10.03.1958
Neðri deild: 63. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

146. mál, veiting ríkisborgararéttar

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Svo var ráð fyrir gert af hálfu allshn., að annar nm., hv. 2. þm. Reykv., mælti fyrir þessu frv. af hálfu n., en sá nm, er ekki hér staddur, er erlendis, og því hefur talazt svo til, að ég segði nokkur orð, um leið og frv. kemur til umr.

Upphaf þessa máls er það, að allshn. þessarar d. barst fyrir nokkru frá dómsmrn. frv. um veitingu ríkisborgararéttar. Í þessu frv. var lagt til, að 49 mönnum, erlendum ríkisborgurum, yrði veittur íslenzkur ríkisborgararéttur. En um leið sendi ráðuneytið n., ásamt umsóknum þessara manna, umsóknir allmargra manna annarra um ríkisborgararétt hér á landi, og munu sumar þeirra umsókna hafa borizt ráðuneytinu, eftir að frv. var þar samið.

Sú aðferð var nú höfð í allshn., að hún kaus úr sínum hópi tvo menn, sem ásamt tveim mönnum úr allshn. Ed. og skrifstofustjóra Alþ. fóru yfir umsóknirnar, bæði umsóknir þeirra manna, sem teknar höfðu verið upp í frv. dómsmrn., og annarra, og niðurstaða þeirrar athugunar er það frv., sem hér liggur fyrir frá allshn. og flutt af henni. Í frv. er gert ráð fyrir, að 57 mönnum verði veittur ríkisborgararéttur. Þetta er nokkuð há tala. En í því sambandi er rétt að vekja athygli á því, að á síðasta Alþ, voru engin lög sett um þetta efni, og því eru umsækjendur að þessu sinni fleiri.

Allsherjarnefndir þingsins hafa sett sér reglur, sem á eru byggðar tillögurnar um það, hverjir skuli fá ríkisborgararéttinn. Þessar reglur eru prentaðar með frv. í grg. á þskj. 287, og leyfi ég mér að vísa til þeirra. En aðalreglan er sú, að auk þess sem áskilið er, að umsækjandi hafi óflekkað mannorð og sé að áliti tveggja valinkunnra manna starfhæfur og vel kynntur, þar sem hann hefur dvalizt, þá skuli hann hafa átt lögheimili hér á landi a.m.k. fimm ár, ef hann er ríkisborgari á Norðurlöndum, en a.m.k. 10 ár, ef hann er ríkisborgari utan Norðurlanda. Frá þessari aðalreglu um 5 eða 10 ára lögheimili eru svo undantekningar, sem greindar eru í 3.–6. tölulið í grg., um það, þegar maður eða kona erlend giftist íslenzkum ríkisborgara, erlendur ríkisborgari á íslenzkan föður eða móður, Íslendingur hefur gerzt erlendur ríkisborgari eða íslenzk kona hefur misst ríkisfang sitt við giftingu.

Ég skal taka það fram, að þrír umsækjenda, að ég ætla, sem teknir hafa verið upp í þetta frv., nr. 10, nr. 40 og nr. 56, uppfylla ekki á þessari stundu það skilyrði, sem greint er í reglunum um lögheimilistíma, og þess vegna er tekið fram í frv., að þeir öðlist ríkisborgararétt siðar á árinu, tiltekinn dag, og mun það hafa verið gert áður, þegar eins hefur staðið á.

Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð, en eins og ég gat um, hefur verið haft um það samstarf við allshn. Ed. Ég legg svo til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.