17.04.1958
Efri deild: 79. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

146. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar, sem komið er frá Nd.

Það, sem valdið hefur dálitlum erfiðleikum í sambandi við meðferð þessa máls, er það, að stöðugt hafa verið að berast umsóknir um veitingu ríkisborgararéttar, eftir að frv. var upphaflega lagt fram. Seinasta umsóknin barst fyrir nokkrum dögum. Í meðförum Nd. fjölgaði þannig umsækjendum um ríkisborgararétt skv. frv. úr 57 upp í 67.

Það gefur að skilja, að það er dálítil áhætta að taka inn marga nýja umsækjendur nú, þegar svo langt er liðið á þing, að því er ætla má, því að nokkur hætta getur verið á því, að frv. kunni þá að daga uppi, en slíkt má ekki henda, þar sem þetta er réttlætismál margra umsækjenda, sem fullnægja öllum skilyrðum. Á hitt er enn fremur að líta, að það er ekki gott að þurfa að neita mönnum, sem senda umsóknir í fullkomnu lagi og uppfylla öll skilyrði til þess að öðlast þennan rétt.

Að athuguðu máli hefur allshn. Ed. orðið sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. með tveim breytingum. Hún leggur til, að teknir verði upp í frv. þrír menn, er bætist inn í gr. í stafrófsröð. Þar er fyrst Jónmundur Jensen, annar Agnar Jensen og þriðji Knud Larsen. Einnig er gert ráð fyrir því, að orðin „fær réttinn 7. apríl 1958“ í 66. tölulið frv., eins og það kom frá Nd., verði felld niður, þar sem 7. apríl er nú liðinn. Með þessum breytingum leggur n. einróma til að frv. verði samþykkt.