12.12.1957
Neðri deild: 38. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

84. mál, skemmtanaskattsviðauki

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Menntmn. flytur þetta frv. á þskj. 141 um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta skemmtanaskatt með viðauka árið 1958. Nefndin flytur frv. að beiðni hæstv. menntmrh. Lög um sama efni hafa gilt um langt árabil, og mæla sömu rök fyrir því nú og áður, að skemmtanaskattur verði innheimtur með þeim viðauka, sem ákveðinn er í 1. gr. þessa frv., því að fjárþörf þeirra aðila, sem teknanna eiga að njóta, er eigi minni nú, en verið hefur.

N. hefur borið orðalag þessa frv. saman við lög þau, sem gilda um þetta efni nú á þessu ári, og komizt að raun um, að frv. er að efni til alveg samhljóða núgildandi lögum.