27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1072)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ekki veit ég nú, hversu mikill styrkur hv. 5. þm. Reykv. hefur orðið að þessari komu skjaldsveins síns í ræðustólinn, en svo mikið er víst, að lítið kom hann til þess að styrkja aðstöðu hans að því er snertir umr. um húsnæðismálin.

Annars er það leiðinlegt með þennan hv. þingflokksforingja, að ég held, að það sé enginn hv. þm., sem leyfir sér í rökræðum eins og hann að búa til ummæli eftir andstæðinga, slá því svo föstu, að það sé forsendan, og draga ályktun af því. Ég er alveg sannfærður um það, að hann getur hvergi fundið því stað, að ég fyrir skömmu, eftir að ég varð ráðherra, hafi sagt, að sparifjáraukningin í landinu kæmi ekkert við þeim möguleikum, sem væru til þess að veita lánsfé til húsnæðismála og annarra mála. Þetta er hans hreini tilbúningur, og þetta er ein af þeim pólitísku hundakúnstum, sem hann iðkar. En hún sæmir honum ekki. Svo talar hann um hér, að ég hafi sýnt sérstaka andúð og róg, farið með róg gagnvart Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis. Hvar skyldi hann geta fundið því stað? Ég skipti sjálfur, það lítið ég hef að skipta við banka, við þennan sparisjóð, og ég á að vera rógberi þessa sparisjóðs. Nei, þetta fer illa, að fara með svona álygar á samþingsmenn sína, og sæmir ekki þingflokksforingja í sölum Alþingis. Ég hef engan róg farið með gagnvart Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, ég mótmæli því sem staðlausum stöfum.

Þá er gaman að því, að því var haldið fram af þessum hv. þm. og samflokksmönnum hans, að á árinu 1956, upp úr miðju ári, mætti sjá, að aukning sparifjár í landinu færi dvínandi. Af hverju? Jú, það gat ekki verið nema ein ástæða til þess, að fólkið í landinu hefði minni tiltrú, bæri minna traust til þeirrar nýju ríkisstj. en þeirrar fráfarandi ríkisstj. Ólafs Thors. Það mátti alveg lesa þetta eins og af mæli. Þegar spariféð þá hafði á miðju ári eitthvað farið heldur dvínandi, þá var það af því, að hina nýju ríkisstj. skorti traust. Ef það hefði farið vaxandi upp úr því, þá hefði það verið mælirinn til þess að sýna vaxandi traust ríkisstj. Nú fór það svo á seinni mánuðum ársins 1956 eins og raunar oftast á síðari hluta árs, að aukning sparifjárins fór vaxandi. Þá bara stóð í hv. þm., sem höfðu verið með fyrri röksemdirnar, að koma hér og lýsa því yfir: Nú sjáum við, að ríkisstj. er að vaxa traust. — Það hefðu þeir átt að gera, ef þeir hefðu viljað vera sjálfum sér samkvæmir, en það eru þeir sjaldnast. Og núna kemur þessi hv. þm., 1. þm. Reykv., í beinu framhaldi af því, að hann hafði verið að tala um rýrnun sparifjár áður og lítið traust ríkisstj., og segir: Það hefur aldrei verið þvílíkur vöxtur á sparifé hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis sem nú, aldrei í sögunni. — Þetta virðist mér vera hrein játning frá hv. þm. um það, að engin ríkisstj. hafi notið annars eins trausts í fjármálum einmitt eins og núverandi ríkisstj. Þetta er út frá þeim forsendum, sem voru gefnar fyrir um ári af hv. sjálfstæðismönnum. Vaxandi sparifé í bönkum og sparisjóðum á kannske núna að sýna dvínandi traust á ríkisstj. Ég gæti bezt trúað því, að það yrði röksemdin hér á eftir. Ekki gæti það verið af því, að þessi ofvöxtur nálega hafi hlaupið í tiltrú á Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis eingöngu af því, að það hafi komið menn, sem fólk ber meira traust til, það eru víst þeir sömu sem stjórna þarna. Nei, sannleikurinn er sá, að þeim hefur ekki orðið að þeirri spá sinni, að fólk hyrfi á burt úr bönkunum með sparifé sitt, af því að núverandi ríkisstj. fer með völd í landinu. Þvert á móti verða þeir að horfast í augu við þá staðreynd, að sparifjáraukningin hefur sjaldan eða aldrei verið meiri.

