11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

86. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir vænt um, að þetta frv. skuli hafa hlotið jafngóðar undirtektir og raun ber vitni um. Allir þeir ræðumenn, sem talað hafa, hafa lýst fylgi sínu við þá stefnu, sem frv. markar, eða kannske öllu heldur lýst fylgi sínu við frv., svo langt sem það nær. Einn ræðumanna, hv. þm. Borgf. (PO), hefur að vísu talið æskilegt að ganga lengra í stuðningi við þá skóla, sem hér er um að ræða, en gert er ráð fyrir í frv. og flytur um það efni brtt. á þskj. 288. Í tilefni af þeim vildi ég aðeins taka þetta fram:

Að því er snertir fyrri brtt. er gerð grundvallarbreyting á þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaði heimavistarskóla og gert ráð fyrir mjög aukinni hlutdeild, þannig að ríkissjóði ætti að verða gert að greiða 9/10 hluta stofnkostnaðarins. Hér er um svo mikla breytingu að ræða, breytingu, sem hefur svo mikla fjárhagsþýðingu, að ég tel ekki unnt að mæla með því, að slík brtt. verði samþ.

Það er margrætt mál hér á hinu háa Alþ., hver vera skuli þátttaka ríkissjóðs í stofnkostnaði skóla almennt. Um þetta eru til nýsett lög frá árinu 1955, þ.e. ekki 3 ára gömul. Þau lög voru mjög rækilega undirbúin þau voru þrautrædd hér á hinu háa Alþ., og ég tel ekki rétt að svo komnu máli að gera breytingu á þeim meginreglum, sem þar voru mótaðar enda minnir mig, að það frv. hafi verið afgreitt shlj. hér á hinu háa Alþ., þær reglur, sem þar er slegið föstum um hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði skóla, hafi þá haft stuðning allra hv. þm. Ég minnist þess ekki, að hv. þm. Borgf. hafi þá borið fram brtt. í þessa átt. Þó kann mig að misminna um það efni. A.m.k. held ég, að það sé rétt, að það hafi verið einróma þingvilji á bak við frv. og þær reglur, sem nú gilda, um það er lauk.

Hér er um svo mikilvægt fjárhagsatriði að ræða, að ég tel ekki unnt að mæla með því, að þessi brtt. verði samþ. Sama gildir um seinni brtt., sem er hliðstæð. Þó að hún hafi að vísu miklu minni fjárhagsþýðingu, þá gildir það einnig um hana, að hún breytir þeim reglum, sem nú þegar gilda og ég tel ekki rétt að breytt verði nema þá að undangenginni rækilegri athugun. En tíma tel ég ekki kominn til þess enn að taka þær reglur, sem nú gilda og eru ekki 3 ára gamlar til endurskoðunar.

Varðandi það, sem hv. þm. benti á, að tvö héruð nytu nokkurra forréttinda, þ.e. Austfirðingar að því er snertir Eiðaskóla og Dalasýsla að því er snertir húsmæðraskólann á Staðarfelli, umfram önnur héruð, vil ég aðeins segja þetta:

Hv. þm. Mýr. (HS) hefur flutt þá skýringu á aðstæðum í Dalasýslu, sem ég get látið mér nægja að vísa til. Það voru alveg réttar upplýsingar, sem hann flutti, og nægja alveg til skýringar á því, sem þar er um að ræða.

Að því er Eiðaskóla snertir er þess að geta, að hann er elztur þeirra skóla, sem hér er um að ræða, og var stofnaður sem ríkisskóli, áður en núgildandi reglur um samaðild ríkis og sveitarfélaga að byggingu og rekstri skóla voru myndaðar. Við enga endurskoðun á reglum um þátttöku ríkissjóðs í byggingu skóla hefur þótt fært eða rétt eða eðlilegt að raska þeim gömlu reglum, sem um rekstur Eiðaskóla hafa gilt. Hinar gömlu reglur hafa ávallt verið látnar standa óbreyttar, þó að það sé rétt, að þær valdi því, að nokkurt misræmi sé á um aðild héraðanna að rekstri skólanna. En ég sé ekki, að hinum héruðunum væri nokkur akkur í því, að reglunum um rekstur Eiðaskóla væri breytt til samræmis við þær reglur, sem að öðru leyti gilda um aðild ríkisins að rekstrarkostnaði skólanna. Sú eina breyting, sem væri í raun og veru eðlileg, væri ekki að breyta reglunum um alla hina skólana til samræmis við það, sem gildir um Eiðaskóla, heldur að breyta reglunum um Eiðaskóla til samræmis við það, sem gildir um alla hina skólana. Ég mæli ekki með því, vil halda áfram að meta þá sögulegu hefð, sem sérreglurnar um Eiðaskóla grundvallast á, og tel með tilliti til þeirra ekki vera hægt að vitna til þess sem röksemda fyrir því að breyta þeim reglum, sem nú gilda um sameiginlegan rekstur sveitarfélaga og ríkis á öðrum skólum, til samræmis við það, sem gildir um Eiðaskóla.

Af þessum ástæðum get ég ekki mælt með því, að brtt. á þskj, 288 verði samþykktar.