18.12.1957
Efri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1398 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

72. mál, fæðingarheimili Reykjavíkurbæjar

Frsm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Í lögum um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum, sem voru samþ. á síðasta Alþingi, er svo ákveðið, að íbúðarhúsnæði, eins og það er þar nánar skýrgreint, megi aðeins nota til íbúðar.

Það er engin heimild til undanþágu í þessum lögum, nema því aðeins að ekki ríki húsnæðisskortur í viðkomandi bæjarfélagi. Nú er, eins og kunnugt er, mikið húsnæðisleysi í Reykjavik. Hins vegar hefur bæjarstjórn Reykjavíkur þótt þörf á að taka tvö íbúðarhús til annarrar notkunar, og þess vegna er fram komið frv. á þskj, 121 um húsnæði fyrir fæðingarheimili Reykjavíkurbæjar.

Það hefur lengi borið mjög á þrengslum í fæðingardeild landsspítalans. Þar fara fram um 1.700 fæðingar á hverju ári, og mun um þriðjungur þeirra fara fram á göngum byggingarinnar og í öðrum skúmaskotum. Það hefur því alllengi verið rætt um að bæta úr þessu vandræðaástandi. Aðallega hefur tvennt komið til greina við þær umr., annars vegar að stækka fæðingardeildina á landsspítalalóðinni og hins vegar að koma upp sérstakri fæðingardeild bæjarins eða fæðingarheimili.

Það hefur orðið ofan á í bæjarstjórn Reykjavíkur að velja síðari kostinn, þann, að bæjarfélagið komi upp eigin fæðingarheimili, og taka til þess tvö íbúðarhús, sem bærinn á við Eiríksgötu og Þorfinnsgötu. Þessi hús munu byggð sem íbúðir fyrir sjö fjölskyldur, en á síðari tímum hafa þar dvalizt langtum fleiri fjölskyldur vegna húsnæðisvandræða í bænum. Reykjavikurbær hefur sem sé notað þessi tvö hús fyrir það fólk, sem lent hefur í mestu húsnæðishraki og orðið húsnæðislaust. Þar til fyrir skömmu munu þar hafa dvalizt um 17 fjölskyldur, en þegar hefur tekizt að útvega 8 eða 9 af þeim samastað annars staðar, svo að nú munu þar ekki vera meira, en 8 fjölskyldur.

Ég er þeirrar skoðunar, að lögin um afnot íbúðarhúsa í kaupstöðum hafi verið bráðnauðsynleg, þegar þau voru sett, og ég tel einnig, að það hafi verið réttmætt að hafa þau jafn fortakslaus og þau voru úr garði gerð. Hins vegar getur það alltaf borið að, sem gerir undantekningu frá slíkum lögum nauðsynlega og sjálfsagða, og að mínum dómi er hér einmitt um eitt slíkt tilfelli að ræða.

Það er ætlunin að koma fyrir í þessum húsum fæðingarheimili, þar sem um 1.000 fæðingar geti farið fram á hverju ári. Eftir sem áður verður nóg við fæðingardeild landsspítalans að gera. Þar er ætlazt til að fram fari aðallega sjúklegar fæðingar eða þær fæðingar, sem taldar eru ekki með öllu hættulausar, en á fæðingarheimili Reykjavikurbæjar fara aftur á móti fram sem mest þær fæðingar, sem ætla verður að verði eðlilegar.

Ég veit ekki, hvort um það má deila, að konur eigi almennt að fæða í fæðingarheimili eða fæðingarstofnun. Máske má um það deila. Þó hef ég heyrt yfirlækni fæðingardeildar landsspítalans halda því fram, að sem flestar fæðingar ættu að fara fram á fæðingarstofnun. Það væri aukið öryggi bæði fyrir konuna og fyrir barnið. En það koma einnig önnur atriði til greina í þessu efni. Það er mjög erfitt að fá heimilisaðstoð hér í Reykjavík, eins og raunar víðar, og víða eru húsakynni lítil og þröng, og stuðlar húsnæðisskorturinn mjög að því. Þetta hlýtur að mæla með því, að séð sé fyrir þörfum sængurkvenna sem bezt.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta efni. Hv. heilbr.- og félmn. hefur fjallað um frv. og orðið á einu máli um að mæla með samþykkt þess. Einn nm., hv. 11, landsk. þm. (FÞ), var að vísu ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt úr nefndinni, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að einnig hann sé málinu fylgjandi.