18.11.1957
Efri deild: 23. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

18. mál, umferðarlög

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Hv. frsm. n. hefur gert grein fyrir till. n. Hann hefur einnig lýst afstöðu n. til fram kominna brtt., svo að ég mun ekki ræða þær hér. Ég kvaddi mér hljóðs vegna till. hv. þm. Ak. Að vísu get ég verið mjög stuttorður, vegna þess að hv. 11. landsk. þm. hefur rætt þetta nokkuð og skýrt afstöðu okkar, sem erum á móti þessari brtt. Ég tel þessa brtt. mjög varhugaverða.

Hv. þm. Ak. segir, að hver maður eigi að ráða því, hvenær hann tekur sína bifreið út af bifreiðaskrá, og hann bætti reyndar við: og kastar henni út á haug. Já, það er ekkert við það að athuga, ef þeir gerðu það. En það er nú gallinn á, að þeir gera það ekki. Bifreiðin er í óreiðu hér og þar, og ég er algerlega sammála því, sem hv. 11. landsk. sagði. Ég lít svo á, að bifreið eigi að vera á bifreiðaskrá frá þeirri stundu, að hún kemur til landsins ný og er tekin í notkun, og þar til hún er ónýt. Annað mundi skapa mikinn glundroða og öryggisleysi.

Vegna þess að hv. 11. landsk. hefur flutt hér aðra brtt. við þessa sömu grein, — þá vildi ég mælast til þess, að báðir þessir hv. þm., þm. Ak. og hv. 11. landsk., tækju sínar till. aftur til 3. umr., svo að nefndin gæti rætt þær og reynt að komast að niðurstöðu og samsamkomulagi um, hvernig eigi að haga þessu. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar.