01.11.1957
Neðri deild: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

35. mál, útsvör

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég bjóst nú ekki við miklum umræðum um þetta mál, af því að það er eingöngu töluleg breyting á útsvarslöggjöfinni, um það, að leiðrétta megi útsvör, sem kært hefur verið yfir, ef skekkjan af réttum aðilum er metin 3% eða meira, í staðinn fyrir að nú er ákveðið í lögum, að þessu megi ekki hreyfa, nema skekkja nemi 10% eða meiru.

Hv. 9. landsk. skýrði frá því, að hann vildi ekki ræða útsvarsmál Reykjavíkur í sambandi við þetta mál, enda gaf ég ekkert tilefni til þess. Ég ræddi eingöngu þá breytingu á lögum, sem í þessu frv. felst, og gaf því ekkert tilefni til þess á þessu stigi málsins. Hins vegar er það sjálfsagt, ef menn óska, að ræða hið mikla útsvarsmál Reykjavíkurbæjar í sambandi við málið, og mundi þó gefast ærið tóm til þess kannske, eftir að þetta frv, hefði sætt meðferð í nefnd og kæmi til 2. umr.

Ég hygg, að málið liggi svo ljóst fyrir, að umræður til skýringar á málinu, áður en það færi til nefndar, séu nokkurn veginn óþarfar.

Viðvíkjandi nokkrum einstökum atriðum, sem hv, þm. vék að, vil ég segja nokkur orð.

Það er eins og kunnugt er, að þegar kært er yfir útsvari gjaldanda, þá á gjaldandinn þann rétt að kæra yfir útsvari sínu, ef hann telur það ranglega á sig lagt að einhverju leyti og þurfi leiðréttinga við, annaðhvort í samanburði við aðra gjaldendur eða hann telji, að ekki hafi verið lagt á hann eftir efnum hans og ástæðum eftir sömu reglum og á aðra viðvíkjandi tekjum. Fái hann ekki að hans eigin dómi viðhlítandi leiðréttingu vegna kæru sinnar hjá niðurjöfnunarnefnd, á hann rétt á að kæra áfram til yfirskattanefndar, og fái hann þar heldur ekki þá leiðréttingu, sem hann vill sætta sig við, getur hann kært áfram til ríkisskattanefndar. En þá kemur að því, af því að ákvæði útsvarslaga um yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd eru á þann hátt miðuð við miklu lægri tölur, miklu lægri útsvarsupphæðir, en nú eru algengar, að hann á ekki kost á leiðréttingu, þó að viðurkennt sé, að leiðréttingar sé þörf, nema skekkjan nemi a.m.k. 10% af útsvarsupphæðinni, og þá getur verið, að viðkomandi maður verði að borga mun hærri upphæð, en réttlátt er talið af þessum lögskipuðu aðilum, sökum þess að þeir hafa ekki lagalega heimild til að leiðrétta, nema lækka beri útsvarið um 1/10 hluta. Þetta er að mínum dómi full ástæða til þess að leiðrétta, færa prósentutöluna niður, af því að nú getur verið um umtalsverða upphæð að ræða, sem leiðrétta beri, þó að það sé ekki heimilt hjá yfirskattanefnd eða ríkisskattanefnd, eins og lög hafa verið um það fram til þessa.

Um háskann, sem hv. þm. talaði um fyrir bæjarfélögin og sveitarfélögin í sambandi við, að yfirskattanefnd eða ríkisskattanefnd mætti leiðrétta útsvör, ef skekkja sannaðist, sem næmi 3%, þá er ég honum alveg ósammála um þetta. Það er engin tilfærsla á valdi með þessu frv. Það eina, sem hefur gerzt, er það, að þeir mega leiðrétta lægri upphæðir, en áður.