Hv. þm. vék að því, að við hefðum gripið til þess ráðs í fyrra að telja saman spariinnlög og hlaupareikninga. Þetta var gert nákvæmlega eftir opinberum skýrslum frá ári til árs á sama hátt í báðum tilfellunum, og aukningin var lesin af þessum opinberu skýrslum frá ári til árs, og auðvitað hljótum við að gera það á sama hátt. Aukning sparifjárins er talin sparifjárinnlög og innstæður á hlaupareikningi, og það er heildarniðurstaðan, sem gefin er upp um aukningu sparifjár í opinberum skýrslum, m.a. hjá Landsbankanum.

En svo að vikið sé aftur að Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, þá held ég, að það hljóti að vera rétt, að á árinu 1956, þegar Landsbankinn tók að sér að ná samningum við banka og sparisjóði og tryggingafélög og tryggingastofnanir um, að þessar stofnanir legðu ákveðinn hundraðshluta af aukningu sparifjár hjá sér til húsnæðismála, þá hafi slíkt samkomulag verið gert við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Ég hygg, að það hljóti að vera. Á sama hátt var eðlilegt, að seðlabankinn, þegar hann nú að sams konar tilmælum ríkisstj. útvegaði fé á sama hátt hjá bönkum og sparisjóðum, færi einnig til Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til þess að fara fram á það við hann, að hann legði sama hundraðshluta og aðrar lánastofnanir í þessu skyni af aukningu sparifjár hjá sér. Þetta hefur seðlabankastjórinn auðvitað gert. Og það verður að teljast eðlilegt, að þessi sparisjóður leggi sama hundraðshluta og aðrar lánastofnanir sambærilegar til þessara nauðsynjamála. Þegar svo hefur verið fallizt á það við hann, að hann þurfi ekki endilega að afhenda þetta fé annarri stofnun, heldur nægi, að lán, samsvarandi að upphæð þeim hundraðshluta, sem öðrum bönkum og sparisjóðum verður gert að láta til húsnæðismálanna, verði veitt í samræmi við reglur húsnæðismálastjórnar, en stofnunin eigi að gera það sjálf, þá er búið að koma eins langt til móts við þessa stofnun og nokkur sanngirni mælir með og eins og hægt er. Og það var gert. En svo skýrir hv. 1. þm. Reykv. frá því, að enn þá sé ekki gengið saman með þessari stofnun og seðlabankastjóranum. Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hafi sett ýmiss konar skilyrði, sem ekki sé búið að fullnægja, og þannig standi þetta allt saman fast enn þá og á árinu 1957 komi ekkert til lána með þessum hætti. Ég verð að segja það, að mér virðist þarna hafa verið af meiri stirfni mætt þessum málaleitunum nú, en á árinu 1956, því að þá mun þetta hafa gengið í gegn hjá öllum bönkum og sparisjóðum og sennilega engin undanþága verið veitt með Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis.

Ég vil samt vona, að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis vilji beygja sig undir svo sanngjörn tilmæli sem það að haga lánveitingum í samræmi við reglur húsnæðismálastjórnar, þ.e.a.s. lánin séu veitt til fólks, sem sé í mestum húsnæðisnauðum og með stórar fjölskyldur, og fólks, sem að öðru leyti býr við mjög mikla erfiðleika í húsnæðismálum, að það sé látið sitja fyrir um lán, a.m.k. að þeirri upphæð, sem nemur þeim hundraðshluta, sem aðrir bankar og sparisjóðir leggja til húsnæðismálanna, en lánin fari fram á vegum þessarar stofnunar. Þetta finnst mér ekki vera til of mikils mælzt, og ég harma það, að slíkt þóf skuli hafa orðið um þessi mál, sem nú er upplýst að hafi orðið, og get ekki fallizt á, að þarna hafi verið farið fram á neitt ósanngjarnt við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, heldur hreint og beint teygt sig eins langt til samkomulags við þessa stofnun og gerð undantekning með hana ásamt einum sparisjóði öðrum, sem upplýst var að, að miklu leyti hefði byggt um langan tíma starfsemi sína á föstum lánveitingum til húsnæðismála. En þetta sýnir, að það er að öllu leyti réttlætanlegt og réttmætt að reikna með frá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þeirri upphæð, sem átti að koma í hans hlut, ef hann hefði orðið við tilmælum seðlabankans á sama hátt og aðrar lánastofnanir, og þá átti að koma í hans hlut 21/2 millj. kr., að mig minnir, ef hann hefði tekið á sig sams konar byrðar og aðrir, og þó þannig, að það var búið að heimila, að þessar lánveitingar mættu fara fram á vegum þessarar stofnunar, aðeins að húsnæðismálastjórn gæfist kostur á að ganga úr skugga um, að lán, sem næmu þessari upphæð, þessum hundraðshluta af aukningu sparifjárins hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, væru veitt í samræmi við reglur húsnæðismálastjórnar.