27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér þykir hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) vera iðinn og þolinmóður við að lemja hausnum við steininn og alveg mesta furða, að það skuli ekki vera farið að sjá neitt á honum, því að hann er alltaf sífellt að reyna að telja sjálfum sér og öðrum trú um það, að meira fjármagn hafi farið til húsnæðismála fyrir opinbera tilstuðlan á þeim tíma, sem fyrrv. ríkisstj. fór með þessi mál, heldur en á þeim tíma, sem liðinn er, síðan núverandi ríkisstj. tók við yfirstjórn þessara mála. En þetta er þó alveg vonlaust verk, hvort sem maður lítur á heildarfjárveitingar til þessara mála eða það fjármagn, sem farið hefur í gegnum hið almenna veðlánakerfi í tíð fyrrv. stjórnar og svo aftur í gegnum húsnæðismálastofnun ríkisins, síðan núverandi stjórn tók við.

Ég vil enn einu sinni rifja upp, að til húsnæðismálanna hefur sú breyting orðið á um fjárveitingar, að fjárveitingar til verkamannabústaða hafa verið tvöfaldaðar, nákvæmlega tvöfaldaðar, breytt lögum á þann hátt, að framlög sveitarfélaganna hækkuðu um 100% og mótframlög ríkissjóðs þannig einnig á fjárlögum hækkuð um 100%, — að fjárframlög til útrýmingar heilsuspillandi húnæðis hafa á fjárl. verið hækkuð úr 3 millj. í tíð fyrrv. stjórnar og í 4 millj. nú. Um þetta er ekki heldur hægt að deila. Þar er aukning fjármagns um 25%. Og á síðasta þingi var gerð stórfelld breyting á lögunum um hið almenna veðlánakerfi og öllum tekjustofnum þeirrar löggjafar haldið, en nýir tekjustofnar, sem voru lögfestir, voru m.a. tekjur af skyldusparnaði ungmenna, væntanlegar tekjur af frjálsum sparnaði, 1% af tolltekjum ríkissjóðs og og af þá álögðum stóreignaskatti, sem nú hefur komið í ljós að er um 135 millj., og sá tekjustofn einn á því að nema á 10 ára tímabili um 90 millj. kr.

Þetta allt mundi sýna það nokkuð ljóslega, að það fær ekki staðizt og er ekki sannleikanum samkvæmt, þegar verið er að halda því fram, að eins mikið eða meira fjármagn hafi verið ætlað til þessara mála í tíð fyrrv. stjórnar og þeirrar núverandi. Það er, eins og ég áðan sagði, að lemja hausnum við steininn og ekkert annað að ætla að halda því fram og snúa þannig við staðreyndum, að hvítt verði svart og svart verði hvítt.

Ég tók eftir því á ræðu hv. 5. þm. Reykv. áðan, að hann ætlaði að sanna sitt mál með skýrslu frá veðdeild Landsbankans um það, hvað væri búið að afgr. af lánum út úr veðdeildinni, og tók þá fram, að það væri vitanlega ekki það sama og þegar upplýst væri, hvað væri búið að afgr. af lánum frá húsnæðismálastjórn. En það, sem gildi hefur og segir allan sannleikann í þessu máli, er auðvitað það, hvaða einstaklingum er búið að úthluta lánum og hvað miklar upphæðir samtals, því að það, sem ekki er búið að afgreiða frá veðdeildinni af þeim lánsloforðum, er í afgreiðslu og er verið að afgreiða þá af því fé, sem búið var að útvega til þessara mála. Það, sem segir brot af sannleikanum, er aftur það, þegar vitnað er í skýrslu í dag frá veðdeildinni, sem kann að vera þannig á vegi stödd, að hún sé ekki búin að afgreiða frá sér allar lánveitingarnar, og þeir menn, sem beita slíkum rökum til þess að blekkja, eru ekki vel á vegi staddir á grundvelli staðreyndanna. Það getur enginn maður dregið í efa, að undireins og veðdeildin getur afkastað því sinnar aðstöðu vegna, þá verða afgreidd þau lán öll saman, nákvæmlega eins og húsnæðismálastjórn hefur afgreitt þau, og þegar afgreiðslu er lokið á þeim lánum, sem veitt hafa verið, þá kemur út sama upphæð hjá veðdeildinni og hjá húsnæðismálastjórn ríkisins.

Húsnæðismálastofnunin hefur látið mér í té skýrslu yfir veitt A- og B-lán, frá því að sú starfsemi hófst samkvæmt hinu almenna veðlánakerfi á árinu 1955 og þangað til síðustu úthlutun þess fjár, sem síðast hafði verið útvegað, var lokið núna í marzmánuði, fyrr í þessum mánuði. Og ég hlýt að sýna það þolgæði Íslendingsins, eins og hv. 5. þm. Reykv., að margendurtaka þær tölur hér, til þess að það sé ekki farið hér með blekkingar sem síðasta orð í þessu máli.

Samkvæmt skýrslu húsnæðismálastjórnarinnar eru lánveitingarnar á árinu 1955 alls 34 millj. 559 þús. kr., þar af til Reykjavíkur 18 millj. 151 þús. Á árinu 1956 samtals 40 millj. 789 þús. kr., þar af í Reykjavík 20 millj. 419 þús. kr. Og svo á árinu 1957 samtals, að meðtalinni þeirri úthlutun í heild, sem hófst í síðari hluta nóvembermánaðar og endaði núna í byrjun þessa mánaðar, í marz, alls frá ársbyrjun 1957 og að ósundurgreindri þessari úthlutun, — ég tek skýrt fram, að það er að ósundurgreindri þeirri úthlutun, — 65 millj. 436 þús. kr. Þetta er sannleikurinn, hversu beiskur sem hann er hv. þm., en það er engin sundurgreining á þessu enn þá um áramót, því að úthlutunin var samfelld yfir þetta tímabil og það fé var allt saman útvegað á árinu 1957.

Ég get ekkert við því gert, að kosningar fóru fram á þessu tímabili, og það gat hv. þm. heldur ekki gert, það var bara samkvæmt lögum, og það var engin ástæða til þess að stöðva þessa starfsemi, þó að kosningar ættu að fara fram, enda var henni haldið áfram látlaust, eins og efni stóðu til, og úthlutunin ekkert rofin við þetta, heldur haldið áfram yfir þetta tímabil, þangað til peningarnir voru búnir, eins og alltaf endranær.

Þessar tölur sýna mér, og ég hygg, að þær sýni öllum hv. þm. það, að árið 1955 hefur til þessara mála að leggja samtals 341/2 millj., 1956 hefur alls til þessara mála að leggja 40.7 millj. og á árinu 1957 og fyrstu tveimur mánuðum þessa árs, janúar og febrúar, er það 65 millj. 436 þús. kr.

Þetta er sannleikur þessa máls, og þegar við tökum saman alla þættina, verkamannabústaðina, útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og lánveitingar frá húsnæðismálastofnun ríkisins, þá eru hækkandi upphæðir á öllum þremur þáttum þessarar starfsemi og þar af leiðandi í heildinni meira fjármagn veitt til þessara mála, en nokkru sinni fyrr.

Nú þykir mér leitt, að ég skuli ekki hafa hérna við höndina skýrslu nýkomna frá Framkvæmdabankanum, en hv. 5. þm. Reykv. hefur að henni aðgang eins og ég, en hún sýnir ótvírætt, að það hefur stórkostlega aukizt fjárfesting til íbúðarhúsa í Reykjavík á árinu 1957. Ég man ekki betur en það sé svo að nemi 30 millj. kr. frá árinu 1956.