27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég get hughreyst hæstv. félmrh. með því, að ég er ekkert farinn að lýjast enn þá á viðræðunum við hann um þessi mál, og ástæðurnar fyrir því eru þær, að ég þarf ekki annað að gera, en fara með sannleikann í málinu. En hitt skil ég, að honum sé farið að þykja þessar umr. vera nokkuð langar, því að þeim, sem eru sí og æ að bregða fyrir sig blekkingunum, verður nefnilega stundum á að nota ekki sömu blekkingarnar í eitt skiptið eins og annað, og þannig kemst upp um strákinn Tuma. En verra er þó hitt, þegar hæstv. félmrh. stendur nú hér í ræðustólnum á Alþingi og les upp úr skýrslu frá húsnæðismálastjórn um það, hversu miklar lánveitingar hafi farið fram á hverju ári, síðan þessar lánveitingar hófust, og þegar hann kemur að árinu 1957, þá stendur í honum, og þegar hann er inntur eftir því: Er ekki sundurliðun til fyrir árið 1957, — nei, hún er engin til enn þá, sundurliðun fyrir 1957, heldur bara 1957 og svo áfram, þar sem byrjað var á í nóvembermánuði og fram til dagsins í dag, og það eru 65 millj. kr. En í þessari skýrslu, sem hæstv. ráðh. hafði sjálfur og ég hef hér afrit af, stendur árið 1957 alveg sundurliðað með 43 millj. 174 þús. kr. Síðan stendur 1958, frá áramótum og til 14/3, í þessari sömu skýrslu, það eru 22 millj. 262 þús. Af hverju þurfti hæstv. félmrh. að leggja þetta saman? Hann ber saman fyrri ár og nú. Hann getur þess aldrei, að þegar hann er að gera samanburð árið 1955, þá eru það lánveitingar, sem fram fóru á tveimur mánuðum þess árs, frá 2. nóv. og til áramóta, það voru 34 millj. 384 þús. kr., og það er reyndar rétt, að ég leiðrétti það, sem ég sagði áðan, að það mundu ekki í annan tíma hafa farið fram á skemmri tíma meiri lánveitingar en nú, vegna þess að ég sé það, að á árinu 1955 hefur á tveimur mánuðum verið úthlutað 34 millj. 384 þús., en ég gat þess áðan, að á 21/2 mánuði þessa árs hefði verið úthlutað 34 millj. kr. Þetta er rétt að ég leiðrétti. En þessa skýrslu hefur hæstv. félmrh. á milli handanna og hér í ræðustólnum og les upp sundurliðun 1955, sundurliðun 1956, kemur að 1957 og stendur í honum, og hann segir: Sundurliðunin liggur ekki fyrir. En hún er í skýrslunni, og það eru 43 millj. 174 þús. kr., sem er úthlutað á þessu ári, 1957. Svo kemur árið 1958 með úthlutun til 14/3, 22 millj. 262 þús., en þá er líka, eins og ég sagði áðan, verið að úthluta því fé, sem í raun og veru fellur til á öllu árinu 1958. Það er orðið handbært fyrr núna, vegna þess að það er búið að veðsetja hinar væntanlegu tekjur með bráðabirgðaláni hjá Seðlabankanum.

Þegar málstaðurinn er ekki of góður, þá verður kannske freistingin of mikil. En það er hörmulegt, að hæstv. félmrh. skyldi þurfa að falla fyrir þeirri miklu freistingu að hafa sjálfur á milli handanna sundurliðaða skýrslu frá ári til árs, en skrökva því svo að þingmönnum, að sundurliðun liggi ekki fyrir um áramótin 1957 og 1958 og þess vegna verði bara að taka það, sem gert hefur verið 1958, með líka.

En lítum svo betur á þessar tölur, sem hæstv. ráðh. hefur verið að fara með, og það má bera saman lánveitingar frá húsnæðismálastjórn annars vegar og svo afgreidd lán úr veðdeildinni. Ég sagði: Það er oftast nær mjög lítill munur á þessu, getur verið ein eða tvær millj. kr. Það er úthlutað 1955 úr húsnæðismálastjórn 34 millj. 384 þús. kr. Ég sagði áðan, að það ár eða tvo mánuði þess árs hefðu verið afgreiddar 27.4 millj. M.ö.o.: þarna eru 5–6 millj. kr., sem veðdeildin er ekki búin að afgreiða á þessu ári og flytjast þess vegna yfir á árið 1956.

