17.02.1958
Efri deild: 53. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

121. mál, húsnæði fyrir félagsstarfsemi

Flm. (Jón Kjartansson):

Herra forseti. Mér skilst, að hv. 1. þm. N–M. hafi beint hér fyrirspurn til hæstv. ráðherra, sem því miður er ekki viðstaddur, enda er ekki mitt að svara því, sem hann spurði um. En hann veit það, að húseign sú, sem hér er um að ræða að Fríkirkjuvegi 3, er sáralítils virði og eins og ég gat um yfir 50 ára gamalt timburhús. Það er lóðin, sem er mikils virði, það veit hv. þm. Og það er lóðin, sem Vinnuveitendasambandið ætlaði sér að nota til þess að byggja á hús til sinnar félagsstarfsemi. Það er þetta, sem hv. þm. veit og þarf því ekki að spyrja. En þar sem sambandið getur ekki byggt í bili, vegna þess að það fær ekki fjárfestingarleyfi, óskar það að fá að koma starfseminni fyrir til bráðabirgða í þessu gamla húsnæði.