27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það var vegna þess, að hæstv. félmrh. minntist hér á, að ekki væri talið með í úthlutunum lána 1957 það, sem Sparisjóður Reykjavíkur hefði fallizt á að lána af A- og B-lánum. Þar sem ég er í stjórn þessa sparisjóðs, vil ég staðfesta það, sem kom raunar fram hjá samþingismanni mínum, hv. 5. þm. Reykv., að þetta fé verður tekið af því fé, sem til ráðstöfunar er 1958. Sparisjóðurinn hafði ekki, eftir að til hans var leitað og saman gekk, fé til þess að lána í þessu skyni á árinu 1957 eða af því fé, sem þá var til ráðstöfunar. Sjóðurinn hefur meira að segja ekki enn safnað sér svo miklu fé, að hann treysti sér til að láta þetta fé af höndum, eins og hingað til hefur staðið. Við skulum vona, að það verði, og ekki mun standa á stjórn hans að framkvæma það samkomulag, sem raunar hefur þó ekki formlega eða til fulls náðst enn þá, en sparisjóðurinn hefur vilja til að gera af sinni hálfu, ef fallizt verður á þau skilyrði, sem hann hefur sett. Og ég vil leggja áherzlu á það, að af hálfu seðlabankans liggur ekki enn þá fyrir samþykki á þeim skilyrðum, sem sparisjóðurinn hafði ráðgert. En hvað sem því líður, ef úr þessu verður, og ég vona, að úr því geti orðið, þá hlýtur alveg að sama skapi að draga úr öðrum lánveitingum sjóðsins. Hann hefur þá þeim mun minna fé til að lána í húsbyggingar hér í bænum á árinu 1958. Það er þess vegna gersamlega út í bláinn að telja þær lánveitingar með fyrir árið 1957. En vegna þess að það samkomulag, sem um hefur verið talað, er alveg innan þess ramma, sem sparisjóðurinn hefur sett sér fyrir sínum lánveitingum, þá vonumst við til, að úr samkomulaginu geti orðið. En það eykur ekki um einn eyri það fé, sem raunverulega verður lánað til húsbygginga, allra sízt að það auki héðan af við það, sem lánað verður 1957. Slíkt er of fjarstætt til þess, að eyða þurfi orðum að því.

Hæstv. félmrh. ruglaði því að öðru leyti saman, að það væri sama úthlutunarhrota, sem hjá húsnæðismálastjórn hefði staðið frá því í nóvember og þangað til í marz, og því væri erfitt eða ómögulegt að greina þarna á milli. Það væri skiljanlegt, að hæstv. félmrh. vildi telja þessi lán, sem veitt hafa verið eftir áramótin, til 1957, ef þau væru veitt af fé, sem aflað var á árinu 1957. En það er einmitt það, sem ekki var gert. Það má vera, að hæstv. félmrh. hafi samið við bankana um þetta fé á árinu 1957. En þegar hann samdi um þá fjáröflun, þá varð að veðsetja tekjur húsnæðismálastjórnar á árinu 1958. Það eru því raunverulegar tekjur á árinu 1958, sem er verið að úthluta á árinu 1958, og þess vegna gersamlega út í bláinn og fullkominn misskilningur af hæstv. ráðh., ef hann leyfir sér að telja það til ársins 1957. Þetta er auðsætt, og ég skil ekki, að hæstv. félmrh. skuli ekki sjá þetta sjálfur. En hans málstaður er með þeim hætti, að hann vill loka augunum fyrir því, sem raunverulega hefur gerzt. Má segja, að ekki taki því að vera að ítreka það frekar, svo glögglega sem hv. 5. þm. Reykv. hefur sýnt fram á það, en ég varð þó að þessu að víkja, úr því að hæstv. félmrh. fór hér að blanda inn í úthlutanir 1957 lánum frá Sparisjóði Reykjavíkur af hans fé 1958.

Eins er það alveg út í bláinn, þegar hæstv. félmrh. segir, að vegna þess að það hefur verið aflað nýrra tekjustofna með þeirri húsnæðismálalöggjöf, sem hann beitti sér fyrir, þá hljóti nú að vera meira fé fyrir hendi, en var eftir gömlu húsnæðismálalöggjöfinni. Hér hefur reynslan skorið úr og sýnt, að því miður er það ekki, því fer svo fjarri, að það sé meira fé fyrir hendi, að það er minna fé fyrir hendi. Og skýringin er einfaldlega sú, að sparifjársöfnunin í landinu hefur minnkað. Sú frjálsa lánaútvegun, sem átti að fara fram í gegnum húsnæðismálastjórnina eða þá stofnun, hefur þess vegna dregizt saman meira, en sem nemur þeim föstu tekjustofnum, sem hæstv. félmrh, er að hæla sér af. Og hann var meira að segja í fyrra svo hræddur við samdrátt sparifjársöfnunarinnar, að hann til þess að vega þar upp á móti fékk lögfesta skyldufjársöfnunina. Það getur vel verið, að þetta og annað, þegar tímar líði, vegi upp á móti þeim ófagnaði, sem hæstv. félmrh. og hans félagar hafa gert í fjármálum landsins, en enn er reynslan sú og hennar ótvíræði úrskurður, að fjármagnið hefur dregizt saman, af því að fólkið er ekki jafnfúst að leggja fé til hliðar, síðan núv. hæstv. ríkisstj. kom til valda, eins og var á árunum 1954, 1955 og fram á mitt ár 1956. Þar af kemur, að þó að reynt hafi verið að vega upp á móti þessu með ýmiss konar þvingunarráðstöfunum, þá hefur hér sannazt sem oft ella, að frelsið er þvinguninni miklu sterkara, að það var miklu eðlilegra og heillaríkara að láta fólkið hafa traust á fjármálakerfinu, heldur en ætla að reyna að fara að pína það til þess að leggja fram fé til þeirra manna, sem það treystir ekki og hefur fullkomlega réttmæta ástæðu að hafa vantrú til. Þetta er skýringin, þetta er erfiðleikinn, sem hæstv. félmrh. hefur við að etja.

Svo get ég víst ekki gert annað, en benda á það neyðarkall hæstv. félmrh., þegar hann sagði hér: Ekki gat ég gert að því, að það áttu að fara fram bæjarstjórnarkosningar í jan. s.l. Það er auðheyrt, að hann hefur fengið að heyra ásakanir út af því, hvernig þær fóru, en hefur það eitt sér til afsökunar, að þær hafi verið lögbundnar, svo að hann hafi ekki getað undan þeim skotið sér.