Svo kemur hins vegar árið 1956. Þá gefur ráðh. upp eftir skýrslu húsnæðismálastjórnar, að úthlutað hafi verið 40 millj. 789 þús. Eftir því sem veðdeildin gefur upp, hefur hún afgreitt lán þetta ár fyrir 63.5 millj. kr., en ráðh. segir, að það hafi bara verið úthlutað 40 millj. 789 þús. Þetta stafar af því, að hæstv. félmrh. gerir sér ekki grein fyrir því, að húsnæðismálastjórnin telur ekki í sinni lánveitingu þær 12 millj. kr., sem fara til byggingarsjóðs sveitanna, og þess vegna má bæta við þessar 40 millj. 24 millj. kr., sem hækka þetta upp í 64 millj. kr. eða næstum því nákvæmlega sömu upphæð og afgreidd lán eru þetta ár samkvæmt upplýsingum veðdeildarinnar, eða 63.5 millj. kr. Árið 1956 gefur húsnæðismálastjórn upp 40 millj., en það atvikaðist þannig, að 12 millj. frá árinu 1955 voru afgreiddar á fyrri hluta ársins 1956 og svo 12 millj. til byggingarsjóðsins fyrir árið 1956 síðari hluta þess árs. Þess vegna er afgreiðsla lána þarna 63.5 millj. kr., þegar húsnæðismálastjórn eftir upplýsingum ráðh. úthlutar aðeins 40 millj. kr., af því að í þessari tölu eru ekki þessar 12 millj. kr., sem árlega — á þessu ári tvisvar sinnum 12 millj. kr. hafa farið til byggingarsjóðsins.

Svo kem ég að árinu 1957. Þar segir húsnæðismálastjórn, að hún hafi úthlutað 43.1 millj. kr. En ég gerði grein fyrir því, að afgreidd hefðu verið lán að upphæð 45.6 millj. kr. eða nær 45.7. Þarna er afgreiðsla lána heldur meiri, en úthlutunin á árinu, og það er af því, að þarna er afgreitt á árinu það, sem úthlutað hefur verið á árinu áður, m.ö.o. það, sem ég sagði í upphafi, að það skiptir ákaflega litlu máli, hvort annars vegar er talað um úthlutun húsnæðismálastjórnar eða afgreiðslu lánanna, aðalatriðið, að maður bara haldi sig við annað hvort. Mér er alveg sama, við hvorar tölurnar við höldum okkur. Ég get haldið mig við, ef ráðh. vill heldur, lánveitingarnar, með þeim leiðréttingum, sem ég hef gert á þessari skýrslu og gerði grein fyrir áðan, eða hreint og beint skýrslu veðdeildarinnar um afgreiðslu lánanna, því að það er ekkert það, sem skiptir neinu höfuðmáli, En aðalatriðið er, að af A- og B-lánum hefur verið veitt minna lánsfé í tíð núv, hæstv. ríkisstj. en í tíð fyrrv. ríkisstj. og svo miklu minna, að ef þessu er deilt til jafnaðar niður á mánuði, þá verður úthlutunin í tíð fyrrv. stjórnar til íbúðalána í gegnum veðlánakerfið eða Á- og B-lána 8.7 millj. kr. á mánuði, en 3.7 millj. kr. í tíð núv. hæstv. ríkisstj. til s.l. áramóta.

Hæstv. félmrh. var svo að tala um, að það hefðu verið aukin framlög til verkamannabústaða. Um það vorum við ekkert að deila. Við vorum ekkert að deila um það, hvort aukin hefðu verið framlög til verkamannabústaða. En hann leiddi sjálfur umr, við 2. umr. þessa máls inn á það, að rétt væri að halda sér hreinlega við úthlutunina á A- og B-lánunum, en ekki á lánunum almennt. Mér þykir líka mjög líklegt, að almennt hafi fjárfestingin aukizt, eins og hann sagði að skýrslur Framkvæmdabankans bæru með sér, á árinu 1957, frá 1956, og það er eðlilegt. Þegar búið er að stofna til svo mikilla bygginga, þá heldur þetta áfram og verður ekki stöðvað. Byggingarnar ganga að vísu hæga,r en margur mundi óska, en samt sem áður, þegar svo miklar framkvæmdir eru komnar í gang, þá hljóta þær að halda áfram og auka á sig, meðan jafnmiklu er ólokið og raun ber vitni um enn, eða fjárfestingin hlýtur þá að auka á sig.

Hæstv. ráðh, sagði: Það var líka meiru varið til heilsuspillandi húsnæðis í tíð núv. hæstv. ríkisstj. heldur en í tíð fyrrv. stjórnar. Hún ákvað 3 millj. kr. til þessa, núv. ríkisstj. 4 millj. — Ég er búinn að vekja athygli hæstv. ráðh. á því áður, þótt hann berji höfðinu við steininn, að í húsnæðismálalöggjöfinni frá 1955 voru framlög ríkissjóðs til heilsuspillandi húsnæðis 3 millj. kr., en þó með þeirri grundvallarreglu, sem þar var fram sett, að það skyldi vera jafnt framlag ríkis og bæjarfélaga, en þá var ekki í upphafi sýnt, hversu mikið átak bæjarfélaganna skyldi vera í þessu. Það kom strax í ljós, að alveg sér í lagi Reykjavík var með svo mikið átak í þessu máli, að það varð að stórauka þetta til þess að geta uppfyllt meginregluna, að ríkissjóðsframlagið væri til jafns við framlag bæjar- og sveitarfélaganna, og strax og þetta lá fyrir, jók hæstv. fyrrv. ríkisstj. framlögin til heilsuspillandi húsnæðis af tekjuafgangi ársins 1955, fyrsta ársins, sem húsnæðismálalöggjöfin var í framkvæmd. Það er þess vegna ekki rétt, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi aðeins staðið að 3 millj. kr., heldur strax á árinu 1956 veitti hún 13 millj. kr. af tekjuafganginum 1955 til íbúðalána, annars vegar A- og B-lána og hins vegar til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, eftir samkomulagi, sem ákveðið mun hafa verið milli ríkisstj. og þáverandi húsnæðismálastjórnar.

