27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er ástæðulaust að vera að karpa við hæstv. félmrh. Hann fór hér með rangt mál í sinni skýrslu, og ég taldi mér skylt að leiðrétta það. Hann hefur orðið að játa, að hann sagði meira, en hann vissi, þegar hann taldi þessi lán frá Sparisjóði Reykjavíkur með í þeim lánum, sem veitt hefðu verið og ætti að telja til 1957. (Félmrh.: Ég sagði það ekki.) Já, að bæta þeim við. Við höfum heyrt, hvað hæstv. ráðh. hefur sagt, og þarf ekki að deila frekar um það. Hitt er svo allt annað mál, hverjum það sé að kenna, að þessi lán hafi ekki verið veitt. Ég tel, að Sparisjóður Reykjavíkur hafi gert það eitt, sem honum bar skylda til að gera, og að allar hans gerðir hafi verið sjálfsagðar og óhjákvæmilegar.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að Sparisjóður Reykjavíkur hefur algera sérstöðu gagnvart öðrum lánastofnunum hér í bænum, ég skal ekki tala um aðrar, vegna þess að hann er sú eina þeirra, sem að staðaldri allt frá upphafi hefur varið meginhluta fjár síns í fasteignaveðslán og það að langsamlega mestu leyti til nýbygginga. Þess vegna er það að mestu leyti fyrirkomulagsatriði, eins og ég hef tekið áður fram, hvort einhver hundraðshluti þess á að lánast í einhverju sérstöku veðlánakerfi eða ekki. Meginatriðið, sem Sparisjóður Reykjavikur gat ekki gengið að, var að láta þetta fé í hendurnar á öðrum, en sparisjóðsstjórninni sjálfri. Menn velja sér þennan viðskiptasjóð vegna þess, að þeir treysta honum betur en öðrum, og þess vegna hefði verið mjög illa með viðskiptamenn hans farið, ef það hefði þegjandi og hljóðalaust átt að fá lánin í hendurnar á mönnum slíkum sem þeim, er hæstv. félmrh. hefur sett til þess að ráðstafa þeim efnum. Ég gleðst yfir því, að hann viðurkennir sjálfur, að það sé sanngjarnt að láta Sparisjóð Reykjavíkur njóta þarna sérstöðu, og ég vonast sem sagt til þess, að þetta samkomulag komist á, og það er komið á, ef segja má, í meginatriðum, en þó ekki til hlítar enn þá. Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur.

Um það, að ég búi til ummæli minna andstæðinga, þá skal ég ekki fullyrða mikið um það, það mun sjást við athugun, ef það hefur þá ekki verið strikað út, að það, sem ég sagði um ummæli hæstv. félmrh., var rétt. En það er annað, sem hæstv. félmrh. ærið oft gerir sig sekan um: Það er ljóst, að hann veit ekki sjálfur, hvað hann hefur verið að segja, rétt þegar hann er búinn að sleppa orðinu. Hann vildi sem sagt alls ekki viðurkenna, að hann hefði hér farið með rógmæli á hendur Sparisjóði Reykjavikur. Þingheimur heyrði, hvað hæstv. ráðh. sagði, og menn skildu ósköp vel, hvert hann var að fara. Hitt kann ég honum svo þakkir fyrir og met, að hann segist sjálfur sýna sparisjóðnum þann mesta trúnað, sem hann getur, með því að fela honum sína eigin fjármuni til varðveizlu, og það er staðfesting á því, að hæstv. félmrh. vill sjálfur búa við tryggari kjör, en hann ætlar öðrum.