24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð í sambandi við ummæli, sem hér féllu, þegar þetta frv. var til umr. í hv. d.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) talaði um það, að frv. þeirra sjálfstæðismanna hefði ekki fengizt tekið fyrir af heilbr.- og félmn. Þessu er því til að svara, eins og ég gat um í framsöguræðu minni, að í félmn. hafa verið haldnir mjög fáir fundir, og ég minnist þess ekki, að fulltrúar Sjálfstfl. í þessari n. hafi nokkurn tíma óskað eftir fundi í n., ekki einu sinni til þess að taka þetta mál þeirra fyrir.

Ég vil líka benda á það, að þetta er ekki neitt nýtt afbrigði hér í þingsögunni. Ég vil benda á það, að þegar fyrrv. stjórn fór hér með völd, varð að beita mjög hörðu, ef maður gat fengið tekið mál fyrir, sem búið var að vísa til 2. umr. Það var alveg undantekning, ef frv., sem stjórnarandstæðingar fluttu þá, fengust tekin fyrir og afgreidd, svo að það er ekki verið að fara hér inn á neinar nýjar leiðir.

Hitt vil ég svo taka fram sem mitt álit, að ég álít, að það sé sjálfsögð skylda allra nefnda þingsins að afgreiða þau mál, sem til þeirra er vísað, og það ætti að vera viðtekin regla að afgreiða málin, og það mun ekki standa á mér sem meðlim í þeim nefndum, sem ég er í, að leggja til, að þau mál, sem vísað er til nefndanna, hljóti viðunandi afgreiðslu.

Ég vil nú aðeins beina því til hv. 5. þm. Reykv., að ég minnist þess ekki, þegar hann var í stjórnaraðstöðu, að hann stæði hér uppi í ræðustól og heimtaði, að mál, sem þá lágu óafgreidd hjá nefndum, væru tekin fyrir. Ég minnist þess ekki. Hitt skal fúslega viðurkennt, að þáverandi forseti Nd. tók oft fram, að hann óskaði eftir því, að mál væru afgreidd. En það vildi verða á því mjög mikill misbrestur, þannig að hér er ekki verið að innleiða neinar nýjar reglur. Ég held, að þetta hafi yfirleitt gilt á Alþingi undanfarin ár, að mál stjórnarandstöðunnar væru heldur látin víkja fyrir málum frá stjórnarsinnum og frá ríkisstj., svo að hér er ekki verið að innleiða, að ég held, neinar nýjar reglur. Hins vegar vil ég taka það enn fram, að það mun ekki standa á mér að afgreiða mál, hvorki frá Sjálfstfl. né öðrum. Ég er alveg tilbúinn til þess að leggja alveg eins með því, að þau verði felld, eins og hitt, að þau verði samþykkt.