. þm., að sú fjáröflun, sem um var samið við verkalýðssamtökin á s.l. ári, hafi ekki verið efnd. Þar var engu logið, það var bara tilkynnt í útvarpinu. Að vísu bar það að í desembermánuði núna fyrir áramótin, að samkvæmt þessari og þessari dagsetningu hefði verið hægt að fá þetta hjá seðlabankanum og þetta, þangað til komin var 52 millj. kr. upphæð, sem þá hafði verið afhent húsnæðismálastjórn til úthlutunar, að frádregnum 12 millj. kr., sem samkvæmt sömu löggjöf eiga að fara til húsnæðismálanna í sveitum landsins og borgast inn til Búnaðarbankans, og hvort tveggja hafði verið gert.

Þetta eru niðurstöður, sem ekki er hægt að hagga neitt við. Þetta var tilkynnt, og við þetta var staðið, og það hefur hvergi sézt, hvorki í Morgunblaðinu né neinu stjórnarblaðanna, fyrir eða eftir þessar kosningar, að þarna hafi verið farið með nein ósannindi eða nein svik hafi verið á ferðinni. Þetta liggur alveg hreint fyrir, og það er ekki til neins að koma með nein svikabrigzl út af því. Slík svikabrigzl eru ekki svaraverð, og þess vegna gekk ég alveg fram hjá þeim, og þegar hann segir, að félmrh. hafi látið undir höfuð leggjast að biðja sig fyrirgefningar, þegar hann lýgur á mig, þá segi ég: Það er að bíta hausinn af skömminni, og það er að snúa öllum siðgæðisreglum við. Sá, sem lýgur á annan mann, á að biðja fyrirgefningar, og ef nokkuð er óumdeilanlegt, þá er það það. (Gripið fram í: Hver hefur logið?) Ég segi: Sá, sem lýgur á annan, á að biðja fyrirgefningar.

Út af þessu spurði svo hv. 5. þm. Reykv.: Hversu miklu fé var úthlutað til húsnæðismála í kosningamánuðinum, í janúarmánuði? Nú verð ég að játa, að ég hef ekki þær skýrslur hjá mér. Ég vissi ekki um, að slíkrar spurningar væri von, og tel spurninguna næsta óþinglega, en mér er nær að halda, að það hafi verið minna fé úthlutað í janúarmánuði, en marga aðra mánuði ársins. Það fór fram á haustmánuðunum úthlutun á fé, sem fyrir hendi var, og þegar seðlabankinn hafði svo efnt sitt loforð að fullu um útvegun 52 millj. kr., hvar af 40 millj. kr. áttu að fara til húsnæðismálalána um allt landið, þá var úthlutun lánanna haldið áfram með venjulegum hætti. Það hvarflaði hvorki að mér né húsnæðismálastjórn að fyrirskipa að hætta öllum útlánum til húsnæðismála, þegar loksins fé var fengið, þó að kosningar stæðu fyrir dyrum í janúarmánuði. En ég get frætt hv. þm. á því, að úthlutun á þessu fé hélt áfram fram í marzmánuð, og nokkuð miklum hluta af þessu fé var úthlutað eftir kosningarnar. Það var mér vitanlega ekki tekið neitt tillit til þess, hvorki um að auka lánveitingar né draga úr þeim, af því að það færu fram kosningar í janúarmánuði, en það er svona hugsunarháttur, sem örlar á hjá hv. 5. þm. Reykv., og þykir mér fróðlegt að kynnast slíku viðhorfi.

