27.03.1958
Efri deild: 74. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

86. mál, skólakostnaður

Frsm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt í hv. Nd, af menntmn. þeirrar deildar samkv. beiðni menntmrn. Tilgangurinn með frv. er sá að gera sýslufélögum léttara að bera sinn hluta af rekstrarkostnaði héraðsskóla og húsmæðraskóla. Þetta er gert í frv. með þeim hætti að ákveða, að tekjum skólanna skuli skipt á annan veg en áður, svo að hlutur sýslufélaganna, sem standa að þessum skólum, batni verulega frá því, sem nú er, en að sjálfsögðu þyngir það að sama skapi á útgjöldum ríkisins til þessara skóla.

Ástæðurnar fyrir því, að þetta þykir réttmætt, eru fyrst og fremst þær, að gjöld sumra sýslufélaga vegna rekstrar þessara skóla eru orðin þeim mjög tilfinnanleg. Samkv. l., sem giltu fyrir 1946, voru þessar skólastofnanir taldar sjálfseignarstofnanir og reknar með ríkisstyrk. Sá styrkur fór eftir nemendafjölda, og þótti viðunanlegt það fyrirkomulag. En 1946 eru sett ný lög um skólamál landsins. Þá verða þessir skólar að sameign ríkis og sýslufélaga þeirra, sem standa undir kostnaði af rekstri þeirra, og þá eru settar reglur um það, hvernig rekstrarkostnaður skólanna skuli skiptast á milli þessara eigenda, ríkis og sýslufélaganna.

Í höfuðatriðum eru þær reglur þannig, hvað snertir héraðsskólana og húsmæðraskólana, að rekstrarkostnaðurinn skiptist í sömu hlutföllum og stofnkostnaðurinn eða að ríkið greiðir 3/4 hluta af rekstrarkostnaðinum, en viðkomandi sýslufélög 1/4. Nú er það svo, að sum sýslufélög í landinu bera ekki neinn kostnað af slíkum skólum, þegar önnur sýslufélög bera kostnað jafnvel af tveimur skólum og það auk unglingaskóla, sem þau líka kosta að hluta í þessum sömu héruðum. Er því misræmi mjög í þessum málum milli hinna einstöku sýslufélaga í landinu. Aftur á móti er það svo um nemendur þessara skóla, að þeir eru jafnvel ekkert frekar úr þeim sýslufélögum, sem bera kostnaðinn af rekstri skólanna, heldur en öðrum, sem bera ekki uppi slíkan kostnað. Út af þessu hafa ýmis sýslufélög átt mjög erfitt með að greiða sinn hluta af þessum kostnaði og afleiðingin oft orðið sú, að viðhald eignanna, þ.e. skólahúsanna fyrst og fremst, hefur verið vanrækt af þessum ástæðum, og það bitnar svo síðar á stofnkostnaði skólanna, sem verður að sjálfsögðu meiri og kemur fyrr til, ef viðhaldið er vanrækt.

1955 var þessum l. nokkuð breytt hvað snertir viðhaldskostnaðinn og þá sýslufélögunum í hag. En sú breyting er fjarri því að leysa þann vanda, sem sýslufélög eru í um greiðslu rekstrarkostnaðarins yfirleitt.

Með þessu frv. er ekki verið að breyta neinu um hlutföll og greiðslu rekstrarkostnaðar. Sú eina breyting er í þessu frv., að tekjum af skólahaldinu er skipt öðruvísi, en nú er. Höfuðreglan um skiptingu teknanna, eins og nú er, er sú, að leigutekjur af húsnæði og eignum falla að 3/4 til ríkis og 1/4 hluta til sýslufélaganna, sem reka skólann, en aðrar tekjur, og það eru fyrst og fremst heimavistargjöld nemenda, falla að helmingi til ríkis og helmingi til sýslufélaga. En skv. þessu frv. er lagt til, að þessar tekjur, leigutekjurnar og aðrar tekjur, sem eru aðallega heimavistargjöld, teljist allar sem framlag viðkomandi sýslufélaga. Til þess að skýra þetta nánar skal ég setja upp einfalt dæmi, án þess að það sé tekið úr veruleikanum. Ef einhver skóli hefur 76 þús. kr. tekjur, þ.e. 16 þús. af leigutekjum og 60 þús. af öðrum tekjum, þá fær ríkið 42 þús. af þessum tekjum, en sýslufélögin 34. En verði þetta frv. samþ., þá falla þessar 76 þús. kr. óskertar til sýslufélaganna sem framlag þeirra við rekstur skólans, m.ö.o., þær 42 þús. kr., sem áður féllu í hlut ríkis, færast yfir til sýslufélaga. Ef einhver skóli væri rekinn skv. þessu dæmi, sem ég nefndi, þá er hagnaður sýslufélaganna þar 42 þús. kr., og tekjur ríkissjóðs minnka að sama skapi. Með þessu móti er talið að mjög verulega sé leystur vandinn fyrir þau sýslufélög í landinu, sem undan þessu ástandi hafa kvartað, en að sjálfsögðu þyngir þetta á ríkissjóði, og mun vera áætlað, að það nemi milli 400 og 500 þús. á ári, sem þetta auki gjöld ríkissjóðs, vegna þess að hann missir af þessum tekjum, sem til skólahaldsins féllu.

Menntmn. er sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. Tveir nm., hv. 2. þm. Árn. og hv. 6. þm. Reykv., áskilja sér þó rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja þeim, ef fram koma, en eru þó sammála okkur hinum um að samþ. frv.