27.03.1958
Neðri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

136. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Nú standa málin þá þannig, að hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) hefur talað sig dauðan - og gekk þó aftur svolítið rétt áðan — og skáskífum er búið að skjóta undir hann við báðar hliðar, skorða hann eins og bát í naust. En af því að hér er ekki um bát að ræða, þá er hægt með vissri hugvitssemi að skjóta skáskífum að honum að framan og aftan líka. Ég held, að það væri nú ráðlegt, svo að hann haggist ekki.

En þá er einnig komið svo, að nú er hætt að ræða um húsnæðismálin, og seinni skjaldsveinninn kom hér með heilmikið af skýrslum og var þar að sanna, að það væri ekki nákvæmlega það sama sparifjárinnlög og hlaupareikningsinnstæður, varð þó að viðurkenna að, að vísu er þetta lagt saman í Fjármálatíðindum Landsbankans. Getur nú verið, að Landsbankinn sé svo ónákvæmur í opinberum skýrslum, að hann Leggi alls óskylda hluti saman? Þá eru þær skýrslur meira til þess að rugla, en skýra mál áreiðanlega. Og svo kom í ljós við þennan skýrslulestur, að hlaupareikningsinnstæðurnar hafa alveg stórkostlega aukizt og samtalan af þessu tvennu er miklu hærri, en árið 1956.

Það væri nú kannske hægt að gefa mönnum svolitla hugmynd um, hversu skyldar eða óskyldar þessar tölur eru, við það að skýra frá því, að það er vitað mál, að eftir að gerð var krafa um það, að aukning sparifjárinnlaga í lánastofnunum ætti að vera undirstaðan undir því, hve mikið viðkomandi lánastofnun léti af mörkum til húsnæðismála, þá fór að bera mjög mikið á því í sumum slíkum stofnunum, að það voru teknar út innstæður af sparifjárinnlögunum, úr sparisjóðsbókunum, færðar yfir á hlaupareikningsinnstæður. Þetta gefur dálitla hugmynd um, hvort þetta er mjög fjarskylt. Svona var hægt að „varlera“ þessu til, og þetta kom mjög skýrt í ljós í einstökum tilfellum. Það eru til vissir menn líka til frásagnar um það, að þeir voru, eftir að þetta hafði verið gert, beðnir um að taka út fé úr sparisjóðsbókum og leggja það heldur inn á hlaupareikning.

Ég held, að það veiti ekkert af, að það komi skáskífa að framan og skáskífa að aftan líka.