27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1374 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. hefur hér enn komið með þá furðulegu kenningu, að þegar gera eigi sér grein fyrir sparifjáraukningunni í landinu, þá beri að leggja saman svokölluð veltiinnlán í bönkum og sparisjóðum og spariinnlán. Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til þess að elta ólar við þá firru, sem hér er um að ræða, enda hefur hv. 5. þm. Reykv. þegar gert því máli nokkur skil.

Það er auðvitað hægt að leggja saman alls kostar óskyldar tölur, eins og spariinnlán og veltiinnlán, kalla það sparifé og fá út úr því, að um raunverulega aukningu hafi verið að ræða á einhverju tilteknu tímabili.

Það var annað, sem ég taldi ástæðu til að hrekja hér, nefnilega þegar hæstv. félmrh. bar það fyrir sig, að þessari reglu væri fylgt í opinberum skýrslum, eins og hann orðaði það, þannig að þær stofnanir, sem gefa skýrslur um sparifjármyndun í landinu, geri ekki greinarmun á spariinnlánum og veltiinnlánum.

Ég veit ekki, hvers konar heimild það er, sem hæstv. félmrh. byggir hér á. En það vill svo til, að ég hef hér í höndunum Fjármálatíðindi Landsbankans, júlí-septemberhefti 1957, þar sem birtar eru skýrslur um sparifjáraukningu og aðrar þýðingarmestu tölur í reikningum bankanna.

Í Fjármálatíðindum hafa að vísu verið birtar tölur um heildarinnlán bankanna, þar sem lögð eru saman veltiinnlán og spariinnlán. En með þessu er engan veginn sagt, að innlán séu sama og sparifjármyndun. Hið gagnstæða er skýrt tekið fram í athugasemdum bankans, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa hér upp eina eða tvær setningar, sem úr þessu ættu að skera. Í aths. bankans um þróun peningamarkaðarins árið 1956 segir þannig orðrétt:

„lnnlánaaukningin hefur einnig orðið mun meiri, en á síðasta ári. Liggur það eingöngu í því, að veltiinnlán hafa nú aukizt um 14 millj. kr. frá áramótum, en á sama tímabili í fyrra lækkuðu þau um 26 millj. kr. Spariinnlán hafa hins vegar aukizt um minna, eða um 72 millj. kr. á móti 97 millj. kr.“

Hér kemur það ótvírætt fram hjá bankanum, að sparifjármyndun á þessu ári, 1956, hefur orðið minni sem þeim tölum nemur, sem hér hafa verið nefndar.

Það er líka augljóst mál, að aukning veltiinnlánanna stafar af allt öðrum ástæðum, en þeim, að um aukinn sparnað sé að ræða. Það er alveg rétt, að síðustu tvö árin hefur þessi aukning orðið óvenjumikil. En ætli meginástæðan til þess sé ekki sú, að gengið hefur á vörubirgðir í landinu, þannig að fyrirtæki, sem losað hafa þessar vörubirgðir, hafa lagt þetta fé inn í bankana til bráðabirgða til þess að hafa féð handbært, ef úr rættist með veitingu leyfa og annað slíkt?

Veltiinnlánin eru í rauninni aðeins handbært fé, þannig að ef telja ætti þau til sparifjár, þá mætti alveg eins segja, að aukning seðlaveltunnar þýddi það, að meira sparifé hefði myndazt.

Í beinu sambandi við þetta vildi ég aðeins árétta annað, sem fram kom hjá hæstv. félmrh. Ef ég tók rétt eftir, þá hélt hann því fram, að á seinni hluta ársins 1956 hefði verið um aukningu spariinnlána að ræða, sem ætti að sýna aukið traust manna á núv. hæstv. ríkisstj. Það vill svo til, að ég hef í höndunum skýrslu hagstofunnar um þróun spariinnlánanna á árinu 1956. Í henni stendur, að í júlílok 1956, — hér eru að vísu aðeins teknir með bankarnir, ekki sparisjóðirnir, — þá námu spariinnlánin 1 milljarð og 6 millj. kr. Í desemberlok þetta sama ár námu innlánin 982 millj. kr., þannig að seinni hluta ársins 1956 er þarna um að ræða beina lækkun, sem nemur 24 millj. kr. Nú er það að vísu rétt, að reynslan hefur venjulega sýnt, að spariinnlög hafa verið minni síðari part árs, heldur en fyrri part árs. Sú regla hefur lengst af verið í gildi undanfarin ár. En þó er það með öllu óeðlilegt og mun varla hafa komið fyrir í önnur skipti, að um beina minnkun hafi verið að ræða, og má þar taka til samanburðar árið 1955. Þá námu spariinnlögin í júlílok 902 millj. kr., en í desemberlok 908 millj. kr., þannig að seinni part þess árs varð þó aukning um 6 millj. kr., og var verðlagsþróunin seinni part ársins 1955 sparifjármynduninni, eins og kunnugt er, óhagstæð, því að þá komu fram hinar miklu verðhækkanir, sem leiddi af verkfallinu mikla það vor. Seinni part ársins 1956 var vísitalan hins vegar óbreytt, eins og kunnugt er, svo að þá liggur nærri að skýra þennan óeðlilega samdrátt í sparifjármynduninni á þann hátt, að almenningur hafi borið takmarkað traust til núverandi hæstv. ríkisstj., og er það ekki að ófyrirsynju.