18.11.1957
Efri deild: 23. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

18. mál, umferðarlög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. — Hv. 1. þm. N-M. sagði, að sú dráttarvél, sem ég mundi miða við, gæti verið hvort sem væri bifreið eða dráttarvél. Það er alveg misskilningur. Hún hefur mjög lítla af þeim hæfileikum, sem venjuleg bifreið hefur, mjög litla flutningsmöguleika og mjög litinn hraða á móts við bifreið og er því aðallega sem dráttarvél, en ekki bifreið, svo að það er alls ekkert um það að ræða. Hann talaði um, að það mundi hafa verið vegna gjaldeyrisskorts, að mér skilst, að svo fáar hafi verið leyfðar af þessum dýru og fullkomnu vélum. Eftir því að dæma ætti líklega aðeins að leyfa innflutning á Farmal cub, þessum ódýru, litlu dráttarvélum, af því að það væri hægt að hafa þær fleiri. Nei, ég held, að þetta, lögmál eigi ekkert að gilda í okkar löggjöf. Við eigum ekki að hindra á neinn hátt fullkomnar vélar, sem geta orðið að sem mestum notum við framleiðslustörfin, og kemur ekkert gjaldeyrismálunum við.

Þá sagði hann, að þessar vélar væru alveg sérstaklega eyðslufrekar. Ég vil geta þess honum til fróðleiks, — það getur verið, að aðrir viti það, — að á vegalengd, sem þessi vél notar 5 kr. í brennsluefni, þá notar jeppi 25 kr. Þetta er nú munurinn. Af því að hún notar hráolíu, sem er miklu ódýrari, þá munar það þessu. Rekstrarkostnaðurinn er því margfaldlega minni á þessari dýru vél, og hún endurgreiðist svo á nokkrum árum í lægri rekstrarkostnaði heldur en hinar. Og þess vegna vilja margir kaupa þær. Það borgar sig á allan hátt, bæði hvað vinnubrögð snertir og rekstrarkostnaðinn.

Að lokum gat hann um ákvæðið í 81. gr., sem ég vil fella niður: heimild dómara til að svipta menn ekki ökuréttindum vegna áfengisneyzlu við akstur. — Kom hann þarna með dæmi um konu í barnsnauð vestur á Múlanesi og vildi sýna miskunn þessum manni, sem hefði farið að ná í ljósmóðurina, en hefði verið undir áhrifum áfengis. En hvernig hefði nú farið, ef þessi maður hefði haft eitthvað ofur lítið meira alkohól en 1.30%0 í blóðinu? Þá hefði hann orðið að þola ekki mánaðarsviptingu ökuréttinda, heldur heils árs, hvað sem hver hefði sagt. (PZ: Þá hefði hann aldrei farið.) Nú, þurfti ekki að bjarga konunni fyrir það? Ég efast um, að hann hefði verið svo hárnákvæmur um áfengismagnið, hefði þarna verið um sanngjarnan og góðan dreng að ræða, sem hefði ekki sett það fyrir sig, hvað sem það hefði kostað, hann hefði náð í ljósmóðurina, hvort sem var. Ef svona dæmi eiga að ráða ákvörðun þarna, þá er ég ekki sammála hv. þm.