17.02.1958
Efri deild: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

121. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Með frv. því á þskj. 239, sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Árn. og hv. þm. S-Þ., er þess farið á leit, að Alþingi heimili Vinnuveitendasambandi Íslands að taka húseign þá, sem sambandið á á Fríkirkjuvegi 3 hér í bænum, til afnota fyrir félagsstarfsemi sína.

Húseign þá, sem hér um ræðir, keypti Vinnuveitendasambandið sumarið 1956 eða nokkru áður en í gildi gengu lögin, sem banna að breyta íbúðarhúsnæði í skrifstofur eða annað þess háttar. Þetta hús er yfir 50 ára gamalt timburhús, mjög úr sér gengið og óhæft til íbúðar nema með miklum lagfæringum og tilkostnaði.

Þegar Vinnuveitendasambandið réðst í kaup á þessu húsi, var ætlun þess að rifa húsið og byggja hentugt hús fyrir starfsemi félagsins á lóðinni. En vegna erfiðleika á að fá fjárfestingarleyfi fer sambandið þess á leit að fá leyfi til þess að lagfæra húsið, þannig að það geti flutt starfsemi sína þangað til bráðabirgða.

Vinnuveitendasamband Íslands býr nú við gersamlega ófullnægjandi húsnæði. Það hefur aðsetur í smákytru í Þórshamri, og er augljóst mál, að þetta torveldar mjög alla starfsemi sambandsins. Er svo komið, að þegar samningar standa yfir um kaup og kjör, hafa samninganefndir tíðum þurft að afla sér húsnæðis hér og þar úti um bæ. Þetta er að sjálfsögðu óviðunandi ástand.

En eins og hv. þdm. er kunnugt, er starfsemi Vinnuveitendasambandsins orðin svo yfirgripsmikil, að segja má, að það komi meira eða minna til þess kasta um alla meiri háttar kaup- og kjarasamninga, sem gerðir eru í landinu.

Af því, sem ég hef hér sagt, vænti ég, að hv. þdm. sjái, að hér er um sanngirnismál að ræða. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til grg. þeirrar, sem fylgir þessu frv., og legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.