11.03.1958
Neðri deild: 64. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1174)

86. mál, skólakostnaður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. í sambandi við ummæli hv. þm. Borgf. (PO) um upplýsingar þær, sem ég gaf um, hvor leiðin væri hagkvæmari fyrir rekstur héraðsskóla og húsmæðraskóla, hans leið eða sú, sem hér er lagt til að fara, skal ég taka það fram, að þær upplýsingar hafði ég frá fjármál eftirliti skólanna. Þar er byggt á þeim tölum, sem þeir hafa miðað við niðurstöðu ársins 1955. Ég hygg, að þeir byggi þær tölur á það traustum grunni, að það sé óhætt að treysta þeim.

Út af því, sem hv. þm. talaði um, að menn væru að friða samvizku sína, þá vil ég spyrja: Hvað er þá með þá hv. þm., sem afgr. skólalögin 1955? Af hverju var þetta mál ekki afgert þá, sem nú er sótt af kappi? Hafa þeir ekki þörf fyrir að friða sína samvizku, fyrst þeir létu undir höfuð leggjast að koma þessu máli fram 1955, því að þá hafði hv. þm. Borgf. betri aðstöðu til þess en nú?

Ég tók fram áðan, að það er engin leið lokuð með þeirri aðgerð, sem hér er lagt til. Hér er stefnt í rétta átt og annar þáttur málsins að fullu afgr. Hitt ætla ég ekki að fara að taka af núna, hvort ég kann síðar að álykta eins og hv. þm. Borgf., að meira þurfi við eins og hann álítur nú, að meira þurfi að aðhafast, heldur en gert var 1955 og hann samþykkti þá. Ég sé ekki að það sé nein hneisa, þó að ég læri af reynslunni, frekar en sá hv. mæti þm.