01.11.1957
Neðri deild: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

35. mál, útsvör

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt til staðfestingar á brbl., sem sett voru á s.l. sumri.

Samkv. gildandi lögum er það svo, að yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd mega ekki breyta útsvari, sem kært hefur verið yfir, ef það reynist ekki of hátt eða of lágt að mati þessara aðila um 10%.

Nú hafa útsvör hækkað frá ári til árs, eins og kunnugt er, og útsvarsupphæðir nú velta í öllum sveitarfélögum á háum tölum. Er því þannig ástatt sökum þessa lagaákvæðis í útsvarslögunum, að maður, sem t.d. hefur 10 þús. kr. útsvar, sem engan veginn telst hátt útsvar, getur ekki fengið leiðréttingu, nema því aðeins að yfirskattanefnd eða ríkisskattanefnd telji, að honum beri 1.000 kr. eða hærri upphæð til leiðréttingar á útsvarinu, annaðhvort til hækkunar eða lækkunar. Maður, sem hefði 20 þús. kr. útsvar, gæti ekki fengið það leiðrétt, þó að þessir aðilar væru sammála um, að honum bæri að fá 1.900 kr. leiðréttingu. Það yrði að nema 2.000 kr. leiðréttingu, til þess að hann ætti rétt á breytingu hjá yfirskattanefnd eða ríkisskattanefnd.

Þannig er ljóst, að það er ástæða til að færa þetta 10% mark, sem er í lögunum, niður, og var það gert með þessum brbl. niður að 3%. Getur samt verið um að ræða upphæðir, sem fyllilega væru leiðréttingar verðar. En því lægra sem markið er sett, gætu þessi leiðréttingamál orðið fleiri, en þá er þó komið svo, að um minni upphæðir er að ræða. Hjá þjóðfélagi, sem enn þá lætur slá einseyringa og tveggjaeyringa vegna nákvæmni í viðskiptum manna á milli, verður að líta svo á, að þetta sé sjálfsagt, að hægt sé að fá leiðréttingu á útsvörum til hækkunar eða lækkunar hjá yfirskattanefnd eða ríkisskattanefnd, ef leiðréttingarþörf er viðurkennd af réttum löglegum aðilum, svo að a.m.k. nemi 3%.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frv. meira. Það er alveg skýrt og þarf engra skýringa við. Breytingin er sú ein, að í staðinn fyrir ákvæðið 10% komi 3%. Ég legg til, að þessu máli verði að umr. lokinni vísað til hv. fjhn.