Viðvíkjandi skipun ríkisskattanefndarinnar er það mála sannast, að í henni eiga að vera hagfræðingur, - og svo mun vera, — það á að vera í henni maður með þekkingu á landbúnaðarmálum, — og svo mun einnig vera, — og í þriðja lagi á að vera í henni lögfræðingur, — og það er einnig svo. Mér er ekki kunnugt um annað, en þetta séu allt saman valinkunnir menn, og það hefur ekki verið rokkað fram og aftur með skipun þessarar nefndar. Ég held, að það muni vera rétt, að tveir af þessum þremur, sem í ríkisskattanefnd sitja nú, hafi verið í henni frá byrjun, frá því að ríkisskattanefnd var sett á stofn með lögum þeir Páll Zóphóníasson og Gunnar Viðar. Ég held því, að það sé óhætt um það að segja, að þessu hefur ekki verið sveiflað til, eftir því sem hefur skipt um sæti ráðherra, um flokkslega afstöðu ráðherra, enda væri slíkt ósvinna, ef svo væri. En ég er viss um það, að ef þau vinnubrögð hefðu tíðkazt, sem hv. þm. var hér að lýsa, að ráðherra, sem væri flokksbróðir einhvers manns í ríkisskattanefnd, hringdi til hans og gæfi honum fyrirmæli um að breyta útsvari eins eða annars gjaldanda, og ef flokksmaðurinn í ríkisskattanefnd ekki hlýddi, færi sínu fram, þá mætti hann búast við því að vera sviptur þeirri þóknun, sem hann hefði fyrir þetta starf, og kannske sviptur starfinu, — þetta er mikið hugarflug, finnst mér, og fáránlegar hugmyndir, að ætla það, að nokkur ráðherra leyfi sér að hringja til flokksmanns og skipa honum að gera þá hluti, sem hann veit að hann samkvæmt embættiseiði og lögum má ekki gera. Ég held, að það sé algerlega útilokað, að nokkur þjóðfélagshætta geti stafað af því, að flokksmaður í ráðherrastóli hagi sér á þennan hátt. Það væri þá áreiðanlega hætt fleiri löglegum „institusjónum“ í landinu um að fremja ranglæti eftir boði flokkspólitískra ráðherra, ef ríkisskattanefnd væri í slíkri hættu. En ég get ekki séð, að þetta frv. breyti á nokkurn hátt valdaaðstöðu ríkisskattanefndar eða auki eða minnki á nokkurn hátt þá hættu, sem gæti leitt af slíkri spillingu, ef hún ætti sér stað í þjóðfélaginu, því að þá væri þessi hætta yfir okkur vofandi, hvort sem ríkisskattanefnd mætti breyta útsvörum manna miðað við 10% skekkju eða 3% skekkju. En ég vona, að slík spilling sé ekki til í þjóðfélaginu og þetta séu aðeins hugarórar hv. þm. um, að slíkt geti átt sér stað. Og undarlegt þætti mér það, ef Gunnar Viðar hefði af því sögu að segja, að flokksbróðir hans í ráðherrastóli hafi nokkurn tíma leyft sér þá óskammfeilni gagnvart honum og að sýna honum þá lítilsvirðingu að hringja til hans eða gefa honum á annan hátt fyrirmæli um að breyta útsvörum manna, af því að það væri ósk flokksbróður hans í ráðherrastóli. Og ólíklegt þætti mér það, að Páll Zóphóníasson hefði þá sögu að segja eða Baldvin Jónsson lögfræðingur, sem þar er fulltrúi Alþfl.

Ég held, að svona umræður hafi enga þýðingu hér á Alþingi og að enginn sannfærist um, að það sé háskasamlegt að breyta þessum lögum út frá því, að það felist einhver hætta fyrir bæjarfélögin í þeim rétti ríkisskattanefndar að mega breyta útsvari, ef þeir álita útsvar hans of hátt eða lágt, svo að nemi 3%. En allt hvað menn ræða um þetta mál út yfir það sjónarmið, er alveg tilefnislaust vegna frv., því að það fjallar eingöngu um þá breytingu, að ríkisskattanefnd og yfirskattanefnd megi breyta útsvörum, ef þær komast að þeirri niðurstöðu, að það sé of hátt eða of lágt, svo að nemi 3%, í staðinn fyrir að þeir hafa átt aðeins möguleika á því að leiðrétta útsvör, ef skekkjan væri að þeirra dómi 10% eða meiri.