Það fær þess vegna ekki staðizt, að hér hafi eitthvað hækkað um 20% frá aðgerðum síðustu ríkisstj. og þar til þessi núv. hæstv. ríkisstj. tók við.

Svo segir hæstv. ráðh., að öllum tekjustofnum hafi verið haldið í húsnæðismálalöggjöfinni nú frá því, sem síðast var, og nokkru bætt við. Rétt er það. En tekjustofnarnir, sem mestu máli skipta, voru aldrei í húsnæðismálalöggjöfinni og eru ekki enn í henni. Það voru engin ákvæði í löggjöfinni um það, hvað bankarnir eða sparisjóðirnir mundu leggja til húsnæðismálalöggjafarinnar í A- og B-lánum. Það grundvallaðist á samkomulagi, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. gerði við þessa aðila, og hefur aftur grundvallazt á samkomulagi, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert við þessa aðila, en þetta var ekki í löggjöfinni. En auðvitað er á það að líta, að þessir tekjustofnar reyndust ekki eins miklir á s.l. ári og áður var, því að það mun ekki hafa tekizt að útvega frá bönkum og sparisjóðum á s.l. ári nema hluta af því, sem upphaflega var til stofnað, eða af þeim 44 millj. kr., sem ráðgerðar voru, því að í júnímánuði fór seðlabankinn fram á það, að bankarnir og sparisjóðirnir legðu fram 22 millj. kr. Ég hef gert grein fyrir því áður, að sá banki, sem ég er í, féllst strax á þetta og lofaði sínu framlagi þá. En mér er kunnugt um, að seðlabankinn átti í nokkru stríði með að fá framlög frá öðrum bönkum og sparisjóðum og fékk alls ekki frá sumum til uppfyllingar á þessum 22 millj. kr. Hitt er svo annað mál, að síðan var ekkert gert í þessu, að biðja um 22 millj. til viðbótar til þess að uppfylla loforðið 44 millj., fyrr en undir áramót. Það var ekki talað við bankana fyrr en í desember, og áreiðanlega hefur enginn tími unnizt til þess að tala þá við sparisjóðina, og það var ekki fyrr en á gamlársdag, sem þrír bankarnir hér, Landsbankinn, Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn, gáfu seðlabankanum fyrirheit um það, að þeir vildu fyrir sitt leyti standa við að leggja fram hluta af þessum 22 millj. kr., hluta af þeim, ekki nema brot af þeim þá þegar og í heild ekki meira en 60%, svo að þessi mikilvægi tekjustofn hefur þess vegna í reyndinni orðið minni 1957 en áður var og flyzt fram á árið 1958, að svo miklu leyti sem loforð liggja fyrir um þetta. Og það er m.a. skýring á því, að lánveitingarnar eru minni á árinu 1957, en ella hefði verið, og það er mjög áberandi, að það eru afgreidd lán og einnig lofuð lán eða veitt lán frá húsnæðismálastjórn á árinu 1956, afgreidd lán 63.5 millj. kr. og lofuð lán um 64 millj. kr., það er sama, hvort heldur maður tekur, en á árinu 1957 afgr. veðdeildin ekki nema 45.6 millj. eða 45.7 millj. kr. af A- og B-lánum.

Það þýðir þess vegna í fyrsta lagi lítið að vera að tala um, að eitt eða annað hafi verið gert. Það, sem auðvitað sker úr, er það, hve mikið er afgreitt af lánum, hvað fær fólkið mikið lánsfé. Ef maður er að bera eitthvað saman algerlega í upphafi, þá getur maður tekið þær tölur, hvað veitt er af lánum, og það tekur kannske nokkrar vikur að afgreiða lánin. En þegar til lengdar lætur, þá verður auðvitað heilladrýgst og sanni næst að taka bara það, hve mikið er afgr. af íbúðalánum af þessu tagi, sem verið er að tala um. Annars, eins og ég hef bent á, þá skiptir það ekki í þessu sambandi miklu máli. En hæstv. félmrh. er bæði nú og við 2. umr. margsinnis búinn að stagast á því og reyna að gefa í skyn, að það hafi á árinu 1957 verið úthlutað 65 millj. kr. til íbúðalána, A- og B-lána, og þar af leiðandi miklu meira, en nokkru sinni áður, en hefur svo í höndunum, er staðinn að því að hafa í höndunum skýrslu, sem segir, að úthlutað var þetta ár 43 millj. kr. og úthlutað hefur verið á árinu 1958 22 millj. kr., ári veðsetninganna á tekjum byggingarsjóðsins. En freistingin var svo mikil, að hann stóðst hana ekki og lagði þetta saman, bæði við 2. umr. og nú hér við 3. umr., og sagði, þegar ég kallaði fram í fyrir honum, að sundurgreining á þessu lægi ekki enn þá fyrir.