25.10.1957
Efri deild: 9. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

18. mál, umferðarlög

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér ekki hér hljóðs til að ræða almennt þann mikla lagabálk um umferðarmál, sem hér liggur fyrir, heldur aðeins til þess að biðja hv. allshn., sem nú fær málið á ný til íhugunar, að athuga þar eitt ákvæði nánar, en það er ákvæði í 27. gr. um það, að ekki megi veita heyrnardaufum eða heyrnarlausum mönnum ökuskírteini, og skilyrði um heyrn, að því er virðist, lagt að jöfnu við að hafa góða sjón.

Tilefni þess, að ég vek máls á þessu, er það, að á s.l. sumri komu að máli við mig 4 ungir menn, sem hafa misst heyrn, en eru að öllu leyti heilsuhraustir að öðru leyti og færir í flestan sjó. Þessir ungu menn töldu, að með lagaákvæðum, sem um þá giltu, væri mjög gengið á rétt þeirra. Kváðust þeir hafa unnið hin margvíslegustu störf á sjó og landi og hefði vöntun þeirra ekki orðið þeim að teljandi baga, jafnvel við störf, sem krefjast mikillar athyglisgáfu. Einn þessara manna hafði t.d. verið togarasjómaður, og munu flestir á einu máli um það, að sá starfi krefjist ýtrustu athyglisgáfu. Á þessu stigi málsins vil ég þó engan veginn leggja neinn dóm á það, hvort unnt er almenns öryggis vegna að veita heyrnardaufum mönnum rétt til að stjórna ökutækjum, en ég tel jafnsjálfsagt, að það sé athugað.

Á það má benda í þessu sambandi, að það mun vera viðurkennt, að slík vöntun skerpi yfirleitt skyn manna á öðrum sviðum og bæti mönnum hana þannig verulega. Einnig má benda á það, að aðalörðugleikinn í sambandi við akstur heyrnardaufra manna er sá, að ekki er öruggt, að þeir heyri hljóðmerki. En það mun nú vera svo, að þróunin um það atriði hefur verið á þá lund, að æ minna er lagt upp úr því og hljóðmerki jafnvel bönnuð í stórborgum, sem hafa ákaflega mikla og hættulega umferð.

Það má líka benda á, að fjöldi manna, sem eru fatlaðir á hinn margvíslegasta hátt, jafnvel ú öllum útlimum, hefur fengið rétt til að aka bifreiðum og mun geta öðlazt slíkan rétt áfram og haldið þeim rétti, þeir sem þegar hafa fengið hann, þrátt fyrir þau lög, sem nú er fyrirhugað að setja um þetta efni.

Þá sýnist mér líka eðlilegt, að hv. allshn. kynni sér, hvern hátt aðrar þjóðir hafa á í þessu efni. Ég hef ekki haft tök á að kynna mér það, en hef þó flett upp í norsku umferðarlögunum. En þar er hvergi tekið fram sérstaklega um þetta atriði, heldur aðeins talað um sjón og almenna heilbrigði, en mér er ekki kunnugt um, hvernig það er túlkað varðandi þetta atriði.

Ég taldi mér skylt að koma þessum sjónarmiðum heyrnardaufra manna á framfæri, ekki sízt með tilliti til þess, að þeir hafa engan sérstakan félagsskap fyrir sig, eins og ýmsir aðrir hópar manna, þótt þeir skipti nokkrum tugum eða jafnvel hundruðum í landinu. Og ég vona aðeins að lokum, að þegar nefndin hefur athugað þetta, þá leggi hún þau gögn um þetta efni fram, sem geri okkur ósérfróðum þingmönnum fært að dæma um þetta atriði.