Mér er líka alveg ófært að upplýsa hann um það, hversu mikið fé muni koma til útlána hjá húsnæðismálastjórn á þeim ellefu mánuðum, sem hann talaði um að væru nú eftir af árinu. Þá hefur hann auðvitað miðað líka við að afloknum kosningamánuðinum, janúar. Þetta byggist m.a. á því, að það er eins á þessu ári og á s.l. ári, að það er enn í óvissu, og það var í óvissu langt fram eftir árinu 1957, hvað mikið fé væri hægt að draga út úr bönkunum og þ. á m. frá þessum hv. bankastjóra til þess að geta aðhafzt eitthvað í þessum málum á fyrri hluta ársins, og það tókst allt of seint að fá það fé. Það er alveg fullgilt svar til þessa hv. bankastjóra, að það fer eftir því, hvað hægt er að draga mikið fé út úr bönkunum, hvað hægt verður að láta í þessi mál á þeim 11 mánuðum að afloknum janúarmánuði 1958, og ég vil vona, að hans afstaða verði sú, að það verði hægt að draga heldur meira, en minna fé úr bönkunum til þess að þjóna í húsnæðismálunum á árinu 1958, því að við erum báðir sammála um það, að þess er fyllilega þörf. En ósamræmi væri það óneitanlega, ef hv. 5. þm. Reykv., sem hér talar mjög um nauðsyn á, að mikið fé fari bæði til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og til annarra húsnæðislána, ef hann yrði svo meðal þeirra, sem heldur treglega og dauflega tækju undir það, að bankarnir legðu af sínu fé til húsnæðismálanna. Það væri heldur lítið samræmi í því, að hv. 5. þm. Reykv. býsnaðist hér yfir hinni miklu fjárþörf til húsnæðismála, en bankastjórinn í sömu persónu væri svo aftur dragbítur á það, að fé væri látið af hendi hjá bönkunum. Ég vona, að til þess ósamræmis komi ekki.

Þá vék hann að þeim fjárframlögum, sem hefðu farið til húsnæðismála hjá fyrrverandi stjórn og þeirri núverandi, og hann kemst alltaf að þeirri niðurstöðu, að það sé fyrst skammarlega að þessum málum búið, þegar núv. stjórn komi til. 3 millj. kr., sem voru veittar til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis hjá fyrrv. stjórn, eru að hans áliti betri en 4 millj. kr., sem eru núna látnar fara til þess, því að því verður ekki neitað, að það átti að verja til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis samkvæmt reglugerðarákvæði 50 þús. kr. til einstaklings, íbúðareiganda, meðan 3 millj. kr. á fjárlögum hrykkju til, en þar tók fyrir það. Og alveg eins er það nú, þegar 4 millj. kr. eru uppgengnar, þá er ekki hægt að veita fleirum, en nú hafa fengið möguleika til þess að fá 70 þús. kr. frá hvorum um sig, bæ og ríki; 50 og 50 áður upp að 3 millj., 70 og 70 nú af 4 millj., meðan þær hrökkva til.

Svo tók hann nokkuð mörg undanfarin ár og sagði: á þessu árabili hefur Reykjavík lagt fram svona marga milljónatugi til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, og á sama árabili hefur ríkissjóðurinn ekki lagt nema svona miklu minni upphæð, og þá vantar til, segir hann, — ég man ekki, hvort hann sagði, að 14 millj. kr. eða 24 millj. kr. vantaði til frá hvorum.

