01.11.1957
Neðri deild: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

35. mál, útsvör

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Öllum hv. þdm. mun vera kunnur aðdragandi frv, þessa, sem hér er lagt fyrir, en það er deila sú, er undanfarna mánuði hefur verið háð um útsvarsálagninguna í Reykjavík. Sú hlið málsins var ekki rædd af hæstv. félmrh., þegar hann lagði málið fyrir, og mun ég því ekki gera hana að sérstöku umræðuefni hér, en vil vekja athygli á því, sem flestir munu hafa hugsað, þegar þessi brbl. voru sett, að einmitt 3%, sem talað hefur verið um, munu ákveðin með tilliti til þess, að hæstv, félmrh. og ýmis málgögn stjórnarflokkanna hafa fundið það út, að vísu með öllu ranglega, að það hafi verið lögð á Reykvíkinga 3.7% hærri upphæð, en heimild hafi verið til samkv. lögum. Að vísu er þetta algerlega á röngum forsendum byggt, því að sú aðferð til niðurjöfnunar, sem um var deilt, getur ekki haft nein áhrif á útsvarsstigann, þannig að ef lækka ætti öll útsvör um 3.7%, mundi það í rauninni þýða, að útsvörin væru lækkuð á allt öðrum, en þeim, sem niðurjöfnunaraðferð sú, sem um er deilt, kann að hafa bitnað á. Þó að það sé þannig á algerlega röngum forsendum byggt og rökvilla ein liggi því að baki, að bæjaryfirvöldin hafi tekið 3.7% hærri upphæð af bæjarbúum í útsvör, en heimilt var, þá munu þó flestir hafa sett þetta tvennt í samband hvort við annað. Annars skal ég ekki, nema frekara tilefni gefist til þess, gera útsvarsmálin hér í Reykjavík að umræðuefni í sambandi við þetta mál.

En ég vil aðeins leyfa mér að vekja athygli á því við 1. umr. málsins, að hér er í rauninni um töluvert stærra mál að ræða, en kannske í fljótu bragði virðist vera og í rauninni um svo stórt mál vegna breyttrar aðstöðu stjórna bæjarfélaga og sveitarfélaga, að útsvarsmálið hér í Reykjavík verður í rauninni smámál hjá því. Það virðist mér koma skýrt í ljós, ef maður les þær greinar núgildandi útsvarslaga, sem um kærur fjalla, að vald það, sem yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd er ætlað, er aðeins fólgið í því, að þeim er ætlað að leiðrétta innbyrðis útsvör einstakra gjaldenda. Hins vegar er yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd ekki ætlað og ekki heimilt í rauninni samkv. þessum lögum að breyta hinum almennu skattstigum. Þær verða að ganga út frá þeim sem gefnum, en hlutverk þeirra er einungis í samræmi við kærur, sem borizt hafa, að skapa leiðréttingu meðal gjaldþegnanna innbyrðis. Sé að öðru leyti vafi á um túlkun laganna í þessu efni, þá skera einmitt ákvæðin um það, að ekki megi breyta útsvari, nema það skakki a.m.k. 10%, alveg úr um þetta, því að ef tilgangurinn eða tilætlunin væri sú, að yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd mættu breyta hinum almennu skattstigum, þá væri auðvitað meiningarlaust með öllu að binda það við 10%. Eftir að búið væri að lækka þessi 10% ofan í 3%, yrði á þessu atriði mikill vafi.

Og einmitt með sérstöku tilliti til þess, hvernig þetta mál er til komið, að það er út af útsvarsmálinu hér í Reykjavík, virðist það einmitt fyrir vaka að gera nú þá breytingu, að yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd geti ákveðið sjálfa skattstigana. En hvað þýðir þetta í rauninni? Það þýðir það, að allt vald í fjárhagsmálum bæjar- og sveitarfélaga er í rauninni lagt í hendur þessara nefnda. Það verða þá ekki lengur nein takmörk fyrir því, hvað ríkisskattanefnd og yfirskattanefnd gætu lækkað útsvörin mikið, og þessi lækkun kemur einmitt fram, þegar útgjaldaárið er nær því liðið, þannig að þær hafa á valdi sínu að skapa algert öngþveiti í fjárhagsmálefnum bæjar- og sveitarfélaga.

Með tilliti til þess, hversu mikið vald er hér um að ræða, sem lagt er í hendur þessara nefnda, er rétt að athuga það lítils háttar, hvernig þessi dómstóll, sem fær þetta mikla vald, er skipaður. Að því er ég bezt veit, er það þannig með ríkisskattanefnd, sem verður æðsti dómstóll í þessu máli, að hún er skipuð af fjmrh., og hann hefur að mestu óbundið vald um það, hvernig hann velur menn í slíka nefnd. Þeir eru enn fremur skipaðir til takmarkaðs tíma.