Þetta vald, sem áfram er gert ráð fyrir að sé í höndum yfirskattanefndar og ríkisskattanefndar, hefur til þessarar stundar verið í höndum þessara aðila, og það er ekki verið að breyta réttargrundveili þeirra að neinu öðru leyti, en að þeir mega leiðrétta skekkjur, sem nú nema lægri upphæðum, en lögin fram að þessu hafa heimilað.

Það er svo örgrannt um það, að það er engin valdatilfærsla, sem felst í þessu frv. víðvíkjandi útsvörum, á annan hátt, en snertir upphæðina eina. Og hafi þessi spilling getað átt sér stað fram að þessu með 10% markinu, getur hún vitanlega átt sér stað jafnt með 3% markinu, sem nú er verið að lögfesta. En það er engin ástæða til þess að ætla, að þessi spilling skjóti rótum vegna þessarar breytingar. Það er eingöngu þarna verið að ræða um meiri rétt, betur tryggðan rétt hinna einstöku gjaldenda um að fá leiðréttingu á útsvörum sínum, ef sannanlegar skekkjur koma í ljós í álagningunni, og þá mega þeir, eins og ætlazt er til í löggjöfinni, leita fyrst til niðurjöfnunarnefndar og kæra og rökstyðja, í annan stað til yfirskattanefndar og í þriðja lagi til ríkisskattanefndar, — og þennan rétt til að æskja leiðréttingar hafa allir gjaldendur í dag.

Nei, það er áreiðanlega ekki ástæða fyrir okkur til þess að útmála neinn ótta, sem sé rökstuddur út frá þeirri lagabreytingu, sem felst í þessu frv. Menn verða þá að vera hræddir við að gefa íslenzkum gjaldendum kost á að leita til þriggja dómstiga um leiðréttingu á útsvörum sínum, og það get ég ekki meint að nokkur maður sé hræddur við. Það er jafnsjálfsagt eins og að menn megi áfrýja dómi undirréttar til hæstaréttar. Ég get heldur ekki ímyndað mér, að nokkur maður telji hættu í því fólgna, að hæstiréttur megi leiðrétta dóm undirréttar allnákvæmlega, — þurfi ekki að vera um einhverja stórsök að ræða, til þess að hæstiréttur megi leiðrétta. Hér er um það eitt að ræða, að markið vegna þeirra verðlagsbreytinga, sem hafa átt sér stað í landinu, það mark, sem hefur verið í gildi, leyfir ekki að leiðrétta allverulegar upphæðir, sem þó í öllum öðrum almennum viðskiptum manna á milli mundi vera talin ástæða til að leiðrétta. Út frá því hafði ég ekki látið mér detta í hug, að nokkur maður gæti út af fyrir sig verið andvígur þessu frv. En það fer líka svo, að menn fara að tala í raun og veru um aðra hluti, en í frv. felast, og það má vel. Við gætum, hv. 9. landsk. og ég, fundið okkur ótal tilefni til þess að tala um önnur óskyld mál í sambandi við þetta frv., ef hæstv. forseti leyfir það. En um málið sjálft held ég að við hljótum að vera sammála, þetta, að það er ástæða til að gefa öllum gjaldendum landsins kost á því að leiðrétta sannanlegar skekkjur í útsvarsálagningu til hækkunar eða lækkunar með sem minnstum takmörkunum, þannig að hver geti fengið sitt útsvar eins rétt úrskurðað í gegnum þrjá löglega aðila og hægt er að komast nálægt með það. Það hefði kannske verið ástæða til þess að bara fella 10% markið niður og segja, að eins og niðurjöfnunarnefnd má leiðrétta útsvar, hversu lítil sem skekkjan er, sem hún kemst að niðurstöðu um, ætti sama að gilda um yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd, að þeir aðilar mættu leiðrétta útsvar, hversu lítil sem skekkjan væri, og fella 10% markið þannig niður. Það hefði ekki verið neitt fjarstætt, og væri einungis sá agnúi á því, að þá gætu kærur, sem gengju áfram til allra dómstiganna, orðið mun fleiri. En með þessu tel ég vera búið að heimila mönnum þá leiðréttingarmöguleika, sem nokkrum verulegum upphæðum skipta.