Það er blekkjandi að tala svona, því að það stendur ekki upp á ríkissjóð samkvæmt lögunum um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis að greiða Reykjavikurbæ einn einasta eyri, — ég fullyrði það, ekki einn einasta eyri. En það stendur upp á Reykjavíkurbæ að hafa útrýmt þeim íbúðum, sem hann er búinn að fá fé til þess að útrýma, og það er þó ekki lagastafur fyrir því, að Reykjavíkurbær eða nokkurt annað bæjarfélag eigi að fá einn eyri til þessarar starfsemi, fyrr en hann í fyrsta lagi hefur fullbyggt húsnæði, sem er ætlað fólki úr heilsuspillandi húsnæði. Það á að liggja fyrir vottorð samkvæmt þeirri löggjöf, sem ríkisstj. Ólafs Thors gekk frá, og þeirri reglugerð, sem þá var sett, og hefur hvorugu verið breytt síðan, — það á að liggja fyrir vottorð um, að húsnæði sé fullgert, sem á að fara til þess að taka við fólki úr heilsuspillandi húsnæði. Þetta vottorð á að berast til húsnæðismálastjórnar. Í annan stað á að koma fram vottorð frá lögreglustjóranum í Rvík um það, að Reykjavíkurbær sé búinn að útrýma svona og svona mörgum íbúðum af heilsuspillandi húsnæði. Þegar þessi vottorð eru komin, þá er heimilt að verja fé úr ríkissjóði, en fyrr ekki, til þess að leysa þessi mál. En framkvæmdin hefur verið sú, að húsnæðismálastjórn hefur borgað út fé, 70 þús. kr. á íbúð, upp á væntanlegar tilkynningar Reykjavíkurbæjar um útrýmingu, og það stendur upp á Reykjavíkurbæ um marga tugi íbúða enn þá. Svo er verið að reyna að lauma því inn hér, að það standi upp á ríkið. Það er þveröfugt, það skortir til, að Reykjavíkurbær sé búinn að útrýma þeim bröggum, sem hann átti að vera búinn að útrýma, áður en hann fengi eyri greiddan þeim til útrýmingar.

Svona menn eiga ekki að vera að tala um húsnæðismálin í þingsölunum, því að þeir hafa enga aðstöðu til þess. Þeirra skjöldur er ekki óflekkaður. Og það verður þó að síðustu að standa alveg hreint og skýrt, að núv. ríkisstj. hefur ákveðið, að 2/3 af stóreignaskattinum skuli renna til lánveitinga í húsnæðismálum. Miðað við, að þessi stóreignaskattur yrði 80 millj. kr., þá gátu þetta orðið rúmar 50 millj., en miðað við það, að hann verði aftur 135 millj. kr., eins og vonir standa nú til um, þá getur það orðið þannig, að það verði 90 millj. kr., sem fara til húsnæðismála fyrir bragðið.

Það er ekki hægt að koma því saman að kveinka sér undan því, að stóreignaskatturinn sé of hár, en að 2/3 hlutar af honum, sem eiga að fara til húsnæðismála, séu of lítil upphæð. Það er ekki heldur hægt að koma því saman. Ef áhuginn fyrir því að fá sem mest fé til húsnæðismálanna yfirgnæfir sársaukann yfir að verða að borga eitthvað í stóreigna skatt, þá á það að birtast í fögnuði yfir því, að húsnæðismálin fái 90 millj. kr. í staðinn fyrir 55, eins og gert var ráð fyrir. Þennan tekjustofn hafði húsnæðismálalöggjöfin alls ekki áður.

Þá var enn fremur ákveðið, eins og ég fyrr sagði, að 1% af tolltekjum ríkissjóðs skyldi fara til húsnæðismálanna samkvæmt þeirri löggjöf, sem sett var í fyrra. Þeim tekjustofni hafði löggjöfin, sem ríkisstj. Ólafs Thors gekk frá, ekki úr að spila heldur.

Og í þriðja lagi voru svo skyldusparnaðartekjurnar. Þær eru nýr tekjustofn, sem hefur verið aflað síðan.

Svo hefur ekki verið gengið út frá því, að neinu verði létt af bönkunum af því, sem bankarnir áttu áður að bera. Þetta þýðir, að það er að öllu leyti betur búið að fjárhagsmöguleikum til þess að leysa húsnæðismálin, heldur en áður var. En þá koma þeir, sem höfðu ekki aflað neinna af þessum tekjustofnum og látið ríkissjóð leggja fram minna fé, og segja nú í einum kór: Þetta er allt saman of litið, og nú fyrst er til skammar öll framkvæmd á þessum málum. — En í staðinn fyrir 3 milljónirnar, sem þeir lögðu fram til heilsuspillandi húsnæðis, eru þær nú 4, og það er allt saman verra þetta, en áður var. Nei, svona lógík er ekki frambærileg fyrir alþm., því að þetta er hundalógík Sjálfstæðisflokksins.