Hvaða reglur gilda nú yfirleitt um val manna í slíkar nefndir, sem hafa mikil pólitísk völd, en þar sem ekki er krafizt neinna sérstakra hæfileika til þess að menn taki sæti í þeim nefndum? Ég vænti þess ekki, að neinn mótmæli því, að í þessar nefndir er skipað fyrst og fremst eftir pólitískum lit, og þeim, sem í nefndunum taka sæti, er fyrst og fremst ætlað að framfylgja hagsmunum þess flokks, sem þeir eru skipaðir fyrir. Og yfirleitt er það þannig með slíkar pólitískar nefndir, að þó að þær að nafninu hafi svo og svo mikið vald, eru allar meiri háttar ákvarðanir í þeim málum, sem þær fjalla um, teknar á hærri stöðum, eins og það er orðað.

Ég vil gjarnan bregða upp mynd af því, hvernig þessi vinnubrögð sennilega yrðu. Það mundi verða svo, að ráðh. sá, sem fer með yfirstjórn þessara málefna, mundi til þess ætlast, að nefndin beitti áhrifum sínum í stjórnmálalegum tilgangi. Ég hef hér ekki í huga þann ráðh., sem þessi nefnd heyrir undir, og því síður sérstaklega þann mann, sem nú gegnir því embætti, en lít á þetta almennt. Ef ráðherra fylgir einhverjum öðrum reglum, en þeirri að beita sínu valdi í þágu þess flokks, sem hann er fyrir, þá munu flokksmennirnir taka í taumana og sjá fyrir því, að sá sé ekki lengi í ráðherrastóli.

Setjum nú sem svo, að deila verði um útsvör í einhverju bæjarfélagi. Ég er sannfærður um það, — og það er ekki annað, en þau vinnubrögð, sem venjulega tíðkast í þessum nefndum, — að ráðherrann hringir í sína flokksmenn í þessari nefnd, og þar hefur hann af eðlilegum ástæðum tryggt sér meiri hluta, og segir: Ja, bæjarstjórnarmeirihlutinn í kaupstað A, eða hvað það nú er, er, eins og þú veizt, mjög andvígur okkar flokki. Það er ætlazt til þess af þér, að þú gerir þeim lífið eins leitt og unnt er og lækkir útsvörin vel á þessu hausti, þannig að fullkomið fjárhagsöngþveiti skapist á þessum stað. — Ef það nú kæmi fyrir, sem telja verður heldur ólíklegt, því að mennirnir eru einmitt valdir með tilliti til þess að þjóna hagsmunum þess flokks, sem þeir eru skipaðir fyrir, að maðurinn færi eitthvað að tafsa um það, að sér fyndist það ekki sanngjarnt o.s.frv., þá mundi ráðherrann segja: Hverra trúnaðarmaður ert þú í þessari nefnd? Þú veizt, til hvers af þér er ætlazt. Þú getur auðvitað farið þínu fram, en ef þú gerir það, þá máttu búast við því, að þegar næst verður skipað í nefndina, verði þessari virðingarstöðu og þeirri þóknun, sem fyrir hana er greidd, ráðstafað til einhvers annars, sem hefur meiri verðleika. — Þetta er ekki annað en algild regla, og þekkja það engir betur en við, sem hér erum staddir. Þannig eru starfshættir þessara nefnda. (Gripið fram í.) Ætli það eigi þá ekki við um aðra flokka líka? Það er yfirleitt ekki þannig, að Vilmundarnir séu eftirsóttir í slíkar nefndir, og komi það fyrir, að þeir slæðist þangað inn, þá verða þeir þar ekki langlífir. Þetta þýðir m.ö.o., að allt fjárhagsvald í málefnum bæjar- og sveitarfélaga er lagt í hendur pólitískra nefnda. Með þessu eru í rauninni skapaðir möguleikar á því, að það sé ekki hægt að stjórna þeim bæjarfélögunum, sem þessi ákvæði taka til, af öðrum en þeim, sem fylgja þeim ráðherra eða þeim flokkum, sem með þessi málefni fara. Þetta þýðir í rauninni gerbyltingu á sveitarstjórnarmálefnum frá því, sem nú er. Og þetta skyldu hv. þdm. hafa í huga, þegar afstaða er tekin til þessa máls.